Skólabyrjun á haustönn (streymi)

Skólastarf haustannar hefst miðvikudaginn 18. ágúst klukkan 10 með skólasetningu í fyrirlestrasal Nýheima. Að lokinni skólasetningu verður umsjónarfundur þar sem stundatöflur verða skoðaðar og farið yfir helstu áherslur á önninni.

Kennsla hefst fimmtudaginn 19. ágúst samkvæmt stundaskrá. Bóksalan er eins og áður á bókasafninu og opnar á miðvikudag.

Við hlökkum til að sjá ykkur og vonum að skólastarf á haustönninni verði farsælt.

hlekkur á streymi

 

Sumarfrí í FAS

Nú er störfum síðasta skólaárs lokið og starfsfólk farið í sumarfrí. Skrifstofa skólans opnar aftur miðvikudaginn 4. ágúst.

Ef einhverjir eru að velta fyrir sér að fara í nám í haust er hægt að skoða upplýsingar um námsframboð á vef skólans og þar er einnig hægt að sækja um nám. Það er hægt að hafa samband við Eyjólf skólameistara í sumarfríinu ef erindið er brýnt (eyjo@fas.is og 860 29 58).

Við vonum að sumarið verði öllum ánægjulegt.

Útskrift í fjallamennsku

Aldrei fyrr hefur jafn stór hópur nemenda hafið nám í Fjallamennskunámi FAS og síðastliðið haust en þá voru hátt í 30 nemendur skráðir. Með stærsta hóp nemenda til þessa og heimsfaraldur hangandi yfir fór haustið vel af stað og ákveðið var að fjölga nemendum á vorönn og þá bættust hátt í 15 nemendur í hópinn. Fjölgun nemenda eftir áramót var liður í því að koma til móts við atvinnulausa og gefa þeim tækifæri til að stunda nám á meðan að erfitt var að finna vinnu.

Í dag er því mikill gleðidagur hjá okkur i Fjallamennskunámi FAS því rúmlega 20 nemendur eru að útskrifast.

Eftir þennan frábæra vetur með okkar ágæta nemenda- og kennarahóp hefur námið svo sannarlega vakið athygli og hafa umsóknir fyrir komandi vetur aldrei verið fleiri. Við höldum því ótrauð áfram í því að leggja metnað okkar í að stuðla að menntun í fjallaleiðsögn á Íslandi og hlökkum til að hefja enn eitt metárið í Fjallamennskunámi FAS. Áhugasamir mega endilega fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum @fjallamennskunamfas.

Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem eru framundan.

Hæfniferð í fjallamennskunáminu

Fyrri lokaferð fjallamennskunáms FAS var farin á dögunum 3. – 9. maí síðastliðinn. Ferðin heppnaðist með eindæmum vel og völdu nemendurnir sér mjög áhugaverð og viðeigandi verkefni. Fyrst var gengið frá Núpsstaðaskógi í Skaftafell á þremur dögum. Gengið var upp með Núpsá, í gegnum Núpstaðaskóg og upp bratt Skessutorfugljúfrið. Þá var gist á Eggjum, nálægt Skeiðarárjökli. Daginn eftir var hinn mikli Skeiðarárjökull þveraður og tjaldað undir Færneseggjum, á tjaldsvæði sem hefur oft verið nefnt Svalirnar. Það er hæglega hægt að segja að þar er um að ræða eitt einstakasta tjaldsvæði landsins. Á degi þrjú gengum við upp Skaftafellsfjöll á Blátind (1177 m) og þá niður í  Bæjarstaðaskóg og yfir Morsárdal í Skaftafell.

Eftir gönguna var tekinn hvíldardagur til að undirbúa sig fyrir næsta verkefni. Leigður var bíll frá Local Guide, ekið inn í Kálfafellsdal og gengið upp hina spennandi leið á Þverártindsegg. Gangan gekk vel og var mikið fagnað við að ná að klífa þennan fallega tind.

