Fleiri styrkir til FAS

FAS hefur lagt mikla áherslu á erlent samstarf á liðnum árum og er ekkert lát á því. Þetta samstarf hefur m.a. verið styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+ og Nordplus svo eitthvað sé nefnt. Tvö verkefni eru í gangi þessi misserin; annað tengist listasviði skólans og hitt menntun í ferðaþjónustu og útivist.

Það er gaman að greina frá því að FAS hefur nýlega hlotið tvo nýja styrki frá Erasmus+ fyrir verkefni sem bæði tengjast menntun á sviði ferðaþjónustu og fjallamennsku. Annað verkefnið kallast Aukin fagmennska í fjallamennskunámi. Þetta er nemenda- og kennaraskiptaverkefni sem felst í því að tveir nemendur og kennarar sem tengjast fjallamennskusviði skólans fá styrk til að fara erlendis í tveggja vikna náms- og kynnisdvöl. Skóli í Skotlandi, The school of adventure studies hefur orðið fyrir valinu sem samstarfsskóli en hann er hluti af háskólanum The University of the Highlands and Islands. Stefnt er að því að fara í þessa námsferð í mars 2020. Þetta finnst okkur frábært því dvölin ytra verður bæði viðbót og dýpkun á því sem nemendur hafa þegar lært í fjallamennskunáminu í FAS.

Hitt verkefnið er samstarfsverkefni sex landa; Portúgals, Bretlands, Slóveníu, Írlands, Danmerkur og Íslands. Verkefnið heitir á ensku Destinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions, skammstafað DETOUR. Þetta er ekki nemendaskiptaverkefni en snýst um að kanna og hanna leiðir til að efla heilsutengda ferðaþjónustu í tengslum við áfangastaði, menntastofnanir og ferðaþjónustufyrirtæki í nærumhverfi þátttökustofnananna. Þetta er tveggja ára verkefni sem hefst í desember. Það verður gaman að fylgjst með framvindu þessara verkefna.

Fjallanemar í jöklaferð

Dagana 21. til 23. október var farið í jöklaferð1. Við fengum mjög gott veður framan af og nýttum þann tíma mjög vel. Lagt var af stað frá FAS að snemma morguns og lá leið okkar í Öræfin, en aðstæður til jöklaferða á því svæði eru með besta móti.

Eftir stutt stopp í Freysnesi var farið á Falljökul. Fyrsti dagurinn fór í að læra á búnað sem þarf til jöklaferða og broddatækni, farið var yfir hvernig skal nota viðeigandi búnað í jöklaferðum sem og hvernig eigi að ganga um hann. Þegar á jökulinn var komið var farið yfir það hvernig gengið er á jökli í mismunandi aðstæðum, svo sem á flatlendi, í halla eða öðrum aðstæðum þar sem þarf að beita mismunandi tækni til að geta ferðast af öryggi í mikilfenglegu landslagi jökulsins. Ásamt því var reynt að lesa í landslag jökulsins og farið yfir leiðaval og hvað þurfi að hafa í huga við ferðalög á jökli.

Á degi tvö hófst dagurinn í Svínafelli þar sem farið var yfir helstu hnúta og mismunandi aðferðir við að gera svokölluð ankeri í ísinn. Um hádegi var svo farið aftur á Falljökul þar sem nemendur settu mismunandi ankeri í ís. Það er mikilvægt að allir kunni réttu handbrögðin og því æfðu nemendur sig einn og einn við að setja upp ankeri. Því næst var farið yfir ísklifur og þann búnað sem þarf til að stunda það og að lokum klifrað smá.

Á þriðja degi var svo arfavitlaust veður og eyddum við því deginum inni í algjöru gluggaveðri ef svo má að orði komast en mjög hvasst var í Öræfunum og var því ekki hægt að fara á jökulinn. Þó við værum innandyra var af nægu efni að taka. Farið var yfir helstu hnúta og sprungubjörgun á ís. Þrátt fyrir hvassviðrið gátum við sett upp ankeri í stofunni og æft okkur í öruggum aðstæðum, sem var mjög skemmtilegt. Það var svo ákveðið að fara heim degi fyrr vegna veðurs og aðstæðna til ferðalaga, en veðurgluggi opnaðist til ferðalaga milli 16 – 18. Við drifum okkur því í snatri á Höfn rétt áður en veginum var lokað og má segja að það hafi verið lokað á hælana á okkur.

