Skipulag og starfsemi

2.1. Skipurit
skipurit
2.2. Stjórnun

Eins og fram kemur í lögum um framhaldsskóla er menntamálaráðherra æðsti yfirmaður skólans. Menntamálaráðherra hefur gefið út reglugerðir um stjórnun skólans og sett skólameistara erindisbréf. Í reglugerðum er fjallað um kennarafundi, skólanefndir, skólaráð og starfslið þar sem störf skólameistara eru skilgreind. Auk þess starfar innan skólans samstarfsnefnd samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.

Hér verður gerð stutt grein fyrir stjórnun þessara aðila en að öðru leyti er vísað í reglugerðir og kjarasamning.

2.2.1. Skólanefnd
Hlutverk skólanefndar er að marka áherslur í starfi skólans og stuðla að sem bestum tengslum hans við atvinnu- og menningarlífið. Nefndin gerir starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann, setur gjaldskrár og staðfestir samninga. Skólanefnd gerir tillögu til menntamálaráðherra um ráðningu skólameistara og er skólameistara til samráðs um ráðningu starfsfólks.

Menntamálaráðherra skipar skólanefnd til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd sitja 5 menn: þrír fulltrúar án tilnefningar og tveir tilnefndir af viðkomandi sveitarfélagi. Áheyrnarfulltrúar eru tveir, einn frá nemendum og annar frá kennurum. Skólameistari situr fundi nefndarinnar og er framkvæmdarstjóri hennar.

Nefndina skipa: Aðalmenn án tilnefningar: Steinarr Bjarni Guðmundsson, Þorvarður Árnason, og Þorbjörg Arnórsdóttir. Aðalmenn samkvæmt tilnefningu Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Snæfríður Hlín Svavarsdóttir og Valdemar Einarsson. Varamenn án tilnefningar: Guðlaug Úlfarsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir og Guðmundur Heiðar Gunnarsson. Varamenn samkvæmt tilnefningu Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Árni Rúnar Þorvaldsson og Ásgerður Gylfadóttir.

Fulltrúar nemenda og kennara eru valdir við upphaf hvers skólaárs.

2.2.2. Skólaráð
Í skólaráði sitja tveir fulltrúar kennara og tveir fulltrúar nemenda. Auk þess eru áfangastjóri og skólameistari í skólaráði. Skólameistari er oddviti skólaráðs og stýrir fundum þess. Kennarafundur velur fulltrúa kennara í skólaráð og nemendaráð fulltrúa nemenda.

Hlutverk skólaráðs er að vera skólameistara til aðstoðar og ráðgjafar við stjórnun skólans. Skólaráð fjallar einnig um starfsáætlun skólans, skólareglur, umgengni, vinnuaðstöðu nemenda og félagslíf. Auk þess fjallar ráðið um málefni einstakra nemenda og þá sem trúnaðarmál.

2.2.3. Kennarafundir
Kennarafundir fjalla um stefnumörkun í starfi skólans, m.a. námsskipan, kennsluhætti, gerð skólanámskrár, skipulag starfstíma skólans á önn/hverju ári, tilhögun prófa og námsmat. Skólameistari undirbýr og stýrir kennarafundum.

2.2.4. Samstarfsnefnd
Í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Kennarasambands Íslands frá 7. janúar 2001 er ákvæði um samstarfsnefnd. Í samstarfsnefnd eru tveir fulltrúar frá stjórnendum skólans og tveir frá kennurum. Samstarfsnefnd fjallar um forsendur starfaflokkunar og röðun starfa í launaflokka og önnur mál sem hún ákveður að taka á dagskrá. Skólameistari velur fulltrúa skólastjórnenda í samstarfsnefnd og kennarafélag skólans velur fulltrúa kennara.

2.3. Starfslýsingar

2.3.1. Skólameistari
Skólameistari er ábyrgur gagnvart menntamálaráðherra fyrir rekstri og starfsemi skólans. Skólameistari veitir skólanum forstöðu og stýrir stafi hans. Hann ber ábyrgð á faglegu starfi skólans, öllum rekstri og fjárreiðum. Skólameistari skipar störfum starfsliðs. Skólameistari er framkvæmdarstjóri skólanefndar og situr fundi hennar. Hann er einnig oddviti skólaráðs og situr lögum samkvæmt í samstarfsnefnd framhaldsskóla.

2.3.2. Áfangastjóri
Áfangastjóri hefur umsjón með rekstri áfangakerfis skólans, mætingakerfi, skráningum í og úr áfanga, námsmati og prófum. Áfangastjóri er staðgengill skólameistara.

2.3.3. Verkefnisstjóri með félagslífi nemenda
Verkefnisstjóri með félagslífi nemenda er fulltrúi skólans hvað varðar félagslíf nemenda. Hann aðstoðar stjórn nemendafélagsins við skipulagningu og mótun félagslífsins eftir þörfum og óskum nemenda. Verkefnisstjóri með félagslífi er jafnframt forvarnarfulltrúi skólans og fulltrúi skólans útífrá gagnvart félagslífi. Hann stuðlar að samskiptum og samvinnu nemendafélagsins við lista- og menningarstarf utan skólans.

