Fyrsta námskeið í fjallamennsku

Áfanginn gönguferð í fjallamennskunámi FAS fór fram dagana 31.ágúst – 6.september. Það má segja að haustið hafi heldur betur tekið hressilega á móti þeim 27 nemendum sátu námskeiðið ásamt fimm kennurum. Dagskráin var þétt, veðrið með ýmsu móti, lærdómskúrfan brött en hópurinn afburða jákvæður og duglegur.

Námskeiðið hófst í Nýheimum snemma morguns þann 31. ágúst. Þar voru mættir nemendur sem koma úr öllum áttum og eru á öllum aldri sem gerir um leið hópinn fjölbreyttan og hlaðinn alls konar reynslu. Nemendur voru tilbúnir að læra á allt sem tengist gönguferðum og að kynnast nýju fólki. Þann daginn var lögð áhersla á kynningar, skipulag ferða, kortalestur, áttavitann, veður og hvernig skyldi pakka fyrir gönguferð. Búnaði skólans var skipt á nemendur sem fóru svo heim með heimavinnu, kort og áttavita að vopni.

Daginn sem gönguferð 1 gekk í garð hófst ferðin í Nýheimum á fyrirlestri um leiðarkort sem unnið var að fyrir ferðina. Áhersla var lögð á að vinna eingöngu með kort og áttavita en leiðin lá í Bæjardal í Lóni þar sem gista átti fyrri nóttina. Veðurspáin bauð upp á bleytu og vind sem átti heldur betur eftir að setja sitt strik í reikninginn. Gangan var nýtt til kortalesturs, í rötunaræfingar og í lok dags fannst góður náttstaður og veglegum tjaldbúðum var slegið þar upp. Tjaldbúðarlífið gekk vel, kúkaholupælingar voru efst á dagskrá en nú ætti ekki að fara á milli mála hvernig þeim málum er háttað.

Annar göngudagur átti að enda í Smiðjunesi neðst í Hvannadal en eftir langan dag af rötun um gil, gljúfur og ár í rigningu fann hópurinn sér sæmilegan stað efst í Hvannadal. Fólk var fljótt að skella upp búðum og hverfa inn í tjöld eftir stuttan kvöldverð enda bætti stöðugt í regnið. Þegar allir voru skriðnir inn í poka leið ekki á löngu þar til fór að blása allhressilega og stuttu síðar fóru fyrstu tjöldin að fjúka. Þarna komu styrkleikar hópsins vel í ljós en samstaðan og hjálpsemin sem greip um sig meðal nemenda og kennara við það að laga tjöld, staga og bera steina í hávaðaroki um miðja nótt var mögnuð. Þetta atriði var eins og eftir pöntun kennara enda eru svona kennslustundir þær allra bestu.

Nóttin var þó svefnlítil en mannskapurinn lét það ekki á sig fá og gekk með jöfnum og góðum hraða niður Hvannadalinn og í gegnum litríkt Hvannagilið þar sem áin var þveruð nokkrum sinnum. Rútan beið undir Raftagili og rútuferðin á Höfn var róleg enda nýttu hana flestir í kærkominn lúr. Þá var dagskránni lokið þennan daginn en þreytan sagði til sín og kennslustund í þverun straumvatna fékk að bíða betri tíma.

Dagur fjögur var vindasamur verkefna- og fyrirlestradagur þar sem nemendur skipulögðu næstu gönguferð. Eftir kynningar hópa á flottum leiðum og spennandi kosningu var ákveðið að ganga Krossbæjarskarð við Ketillaugarfjall, gista í Laxárdal og nýta Laxá í Nesjum fyrir þverun straumvatna seinni daginn.

Seinni gangan byrjaði í blíðu en nemendum var skipt í fimm hópa sem skiptust á að leiðsegja hópnum. Þau lærðu af hvort öðru og fengu ráð frá kennurum og samnemendum um hvernig gott er að leiða hópa í fjallgöngum en flottar umræður um leiðsögn, hópstjórnun og rötun sköpuðust og allir fengu að spreyta sig. Þegar komið var að náttstað í Laxárdal spruttu tjöldin upp og greinilegt að handtökin væru komin í fingurna.

Síðasti dagurinn rann upp en hópurinn gekk niður með Laxá í morgunsárið. Það er mikilvægt að rýna og lesa í ár fyrir þverun og kunna skil á eiginleikum sem kynnu að gera þverun erfiða eða hættulega. Eftir vatnalesturinn var bara eitt í stöðunni; að skella sér út í. Alls kyns aðferðir voru prófaðar til þverunar og loks var synt í straumnum. Þrátt fyrir bleytu og kulda var gleðin allsráðandi og sumir fóru meira að segja margar ferðir niður strauminn! Sundspretturinn setti punktinn yfir i-ið og nú var kominn tími til þess að slíta námskeiðinu.

Vikan var vægast sagt skemmtileg, pökkuð af lærdómi og gekk eins og í sögu. Aðstæður voru krefjandi á stundum en jákvæðnin var alltaf til staðar og stutt í gleðina. Metnaður og dugnaður hópsins er áþreifanlegur og smitandi en kennarahópurinn vildi helst vinna með þeim í allt haust og vetur. Næsti hópur kennara fær þó að njóta þeirra frábæra félagsskapar í komandi viku á klettaklifurnámskeiði og það verður spennandi að heyra af þeim æfingum. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru teknar af Skúla Pálmasyni nemanda í fjallamennsku. Þá er líka hægt að fylgjast með á instragram síðu námsins.