Kennari námskeiðisins var Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Farið verður í jöklaferð 2 í næstu viku og hlökkum við til að deila meira með ykkur, endilega fylgist með okkur á Instagram undir @fjallamennskunamfas.

 

Vísindadagar FAS í Skaftárhreppi

Mörg undanfarin ár hafa verið haldnir vísindadagar í FAS. Það er gert til að brjóta aðeins upp hefðbundið nám og fást við eitthvað nýtt í þrjá daga. Þetta er hluti af námi nemenda og fá þeir einingu fyrir þátttöku og vinnuframlag sitt.

Að þessu sinni var ákveðið að nemendur og kennarar færu í Skaftárhrepp og myndu kynnast landi, lífi og starfi í sveitarfélaginu. Fyrir ferðina gátu nemendur valið sig í hópa eftir því hvað hver og einn vildi skoða. Átta hópar voru í boði og á meðan einhverjir hópar skoðuðu landið lögðu aðrir hópar áherslu á mannlífið og menninguna í sveitarfélaginu og þá afþreyingu sem er í boði þar. Fyrir ferðina var búið að ákveða hvar ætti að stoppa og hvað ætti að skoða. Hver hópur sat síðan með sínum kennara í rútunni og var tíminn á milli stoppa nýttur til að fræðslu og upplýsingaöflunar.

Í ferðin fóru 50 manns. Fyrsta stoppið í Skaftárhreppi var við Djúpá og hádegisnestið var borðað á hinu einstaka kirkjugólfi við Kirkjubæjarklaustur sem er úr stuðlabergi. Síðan var haldið í Skaftárstofu þar sem þær Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri og Eva Björk Harðardóttir oddviti tóku á móti hópnum og sögðu frá sveitarfélaginu og svöruðu spurningum. Í Skaftárstofu tók starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs líka á móti okkur og miðlaði af sinni sérþekkingu. Eftir kynningarnar fóru hóparnir hver í sína átt til að safna gögnum og/eða ræða við fólk. Næsta stopp var í Eldhrauni og hópurinn gekk einnig yfir gömlu brúna yfir Eldvatn. Gisting hafði verið ákveðin í félagsheimilinu Tunguseli í Skaftártungu. Þar lá hópurinn í flatsæng, kennarar sáu um matseld á meðan að nemendur unnu úr þeim gögnum sem hafði verið safnað. Eftir kvöldmat hélt vinnan áfram hjá nemendum en þeir vissu að það átti að kynna vinnu hvers hóps í Kvíármýrarkambi næsta dag. Hver hópur þurfti því að ákveða hvernig hann myndi greina frá vinnu innan hópsins.

Á fimmtudagsmorgni voru allir komnir á ról upp úr sjö og eftir morgunmat var lögð lokahönd á undirbúning kynninganna. Á leiðinni til baka var fyrst stoppað við Laufskálavörðu. Næsti viðkomustaður var í Fjaðrárgljúfri sem eru einkar tignarleg gljúfur grafin í móberg. Hádegisnestið var borðað í Skaftafelli.

Kynningar á verkefnum nemenda fórum fram í Kvíármýrarkambi. Hver hópur þurfti að bera ábyrgð á því að kynningin yrði tekin upp á síma því það er ætlunin að birta kynningarnar á heimasíðu skólans á næstunni. Það er skemmst frá því að segja að kynningarnar gengu ljómandi vel og það má með sanni segja að staðsetningin fyrir skil á verkefnavinnunni hafi verið nýstárleg.

