Margt um manninn í FAS í dag

Það er heldur betur líflegt í Nýheimum í dag og margt um manninn. Ástæðan er sú að í dag mæta nemendur á fyrra ári í fjallamennsku í fyrsta sinn í skólann. Nemendurnir koma víða að og fóru fyrstu tímarnir í að kynna sig fyrir hópnum. Að loknum kynningum snéru nemendur sér að verkefnum næstu daga.
Hópnum var síðan skipt í tvo minni hópa.  Annar hópurinn mun fara í fyrstu göngu námsins þar sem m.a. farið yfir notkun á áttavita og hvernig best sé að bera sig að við að skipuleggja ferðir á fjöllum. Hinn hópurinn ætlar hins vegar að spreyta sig á klettaklifri.
Við bjóðum þennan stóra hóp velkominn í FAS og hlökkum til að fylgjast með fjölbreyttum verkefnum þeirra í vetur.

Klettaklifur framhaldsnámskeið

Framhaldsnámskeið í klettaklifri var haldið dagana 24. – 28. ágúst. Í vetur verður í fyrsta skipti boðið upp á framhaldsnám á fjallamennskubraut FAS og byggir það á þeim sterka grunni sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Þetta var fyrsta námskeið vetrarins hjá annars árs nemum. Kennarar á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Daniel Saulite og Íris Ragnarsdóttir.

Námskeiðið gekk afar vel og klifrað var á Vestrahorni, á Hnappavöllum, í Svínafelli og innanhúss í aðstöðu Klifurfélags Öræfa í Freysnesi. Markmið námskeiðsins var að byggja áfram á þeirri grunntækni sem kennd var á fyrra ári og efla nemendur í að verða sjálfbærir klifrarar.

Fyrsti dagurinn var notaður í upprifjun á ferli fjölspannaklifurs. Klifurleiðin “Námsbraut” í Vestrahorni var klifin í fjórum spönnum, en hún er afar heppileg þar sem hún reynir á alla tæknilega hluta klifurferlisins án þess að vera erfitt klifur. Að lokum var sigið niður úr leiðinni. Á öðrum degi var klifrað á Hnappavöllum og áherslan á leiðslu, þá festir klifrarinn klifurlínuna reglulega við klettinn til að varna falli en er ekki tryggður að ofan. Tæknin var fyrst æfð í ofanvaði (klifrarinn tryggður að ofan) en nemendur leiddu allir klifurleið fyrir lok dags, flestir sína fyrstu leiðslu. Þriðja daginn var rigning og því klifrað inni í Káraskjóli en það er aðstaða klifurfélagsins í Öræfum. Lögð var áhersla á viðeigandi upphitun fyrir klifur, meiðsl og mótvægisæfingar, klifurtækni og líkamsbeitingu í yfirhangi. Þegar nemendur höfðu klifrað nægju sína var farið í nokkrar útgáfur félagabjörgunar í klifri. Fjórða deginum var varið í dótaklifur, þá setur klifrarinn inn sínar eigin bergtryggingar í sprungur í klettinum. Þetta var æft í Lambhaga í Svínafelli, en þar hefur nýlega verið unnið að þróun nýs klifursvæðis. Í Lambhaga er stuðlaberg og klifurstíllinn því mjög ólíkur bæði Hnappavöllum og Vestrahorni, og bergið því gott til að æfa annars konar klifurtækni. Á lokadeginum var haldið aftur á Vestrahorn og farið í klifurleiðina Bifröst. Fyrstu þrjár spannirnar voru klifraðar, samtals um 90m af bröttu klifri.

Frábærir dagar að baki og góð byrjun á vetrinum. Takk fyrir okkur.
Árni Stefán

Gróðurreitir FAS á Skeiðarársandi

Í dag var komið að árlegri ferð nemenda á Skeiðarársand en frá árinu 2009 hafa nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum farið í þá ferð. FAS hefur umsjón með fimm gróðurreitum á sandinum sem hver er 25 fermetrar að stærð. Í ferðinni er verið skoða gróður innan reitanna, telja tré og mæla hæð þeirra sem eru orðin 10 cm eða hærri. Einnig þurfa nemendur að horfa eftir ummerkjum um ágang skordýra eða beit.
Ferðin í dag gekk ljómandi vel. Vinnan á sandinum gekk vel. Næstu daga verður svo unnið úr upplýsingum sem var safnað og þær bornar saman við niðurstöður fyrri ára.

Gengið til heiðurs nýnemum

Dagurinn í dag er sérstaklega helgaður nýnemum enda mikilvægt að þeir kynnist eldri nemendum og kennurum skólans. Strax í upphafi skóladags var farið með hópinn í rútu að Almannaskarði og gengið þaðan í áttina að Bergárdalnum og svo niður með Bergánni. Á leiðinni var staldrað nokkrum sinnum við og spáð í umhverfið og það sem vakti áhuga. Þó engin hafi verið sólin var veðrið milt og hentugt til göngu. Það vakti eftirtekt hversu þægilegur hópurinn var með jákvæðni í fyrirrúmi.
Þegar komið var til baka í Nýheima hittist hópurinn á Nýtorgi. Forsetar nemendafélagsins þeir Sævar Rafn og Tómas Nói ásamt Lind sem hefur umsjón með félagslífinu kynntu klúbbastarf nemendafélagsins og hvöttu nemendur til að skrá sig í hópa. Það er mikilvægt að sem allra flestir nemendur séu virkir til að skapa blómlegt félagslíf.
Í hádeginu var svo veisla í boði skólans. Hún Hafdís okkar bauð upp á grillveislu og voru veitingunum gerð góð skil.

Hestamennskusvið í FAS

Nám í hestamennsku hófst formlega í FAS þann 18. ágúst. Það eru 22 nemendur skráðir í námið sem er einstaklingsmiðað nám sem hentar vel fyrir einstaklinga sem eru komnir út á vinnumarkaðinn. Námið er 20 einingar; 10 einingar eru bóklegar í fjarnámi og 10 einingar verklegar á vorönn.
Námið undirbýr nemendur til að verða aðstoðarmenn í hvers konar hestatengdri starfsemi, svo sem á hestabúgörðum, við hestatengda ferðaþjónustu eða hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum. Einnig er lögð áhersla á að nemendur geti sinnt helstu verkþáttum í hirðingu hesta, aðstoðað við þjálfun þeirra og geti aðstoðað viðskiptavini í hestaferðum hjá hestatengdum ferðaþjónustufyrirtækjum.
Það verður gaman að fylgjast með þessari nýjung í skólastarfinu.

Skólastarf hafið í FAS

Skólastarf hófst formlega í morgun þegar skólinn var settur. Þar var farið yfir helstu áherslur haustannarinnar í tengslum við námið. Einnig hvaða sóttvarnarreglur eru í gildi núna en eins og sést á myndinni þarf að hafa grímur ef ekki er unnt að tryggja eins metra fjarlægð. Þetta er nú fjórða önnin þar sem COVID er að hafa áhrif á skólastarfið.
Eftir skólasetningu mættu nemendur til umsjónarkennara þar sem var farið yfir stundatöflur og námsframboð. Einhverjir vildu endurskoða námsval sitt og er það mikilvægt að slíkt sé gert strax í upphafi annar. Öllum breytingum á stundatöflu þarf að vera lokið fyrir 26. ágúst.
Kennsla hefst svo í fyrramálið klukkan 8 eftir stundaskrá.