Klettaklifurparadís í fjallanámi FAS

Það má segja að nám í klettaklifri þetta haustið hafi tekist með eindæmum vel. Seinni námslota af tveimur fór fram 26. – 30. september. Blíðskapaveður einkenndi klettanámskeiðin þetta haustið. Kennt var í níu daga samtals í september og sól var alla daga nema einn. Það hlýtur að teljast lukka á miðju hausti. Hópurinn taldi fimm stráka: Eyþór, Andra, Birgi, Kára og Snorra auk þess sem fyrrum nemar Þorsteinn og Kristján kíktu á okkur til að klifra með hópnum og Lyn, kona Snorra slóst stundum með í för til að taka myndir.

Ég sem kennari verð að segja að það var heiður að fá að kenna hópnum sem var skemmtilegur og mikið fjör að vera með krökkunum þessa daga. Það er greinilegt að Höfn er að eignast flottan hóp af fjallamönnum sem geta gert ýmislegt með þekkingu sína. Á ekki nema níu dögum komu fram hugmyndir og metnaður hjá nemendum um að halda áfram að æfa sig á þessum góðu klifursvæðum í kring um Höfn og halda áfram að byggja upp góða aðstöðu því tengdri á Höfn.

Námskeiðið hið seinna hafði það að markmiði að kynna fyrir nemendum mismunandi klifursvæði í kring um Höfn. Við ferðuðumst um í bíl saman frá FAS hvern morgun og heimsóttum kletta í nágrenni Hafnar. Svæðin sem farið var á voru Vestrahorn, Hnappavellir og Geitafell við Hoffellsjökul. Hnappavellir er stærsta útbúna klettaklifursvæði landsins, Vestrahorn er þekkt fyrir há björg og stóra steina og á Geitafelli sáum við mikið af klettum sem við notuðum til æfinga en er ekki þekkt eða útbúið sem klifursvæði.

Að læra að klifra á klettaklifurnámskeiði er tvennt. Í senn er það íþrótt sem þú styrkist í og æfir en einnig vegna þess hvað klifur upp kletta er óöruggt í eðli sínu – þarf að læra mikið um notkun á búnaði sem notaður er til öryggis. Í dag er flest klettaklifur mjög örugg íþrótt. Markmiðið með námskeiðinu var að nemendur öðluðust þekkingu til að vera öruggir í sínu klifri og fengu að klifra helling til að æfa sig. Reynsla nemenda á klettaklifri áður en námskeiðið byrjaði var lítil en fór mjög vaxandi með námskeiðunum. Í enda september var ótrúlegt að sjá hversu færir og öruggir strákarnir voru orðnir í sínu klettaklifri og óska ég þeim til hamingju með það.

Það er ekki hægt annað en að nefna líka allar skemmtilegu stundirnar. Það var grillað í einu hádegi á Hnappavöllum, í Vestrahorni fengum við óvænta öldu yfir klifurdýnurnar okkar og í Geitafelli settu býflugur strik í reikninginn. Við sigum, klifruðum í línu í ofanvaði og prófuðum okkur áfram í leiðsluklifri. Umfram allt þá gekk mjög vel og við eyddum löngum en góðum dögum upp í klettum.

Takk fyrir!
Magnús Arturo Batista kennari

 

Flokkun og úrgangur í FAS

Hluti úrgangs sem féll til í FAS vikuna 23. - 27. september.

Hluti úrgangs sem féll til í FAS vikuna 23. – 27. september

Eins og við sögðum frá í síðustu viku stóð umhverfisnefnd FAS fyrir neyslukönnun þar sem m.a. úrgangur tengdur matarneyslu var sérstaklega skoðaður. Allir voru beðnir um að flokka samkvæmt sérstöku skipulagi. Í fyrsta lagi voru hreinar umbúðir, í öðru lagi óhreinar, í þriðja lagi lífrænn úrgangur og í fjórða og síðasta lagi drykkjarumbúðir sem er hægt að skila. Það voru þrír flokkunarstaðir í húsinu. Fyrst má telja veitingasöluna á Nýtorgi. Á setustofu nemenda og kennarastofu var líka flokkað.

Á föstudag eftir hádegi var komið að því að mæla og skrá úrganginn. Það féllu til 23 kíló af lífrænum úrgangi í FAS í síðustu viku og um fjórðungur þess voru matarafgangar. Í vikunni söfnuðust 158 umbúðir undan drykkjavörum og af því eru tæplega 90% af setustofu nemenda. Við viljum benda á að það er komin vatnsvél í kaffiteríuna og við hvetjum alla til að nýta sér hana og spara um leið pening.