Við hér í FAS erum afar ánægð með vísindadaga að þessu sinni. Það var áskorun fyrir bæði nemendur og kennara að breyta rútunni í raun í margar litlar kennslustofur þar sem hver hópur vann að tilteknum verkefnum. Þegar hlustað var á kynningar nemenda var það svo greinilegt að nemendur höfðu lært ótrúlega margt á þessum stutta tíma. Og margir voru að koma á staði þar sem þeir að öllu jöfn láta sér nægja að keyra framhjá. Nemendur voru líka mjög sáttir með ferðina og fannst gaman að blanda saman leik og starfi og læra um leið eitthvað nýtt.

Við viljum þakka öllum þeim sem tóku á móti okkur í Skaftárhreppi fyrir að gefa okkur af tíma sínum.

Forval fyrir Gettu betur

Gettu betur forval.

FAS hefur mjög oft tekið þátt í spurningakeppninni Gettu betur og margir nemendur hafa skipað lið FAS í gegnum tíðina.

Síðustu daga hefur Málfundafélag FAS hugað að því að finna nemendur til að skipa lið næsta árs. Krakkarnir höfðu samband við Sigurð Óskar Jónsson fyrrverandi nemanda og liðsmann Gettu betur fyrir FAS en hann útskrifaðist árið 2006. Hann tók erindinu vel og samdi nokkrar spurningar fyrir nemendur til að spreyta sig á. Mikill áhugi var fyrir Gettu betur prófinu í FAS og mætti 21 nemandi til að reyna sig við spurningarnar.

Við ættum því að vita fljótlega hverjir skipa Gettu betur lið FAS og verður spennandi að sjá hverjir verða þar.

Nemendaþing í Nýheimum

Fimmtudaginn 24. október stóð Ungmennaráð Hornafjarðar fyrir ungmennaþingi í Nýheimum. Ráðið naut aðstoðar frá nemendaráði FAS. Þinggestir voru að stærstum hluta nemendur í 8. – 10. bekk grunnskólans og nemendur FAS og var kennsla í skólunum felld niður eftir hádegi vegna þingsins.

Sigríður Þórunn sem er formaður ungmennaráðs setti þingið og kynnti dagskrána en megin þunginn að þessu sinni var lagður á málstofur þar sem fór fram fræðsla, hugmyndavinna og hópefli. Þingið tókst einkar vel og var gaman að sjá þessa hópa vinna saman í leik og starfi þó aldursbilið sé orðið töluvert.

Þetta er í þriðja árið í röð sem ungmennaráð stendur fyrir ungmennaþingi. Þetta eru mikilvægar samkomur þar sem unga fólkið hefur tækifæri til að láta í ljós skoðanir sínar og hafa um leið áhrif á ýmis málefni sem skipta máli.

Þinginu lauk með pizzuveislu og á næstunni mun ungmennaráð vinna úr þeim hugmyndum sem komu fram.

Ipad námskeið í Ekru

Á dögunum hafði Haukur Þorvaldsson samband við forráðamenn nemendafélagsins með fyrirspurn um hvort einhverjir í FAS hefðu áhuga á því að koma í Ekru og vera með kennslu á Ipad og önnur snjalltæki. Nemendaráði fannst þetta ljómandi góð hugmynd og hafist var handa við að leita að hentugum dagsetningum.

Í gær, mánudag var komið að fyrsta tímanum og mættu tíu eldri borgarar í Ekru. Frá FAS fóru að þessu sinni þær Eydís Arna, Ingunn Ósk og Íris Mist. Þær eru allar í nemendaráði og ráðið ákvað að hafa umsjón með námskeiðinu. Kunnátta þátttakenda er mjög mismunandi. Sumir kunna mikið á meðan aðrir eru að stíga fyrstu skrefin. Stelpurnar ákváðu að ganga á milli borða og aðstoða hvern einn og einn með þau atriði sem átti að ná tökum á.

Þetta var fyrsti tíminn af sex þar sem nemendur úr FAS koma til að leiðbeina þeim sem þurfa á að halda. Stelpunum fannst það bæði skemmtilegt og gefandi að eiga stund með eldri borgurum. Þetta er sjálfboðastarf hjá nemendum FAS og frábært að sjá kynslóðirnar tengjast á þennan hátt. Næsti tími í Ekru verður á miðvikudag 23. október klukkan 16:15 og þeir sem vilja koma á námskeiðið geta haft samband við Hauk.