2.3.4. Fjármálastjóri
Fjármálastjóri sér um bókhald skólans, svo og sjóða og deilda sem reknar eru á ábyrgð skólans.
Fjármálastjóri gerir rekstraráætlanir og sér um greiðslu reikninga og annast innheimtu. Hann hefur umsjón með skjalavistun nemendabókhalds á pappírsformi og annast almenn skrifstofustörf.

2.3.5. Kerfisstjóri
Kerfisstjóri hefur umsjón með tölvukerfi skólans. Hann aðstoðar starfsmenn skólans við meðferð tölva, bæði hvað varðar hugbúnað og vélbúnað. Hann sér til þess að nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn hafi þann aðgang að vélum og hugbúnaði sem þeir þurfa starfs síns vegna. Hann annast uppsetningu á fartölvum og borðtölvum og hefur umsjón með fartölvuvagni.

2.3.6. Námsráðgjafi
Námsráðgjafi veitir nemendum leiðsögn í persónulegum málum sem snerta námið og skólann. Námsráðgjafi er trúnaðarmaður nemenda gagnvart kennurum, öðrum starfsmönnum og skólastjórnendum og tekur þátt í að skipuleggja ýmsar aðgerðir til að stuðla að betri líðan nemenda í skólanum. Hann sér um og skipuleggur náms- og starfsfræðslu í skólanum. Hann vinnur með skólameistara og forvarnarfulltrúa að vímuvörnum í samræmi við stefnu skólans í þeim efnum. Hann hefur tiltækt það kynningarefni sem til er um skólann og miðlar til þeirra sem eftir því leita.
Námsráðgjafi er tengiliður skólans við félags– og heilbrigðiskerfi sveitarfélagsins.

2.3.7. Kennari
Kennari annast og ber ábyrgð á kennslu í þeim áföngum sem samið er um við upphaf hverrar annar og undirbýr kennsluna af kostgæfni. Hann skal bera hag nemenda fyrir brjósti og haga samskiptum sínum við þá með þeim hætti að þau samræmist góðum samskiptaháttum. Kennari stýrir vinnu nemenda í hverjum áfanga og sér til þess að vinna þeirra sé að jafnaði sem næst 100 klukkustundum fyrir hvern þriggja eininga áfanga. Kennari tekur þátt í og ber ábyrgð á faglegu samstarfi við aðra kennara skólans.
Hver kennari í fullu starfi hefur umsjón með hópi nemenda. Hann fylgist með mætingum og ástundun þeirra nemenda sem hann hefur í umsjón og kemur upplýsingum úr miðannarviðtölum til foreldra nemenda sem eru yngri en 18 ára. Hann aðstoðar nemendur við gerð langtímaáætlunar og við val á valdegi. Kennari beinir þeim umsjónarnemendum til námsráðgjafa sem hann telur að hafi af því hag.

2.3.8. Nemandi
Nemandi ber ábyrgð á því námi sem hann stundar og skal haga samskiptum sínum við samnemendur, kennara og aðra starfsmenn með þeim hætti að þau samrýmist góðum samskiptaháttum. Hann skal einnig haga umgengni sinni í húsnæði skólans í samræmi við góðar umgengisvenjur.
Nemandi skal haga vinnu sinni í samræmi við kennsluáætlun og fyrirmæli kennara og skal að jafnaði miða við að hver þriggja eininga áfangi sé um 100 klukkustunda vinna. Hann skal leitast við að miða skipulag námsins við að ljúka vinnu sinni innan skólans á dagvinnutíma.
Nemandi skal í samráði við umsjónarkennara og námsráðgjafa búa til út frá stundtöflu vinnuáætlun sem miðar að því að nýta tímann á milli kennslustunda til náms.
Nemandi skal mæta á umsjónarfundi og aðra fundi sem boðaðir eru á auglýsingatöflu skólans. Honum er einnig skylt að mæta í þau viðtöl sem hann er boðaður í.
Nemandi fær við upphaf annar aðgang að tölvukerfi skólans án sérstakrar gjaldtöku en skal í einu og öllu hlíta þeim reglum sem settar eru um tölvunotkun. Hver nemandi hefur ótakmarkaðan og ókeypis aðgang að bókasafni skólans en hann skal greiða sérstaklega fyrir ljósritun sem er í hans þágu og ekki eru gerðar kröfur um í námi.
Nemandi getur átt von á að verða vísað úr námi vanræki hann nám sitt og skyldur við skólann, að undangengnu tiltali og formlegri áminningu samkvæmt nánari reglum skólans þar um. Nemandi getur skotið ákvörðunum skólameistara til menntamálaráðuneytisins.