Áætlaður heildarfjöldi af umbúðum utan af matvælum skiptist þannig að um 55% umbúða voru hreinar en 45% óhreinar. Þar getum við gert miklu betur.
Hluti af úrgangi síðustu viku var hengdur upp á Nýtorgi og sést hann á meðfylgjandi mynd.

Síðar í vikunni er ætlunin að birta fleiri upplýsingar og taka í framhaldi ákvörðun um hvernig við getum dregið úr neyslu og minnkað úrgang.

Góðir gestir á leiðinni

Frá heimsókn til Grikklands í apríl 2019.

Frá heimsókn til Grikklands í apríl 2019.

Í FAS er alltaf líf og fjör og nóg um að vera. Erasmus verkefnið Cultural heritage in the context of students’ carres  er verkefni skólans í samvinnu við framhaldsskóla í Eistlandi, Lettlandi, Ítalíu og Grikklandi. Í verkefninu eiga nemendur að kynna land sitt og menningu og gjarnan á óhefðbundinn hátt; nemendur kynna menningu fyrir nemendum.
Þátttakendur FAS hafa nú þegar heimsótt Eistland og Grikkland. Eftir áramótin fara síðan íslenskir þátttakendur til Lettlands og Ítalíu.
En nú er komið að heimsókn þátttökuþjóðanna til Íslands. Dagana 30. september til 5. október munu 24 þátttakendur, nemendur og kennarar heimsækja Höfn. Og okkar nemendur hafa staðið í ströngu í haust við að undirbúa koma vina sinna.
Þema heimsóknarinnar er Sögur og Sagnir svo gera má ráð fyrir að talað verði um álfa, tröll og Grýlu kellinguna ásamt sonum hennar. Farið verður út á Horn þar sem ströndin, brimið og víkingaþorpið verður skoðað. Þá er ætlunin að ganga bakvið Mígandafoss í Bergárdal og labba um Höfn þar sem saga staðarins er sögð og einnig ætlum við að heimsækja Skinney-Þinganes.
Það er von okkar að gott verði í sjóinn svo hægt verði að bjóða í siglingu út fyrir ós. Unga fólkið gistir í heimahúsum svo gera má ráð fyrir að stundum verði setið við spjall og skemmtilegheit fram eftir nóttu.

Neyslukönnun í FAS

Flokkunartunnur í FAS.

Flokkunartunnur í FAS.

FAS tekur nú þátt í verkefninu Skólar á grænni grein og þema skólaársins er neysla. Í síðustu viku var stofnuð Umhverfisnefnd FAS en í henni eru fulltrúar nemenda, kennara og annarra starfsmanna. Í nefndinni eru níu manns og hún heldur utan um og skipuleggur starfið.
Í þessari viku fer fram neyslukönnun meðal allra í FAS og gengu fulltrúar nemenda í stofur í morgun og dreifðu eyðublöðum þar sem á að skrá ferðir vikunnar og matarneyslu. Í lok vikunnar verður blöðunum safnað saman og unnið úr gögnunum.
Auk þess að skoða ferðir og matarneyslu er úrgangur flokkaður á sérstakan hátt í þessari viku. Í lok vikunnar verður flokkað, talið og vigtað allt sem viðkemur matarneyslu í FAS. Markmiðið með þessu hvoru tveggja er að fá mat á stöðunni og sem síðan verður nýtt til að bæta um betur.
Við ætlumst til að allir leggi sig fram og vandi til verka í þessari viku.

Klettaklifur hjá fjallamennskunemum

Dagana 10. – 13. september komu nemendur í fjallamennskunámi FAS saman og núna var á dagskránni klettaklifurnámskeið. Námskeiðið var haldið á Höfn og á klifursvæðinu Hnappavöllum í Öræfum þar sem var farið í þriggja daga tjaldferð. Námskeiðið var það fyrra af tveimur þar sem áherslan er á að koma nemendum af stað í klettaklifri og öllu sem því tengist. Til dæmis að kynnast búnaði, hnútum, klettaklifurtækni og tjaldlífinu á Hnappavöllum. Námskeiðið er að mestu verklegt og lögð er áhersla að skoða nærumhverfið með tilliti til klettaklifurs. Á Höfn er stutt í sum bestu klifursvæði landsins og er bærinn því tilvalinn fyrir klifrara að alast upp og búa.