Ástvaldur Helgi, Elín Lóa, Erla Guðný, Sólveig Valgerður og Tómas Eldjárn
sem voru kennarar á fyrsta námskeiði vetrarins.

Fyrirlestrar í FAS um kynferðisofbeldi

Þessa dagana eru stödd hér á Hornafirði þau Sólborg Guðbrandsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson. Þau eru hér á vegum skólaskrifstofu sveitarfélagsins og eru hingað komin til að fjalla um alls konar ofbeldi sem því miður er allt of algengt. Við í FAS erum svo heppin að fá að njóta krafta þeirra líka og í dag ræða þau við okkar nemendur.
Bæði halda úti instagramsíðum þar sem ýmis konar fróðleik og ábendingar eru að finna, bæði fyrir ungt fólk og foreldra. Sólborg heldur úti síðunni favitar þar sem spjótunum er sérstaklega beint gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi. Þorsteinn sér um instagramsíðu sem heitir karlmennskan en þar er m.a. verið að fjalla um óraunhæfar staðalímyndir karlmanna en einnig að hver og einn hafi rétt til að vera eins og hann er.
Nemendur eru sérstaklega ánægðir og fannst gaman að fá öðru vísi fræðslu sem vekur til umhugsunar og skilur eftir spurningar. Við þökkum þeim Sólborgu og Þorsteini kærlega fyrir komuna og þeirra þarfa innlegg.

Námskeið fjallamennskukennara

Aðsókn að námi í fjallamennsku hefur aldrei verið meiri og núna eru um þrír tugir skráðir í námið. Það finnst okkur frábært en er líka um leið áskorun. Þegar nemendur eru svo margir þurfa margir kennarar að koma að kennslunni því þetta er að mestu leyti vettvangsnám. Núna eru skráðir 16 kennarar á fjallamennskubrautinni í mismikilli kennslu. Þeir eiga það sameiginlegt að vera sérfræðingar á sínu sviði.
Í gær, sunnudag, var stór hluti kennarahópsins á námskeiði þar sem m.a. var farið yfir kennslufræði fullorðinna og útináms. Námskeiðið leiddu þeir Hróbjartur Árnason og Jakob Frímann Þorsteinsson en þeir koma báðir frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Námskeiðið heppnaðist í alla staði mjög vel og var lærdómsríkt fyrir hina verðandi kennara á fjallamennskubrautinni. Áform eru uppi um áframhaldandi samvinnu Menntavísindasviðs og FAS.
Námskeiðið endaði með því að þátttakendur elduðu saman inni í Geitafelli. Það var ekki hvað síst gert til að hrista kennarahópinn saman því þeir koma víða að. Matseldin gekk ljómandi vel og ekki spillti veðrið fyrir.
Nú eru nemendur í fjallamennsku mættir í FAS og eru að undirbúa sína fyrstu ferð sem verður á morgun þriðjudag.

Gróðurreitanna á Skeiðarársandi vitjað

Í dag var komið að árlegri ferð á Skeiðarársand þar sem er verið að fylgjast með gróðurframvindu. FAS á þar fimm gróðurreiti og er það verkefni nemenda í inngangsáfanga að náttúruvísindum að fara og skoða reitina. Það þarf að viðhafa ýmis konar mælingar og mikilvægt er að allir vandi sig sem best. Allar upplýsingar eru skráðar niður og teknar með heim. Þetta verkefni er mikilvægur liður í því að kenna nemendum að vinna að rannsóknum og tileinka sér öguð vinnubrögð svo allar mælingar verði sem nákvæmastar.

Í ferðinni í dag var þó ekki bara verið að vinna að náttúruskoðun. Vegna COVID hefur skólinn þurft að bregðast við ýmis konar samstarfsverkefnum þar sem nemendur og/eða kennarar áttu að ferðast. Til  að halda þessum verkefnum gangandi þarf að finna nýjar leiðir. Þannig var í dag verið að prófa að streyma frá vinnunni á sandinum og gekk það ljómandi vel. Þá komu til móts við okkur fólk sem vinnur að gerð heimildamyndar um skóga á Íslandi og fengu að taka upp frá vinnu okkar á sandinum. Sú mynd verður sýnd á RUV þegar hún er tilbúin.

Vinnan í dag gekk ljómandi vel og allir stóðu sig með mikilli prýði. Næstu daga verður svo unnið úr niðurstöðum og munum við greina nánar frá þeim þegar þær liggja fyrir.

Skólastarf hafið í FAS

Skólastarf haustannarinnar hófst formlega í morgun með skólasetningu. Nú miðast allt skólastarf við að fylgja reglum varðandi COVID-19 og hafa verið gerðar ráðstafanir þar að lútandi í skólanum. Mikilvægast er að halda eins metra fjarlægðarmörkum og fylgja fyrirmælum um hreinlæti. Það er búið að hengja upp leiðbeiningar frá Landlæknisembættinu víða um skólann og eru allir hvattir til að lesa þær.
Margir eldri nemendur sem á vorönninni upplifðu að skólastarf færðist allt yfir í fjarnám höfðu á orði hvað það væri gott að geta mætt aftur í skólann. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að fylgja sem best settum reglum svo skólastarf verði sem eðlilegast.
Kennsla hófst svo eftir hádegið svo nú má segja að allt sé komið á fulla ferð í skólanum.

Skólasetning í FAS

Skólasetning verður í FAS á morgun klukkan 10. Allir sem vilja geta mætt en mikilvægt er að nýnemar mæti. Umsjónarfundur hefst klukkan 10:30 og þar eiga nemendur að mæta.

Hér er slóðin https://www.youtube.com/watch?v=PQkRzghd2Pc

Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá klukkan 13 á morgun.