2.4. Námsskipan

2.4.1. Skipulag náms

Skipulag náms er í samræmi við kjörorð skólans: Nám er vinna, nám er félagslegt ferli og skóli er þjónustustofnun. Út frá þessu hefur verið mótuð sú stefna að skapa nemendum góða vinnuaðstöðu um leið og lögð er áhersla á samvinnu nemenda og tengsl við umhverfið. Jafnframt þessu er námið skipulagt með einstaklingsbundnar þarfir nemenda í huga.

2.4.2. 100 tíma regla

Námið er skipulagt sem heildstæð vinna nemenda þar sem hver þriggja eininga áfangi er um 100 klukkustunda vinna. Vinnan er samsett úr kennslustundum og annarri vinnu. Almenna reglan er sú að þriggja eininga áfangi sé kenndur í fjórar klukkustundir í viku í fjórtán og hálfa viku, það er 58 klukkustundir á önn. Önnur vinna í slíkum áfanga er þá um 42 klukkustundir. Ef kennslustundir eru færri eða fleiri þá eykst eða minnkar önnur vinna í áfanganum. Heildarvinna nemenda er því sú sama hvort sem áfanginn er kenndur í 4 klukkustundir, sex eða tvær á viku. Þetta skipulag hefur fengið nafnið 100 tíma reglan. Samkvæmt henni er hver eining liðlega 30 klukkustundir og vinnan hjá nemanda í fullu námi um 600 klukkustundir á önn. Verkefnavinna í áföngum tengist einnig 100 tíma reglunni. Þannig er við það miðað að hver klukkustund í vinnu við verkefni jafngildi einu prósenti af heildareinkunn í áfanganum. Verkefni sem til dæmis vegur 5% af heildareinkunn á að taka meðalnemandann um 5 klukkustundir að vinna.
Í kennsluáætlun hvers áfanga er 100 tíma reglan útfærð.

2.4.3. Skipulag vikunnar

Umsjónarkennarar aðstoða nemendur í upphafi annar við að skipuleggja vikulegt nám sitt út frá 100 tíma reglunni. Miðað er við að nemendur geti lokið vinnu sinni í skólanum á hefðbundnum dagvinnutíma frá klukkan 8 til 17 virka daga. Hver nemandi býr til heildar vinnuáætlun fyrir vikuna þar sem bæði eru tilgreindar kennslustundir og önnur vinna.

2.4.4. Langtímaáætlun

Við skipulagningu náms hvers nemanda er ekki einvörðungu horft til einnar annar heldur er námið skipulagt sem heild á þeirri braut sem nemandi er. Nemendur almennrar brautar vinna sitt heildarskipulag í samvinnu við námsráðgjafa þegar sótt er um skóla. Aðrir nemendur vinna slíkt skipulag á fyrstu haustönn sinni í skólanum með aðstoð umsjónarkennara. Langtímaskipulag námsins er fært inn í Innu og endurskoðað á hverri haustönn. Skólinn skipuleggur fjögurra ára áætlun um áfangaframboð út frá langtímaáætlun nemenda.

2.4.5. Undanþága frá mætingaskyldu

Nemendur geta sótt um undanþágu frá reglum skólans um mætingar ef sérstaklega stendur á, svo sem vegna vinnu, búsetu eða árekstra við mætingar í öðrum áföngum. Gera þarf sérstakan samning við kennara í hverjum áfanga þar sem gengið er frá skipulagi á vinnu nemandans og samskiptum kennara og nemanda. Það er í valdi hvers kennara að ákveða hvort og hvernig nemendur geta stundað nám án þess að mæta reglulega í kennslustundir.

2.4.6. Dreifnám – Fjarnám

Dreifnám er hugtak sem notað hefur verið yfir nám sem fer fram með öðrum hætti en hefðbundinni kennslu í kennslustofu. Skipta má áföngum sem kenndir eru við skólann í þrennt eftir skipulagi kennslunnar. Í fyrsta lagi eru áfangar þar sem allir nemendur sækja kennslustundir. Í þessum flokki eru einkum verknámsáfangar. Í öðru lagi eru áfangar með reglulegri stofukennslu en hluti nemenda mætir ekki í tíma að minnsta kosti ekki reglulega. Slíkir áfangar eru settir upp í fjarnámsumhverfinu Kennsluvefnum þar sem nemendur geta haft samband við kennarann, nálgast námsefni, skilað verkefnum og gert annað sem nauðsynlegt er í náminu. Til þess að gera nám með þessum hætti mögulegt í sem flestum áföngum þá hafa allir bóknámsáfangar við skólann verið settir upp á Kennsluvefnum. Í þriðja lagi eru áfangar sem eingöngu eru skipulagðir sem dreifnáms- eða fjarnámsáfangar. Þeir eru ýmist eingöngu kenndir í gegnum Kennsluvefinn eða með reglulegum myndfundakennslustundum og á Kennsluvefnum. Sömu meginreglur gilda um nám í dreif- og fjarnámsáföngum og í áföngum sem kenndir eru með hefðbundnu sniði. Nemendur skólans stunda einnig dreifnám við aðra skóla. Þar er aðallega um að ræða nám við Verkmenntaskóla Austurlands, Menntaskólann á Egilsstöðum og Iðnskólann í Reykjavík. Við alla þessa skóla er formlegt samstarf og nemendur FAS þurfa ekki að greiða neitt aukagjald vegna þess dreifnáms.

