Próf og próftaka

 1. Reglur þessar gilda um próf og próftöku í áföngum sem eru kenndir af kennurum skólans.
 2. Taki nemandi próf frá öðrum skólum þá gilda reglur þess skóla.
 3. Áfangastjóri sér um próf sem tekin eru frá öðrum skólum.
 4. Próftafla er gerð opinber fyrir miðja önn.
 5. Nemandi hefur viku til að gera athugasemd við próftöflu eftir að hún hefur verið gerð opinber.
 6. Athugasemdum við próftöflu skal komið til áfangastjóra.
 7. Hægt er að sækja um það til námsráðgjafa fyrir lok kennslu að taka próf með öðrum hætti en hefðbundið er vegna fötlunar eða annarra hamlandi aðstæðna.
 8. Námsráðgjafi auglýsir fámenna prófstofu og skráir í hana, að uppfylltum skilyrðum sem námsráðgjafi setur, þá nemendur sem óska eftir að vera í henni.
 9. Nemandi getur sótt til skólameistara um breytingu á próftíma eða niðurfellingu á prófi ef aðstæður hans eru þannig að hann á erfitt með að koma í próf á auglýstum tíma.
 10. Miðað er við að tekin séu lokapróf í öllum áföngum nema skipulag náms í áfanganum miðist við aðrar matsaðferðir. Fyrirkomulag námsmats liggur fyrir við upphaf annar og birtist í kennsluáætlun.
 11. Þegar um munnleg próf er að ræða eru þau auglýst sérstaklega og fyrirkomulag þeirra er nánar skilgreint í kennsluáætlun.
 12. Nemanda er skylt að mæta í munnleg próf.
 13. Nemanda ber að mæta tímanlega til auglýstra prófa jafnt munnlegra sem skriflegra.
 14. Geti nemandi ekki mætt til boðaðs prófs vegna veikinda þá ber honum að tilkynna það á skrifstofu skólans og skila síðan læknisvottorði fyrir sjúkrapróf.
 15. Endurtektarpróf eru einungis ætluð nemendum á lokaönn í námi.
 16. Kennari lítur til nemenda við upphaf próftíma og einu sinni eftir það að jafnaði.
 17. Próf eru að jafnaði 120 mínútur og ekki er gert ráð fyrir að nemendur geti sótt um framlengingu á próftíma.
 18. Nemandi skal að lágmarki vera 45 mínútur inn í prófi.
 19. Nemandi sem mætir of seint í próf fær ekki sjálfkrafa framlengingu á próftíma.
 20. Nemandi sem ekki er mættur til prófs þegar 45 mínútur eru liðnar af próftíma hefur fyrirgert rétti sínum til próftöku ef ekki koma til veikindi eða önnur lögmæt forföll.
 21. Nemandi má ekki hafa hjá sér á borðinu eða á gólfi við hliðina nein önnur gögn en þau sem skráð eru á forsíðu prófs sem leyfileg prófgögn.
 22. Notkun síma og annarra tækja er bönnuð í prófum og skal vera slökkt á þeim og þau höfð á prófstjóraborði ef þau eru meðferðis.
 23. Nemendur skulu skilja prófblöð eftir á borðinu þegar þeir yfirgefa prófstofu.
 24. Skólameistari getur vísað nemanda úr áfanga sem hefur rangt við í prófi samanber reglur um brottvikningu.
 25. Nemandi hefur viku frá prófsýningardegi til að gera athugasemdir við kennara varðandi lokaeinkunn í áfanga.
 26. Sætti nemandi sig ekki við niðurstöður kennara hvað varðar lokaeinkunn hefur hann 14 daga frá prófsýningardegi til að koma skriflegum athugasemdum um það til skólameistara.

Yfirfarið og breytt í nóvember 2015

Skólameistari