Lokaráðstefna DETOUR

Miðvikudaginn 10. nóvember s.l. var lokaráðstefna DETOUR verkefnisins haldin í Nýheimum. Var ráðstefnan bæði í raunheimum og í gegnum Teams.

Áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni og var fyrirlesurum tíðrætt um umbreytandi ferðaupplifanir og leiðir innan ferðamennskunnar til að ferðast á umhverfisvænan máta. Umbreytandi upplifanir eru upplifanir sem gefa ferðalöngum færi á að fræðast og takast á við uppbyggilegar áskoranir og einn meginþátturinn í umhverfisvænum ferðamáta er að staldra lengur við á hverjum stað, gefa sér tíma til að kynnast áfangastaðnum og njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða.

Fram kom að Ísland hefur allt til að bera til að vera áfangastaður hæglætis- og heilsueflandi ferðaþjónustu því ferðamenn sæki nú enn meira en áður í hreinleika, víðerni, hátt þjónustustig og stórkostlega náttúru, en þetta er meðal þess sem einkennir það sem ferðamenn sækjast eftir í auknu mæli.

Meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna  voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Dr Steve Taylor frá Skotlandi og Prófessor Edward H. Huijbens sem talaði frá Hollandi.

Að loknum erindum, huglægu ferðalagi og matarhléi ræddu þátttakendur ráðstefnunnar um afurðir DETOUR verkefnisins.  Helstu niðurstöður samtalsins voru þær að verkefnið færði samfélögum og ferðaþjónustuaðilum gríðarlega mikið magn af fróðleik sem væri framsettur á aðgengilegan máta og gæti nýst öllum þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem vilja færa sig í átt að heilsueflandi vöruframboði og ná þannig til ört vaxandi markhóps ferðamanna.

Frekar fáir sáu sér fært að mæta til ráðstefnunnar en hún var tekin upp og hér má finna tengil inn á fyrirlestrahluta hennar: Lokaráðstefna DETOUR – upptaka

Hulda Laxdal tengiliður FAS í þessu verkefni þakkar þeim sem mættu á ráðstefnuna kærlega fyrir þeirra þátttöku og framlag í uppbyggilegu samtali og  vonar að ferðaþjónustuaðilar verði duglegir að nýta sér DETOUR afurðirnar.

Jólaljós í FAS

Í dag var komið að jólaskreytingauppbroti í FAS. Þá var felld niður kennsla í einn tíma og allir tóku þátt í því að skreyta efri hæðina í Nýheimum. Það er því mikið um lítrík ljós í húsnæði skólans sem eiga sinn þátt í því að lýsa aðeins upp þann tíma ársins þar sem dagsbirtan dvín frá degi til dags fram að vetrarsólstöðum.
Þeir sem hafa lagt leið sína í Nýheima í dag hafa eflaust tekið eftir bökunarilmi í loftinu. Hún Dísa okkar í kaffiteríunni hefur ekki látið sitt eftir liggja og er búin að baka nokkrar smákökusortir. Þegar lokið var við að skreyta var öllum boðið í rjúkandi heitt súkkulaði og nýbakaðar smákökur. Það er varla hægt að hafa það betra.

Skrefum 1 og 2 náð í FAS

Við höfum áður sagt frá því að núna vinnur FAS að því að innleiða græn skref ríkisstofnana. Í síðustu viku fékkst það staðfest að skrefum 1 og 2 hefur verið náð í FAS. Af því tilefni var boðið upp á gómsæta gulrótarköku á kennarastofunni í dag.
Núna er verið að vinna í skrefum 3 og 4 en þar er verið að ganga lengra í að vera umhverfisvænn. Öll miða skrefin að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og minnka vistspor skólans. Skólinn hefur nú þegar sett sér loftslagsstefnu og verður hún fljótlega birt á heimasíðu skólans.
Alls eru skrefin 5 og það er stefnt að því að þau verði öll uppfyllt fyrir áramót.

Hættum að slúðra

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Af því tilefni var efnt til uppbrots í FAS og sýndur var stuttur TED fyrirlestur um áhrif þess að slúðra. Eftir að hafa horft á myndina talaði Fríður námsráðgjafi aðeins um það hvað slúður sé og hvaða afleiðingar slúður geti haft. En það hefur komið fram í könnunum að margir telja slúður mikinn löst í okkar samfélagi.

Því er mikilvægt að allir taki höndum saman og vandi sig í öllum samskiptum, þar á meðal að hætta að slúðra um náungann. Af því tilefni hefur verið hengt upp stórt plaggat á Nýtorgi. Með undirskrift á plaggatið staðfestir viðkomandi að hann ætli að hætta að slúðra það sem eftir lifir af þessari önn. Við hvetjum alla íbúa Nýheima til að leggja sitt af mörkum og undirskrifa sáttmálann.

Meira af vísindadögum á Stöðvarfirði

Nemendum var skipt í nokkra hópa á vísindadögum í ferðinni á Stöðvarfjörð í síðustu viku. Á meðan nokkrir hópar lögðu áherslu á mannvist á svæðinu voru aðrir að skoða atriði tengd listum.

Nú hafa nemendur búið til tvö myndbönd þar sem sjá má brot af því sem fyrir augu bar og þátttakendur í ferðinni upplifðu.

 

Kvikmyndasýning á hrekkjavöku

Það fór varla fram hjá nokkrum manni að um síðustu helgi var hrekkjavaka en hún nýtur sífellt vaxandi vinsælda hér á landi.

Af því tilefni efndi NemFAS til kvikmyndasýningar á mánudagskvöld í Sindrabæ þar sem hryllingsmyndin “The Visit” var sýnd. Það var góð mæting og alsælir nemendur mauluðu á poppkorni og gosi en nemendafélagið nýtti tækifærið og var með sælgætissölu.

Vonandi hefur nemendafélagið tök á að efna til fleiri sýninga í vetur.