2.4.7. Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði eru misjöfn eftir brautum og þar gilda þær reglur sem menntamálaráðherra hefur sett í reglugerð þar um. Frá þeim reglum er þó hægt að hnika eins og gert er ráð fyrir í reglugerðinni ef sérstök rök mæla með því. Inntökuskilyrðum hverrar brautar er lýst í kaflanum um námsbrautir.

2.4.8. Sérkennsla og séraðstoð

Fatlaður nemandi fær sérkennslu og þann stuðning annan sem talinn er þörf á til að hann geti stundað nám við skólann. Gerð er áætlun um nám sérhvers fatlaðs nemanda. Í umsókn þarf að koma fram hver fötlunin er og með henni þurfa að fylgja viðeigandi gögn.
Þurfi nemandi séraðstoð umfram það sem gert er ráð fyrir í hverjum áfanga svo sem vegna lesblindu eða vegna annarrar hömlunar sem ekki telst fötlun þarf að sækja um það til námsráðgjafa eða geta þess í umsókn um skólavist.
Nemandi af erlendum uppruna og nemandi sem hefur verið í lengri tíma erlendis fær aðstoð í skólanum við að ná tökum á íslensku sem nauðsynleg er til að geta stundað nám við skólann með viðunandi hætti.

2.4.9. Einkunnir

Lokaeinkunn í hverjum áfanga eru gefin í heilum tölum frá 1 til 10. Í flestum áföngum er lokaeinkunn samsett úr vinnueinkunn og lokaprófseinkunn. Hlutfall þar á milli er tilgreint í kennsluáætlun. Í sumum áföngum er ekki tekið lokapróf og þá er einungis stuðst við vinnueinkunn. Í þeim áföngum sem tekin eru lokapróf þarf nemandi að standast lokapróf til að fá áfanga metinn. Einkunnir í íþróttum eru gefnar út frá mætingu. Ef nemandi mætir í 27 kennslustundir á önninni fær hann 10 og síðan lækkar einkunnin um einn heilann fyrir hvern tíma sem vantar. Til að ná íþróttaáfanga þarf nemandi því að mæta í 22 tíma eða fleiri, 18 tímar eða færri gefa einkunnina 1.
Lokaeinkunnir eru gefnar út og sendar nemendum í lok hverrar annar. Nemendur geta einnig nálgast þær og eldri einkunnir í Innu, námsupplýsingakerfi framhaldsskólanna.

2.4.10. Mat og stöðupróf

Áfangar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla sem hafa verið teknir í öðrum framhaldsskólum eru metnir inn með þeirri einkunn sem nemandinn fékk í viðkomandi skóla. Í erlendum tungumálum er hægt að taka stöðupróf í ágúst og desember við Menntaskólann við Hamrahlíð og eru niðurstöður þeirra prófa einnig metnar inn. Hægt er að fá slík próf send í FAS og taka þau í skólanum en að öðru leyti eru þau í umsjón og á ábyrgð Menntaskólans við Hamrahlíð. Mat á stöðu nemenda í öðrum greinum fer fram í skólanum og er nemendum bent á að snúa sér til námsráðgjafa með fyrirspurnir um slíkt.

2.4.11. Próf

Prófgögn úr lokaprófum eru varðveitt í skólanum í eitt ár en er síðan eytt. Nemandi á rétt á að skoða lokapróf á auglýstum prófsýningartíma og gera athugasemdir við einkunnagjöf. Sé nemandi ósáttur við námsmat kennara fyrir lokapróf eða annað námsmat getur hann skotið málinu til skólameistara.
Í erlendum tungumálum eru auk skriflegra lokaprófa munnleg lokapróf.
Sérstakar reglur gilda um framkvæmd lokaprófa sem eru í kafla 3.6.5.

2.4.12. Vinnuaðstaða og tæki

Allir nemendur skólans hafa aðgang að tölvukerfi hans til að sinna námi sínu. Ekki er leyfilegt að nota tölvur eða tölvukerfi skólans til einhvers sem ekki telst hluti af námi eða öðru starfi í þágu skólans. Hver nemandi fær úthlutað lykilorðum fyrir aðgang að tölvukerfinu, Innu og Kennsluvef og ber ábyrgð á því að þau séu ekki misnotuð. Allir nemendur skólans hafa aðgang að lesstofu nemenda og þeim tækjum sem þar eru á meðan skólinn er opinn.

