Fimmta skrefið komið í FAS

Mánudaginn 13. desember var komið að lokaúttekt á Grænum skrefum í FAS. Það er skemmst frá því að segja að úttektin gekk vel og FAS hefur nú lokið öllum skrefunum fimm.

Einn liður í Grænum skrefum er hjólavottun þar sem fólk er hvatt til að nýta umhverfisvænni samgöngumáta. Það er Hjólavottun sem er félag hjólreiðamanna sem stendur fyrir vottuninni og hvetur með því stofnanir og vinnustaði til að bæta aðbúnað fyrir starfsfólk svo það velji frekar umhverfisvænni og heilbrigðari ferðamáta í sínu daglega lífi. Nú hafa Nýheimar og sveitarfélagið tekið höndum saman til að bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Það hefur verið ákveðið að setja upp hjólaskýli við Nýheima sem nýtist bæði íbúum Nýheima og starfsfólki í ráðhúsinu. Stefnt er að því að setja skýlið upp á næsta ári. Hjá Hjólavottuninni er hægt að fá; brons-, silfur-, gull- eða platínuvottun eftir því hvað stofnunin uppfyllir mörg skilyrði. FAS hefur nú þegar fengið silfurvottun og stefnir á gullvottun með nýju hjólaskýli og hækkandi sól. Að sjálfsögðu stefnir FAS að platínuvottun í náinni framtíð.

Þá má í lokin nefna að skólinn hefur gert samgöngusamning við þá sem koma gangandi eða hjólandi til vinnu. Þeir sem gerðu slíkan samning við skólann á haustönninni fengu þau styrk fyrir þetta skólaár. Vonandi verður framhald á samgöngusamningum því hann er sannarlega hvatning, bæði til að hreyfa sig meira og um leið að minnka kolefnissporið.

 

Síðasti kennsludagur annarinnar

Þó að í dag sé síðasti kennsludagur annarinnar er nóg um að vera. Nokkrir nemendur sem eru komnir vel áleiðis í námi flytja lokaverkefnin sín í áfanganum VERK3VR05 en að margra mati er það einn mikilvægasti áfanginn sem nemendur taka í FAS. Þá eru allir nemendur uppteknir af því að ljúka vinnu í hverjum áfanga og skila inn námsmöppum.

Þennan síðasta kennsludag bauð skólinn nemendum og starfsfólki í hádegismat og þar var flest það á boðstólum sem alla jafnan er að finna á borðum landsmanna á jólum. Eins og svo oft áður töfraði hún Dísa okkar fram dýrindis kræsingar og voru þeim gerð góð skil.

Á morgun byrjar svo lokamat. Staðnemendur mæta í stofu en fjarnemendur fá fundarboð á Teams. Allir eiga að geta séð tímasetningar fyrir lokamat í áföngum sínum á Námsvef.

Við óskum öllum góðs gengis í þessum síðustu verkum annarinnar.

Sýning nemenda FAS á Nýtorgi

Nú hefur verið sett upp á Nýtorgi sýning þar sem sjá má afrakstur annarinnar hjá nemendum í list- og verkgreinum. Verkefni nemenda koma núna einkum frá áföngum í sjónlist og skapandi greinum. En að auki eru kenndir áfangar í kvikmyndun, ljósmyndun og sviðslistum.
Þá er kynning á verkefnum nemenda í hestamennsku í FAS en það nám hófst í haust.
Sýningin verður opin allan desembermánuð og hvetjum við alla að líta við í Nýheimum og skoða skapandi verk nemenda FAS.

Flutningur Office365 á Menntaský

Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að ríkisstofnanir færist yfir á Menntaský en þar er þjónusta fyrir alla þá sem nota Office 365.

Föstudaginn 3. desember er komið að því að færa kerfin okkar í FAS yfir á Menntaskýið. Eftir klukkan 14 verður ekki hægt að vinna í kerfunum okkar. Þið getið ekki farið inn á Office 365, Námsvef og Innu. Gert er ráð fyrir að yfirfærslan taki um einn sólarhring.

