Álftirnar koma í Lónið

Í dag var komið að árlegri álftatalningaferð í Lónið en það er reynt að fara alltaf á svipuðum árstíma svo samanburður á milli ára verði sambærilegur. Auk nemenda frá FAS voru Björn Gísli frá Fuglaathugunarstöðinni og Kristín frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för.
Það er alltaf talið á þremur stöðum; við Hvalnes, á útsýnispalli og við afleggjarann að Svínhólum. Það var nokkuð af þunnu ísskæni á lóninu en stórar vakir inni á milli. Álftin er að mestu farfugl og þegar hún kemur til landsins safnast hún gjarnan á Lónsfjörð og önnur grunn sjávarlón á suðausturhorninu til að jafna sig eftir farflugið og fá sér að éta áður en hún heldur svo á varpstöðvarnar. Þegar allar álftir höfðu verið taldar í dag reyndust þær vera 1018 sem er nokkuð færra en á síðasta ári en þá var farið 21. mars og voru þá taldir 1713 fuglar.
Auk þess að telja álftir er gengið fram með ströndinni frá útsýnispalli í áttina að Vík. Á leiðinni er rusli safnað og eins skoðuð ummerki um dauða fugla. Mest bar á alls kyns plastrusli og mikið af því er greinilega að kvarnast niður úr stærri einingum. Þá mátti sjá hvernig jarðvegur hefur kýlst saman í ruðninga þegar ís sem var á lóninu hefur ýtt við jarðveginum.
Á leiðinni til baka var síðan komið við á urðunarstað sveitarfélagsins í Lóni sem er óðum að fyllast. Krakkarnir höfðu á orði að margt af því sem sást var rusl sem hefði verið hægt að endurnýta.
Þau orð eru góð ábending um að við getum og verðum að gera betur þegar kemur að rusli.

Fjör á árshátíð FAS

Glófaxamenn skemmta á árshátíð FAS.

Árshátíð FAS var haldin á Hafinu í gær. Undirbúningur að hátíðinni er í höndum nemenda og hefur staðið yfir í langan tíma. Það er jafnan bæði spenna og eftirvænting í gangi fyrir árshátíðina hverju sinni bæði yfir því hvaða hljómsveit spilar og hvað er boðið upp á.
Það má segja að árshátíðarhópurinn í ár hafi farið ótroðnar slóðir í hljómsveitarvali og ekki síður í skemmtiatriðum og skreytingum en þemað var sveitalífið.
Birgir Fannar var fenginn til að vera veislustjóri og leysti hann það hlutverk ljómandi vel af hendi. Þá mættu nokkrir galvaskir Glófaxamenn sem sungu nokkur lög og var gaman að heyra að nemendur þekktu þessi lög og tóku vel undir.
Hornfirska hljómsveitin kef LAVÍK spilaði nokkur lög. En það var svo Helgi Björnsson sem mætti með hljómsveit sína og tryllti lýðinn fram eftir nóttu. Líklega hefðu margir búist við að önnur hljómsveit myndi sjá um ballið en þetta var einlæg ósk árshátíðarhópsins og skemmtu allir sér hið besta á ballinu.

FAS kynntur í Laugardalshöllinni

Dagana 14. – 16. mars næst komandi mun Verkiðn, sem eru samtök um keppnir í iðn- og verkgreinum, halda Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningu í Laugardalshöllinni í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, sveitarfélög og fagfélög iðn- og starfsgreina. Tilgangur keppninnar er meðal annars að kynna og vekja áhuga grunnskólanemenda á iðn- og verknámi og þeim fjölmörgu tækifærum sem nám í þessum greinum hefur upp á að bjóða.
FAS tekur þátt í framhaldsskólakynningunni með megin áherslu á fjallamennskunámið, lista- og menningarsviðið og kjörnámsbrautina.
Þetta verður í þriðja sinn sem framhaldsskólakynning verður haldin samhliða Íslandsmótinu til að nýta samlegðina og tók FAS þátt í síðustu kynningu sem var í mars 2017, en þessi viðburður er haldinn annað hvert ár. Nemendum í 9.–10. bekk í öllum grunnskólum landsins verður boðið í Laugardalshöllina og munu þeir þar m.a. fá tækifæri til að kynnast námsframboði og starfsemi FAS.

