ADVENT námskeið í skosku hálöndunum

Í síðustu viku lögðu þrír fulltrúar frá FAS land undir fót og héldu í fimm daga ferð til Fort William í skosku hálöndunum, til að taka þátt í námskeiði. Þetta voru þau Sigurður Ragnarsson og Hulda Laxdal Hauksdóttir kennarar og leiðsögumenn og Sólveig Sveinbjörnsdóttir leiðsögumaður.

Námskeiðið var haldið á vegum ADVENT menntaverkefnisins sem FAS er í ásamt Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetri Hí og skólum, rannsóknarstofnunum og ferðaþjónustuklösum í Skotlandi og Finnlandi. Verkefnið er styrkt af Erasmus+.

Námskeiðið var eitt af níu tilraunanámskeiðum sem prufukeyrð verða í ADVENT verkefninu.

Háskólinn í Fort William (UHI) skipulagði námskeiðið sem bar enska heitið Guiding and Interpretation og snérist um leiðsögumennsku, framkomu og hvernig setja megi fram fræðsluefni fyrir ferðamenn á skýran og skilmerkilegan hátt. Var námskeiðið ætlað bæði starfandi fólki í ferðaþjónustu sem og nemendum í ferðamála- leiðsögu- og útivistarnámi.

Auk Íslendinganna þriggja voru þrír ferðaþjónustuaðilar og kennarar frá Skotlandi og tveir kennarar frá Finnlandi. Sambærilegt námskeið verður í framhaldinu mögulegt að keyra á Íslandi eða í Skotlandi, nema lagað að því svæði sem um ræðir í hverju landi fyrir sig.

Mánudagur og föstudagur fóru í ferðalög milli Íslands og Fort William en námskeiðið sjálft tók þrjá daga. Fyrsti námskeiðsdagurinn fór í að ræða hlutverk leiðsögumanna og hvers viðskiptavinir ætlast til af leiðsögumönnum. Einnig var farið yfir hugmyndafræði Leave no Trace sem í stuttu máli snýst um að skilja sem minnst eftir sig á sama tíma og náttúrunnar er notið á ábyrgan og öruggan hátt. Krafa sem gerð er til leiðsögumanna í auknum mæli um allan heim. Seinni partur dagsins var svo nýttur við rætur Ben Nevis, hæsta fjalls Bretlands, þar sem hugmyndafræðin var spegluð í verklegri kennslu.

Annar dagurinn hófst á að æfa mismunandi leiðsögutækni og í framhaldinu gerðar verklegar æfingar til að búa til sem besta upplifun fyrir viðskiptavini með misjafnar þarfir. Einnig var hugmyndafræði Slow Adventure skoðuð, en hún hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið innan ævintýraferðamennsku. Seinni parturinn fór í að fræðast um nágrenni bæjarins með þjóðgarðsvörðum frá Nevis Landscape Partnership og fór hópurinn m.a. með þeim að planta trjám. Mikið var rætt hlutverk leiðsögumanna þegar kemur að verndun náttúrunnar og hvernig leiðsögumenn geti lagt sitt af mörkum til náttúruverndar.

Þriðja daginn var svo keyrt um nærumhverfi Fort William, skoðaðir voru vinsælir ferðamannastaðir eins og Glenfinnan þar sem hluti út Harry Potter myndunum var tekinn og söfn og gestastofur heimsóttar. Verkefni þessa dags var að skoða hvernig upplýsingar eru settar fram á mismunandi hátt og velt vöngum yfir hvernig best sé að gera það. Auk þess þurftu þátttakendur að nýta það sem þeir höfðu lært dagana á undan með því að standa fyrir kynningu eða hópefli fyrir aðra þátttakendur.

Almenn ánægja ríkti með námskeiðið og töldu allir þátttakendur að það kæmi sér vel fyrir starfandi einstaklinga í ferðaþjónustu hvar sem er í heiminum.Næsta námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið í Kajaani í Finnlandi í maí þar sem námskeið um Customer Knowledge verður prufukeyrt. Nánar má lesa um ADVENT verkefnið á www.adventureedu.eu

Ingunn Ósk fær að æfa með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Ingunn Ósk Grétarsdóttir