Á fyrsta degi komu nemendur fimm talsins og kennari saman í húsnæði skólans. Við byrjuðum daginn á að horfa á myndbönd til að tengjast menningunni í kringum klettaklifur og að fara yfir nauðsynlegan búnað og grunnatriði. Ekki var þó setið lengi á skólabekknum því strax fyrir hádegi vorum við svo heppin að fá að nota lítinn klifurvegg í íþróttahúsinu á Höfn. Allir fengu úthlutað búnaði sem samanstendur af klettaklifurskóm, klifurbelti og nokkrum karabínum og sérhæfðum fjallaklifurbúnaði. Veggurinn var prófaður og nemendur spreyttu sig í að klifra og tryggja hvern annan.

Þá var komið að stóru útilegunni. Mikilvægt er þegar stunda á klettaklifur að veður sé þurrt, og eftir vafasamar spár fram að námskeiði þá virtust veðurguðirnir ætla að vera okkur hliðhollir. Á miðvikudagsmorgun voru allir mættir á bílaplan skólans með útilegu- og klifurbúnað og lagt var á stað á  Hnappavelli. Ferðin gekk vel og eftir uppsetningu á tjöldum var farið að klifra. Farið var í Hádegishamar og hafist handa. Þann dag náðum við að klifra fjórar klifurleiðir og læra fullt af tækni. Leiðirnar sem klifraðar voru; Nýfundnaland 5.5, Hey Kanína 5.8, Töfraflautan 5.6 og Freðamýra Jói 5.8.

Kvöldið fór í almenna spilamennsku eftir að hafa borðað æðislegan kvöldverð grillaðan á staðnum, en einn nemandinn gerðist svo góður að koma með grillið sitt. Enn bættist í hópinn og við fengum annan klifrara frá Höfn til að slást í hópinn, en hann hafði klárað þetta námskeið árinu áður en vildi klifra meira ?

Næsta dag vöknuðum við snemma því veðurspáin var mjög góð fyrripartinn en tvísýnni seinnipartinn. Labbað var í Þorgeirsrétt eystri og nemendum skipt í þrjá hópa. Hver hópur fékk úthlutaðri einni leið og svo var skipt á milli og mismunandi tækni æfð. Nemendur stóðu sig mjög vel og gátu lært af styrkleikum hvers annars. Á þessum degi æfðu nemendur sig mikið en hlupu þó í skjól á meðan rigningarskúr gekk yfir. Eftir dembuna var klifrað  fram á kvöld og mikill þróttur var í hópnum.

Daginn eftir sem jafnframt var síðasti dagurinn var klifrað í Miðskjóli í frábæru veðri og dagurinn svo endaður í Káraskjóli sem er húsnæði björgunarfélagsins í Öræfum þar sem búið er að koma upp góðri klifuraðstöðu. Í ferðinni voru samtals voru klifraðar 10 leiðir, sigið niður tvo veggi og ein stór sigæfing.

Námskeiðið gekk mjög vel og veðrið var gott, hópurinn var mjög áhugasamur og hlökkum við til að fara í klifurferð tvö eftir tæpa viku. Kennari á námskeiðinu var Magnús Arturo Batista.

 

Þrír nemendur FAS á aðalþingi SÍF

Íris Mist og Axel Elí mætt á SÍF þing. Vigdís María var einnig með og tók þessa mynd.

Um nýliðna helgi hélt SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema) aðalþing sitt og fóru þrír fulltrúar frá FAS þangað. Þingið stóð yfir í þrjá daga og var haldið í Háskólanum í Reykjavík. Þangað mættu um 50 nemendur víðs vegar af landinu. Í byrjun þings var fyrirlestur um hvað einkennir góða leiðtoga og hvernig þeir geti hrifið aðra með sér. Einnig var fjallað um réttindi nemendafélaga og nemenda í íslensku samfélagi. Mikið var um hópavinnu þar sem nemendur ræddu sín á milli um fyrirkomulag í þeirra skólum. Þá komu fulltrúar frá ráðuneytum menntamála og dómsmála og voru með innlegg. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skrifaði undir styrktarsamning við SÍF. Það er mikið gleðiefni því SÍF hefur verið án samnings síðustu þrjú árin.

Fulltrúar FAS eru afar ánægðir með ferðina. Þeir kynntust mörgum nemendum frá öðrum skólum og huga jafnvel á nánari samvinnu með skólum á Suðurlandi. Þá er stefnt að því að fara á sambandsstjórnarfund SÍF sem verður í nóvember.
Nemendafélag FAS er með instagramreikning og voru krakkarnir duglegir að setja inn myndir frá ferðinni. Endilega fylgist með þeim þar.