Útskrift frá FAS 22. maí

Laugardaginn 22. maí verður útskrift frá FAS. Vegna takmarkanna á því hversu margir mega koma saman verða einungis útskriftarnemendur og gestir þeirra viðstaddir athöfnina. Þeir munu sitja við merkt borð á Nýtorgi. Athöfnin hefst klukkan 14.
Það mun verða streymt frá útskriftinni til að þeir sem ekki komast geti fylgst með. Slóðin á streymið er Framhaldsskólinn í A.-Skaft. – YouTube.
Þetta verður þó ekki eina útskriftin frá FAS á þessu ári því laugardaginn 19. júní verður útskrift úr Fjallamennskunáminu. Við munum segja betur frá þeirri útskrift þegar nær dregur.

Stjórnarskipti í NemFAS

Skólaárið sem nú er að líða undir lok hefur alls ekki verið með hefðbundnum hætti hjá nemendafélaginu vegna COVID-19. Það voru margar áskoranir í sambandi við félagslífið en það náðist að vinna nokkuð vel.  Það var haldin árshátíð, það voru nokkrir viðburðir og seldar gullfallegar peysur merktar skólanum. Fjárhagur nemendafélagsins er nokkuð góður og eru sjóðir félagsins í plús.

Nú er kominn tími til þess að rétta keflið áfram til næstu stjórnar en á aðalfundi nemendafélagsins í síðustu viku var ljóst hverjir munu sinna ábyrgðarstörfum í NemFAS á næsta skólaári. Tómas Nói Hauksson og Sævar Rafn Gunnlaugsson verða forsetar og hagsmunafulltrúi nemendafélagsins verður Selma Ýr Ívarsdóttir.

Við þökkum núverandi stjórn fyrir starfið í vetur og hlökkum til að sjá starfið á næsta skólaári.

 

Lokaverkefni í list- og verkgreinum

Í dag klukkan 14 opnar sýning í Nýheimum. Þar sýna nemendur í sjónlistum á listasviði FAS sýnishorn af vinnu annarinnar. Þetta eru fjölbreytt verkefni, t.d. myndlistarverkefni, textílverkefni og síðast en ekki síst förðunarverkefni. Kennslan í sjónlistum fer fram í Vöruhúsinu og er kennt bæði í saumastofu og listastofu. Nemendur í sjónlistum eru á fyrsta, öðru og þriðja hæfniþrepi og verkin á sýningunni endurspegla hæfniþrepin.
Sýningin er á báðum hæðum og við hvetjum fólk til að koma á efri hæðina til að skoða verkefnin.

Kveðja skólann sinn

Það hefur heldur betur verið fjör í Nýheimum í morgun því væntanlegir útskriftarnemendur eru að kveðja skólann sinn í dag. Klukkan sjö hittust nemendur og kennarar í sameiginlegum morgunverði en áður höfðu útskriftarefnin aðeins skreytt í skólanum og fært kennurum sínum gjafir. Eftir að hafa gætt sér á kræsingum var skólasöngur FAS æfður.

Dagurinn verður notaður til að létta sér upp áður en lokatörnin tekur við. Í næstu viku hefst lokamat og þá þarf líka að skila öllum verkefnum sem enn á eftir að skila.
Líklegast munu margir sjá “Bangsímon”, “Grísla” og “Tuma tígur” á sveimi í bænum í dag.

Lokaverkefni stúdentsefna

Í dag var stór stund hjá mörgum tilvonandi útskriftarnemendum en þá kynntu þeir lokaverkefni sín til stúdentsprófs. Allir nemendur sem ljúka stúdentsprófi frá FAS taka áfanga þar sem þeir velja viðfangsefni eftir námsáherslum sínum og áhuga. Þeir þurfa að ákveða framvindu í verkefninu og eins að velja hvernig þeir afla upplýsinga og setja þær fram.
Verkefnin voru mörg og mismunandi. Þar má t.d. nefna verkefni um neyslu orkudrykkja, fordóma og það að verða nýbúi í samfélaginu, skoðanir ungmenna á Hornafirði á því að svæðið verði fýsilegur búsetukostur í framtíðinni, breyting á ásýnd Hafnar í tengslum við landris og landfyllingar, verkefni tengt ferðaþjónustu og hvernig iðnnemar upplifa viðbrögð við námsvali sínu. Síðast en ekki síst að þá kynnti nemandi EP-plötu þar sem hann hefur samið og spilað lögin auk þess sem myndband hefur verið gert við eitt laganna.
Það er skemmst frá því að segja á kynningarnar í dag gengur ljómandi vel og allir geta verið sáttir við sitt framlag. Og örugglega eru einhverjir fegnir að þessu verkefni sé lokið.

Stuttmyndahátíð FAS

Við nokkrir nemendur í FAS erum búin að vera vinna í því að gera stuttmyndir seinustu mánuði. Ferlið í þessum sviðslistaáfanga er búið að vera langt og skemmtilegt. Við höfum verið í þessu verkefni síðustu FJÓRA MÁNUÐI! Við skrifuðum handrit, tókum upp hljóð, mynd, lékum og klipptum myndirnar sjálf. Myndin Óstjórn var tekin upp að hluta til í Bergárdal og myndin Manía í Nýheimum.

Ferlið er búið að vera mjög fræðandi, við fengum ráð og kynningar frá fagmönnum og við nýttum okkur þá kennslu í myndirnar okkar. Við í hópnum viljum sérstaklega þakka kennurunum okkar, Stefáni Sturlu og Skrými fyrir alla hjálpina. Aðrar þakkir fara til Hlyns Pálmasonar, Emils Morávek og Tjörva Óskarssonar.

Föstudaginn 7. maí ætlum við að sýna stuttmyndirnar okkar ásamt sex öðrum stuttmyndum frá nemendum skólans og fleirum. Allar myndirnar verða sýndar í röð fjórum sinnum yfir daginn; klukkan 14:00, 15:00, 16:00 og 17:00. Sýningarnar verða í fyrirlestrarsal Nýheima og öllum er velkomið að mæta á þeim tíma sem þeim hentar best. Við minnum þó á grímuskyldu og fjarlægðartakmörk. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá sem flesta.