Undanfarin ár hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands staðið fyrir hljómsveitarskóla til að kynna fyrir ungmennum hinn sinfóníska heim og gefa um leið áhugasömum nemendum tækifæri til að njóta þjálfunar og leiðsagnar í hljómsveitarleik líkt og um atvinnumennsku væri að ræða. Á hverju vori eru haldin inntökupróf fyrir hljómsveitarskólann og þeir sem komast þar inn fá að æfa með hljómsveitinni í hálfan mánuð á haustin. Í Ungsveitinni eru gerðar miklar kröfur um faglega frammistöðu og í lok hljómsveitarskólans hafa verið haldnir tónleikar fyrir almenning.
Ingunn Ósk Grétarsdóttir hefur lært á þverflautu í 8 ár í Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu og lauk miðprófi síðastliðið vor. Hún hefur lengi haft áhuga á klassískri tónlist og fylgst með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hún ákvað að sækja um í Ungsveitina og þá þarf að þreyta inntökupróf. Þau voru haldin 26. mars fyrir þverflautu og í Reykjavík. Ingunn ætlaði að fara til Reykjavíkur til að taka inntökuprófið en þá vildi svo til að ekki var flug þann daginn. Ingunn Ósk er einn margra nemenda í FAS sem er í samstarfsverkefninu með Danmörku en nemendur úr danska skólanum voru einmitt hér í síðustu viku og því erfitt að fara frá. Því var brugðið á það ráð að nýta tækniherbergi FAS og taka upp flautuleikinn og senda. Það er skemmst frá því að segja að Ingunn Ósk stóðst inntökuprófið og fær það frábæra tækifæri að æfa með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar í september.
Að sjálfsögðu óskum við Ingunni til hamingju og velfarnaðar í þessu skemmtilega verkefni. Þess má í lokin geta að Ingunn Ósk spilar í föstudagshádegi á Nýtorgi 5. apríl.

Góðir gestir frá Danmörku

God nabo hópurinn.

Það hefur heldur betur verið líf í Nýheimum þessa vikuna en hjá okkur hafa verið tæplega 50 Danir. Það eru nemendur og kennarar úr samstarfsskólanum í Faarevejle en í vetur hafa þessir tveir skólar unnið saman undir merkjum Nordplus.
Hópurinn kom til landsins á mánudag og til Hafnar á þriðjudag. Dagana hér eystra vinna krakkarnir að ýmsum verkefnum sem tengjast Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Sérstaklega er verið að skoða markmið 12, 13 og 14 sem lúta að breytingum í sjó og loftslagsbreytingum. Einnig hafa gestirnir heimsótt bæði fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu og hafa bæði séð og upplifað margt nýtt. Sérstaklega finnst þeim veðrið breytilegt hjá okkur.
Danirnir flugu hingað með WOW en eins og flestir vita er það flugfélag ekki lengur til. Það hefur verið unnið hörðum höndum að því að finna flug heim og nú rétt áðan fékk hópurinn að vita að þeir fá flug heim seinni partinn á sunnudag. Það er mikill léttir að búið sé að finna lausn á heimferðinni.
Hópurinn fer á morgun til Reykjavíkur með viðkomu á Gullfossi, Geysi og Þingvöllum og gistir í Reykjavík.

Skíðaferð 2 í fjallamennskunáminu

Dagana 3. – 8. mars fór fram námskeiðið Skíðaferð 2. Námskeiðið var keyrt í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga eins og Fjallaskíði 1 sem haldið var fyrr í vetur. Á námskeiðinu var lögð mikil áhersla á skíðatækni og að nemendur yrðu öruggir á skíðum, auk þess sem nemendur kynntust gönguskíðum.
Fyrsti og seinasti dagur námskeiðsins fóru í akstur milli Hafnar og Ólafsfjarðar. Hópurinn hafði aðsetur í sumarbústað í Ólafsfirði og kennslan hófst yfirleitt á fyrirlestrum og öðrum verkefnum í nágrenni við bústaðinn fyrir hádegi og síðan skellti hópurinn sér á skíði á og við skíðasvæðið á Siglufirði eftir hádegið, að undanskildum einum degi þar sem þau lærðu á gönguskíði á gönguskíðasvæðinu í nágrenni við MTR á Ólafsfirði.
Fyrsta kennsludaginn var farið yfir skíðatækni og fleira á skíðasvæðinu á Siglufirði. Þar fengu allir eitthvað við sitt hæfi, byrjendur sem og lengra komnir. Dagurinn eftir var helgaður snjóflóðapælingum og félagabjörgun úr snjóflóði. Þriðja daginn lærðu nemendur á gönguskíði og fjórði og seinasti kennsludagurinn var helgaður því að skíða sem mest og þeir sem treystu sér nýttu fjallaskíðabúnaðinn og fóru utan brautar í nágrenni við skíðavæðið.
Það voru svo þreyttir en ánægðir nemendur sem komu í FAS að lokinni sex daga ferð. Ferðin gekk í heild sinni mjög vel og aðstæður fyrir norðan til fyrirmyndar fyrir skíðakennslu.
Kennarar námskeiðsins voru Sólveig Valgerður Sveinbjörnsdóttir og Guillaume Kollibay og tóku þau meðfylgjandi myndir. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá hér

Fílamaðurinn

Fílamaðurinn.