Árshátíð FAS í næstu viku

Einn þeirra hópa sem hefur verið að störfum í opinni viku er “árshátíðarhópur”. Eins og nafnið bendir til sér sá hópur um að undirbúa árshátíðina. Að þessu sinni voru margir í árshátíðarhópi og því var hópnum skipt í fjóra minni hópa. Einn hópurinn sá um að gera stuttmynd sem verður frumsýnd á árshátíðinni. Annar hópur sá um að koma með tilnefningar fyrir hin ýmsu sæmdarheiti innan skólans. Þriðji hópurinn hefur unnið að skreytingum og myndavegg fyrir árshátíðina og fjórði hópurinn skrifaði annál frá síðustu árshátíð en það er nú jafnan ýmsilegt um að vera þó skólinn sé ekki stór.
Árshátíðin verður haldin á Hafinu fimmtudaginn 14. mars og það er nemendaráð sem hefur haft veg og vanda að því að skipuleggja þann atburð. Húsið opnar klukkan 19 og borðhald hefst 19:30. Í boði er lambakjöt og meðlæti og svo eftirréttur. Að borðhaldi loknu verður svo skemmtidagskrá og mun Biggi veislustjóri stýra henni. Jafnvel má gera ráð fyrir óvæntum uppákomum. Ballið byrjar svo klukkan 22:30 og það er Helgi Bjöss sem ætlar að sjá um að árshátíðargestir sýni tilþrif á dansgólfinu.
Að sjálfsögðu vonumst við til að sem flestir sem mæti og bendum áhugasömum á að hafa samband við nemendaráð til að fá miða. Þeir sem ætla að koma á borðhaldið þurfa að skrá sig í google.doc könnun fyrir föstudaginn 8. mars.

Hornafjarðarmanni á opnum dögum í FAS

Fyrstu þrjá dagana í þessari viku eru haldnir opnir dagar í FAS. Fyrir flesta þýðir það að kennsla fellur niður og nemendur fást við önnur viðfangsefni. Má þar t.d. nefna undirbúning fyrir árshátíð sem verður 14. mars, nokkrir nemendur standa að útvarpssendingum og er hægt að hlusta á þessari slóð, einhverjir eru í listasmiðjum og vinna að sköpun. Það eru nemendur á vélstjórnarbraut sem nota opnu dagana að þessu sinni fyrir námskeið í heilbrigðisfræði en það er hluti af þeirra námi.
Í morgun var komið að sameiginlegum viðburði sem var Hornafjarðarmanni. Það var útbreiðslustjórinn sjálfur Albert Eymundsson sem kom og stjórnaði spilinu. Einhverjir voru að spila manna í fyrsta skipti en aðrir þekkja spilið vel.
Í upphafi voru tæplega 40 spilarar en eftir fyrstu umferð fækkaði þeim niður í 27. Í undanúrslitum var spilað á þremur borðum. Sigurvegarar úr þeirri viðureign tókust svo á í lokin. Það voru þeir Axel Elí, Oddleifur og Sigursteinn sem háðu það einvígi. Úrslit urðu þau að Axel Elí hafnaði í þriðja sæti, Oddleifur í öðru og Sigursteinn er nýkrýndur framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna. Þrjú efstu sæti hlutu verðlaun. Við óskum sigurvegurunum til hamingju og þökkum öllum hinum fyrir þátttökuna.

 

Sölvi Tryggva heimsækir FAS

Í dag kom til okkar góður gestur. Það var Sölvi Tryggvason sem einhver okkar þekkja úr sjónvarpinu. Hann hefur undanfarið talað opinskátt um vanlíðan sína á árum áður og hvaða leiðir hann fór til að bæta líðan sína, bæði líkamlega og andlega.
Í upphafi sagði Sölvi frá því hvernig hann fékk lyf hjá læknum til að bæta líðan sína og takast á við daglegt líf þar sem oft var mikið álag.
Það kom þó að því að honum fannst nóg komið af slíku og vildi finna sjálfur leiðir til að breyta og bæta líf sitt. Sú vegferð hefur staðið í mörg ár.
Þar segir hann að góð næring, hreyfing og svefn séu mikilvægustu atriðin til að halda jafnvægi. Lítil skref eru mikilvæg til að ná settu markmiði. Til dæmis bara það að tileinka sér rétta öndun eða þá að hreyfa sig reglulega og best virðist vera að blanda saman hreyfingu og útiveru. Þá skiptir mataræði afar miklu máli og mikilvægast er að hafa fæðuna sem minnst unna. Sölvi sagði að það væri allt of mikið um það fólk sé að láta ofan í sig eitthvað sem er ekki matur heldur bara “efni”. Þar á hann við að oft er mikið af aukaefnum í mat sem hafa þann tilgang að láta matinn líta betur út eða þá að hann skemmist síður. Slíkan mat ætti að forðast. Auðvitað er hægt að leyfa sér eitthvað óhollt af og til en það má ekki vera uppistaðan í fæðuvali einstaklinga.
Sölvi talaði einnig um mikilvægi félagslegra tengsla og þess að eiga góða vini. Ef tengsl eru ekki góð er líklegt að kvillar sem séu til staðar magnist hjá fólki sem er félagslega einangrað.
Í spjalli Sölva kom einnig fram að hver og einn þurfi að hafa stjórn á skjánotkun sinni hvort sem er í tölvu eða síma. Hann segir það vont að byrja daginn eða enda á því að skoða samfélagsmiðla, slíkt geti haft áhrif á heilann og líðanina yfir daginn. Það er mikilvægt að reyna að slaka á og benti Sölvi t.d. á forritin Headspace og Calm sem geta hjálpað fólki.
Í lokin gafst krökkunum tækifæri til að spyrja Sölva ýmissa spurninga og það var óspart nýtt.
Við þökkum Sölva kærlega fyrir gott og einlægt erindi sem að hefur þann boðskap að hver og einn þurfi að leita skynsamlegra leiða til að ná jafnvægi í sínu lífi.