Á laugardag eiga kerfin okkar að vera komin í lag. Þá eiga nemendur að geta skráð sig inn á þau. Hér eru leiðbeiningar þar sem farið er yfir innskráningaferli: Leiðbeiningar vegna OneDrive og tvíþátta auðkenningar í Menntaský. Athugið að  nemendur nota ekki MFA (MargFöld Auðkenning / Tvíþátta auðkenningu) og geta því sleppt þeim hluta sem að því snýr í leiðbeiningunum. Mikilvægt er að lesa leiðbeiningarnar vel og vandlega.

Líklega eru einhverjir sem þurfa að vinna í verkefnum um helgina og því er mikilvægt að undirbúa það. Nemendur geta undirbúið sig með ýmsum hætti:

  • Hægt er að hala niður upplýsingum af Námsvef
  • Hægt er að setja verkefni á Google svæði
  • Velja verkefni, ekki gera ráð fyrir að vinna í öllum verkefnum
  • Ræða við kennarana um verkefnaskil

Að sjálfsögðu vonumst við til þess að yfirfærslan gangi sem best en ef einhverjir skyldu lenda í vandræðum verður hægt að fá aðstoð með að laga innskráningu og tengingu á Menntaský hér í FAS  strax á mánudagsmorgun 6. desember. Ef fjarnemendur lenda í vandræðum geta þeir haft samband við kerfisstjóra (hjalp@martolvan.is) eða í síma 470 81 82.

 

Skrefum 3 og 4 náð í FAS

Um miðjan nóvember fékkst það staðfest að FAS hefði náð að uppfylla skref 1 og 2 í verkefninu “græn skref ríkisstofnana“. Síðan þá hefur verið unnið að skrefum 3 og 4. Mánudaginn 29. nóvember náðist sá áfangi að FAS fékk úttekt á skrefum 3 og 4 og því er nú einungis eftir að uppfylla skref 5. Það var boðið upp á góðgjörðir af þessu tilefni á kennarastofunni og voru þeim gerð góð skil.
Í skrefum 3 og 4 er verið að ganga lengra í því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og minnka vistspor skólans. Það er t.d. verið að vinna í því að bæta aðstöðu þeirra sem koma hjólandi eða á rafmagnsbíl í Nýheima.
Nú stendur yfir vinna við skref 5 en þar er meira verið að horfa til framtíðar í umhverfismálum. Stefnt er að því að ljúka 5. skrefinu fyrir jól.

Mannamót á fullveldisdaginn

Í dag var komið að síðasta uppbroti annarinnar og núna höfðu nemendur veg og vanda að því að skipuleggja það.  Það var ákveðið að spila Hornafjarðarmanna og skyldu verðlaun veitt fyrir efstu þrjú sætin. Að auki átti að verðlauna þann sem slökustum árangri náði í fyrstu umferð.
Það var byrjað að spila á níu borðum og eftir nokkrar umferðir hófust níu manna úrslit. Þeir sem báru sigur úr býtum á sínu borði komust í úrslitakeppnina. Þar áttust við Hermann Þór, Karen Ása og Tómas Nói og var spilað grand. Þegar spilinu lauk stóð Tómas Nói uppi sem sigurvegari, Karen Ása var í öðru sæti og Hermann Þór varð þriðji.
Sá sem beið lægstan hlut í fyrstu umferð var Sævar Rafn og fékk hann skammarverðlaunin. Öllum verðlaunum var vandlega pakkað inn í jólapappír og því ekki alveg ljóst hver þau voru. Það vakti þó athygli að skammarverðlaunin voru í stærsta pakkanum.
Flott framtak hjá ykkur krakkar og gaman að þið skylduð velja Hornafjarðarmanna því hann er jú nokkurs konar einkennisspil fyrir okkar svæði.