Miðannarviðtöl og námið framundan

Birkir og Halldór í íslenskutíma hjá Agnesi. Í síðustu viku fóru fram miðannarviðtöl í FAS en þá hitta nemendur kennara sína og þeir fara saman yfir stöðu mála. Í flestum áföngum er gefið miðannarmat. Þar er hægt að fá þrjár einkunnir; G sem bendir til að nemandi sé í góðum málum, V sem segir að allt sé í lagi en samt hægt að bæta sig. Þriðja einkunnin er O sem stendur fyrir óviðunandi. Þá vísbendingu ber að taka alvarlega og ef ekki verður breyting til batnaðar gæti svo farið að nemandi standist ekki áfangann í lokamati. Þessa vikuna hafa nemendur sem eru yngri en 18 ára og forráðamenn þeirra fengið sent heim bréf með miðannarmatinu. Fái einhver nemandi tvö O eða fleiri er jafnan boðað til viðtals og reynt að finna út hvernig bæta megi árangurinn.

Þegar önnin er hálfnuð er orðið tímabært að fara að huga að vali fyrir næstu önn og skipuleggja nám sitt í skólanum. Í morgun var námsval við skólann kynnt og hvaða möguleika hver og einn hefur til að stunda það nám sem hann hefur valið sér eða hefur áhuga á. Næstu daga og vikur koma nemendur og hitta umsjónarkennara sína til að skipuleggja námið. Því fyrr sem skipulagið liggur fyrir því betra.

Á leið á slóðir Kristjáns fjórða

danmerkurfararFimmtudaginn 8. október leggja nemendur í áfanganum DANS2SS05 af stað áleiðis til Kaupmannahafnar ásamt Guðmundi Inga kennara.
Það sem af er vetri hafa nemendur í áfanganum unnið að verkefnum sem tengjast ævi og störfum Kristjáns fjórða Danakonungs og þeim byggingum sem hann lét reisa. En hann er sá konungur sem lét sér hvað mest málefni Íslands varða. Í vinnunni í vetur hafa nemendur jafnframt kynnt sér venjur og siði dansks samfélags á valdatíma konungs.
Hópurinn flýgur utan á föstudagsmorgun og hans bíður þéttskipuð dagskrá þar sem skoðaðar verða margar af helstu byggingum og söfnum sem tengjast sögu Kristjáns fjórða. Auk þess að feta slóðir konungs ætlar hópurinn að rölta eftir Strikinu og á laugardagskvöldið er ætlunin að bregða sér í Tívolíið og athuga hvernig tækin virka þar.
Hópurinn er væntanlegur til landsins á mánudagskvöld og nemendur mæta reynslunni ríkari í skólann á þriðjudag.

Staldraðu við og vertu….

mindfulnessÞessa vikuna hefur Bryndís Jóna Jónsdóttir kennari í núvitund verið hjá okkur í FAS. Hún hefur verið með námskeið fyrir krakkana sem taka þátt í nýja samstarfsverkefninu “Your health is your wealth” sem er styrkt af Erasmus plus.
Bryndís hefur farið með krökkunum í gegnum námsefni sem kallast .b en það stendur fyrir stop, breath and be. Það er breskt námsefni þar sem nemendur fá tækifæri til að staldra við og gefa gaum að líðandi stundu, eigin líðan og hvernig megi takast á við áskoranir daglegs lífs.
Þetta námskeið er eitt af mörgum verkefnum sem krakkarnir takast á við. Um þessar mundir eru þau að eignast pennavini sem þau munu búa hjá þegar farið verður í heimsókn í skólann sem er í borginni Wroclaw í Póllandi. Íslensku krakkarnir fara utan í byrjun nóvember og dvelja í eina viku ytra og munu taka þátt í fjölbreyttri verkefnavinnu.
Meðfylgjandi mynd var tekin á námskeiðinu í dag. Þar áttu nemendur að ganga og veita því fulla athygli. Einfalt atriði eins og að ganga getur krafist ótrúlega mikillar einbeitingar.

