Viðhorfskannanir

Lagðar eru fyrir viðhorfskannanir sem flokka má í fjóra flokka en þeir eru: Áfangamat nemenda, mat nemenda og starfsmanna á skólastarfi, mat fyrrverandi nemenda og mat samfélagsins.

Áfangamat nemenda er lagt fyrir annað hvert ár bæði á vorönn og haustönn.  Lagðar eru sömu spurningar fyrir nemendur í öllum áföngum.  Kennari vinnur síðan með niðurstöðuna í uppgjörsskýrslu annarinnar.

Mat nemenda og starfsmanna á skólastarfi er lagt fyrir fjórða hvert ár.  Þar er spurt um einstaka þætti í starfsemi skólans aðra en kennslu, svo sem námsráðgjöf og bókasafnsþjónustu og auk þess er spurt um stjórnun. Skólameistari tekur saman niðurstöður og ræðir þær á kennarafundi og við einstaka starfsmenn eftir eðli máls.

Fyrrverandi nemendur eru spurðir um skólann og starfsemi hans fjórða hvert ár.  Könnunin er lögð fyrir alla nemendur sem skráðir hafa verið í skólann á undangengnum fjórum árum fyrir utan þá sem skráðir eru á yfirstandandi önn.  Skólameistari tekur saman niðurstöður og ræðir þær á kennarafundi.

Litið er á Sveitarfélagið Hornafjörð sem samfélag skólans.  Íbúar eru spurðir um afstöðu til skólans.  Ein slík könnun hefur verið unnin á vegum skólans og voru þá sérfræðingar í Kennaraháskóla Íslands fengnir til að vinna verkið. Könnunin var gefin út í skýrsluformi og rædd í skólanefnd og á kennarafundi.