Erlend samskiptaverkefni

Skólinn reynir að bjóða reglulega upp á erlend samstarfverkefni þar sem nemendum gefst kostur á að taka þátt í spennandi verkefnum og ferðast til samstarfslanda. Ætla má að í gegnum tíðina hafi vel annað hundrað nemenda tekið þátt í slíkum verkefnum.

Nýjasta samstarfsverkefnið í FAS er Erasmus +  verkefni og heitir Sharing competencies in entrepreneurial learning og er í samstarfi við skóla í Eistlandi, Grikklandi, Ítalíu og Lettland. Í verkefninu læra þátttakendur hvað þarf til að stofna og reka fyrirtæki. Verkefnið hófst haustið 2016 og lýkur 2018.

 

Á skólaárunum 2015 – 2017 voru tvö Erasmus + verkefni í gangi í FAS. Verkefnið 120 myndir er samstarfsverkefni skóla í Frakklandi, Þýskalandi, Lúxemborg, Belgíu, Litháen og á Íslandi en tveir kennarar í FAS taka þátt í verkefninu að hálfu Íslands. Eins og nafnið gefur til kynna snýst það um myndir og hvernig þær geti auðveldað ungu fólki að velja sér starfsvettvang. Jafnframt nýtist verkefnið við tungumálakennslu. Nú er verið að leggja lokahönd á vefsíðu með kennsluefni sem verður öllum aðgengilegt.
Verkefnið Your Health is your Wealth  er í samstarfi við Liceum Ogólnokształcące nr VII (LO nr. VII) í borginni Wroclaw í Póllandi. Í verkefninu hefur m.a. verið skoðað hvað hver einstaklingur getur gert til að bæta árangur sinn í lífi og starfi.

Living in a Changing Globe er heiti á Comeíusarverkefni sem var í gangi milli Vajda János Gimnázium í Ungverjalandi og FAS. Það var tveggja ára verkefni sem lauk 2015. Þar var fjallað um loftslagsbreytingar í löndunum tveimur. Þetta var í annað skipti sem skólinn vinnur með skóla í Ungverjalandi.

Skólaárin 2013 – 2015 var enn og aftur í gangi samstarfsverkefni við Max-Planck-Gymansium í Tríer í Þýskalandi. Að þessu sinni voru tveir íslenskir samstarfsskólar; Menntaskólinn á Egilsstöðum og FAS. Verkefnið kallast Nachhaltigkeit im Nationalpark og fjallar um sjálfbærni í þjóðgörðum. Nemendur unnu meðal annars að snjallsímaleiðsögn í Vatnajökulsþjóðgarði. Vinir Vatnajökuls styrktu líka verkefnið þannig að hægt var að kaupa búnað til að setja leiðsögnina í snjallsíma. Á næstunni ætti leiðsögnin að verða aðgengileg almenningi.

 

Skólaárið 2011 – 2012 var í gangi samstarfsverkefni á vegum Nordplus Junior við skóla í Siaulai í Litháen. Það bar heitið Alternative Energy Resources og fjallaði fyrst og fremst um vistvæna og endurnýjanlega orkugjafa. Þetta verkefni hlaut eTwinning verðlaun í flokki framhaldsskóla árið 2011 – 2012 á árlegri ráðstefnu um rafrænt samstarf á milli skóla.

Haustið 2008 komst á samstarf við skóla í Debica í Póllandi og í kjölfarið á því varð til  ICEPO verkefnið þar sem m.a. var verið að fjalla um ólíka menningarheima. ICEPO verkefnið var valið sem besta eTwinning verkefnið á Íslandi haustið 2010 í flokki framhaldsskóla og hlaut einnig umfjöllun á lokaráðstefnu í Varsjá í mars 2012. Verkefnið var styrkt af EEA Grants.

Verkefnið Weltklimakonflikt als Energieproblem var nemendaskiptaverkefni við Max-Planck-Gymansium í Tríer í Þýskalandi. Þetta var samstarfsverkefni framhaldsskólanna þriggja á Austurlandi við skólann í Tríer. Verkefnið hófst 2009 og lauk vorið 2011.

Á vorönn 2007 hófst samstarf við landbúnaðar- og garðyrkjuskóla bænum Jämsä í Finnlandi. Verkefnið tengist frumkvæði og nýsköpun og nefnist Common nordic. Sótt var um styrk á vegum Nordplus áætlunarinnar til gagnkvæmra heimsókna á skólaárinu 2007 – 2008. Nemendur úr FAS fóru til Jämsä í september 2007 og finnsku nemendurnir komu til Íslands í mars 2008. Hér er að finna nánari upplýsingar um Common nordic.

Á vorönn 2005 hóf skólinn samstarf við Kölscey Ferenc Gimnázium í Zalaegerszeg í Ungverjalandi undir merkjum eTwinning áætlunarinnar. Verkefnið nefnist Water and Fire. Skólaárið 2005 – 2006 hélt samvinna á milli þessara skóla áfram en að þessu sinni var unnið eftir Comeníusar áætluninni um tungumálaverkefni og nemendaskipti.

Skólaárið 2002 – 2003 var í gangi tungumálaverkefni og nemendaskipti á vegum Comeníusar áætlunarinnar. Þá var samstarf á milli FAS og Sint Gabriël college í Brussel í Belgíu. Verkefnið bar heitið Breaking the ice with ICT.

Everyday life in fishing communities var fyrsta samstarfsverkefnið sem FAS tók þátt í. Það var Comeníusarverkefni sem var í gangi 1996 – 1997. Skólar í Danmörku, Ítalíu og á Kanaríeyjum voru í samstarfi við FAS og fjölluðu um daglegt líf í sjávarbyggðum.

Haustið 2003 var FAS boðin þátttaka í PetroChallenge tölvuleiknum. Leikurinn er námsleikur sem á rætur sínar að rekja til Færeyja. Þátttakendur í leiknum spila á netinu og geta jafnvel nokkur hundruð manns í mismunandi löndum spilað leikinn samtímis. Aðalmarkmið er að skoða jarðlög í þeim tilgangi að finna olíu. Því næst þarf að huga að því hvernig hægt sé að nálgast olíuna og hversu miklu til þurfi að kosta. FAS hefur tekið þátt í leiknum á hverju ári. Haustið 2008 var í fyrsta skipti haldin landskeppni í OILSIM á Íslandi. Þar varð lið frá FAS í fyrsta sæti og ávann sér þar með rétt til þátttöku á OILSIM international sem var haldið í London í janúar 2009. Liðið Puulsa frá FAS vann landskeppnina haustið 2009 og vann einnig alþjóðlegu keppnina í London í janúar 2010. Enn á ný vann lið frá FAS landskeppnina haustið 2010 og hafnaði í öðru sæti í alþjóðakeppninni í London í janúar síðastliðnum. Haustið 2011 vann lið frá FAS landskeppnina fjórða árið í röð. Það voru Senjoríturnar frá FAS sem tóku þátt í lokakeppni OILSIM í London í lok janúar 2012.

Haustið 2006 tók FAS einnig þátt í tölvuleik hjá Færeyingunum sem nefnist STARTSIM. Þetta er líkt og PetroChallenge  námsleikur þar sem fjallað er um stofnun og rekstur fyrirtækja. Tæplega tugur nemenda í FAS tók þátt í leiknum.