2.4.13. Frumkvöðlanám

Lögð er áhersla á frumkvöðlamenntun og að allir nemendur skólans eigi kost á að stunda slíkt nám. Stefnt er að því að skólinn verði leiðandi skóli á sviði frumkvöðlamenntunar.

2.5. Félagslíf

Félagslíf nemenda skólans er afar mikilvægur þáttur í skólastarfinu og miklu varðar að vel takist til. Lögð er áhersla á að félagslífið sé á forræði nemenda en þó með dyggum stuðningi og eftirliti skólans. Með þessu móti er nemendum látið eftir að finna heppilegasta farveg fyrir þroskavænlegt félagslíf um leið og þeir vita af stuðningi og aðhaldi skólans. Einnig er lög áhersla á að nemendur sem heild og einstaka nemendur tengist íþrótta-, lista- og öðru menningarlífi sem fyrir er í byggðarlaginu.

Við skólann starfar nemendafélag sem hefur það hlutverk að annast félagslíf nemenda. Félagið hefur sjálfstæðan fjárhag og nemendur ráða því sjálfir hvort þeir ganga í það og greiða nemendafélagsgjöld. Þó nemendafélagið sé að þessu leyti óháð skólanum þá ber hann ábyrgð á því að fjármál og starfsemi almennt sé með eðlilegum hætti. Allar auglýstar samkomur og ferðir nemendafélagsins eru því einnig í nafni skólans og lúta reglum hans. Sérstakur verkefnastjóri hefur umsjón með félagslífinu að hálfu skólans og fjármálastjóri aðstoðar nemendafélagið varðandi fjársýslu.

Nemendaráð sem kosið er af nemendum á haustin tilnefnir fulltrúa í skólanefnd og skólaráð.

Nemendafélagið setur sér lög og gerir starfsáætlun.
2.6. Reglur skólans

2.6.1. Mætingar

 1. Nemendur skulu sækja allar kennslustundir og koma stundvíslega til kennslu.
 2. Nemendur þurfa að gera grein fyrir fjarvistum sínum eða semja um þær ef þær eru fyrirsjáanlegar.
 3. Tilkynna á fjarvistir símleiðis eða í tölvupósti á netfangið fas@fas.is  Ef ekki næst samband símleiðis skal senda tilkynningu í tölvupósti.
 4. Nemendum ber að tilkynna samdægurs á skrifstofu skólans um veikindi og með minnst dagsfyrirvara vegna annarra fjarvista.  Veikindi og aðrar viðurkenndar fjarvistir eru merktar með FV í Innu.
 5. Nemendur sem eru sendir á vegum skólans í ferðir eða eitthvað annað fá þær fjarverur merktar sem L í Innu.
 6. Hægt er að sækja um undanþágu frá mætingaskyldu í einstaka áfanga til kennara viðkomandi áfanga.  Um getur verið að ræða samning fyrir alla önnina eða í einstaka tímum.  Slíkar fjarverur eru merktar sem O í Innu.
 7. Varðandi fyrirséðar fjarvistir getur skrifstofan vísað óskum nemenda um að fá viðurkennda fjarvist til einstaka kennara og fá slíkar fjarvistir sem kennari samþykkir merkinguna O í Innu.  Slíkar óskir þurfa að berast að lágmarki með dagsfyrirvara.
 8. Fjarvist án tilkynningar er merkt með F í Innu og seinkoma er merkt með S.  Tvö S jafngilda einu F.
 9. Langvarandi og þrálát veikindi skal staðfesta með vottorði eða hjá námsráðgjafa.
 10. Tilkynna þarf í hvert skipti fjarvistir vegna þrálátra veikinda.
 11. Viðbrögð við óútskýrðum fjarvistum (F og S) verða eftirfarandi:
  • Við fyrstu fjarvist fer kennari yfir mætingareglur með nemanda
  • Við aðra fjarvist fær nemandi tiltal frá kennara og hringt er af skrifstofu til foreldra ólögráða nemenda.  Umsjónarkennara er einnig tilkynnt um stöðuna
  • Við þriðju fjarvist fær nemandi lokatiltal.
  • Við fjórðu fjarvist fær nemandi formlega áminningu og eftir það gæti komið til brottreksturs.
 12. Í kennsluáætlun er hægt að kveða nánar á um mætingar.
 13. Nemandi skal fylgjast með því að mætingar hans séu rétt skráðar í Innu.  Athugasemdum varðandi mætingaskráningu í Innu skal koma á framfæri innan tveggja virkra daga frá því að hún átti sér stað.
 14. Nemandi sem er með 95% eða meira í heildarskólasókn á önninni fær fyrir það eina námseiningu. Hann þarf að vera skráður í a.m.k. 270 kennslustundir (5 þriggja eininga áfangar) og mæta 95% af þeim. Ágreiningsefnum um mætingar skal skjóta til skólaráðs.