Margt er okkur hulið

smasjaEinn þeirra áfanga sem er kenndur á haustönninni er Inngangur að náttúruvísindum. Þar er mikil áhersla lögð á að skoða umhverfið, hvað býr í því og tengja við námið.
Síðustu daga hafa nemendur verið að rifja upp líffræði og skoða smæstu einingar lífsins og rifja upp um leið hugtök eins og einfrumungar og fjölfrumungar.
Á mánudag fór hópurinn út til að ná í sýni. Annars vegar var farið í Óslandstjörnina þar sem svokallaður svifháfur var notaður til veiða. Hins vegar var tekið jarðvegssýni og sett upp nokkurs konar gildra til að veiða þau dýr sem þar leynast.
Í gær og í dag hafa nemendur athugað aflann og reynt að greina einstakar tegundir með hjálp greiningarlykla. Það má með sanni segja að mörgum hafi komið á óvart hversu mikið af litlum lífverum er í umhverfi okkar. Fleiri myndir má sjá á fésbókarsíðu FAS.

Gróðurreitir FAS á Skeiðarársandi

gunnsibHaustið 2009 var farið að bera töluvert á birki- og víðiplöntum um miðbik Skeiðarársands og þá voru settir niður fimm reitir á sandinn. Reitirnir sem hver um sig er 25 m2 voru settir niður svo hægt væri að fylgjast markvisst með þessum breytingum á náttúrunni. Tilgangurinn var líka sá að  fá nemendur til að skoða náttúruna í kringum sig en FAS hefur alla tíð lagt á það áherslu að gera nemendur meðvitaða um umhverfi sitt.
Í haust var farið í mæliferð þann 1. september að öllum reitunum. Fyrir ferðina var nemendum skipt í hópa því allir fá ákveðið hlutverk. Það er margt sem þarf að gera á vettvangi og mikilvægt að vinnan gangi vel fyrir sig. Að þessu sinni var ákveðið að bjóða nokkrum gestum með í ferðina. Það má líta að það sem skref í áttina til að leyfa almenningi að fylgjast með skólastarfi og þeim vinnubrögðum sem við leggjum áherslu á í FAS. Einnig var Kristín Hermannsdóttir frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för og fylgdi einum hópnum á vettvangi.
Það hafa oft sést meiri breytingar á milli ára en núna. Reyndar var töluvert um nýjar plöntur í reitunum en þær eru enn svo litlar að þær eru ekki mældar sérstaklega. En til að komast í þann hóp að fylgst sé með plöntum árlega þurfa þær að hafa náð a.m.k. 10 cm hæð. Haustið 2014 var mjög mikið um fiðrildalirfur en núna sáust þær varla. Þó mátti merkja á mörgum plantnanna að skordýr hefðu komið þar við. Aðeins sást ummerki um beit á einni plöntu. Minna var um krækiber en oft áður og aðeins sást kindaskítur í reit eitt.
Haustið 2014 var nokkuð um sand í dældum og sandurinn var sums staðar það þykkur að hann náði að kæfa litlar plöntur. Sandfok var núna einungis áberandi í einum reit.
Þegar hæð trjánna er skoðuð sérstaklega eru tiltölulegar litlar breytingar á hæð trjánna á milli ára. Einhver tré hækka um örfáa cm á meðan önnur standa nánast í stað. Það er ekki ólíklegt að kuldi í vor og fyrri hluta sumars hafi þar áhrif. Stærsta tréð innan mælireitanna þetta árið var 180 cm á hæð.
Síðustu daga hafa nemendur svo unnið úr gögnunum sem söfnuðust. Sú vinna flest m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum.  Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/

Hjördís Skírnisdóttir

Hafragrauturinn kætir og bætir

hafragrauturLíkt og á síðasta skólaári gefst nemendum FAS kostur á því að fá sér hafragraut á Nýtorgi í löngu frímínútunum. Þessi tilraun hófst í kjölfar þátttöku í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli og skilaði strax góðum árangri. Þeir nemendur sem nýta sér grautinn eru sammála um að hann bæði kæti og bæti enda er hann holl og góð næring. Ekki er verra að grauturinn er í boði skólans.
Á hverjum degi koma á milli 30 – 40 nemendur til að fá sér graut. Yfir grautnum spjalla nemendur saman eða tékka aðeins á því hvað er í gangi á veraldarvefnum.