Það var erfitt að skilja við hópinn eftir frábæran vetur, en nemendur hafa myndað þétt vinatengsl eftir ævintýri ársins. Þetta er sannarlega sterkur útskriftarhópur og það verður gaman að sjá hvað þau munu taka sér fyrir hendur í fjallamennsku í framtíðinni.

Ástvaldur Gylfason, Elín Lóa og Íris Ragnarsdóttir.

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 15 stúdentar og einn nemandi útskrifast af starfsbraut.

Nýstúdentar eru: Ásdís Ögmundsdóttir, Axel Elí Friðriksson, Björgvin Freyr Larsson, Guðbjörg Ómarsdóttir, Harpa Sigríður Óskarsdóttir, Helga Lára Kristinsdóttir, Ingunn Ósk Grétarsdóttir, Íris Mist Björnsdóttir, Júlíus Aron Larsson, Katrín María Sigurðardóttir, María Romy Felekesdóttir, Nejira Zahirovic, Selma Mujkic, Sigurður Guðni Hallsson og Vigdís María Geirsdóttir.

Írena Þöll Sveinsdóttir útskrifast af starfsbraut.

Bestum árangri á stúdentprófi að þessu sinn nær Ingunn Ósk Grétarsdóttir sem fær 10 í meðaleinkunn og er þetta í fyrsta skipti í sögu skólans sem nemandi nær þessum árangri.

Starfsfólk FAS óskar útskriftarnemendum öllum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Námskeið í fjallahjólum

Grunnnámskeið FAS í fjallahjólum var haldið dagana 6. – 9. og 14. – 17. maí hjá Bikefarm. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Guðmundur Fannar Markússon, Sigfús Ragnar Sigfússon og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir. Markmið námskeiðsins var að nemendur öðluðust grunn í tækni, meðferð og viðhaldi á fjallahjólum. Námskeiðin voru haldin í höfuðstöðvum Bikefarm í Mörtungu 2 í Skaftárhreppi en í landi býlisins eru hjólastígar sem henta vel til fjallahjólreiða.

Á fyrsta degi töluðum við um væntingar hvers og eins til námskeiðsins. Nemendur lærðu fyrst að stilla hnakk, bremsur og loftþrýsting bæði í dekkjum og dempurum fyrir sína stærð og þyngd. Eftir það var farið yfir æskilega líkamsstöðu á hjólinu bæði þegar hjólað er upp í móti og eins niður í móti. Eftir hádegismat var farið út að æfa stöðu og jafnvægi á hjólinu og gírskiptingar. Þá var haldið í stutta hjólaferð þar sem tækifæri gafst á að nýta öll þau tækniatriði sem farið hafði verið yfir fyrr um daginn. Deginum lauk á kennslu á þrifum á hjólunum og frágangi.

Annar dagur fór í fimi- og jafnvægisæfingar á hjólunum, t.d. að lyfta framdekki yfir hindrun og hjóla eftir planka. Eftir hádegi hjóluðum við góðan spöl og æfðum þverun minniháttar straumvatns með hjól. Næst var farið í bremsuæfingar í bratta og svo skemmtum við okkur konunglega að hjóla aftur heim.

Á þriðja degi var haldið í hjólaferð og öllum deginum eytt úti um koppa og grundir. Þá settu nemendur sig í karakter og leiðsögðu hvoru öðru til skiptis yfir daginn.

Fjórði dagurinn fór alfarið í að læra á viðgerðir og viðhald og búnaðarspjall bæði fyrir eigin ferðir og sem hjólaleiðsögumaður. Allir prófuðu að skipta um dekk og splæsa sundur og saman hlekk í keðju. Farið var yfir stillingar á gírskipti, að skipta um bremsupúða og annað almennt viðhald. Allir dagar enduðu á stuttu spjalli um daginn þar sem hver og einn ræddi það sem viðkomandi var ánægður með eða annað sem við vildum gera betur. Í lok námskeiðs ræddum við námskeiðið í heild, hvort væntingar okkar hefðu orðið að veruleika og hvort eitthvað hefði mátt betur fara.