Samþykkt á kennarafundi í nóvember 2011

 

2.6.2. Vinnusvæði nemenda

 • Lesstofa og handbókasafn eru vinnusvæði nemenda sem nýta á til vinnu utan kennslustunda.
 • Kennslustofur og hópvinnuherbergið eru einnig vinnusvæði nemenda og þeim opið þegar ekki er kennsla eða fundir.
 • Nemendur geta pantað tíma í stofum eða í hópvinnuherbergi á skrifstofu skólans.
 • Á vinnusvæðum nemenda skal vera vinnufriður.
 • Neysla á mat eða drykk á vinnusvæði nemenda er bönnuð.
 • Önnur töluvnotkun en til náms er bönnuð á vinnusvæði nemenda.
 • Hópvinna á að fara fram í hópvinnuherbergi, í kennslustofum eða á handbókasafni en ekki á lesstofu.
 • Öll samtöl skulu vera í lágmarki og á lágu nótunum.
Siðast yfirfarið í apríl 2008.

2.6.3. Próf og próftaka

 • Reglur þessar gilda um próf og próftöku í áföngum sem eru kenndir af kennurum skólans.
 • Taki nemandi próf frá öðrum skólum þá gilda reglur þess skóla.
 • Áfangastjóri sér um próf sem tekin eru frá öðrum skólum.
 • Próftafla er gerð opinber fyrir miðja önn.
 • Nemandi hefur viku til að gera athugasemd við próftöflu eftir að hún hefur verið gerð opinber.
 • Athugasemdum við próftöflu skal komið til áfangastjóra.
 • Hægt er að sækja um það til námsráðgjafa fyrir lok kennslu að taka próf með öðrum hætti en hefðbundið er vegna fötlunar eða annarra hamlandi aðstæðna.
 • Nemandi getur sótt til skólameistara um breytingu á próftíma eða niðurfellingu á prófi ef aðstæður hans eru þannig að hann á erfitt með að koma í próf á auglýstum tíma.
 • Miðað er við að tekin séu lokapróf í öllum áföngum nema skipulag náms í áfanganum miðist við aðrar matsaðferðir. Fyrirkomulag námsmats liggur fyrir við upphaf annar og birtist í kennsluáætlun.
 • Próf eru að jafnaði 120 mínútur og ekki er gert ráð fyrir að nemendur geti sótt um framlengingu á próftíma.
 • Þegar um munnleg próf er að ræða eru þau auglýst sérstaklega og fyrirkomulag þeirra er nánar skilgreint í kennsluáætlun.
 • Nemanda er skylt að mæta í munnleg próf.
 • Nemanda ber að mæta tímanlega til auglýstra prófa jafnt munnlegra sem skriflegra.
 • Geti nemandi ekki mætt til boðaðs prófs vegna veikinda þá ber honum að tilkynna það á skrifstofu skólans og skila síðan læknisvottorði fyrir endurtektarpróf.
 • Nemandi skal að lágmarki vera 45 mínútur inn í prófi.
 • Nemandi sem mætir of seint í próf fær ekki sjálfkrafa framlengingu á próftíma.
 • Nemandi sem ekki er mættur til prófs þegar 45 mínútur eru liðnar af próftíma hefur fyrirgert rétti sínum til próftöku ef ekki koma til veikindi eða önnur lögmæt forföll.
 • Nemandi má ekki hafa hjá sér á borðinu eða á gólfi við hliðina nein önnur gögn en þau sem skráð eru á forsíðu prófs sem leyfileg prófgögn.
 • Notkun GSM-síma og annarra samskiptatækja er bönnuð í prófum og skal vera slökkt á þeim ef þau eru meðferðis.
 • Nemendur skulu skilja prófblöð eftir á boðinu þegar þeir yfirgefa prófstofu.
 • Skólameistari getur vísað nemanda úr áfanga sem hefur rangt við í prófi samanber reglur um brottvikningu.
 • Nemandi hefur viku frá prófsýningardegi til að gera athugasemdir við kennara varðandi lokaeinkunn í áfanga.
 • Sætti nemandi sig ekki við niðurstöður kennara hvað varðar lokaeinkunn hefur hann 14 daga frá prófsýningardegi til að koma skriflegum athugasemdum um það til skólameistara.
Siðast yfirfarið í maí 2008.

2.6.4. Reykingar

 • Reykingar eru bannaðar í skólanum og á skólalóð.

2.6.5. Áfengi og vímuefni

 • Öll neysla áfengis og annarra vímuefna er bönnuð í skólanum; svo og á samkomum og ferðalögum á vegum hans.