Ekki vera hrædd!! Þið upplifið eitthvað alveg sérstakt í Mánagarði ef þið komið á sýningu FAS og Leikfélags Hornafjarðar á Fílamanninum.

  1. desember 1886
    Bréf til ritstjóra The Times

Kæri herra!
Ég skrifa þetta bréf vegna manns á spítalanum. Hann þarfnast hjálpar yðar. Hann heitir Joseph Merrick og er 27 ára gamall. Hann er ekki veikur, en hann getur ekki farið út af spítalanum vegna þess að hann er mjög, mjög ljótur. Sumum líður illa að horfa á hann og eru ákaflega hræddir við hann. Við köllum hann Fílamanninn. Fyrir tveimur árum, bjó Merrick í búð nærri London sjúkrahúsinu. Fyrir tvö penný gat fólk komið og skoðað hann og hlegið að honum. Dag einn sá læknir spítalans, Dr Frederick Treves, Merrick. Hann bauð honum til spítalans og skoðaði hann vandlega. Dr Treves gat ekki hjálpað Merrick en gaf honum nafnspjald sitt.
Silcock umboðsmaður og sýningahaldari fór með Merrick til Belgíu. Fjöldi fólks kom á sýningar þeirra. Þannig að eftir ár hafði Merrick safnað 50 pundum. En Silcock tók peninga Merrick og skildi hann eftir en stakk af sjálfur til London. Merrick kom sér síðan sjálfur til London. Allir um borð í lestinni og skipinu störðu á hann og hlógu að honum. Í London stakk lögreglan honum í fangelsi. Þar fundu þeir nafnspjald Dr Treves og komu með Merrick til London sjúkrahúss. Þessi maður á enga peninga og getur ekki unnið. Líkami hans og andlit er mjög, mjög ljótt. Þess vegna eru margir hræddir við hann. En hann er hins vegar áhugaverður. Hann kann að lesa og skrifa og hugsar mikið. Hann er hljóðlátur, góður maður. Stundum gerir hann fallega hluti með vinstri höndinni og gefur þá hjúkrunarkonunum, vegna þess að þær eru góðar við hann.
Hann man eftir móður sinni og er með mynd af henni. Hún var falleg og góð segir hann. En hann hefur ekki hitt hana síðan hún færði Silcock hann fyrir löngu síðan.
Geta lesendur The Times hjálpað okkur? Þessi maður er ekki veikur, en hann þarf á heimili að halda. Við höfum herbergi í spítalanum en við þurfum á peningum að halda.
Vinsamlega skrifaðu mér til London sjúkrahússins.

Virðingarfyllst
F.C Carr Gomm
Formaður London sjúkrahúss

Þetta bréf skrifaði formaður The Royal hospital off London til ritstjóra The Times til að reyna að afla peninga til sjúkrahússins svo þar yrði hægt að útbúa einhvers konar heimili fyrir Joseph Merrick. Söfnun var sett í gang og það söfnuðust 50.000.- pund sem tryggðu Fílamanninum heimili á sjúkrahúsinu til æviloka en hann lést 29 ára gamall. Herbergi var útbúið í gamalli kolakompu í kjallara sjúkrahússins.

Fjármálafræðsla í FAS

Guðbjörg og Guðrún Ósk með fjármálafræðslu í FAS.

Í dag var komið að enn einu uppbrotinu á vorönninni en þá er kennsla felld niður í einum tíma og nemendur fá fræðslu um tiltekið efni.
Það voru þær Guðbjörg og Guðrún Ósk frá Landsbankanum á Höfn sem komu og voru með fræðslu í tengslum við fjármál. En þær eru með fræðslu á vegum Fjármálavits. Meðal annars var farið í gegnum launaseðla og skoðað hvernig eigi að lesa og skilja þá og í hvað frádráttarliðir fara. Ýmis hugtök voru útskýrð eins og lífeyrissjóður, viðbótarlífeyrissparnaður og skattstofn.
Þær lögðu mikla áherslu á mikilvægi þess að spara og safna sér fyrir því sem á að kaupa. Þar safnast margt smátt saman og gerir fólki á endanum kleift að láta drauma sína rætast.
Krakkarnir voru duglegir að spyrja og það var greinilegt að það er ekki vanþörf á svona fræðslu. Við þökkum þeim Guðbjörgu og Guðrúnu Ósk kærlega fyrir komuna og fræðsluna.