2.6.6. Reglur heimavistar Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu

 • Yfirstjórn heimavistar er í höndum skólameistara. Húsbóndi á heimavist fer með daglega stjórn vistarinnar í umboði hans.
 • Heimavistin er opin frá 07:30-23:30 alla daga. Seinkun eða aðrar fjarvistir tilkynnist húsbónda tímanlega. Ef íbúi heimavistar hyggst dveljast utan vistar næturlangt eða fer af vistinni ber honum að tilkynna húsbónda það samkvæmt reglum sem húsbóndi setur.
 • Ró og næði skal vera á vistinni eftir klukkan 23:30 á kvöldin.
 • Nemendur á heimavist bera ábyrgð á þeim sem koma í heimsókn. Allar heimsóknir á vistargangi eru bannaðar eftir lokunartíma vistarinnar. Gestir skulu yfirgefa húsnæðið fyrir klukkan 23:30. Vistarstjóri getur vísað gestum út valdi þeir ónæði.
 • Nemendur á heimavist eru ábyrgir fyrir öllum húsbúnaði og húsakynnum vistarinnar. Jafnframt er þeir ábyrgir fyrir því að herbergjum sé skilað í því ásigkomulagi sem þeir tóku við þeim. Því eru herbergi skoðuð við upphaf og lok dvalartíma. Komi í ljós skaðar sem nemendur eru ábyrgir fyrir þá eru þeir bótaskyldir. Tilkynna ber strax um óhöpp sem fyrir kunna að koma. Bannað er að negla eða líma á veggi þannig að málning skemmist.Nemendur hafa rafmagnstæki til afnota á setustofu. Með öllu er bannað að nota þau á annan hátt en leiðbeiningar viðkomandi tækja segja til um.
 • Umsjón með heimavistinni skiptist þannig að hvert herbergi hefur eina viku í senn. Hlutverk umsjónar er meðal annars:
  • að sjá til þess að vistarreglum sé framfylgt.
  • að gólf vistargangs og setustofu séu þrifin reglulega og ruslaílát tæmd.
  • að koma athugasemdum á framfæri til réttra aðila (skólameistara eða húsbónda) um það sem aflaga hefur farið eða ef úrbóta er þörf.
 • Við alvarleg eða ítrekuð minni brot er nemendum vísað af heimavist.
 • Brot á reglum heimavistar geta leitt til þess að nemendum verði vísað úr skóla.
 • Rísi ágreiningur um reglur þessar ber að leggja slíkt fyrir skólaráð sem úrskurðar í málinu. Yfirfara skal heimavistarreglur árlega.
 • Allar almennar skólareglur gilda fyrir nemendur á heimavist.

2.6.7. Reglur um brottvikningu úr námi

 • Skólameistari má víkja nemanda úr einstaka áföngum og úr skóla uppfylli hann ekki kröfur um mætingar, ástundun eða hegðun. Skólameistari skal leita umsagnar skólaráðs áður en til brottvikningar kemur.
 • Sé því við komið skal nemandi áður en til brottvikningar kemur hafa fengið ítrekað tiltal og skriflega áminningu af hálfu kennara eða umsjónarkennara ef um brot er að ræða sem ekki tengist einstaka áfanga.
 • Skólameistari getur vísað nemanda fyrirvaralaust úr skóla ef ekki er hægt að koma við áminningu sökum alvarleika máls.
 • Áminningin skal vera skrifleg og í henni skal koma fram hvert brotið er, hver viðurlögin verði ef nemandinn heldur uppteknum hætti og hver frestur nemanda er til að koma fram andmælum.
 • Nemandi hefur rétt á að andmæla þeim ávirðingum sem á hann eru bornar og standa fyrir máli sínu. Frestur til andmæla skal tilgreindur í áminningarbréfi.
 • Skólameistari sker úr um það hvort andmæli nemanda séu tekin gild og málið fellt niður.
 • Sé nemandi yngri en 18 ára skal forráðamaður hans vera viðstaddur formlega áminningu.
 • Umsjónarkennari nemandans skal einnig vera viðstaddur og eftir atvikum námsráðgjafi sem fulltrúi nemanda.
 • Ákvörðun skólameistara um brottvikningu nemanda má kæra til menntamálaráðuneytis.
 • Nemandi sem rekinn er úr skóla eða áfanga skal skráður hættur í gögnum skólans.
 • Ekki skal geyma gögn varðandi brottrekstur lengur en það skólaár sem brottvikning á sér stað nema málinu hafi ekki verið lokið.

Samþykkt á kennarafundi í desember 2009.

2.6.8. Reglur um gjaldtöku fyrir notkun á húsnæði og búnaði skólans

 • Tekið skal gjald af öðrum en íbúum Nýheima.
 • Heimilt er skólameistara að fella niður gjöld af áhugamannafélögum og einstaklingum enda er ekki selt inn á samkomur. Þó ber ávallt að greiða fyrir beinan kostnað sem af samkomuhaldi hlýst.
 • Skólanefnd tekur ákvörðun um gjaldskrá og breytingar á henni að fengnum tillögum skólameistara.
 • Skólameistari fer með framkvæmd þessara reglna.

2.6.9. Verklagsreglur vegna mætinga

 • Kennari skal færa viðveru daglega í Innu í þeim áföngum sem hann kennir.
 • Kennari skal vikulega athuga hvort honum hefur láðst að færa inn viðveru nemenda.
 • Kennara er heimilt að semja við einstaka nemendur um undanþágur frá mætingareglum skólans. Miða skal við að slíkir samningar séu gerðir í upphafi annar eða þegar aðstæður breytast hjá nemendum.
 • Samningur um undanþágur skal vera skriflegur ef því verður við komið.
 • Ekki þarf að gera samning um mætingar við fjarnemendur.
 • Kennari skal leita eftir skýringum hjá nemanda sem tilkynnir ekki fjarvist fyrirfram og veita tiltal eftir atvikum.
 • Tilkynna skal um aðra óútskýrða fjarvist nemenda yngri en 18 ára á skrifstofu skólans og óska eftir að hringt verði í foreldri og greint frá fjarvistinni.
 • Veita skal nemenda tiltal í einrúmi við óútskýrða fjarvist og fjarvist umfram það sem svarar kennslustundafjölda í eina og hálfa viku.
 • Leggja skal áherslu á það í tiltali að að ná fram breytingum á hegðun nemanda hvað varðar fjarvistir. Æskilegt er að ítrekað tiltal sé undirbúið sérskaklega í þessum tilgangi.
 • Eftir þörfum skal ræða mætingar í miðannarviðtölum.
 • Fara skal yfir mætingar nemenda í umsjónarviðtölum.
 • Umsjónarkennari fylgist með fjarvistum sinna nemenda og fer yfir stöðu þeirra á kennarafundum sem hafa fjarvistir nemenda á dagskrá.
 • Hver kennari færir til bókar tiltal, áminningu og beiðni um úthringingu skrifstofu.
 • Á skrifstofu skal haldin skrá um úthringingar til foreldra vegna nemenda. Senda skal skrána einu sinni í viku ef breytingar verða á henni.
 • Skólameistari vísar nemanda frá námi í samráði við skólaráð.

Samþykkt á kennarafundi í desember 2009.

2.6.10. Verklagsreglur vegna formlegra áminninga

 

 • Tvær seinkomur jafngilda einni fjarvist.
 • Veita skal tiltal við aðra óútskýrða fjarvist og hverja óútskýrða fjarvist eftir það. Ef nemandi er undir 18 ára þá skal óútskýrð fjarvist tilkynnt á skrifstofu skólans sem hefur samband við foreldara nemandans.
 • Við sjöttu fjarvist í þriggja eininga áfanga sem kenndur er fjórum sinnum í viku skal veita tiltal. Viðmiðið er fjarvera í sem svarar einni og hálfri viku. Gera skal nemanda grein fyrir því að frekari fjarvistir þarf að staðfesta með vottorði. Sé um þunglyndi eða önnur geðræn vandamál er að ræða þarf það að liggja formlega fyrir. Ef kennari nær ekki í nemanda samdægurs eða daginn eftir til að veita honum tiltal þá skal hann hringja í hann og senda honum tölvupóst.
 • Við sjöundu fjarvist fær nemandi lokatiltal. Ef kennari nær ekki í nemanda samdægurs eða daginn eftir til að veita honum tiltal þá skal hann hringja í hann og senda honum tölvupóst.
 • Við áttundu fjarvist fær nemandinn formlega áminningu í samræmi við reglur og bréfsform sem liggur fyrir. Ef kennari nær ekki í nemanda samdægurs eða daginn eftir til að veita honum formlega áminningu þá skal hann hringja í hann og senda honum bréfið í ábyrgðarpósti.
 • Formleg áminning skal tilkynnt og eftir atvikum rædd á kennarafundi.
 • Umsjónarkennari og skólameistari fá afrit formlegrar áminningar.
 • Kennari skal tilkynna skólameistara í tölvupósti samdægurs fjarvist og seinkomu hjá nemanda sem fegið hefur formlega áminningu.
 • Við níundu fjarvist getur komið til brottvikningar. Skólameistari rekur nemanda ef til þess kemur. Hann skoðar hvert mál sérstaklega og ræðir við viðkomandi nemanda. Ef ekki koma fram neinar málsbætandi útskýringar þá semur skólameistari brottvikningarbréf sem lagt er fyrir skólaráð sem gefst kostur á að gera athugasemd við málsmeðferð og afgreiðslu skólameistara. Brottvikningarbréf er afhent nemenda ásamt foreldri ef nemandinn er yngri en 18 ára. Ef ekki næst í nemanda er bréfið sent í ábyrgðarpósti.
 • Nemandi skal sækja tíma þar til málið hefur verið afgreitt í skólaráði og skólameistari hefur afhent honum brottvikningarbréfið.

 Samþykkt á kennarafundi í desember 2009.

2.7. Samstarf
2.8. Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en Íslensku
2.9 Viðbrögð við einelti í FAS