Umhverfismál í brennidepli

Í síðustu viku sögðum við frá neyslukönnun sem umhverfisnefnd FAS stóð fyrir á dögunum. Í dag var komið að þriðja uppbroti annarinnar og það var helgað niðurstöðum úr þeirri könnunn og hvað megi gera til að minnka úrgang í skólanum.
Í byrjun fundar kynnti Eyjólfur helstu niðurstöður könnunarinnar. Nemendum og starfsfólki hafði verið skipt í hópa fyrir fundinn og áttu undir stjórn hópstjóra að reyna að áætla hvar hægt sé að draga úr neyslu. Með neyslu er t.d. átt við ljósritun, matarkaup ýmis konar og ferðamáta til og frá skóla. Hver hópur þurfti að tilgreina í prósentum hversu mikið væri hægt að draga úr neyslu á næstunni.
Næsta verkefni sem hóparnir unnu að var að tilgreina leiðir þannig að hægt sé að draga úr einskammta matarumbúðum en þar er t.d. átt við skyrdollur eða kókómjólkurfernu. Þá voru hóparnir líka beðnir að skoða hvað hægt sé að gera til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í ferðum til og frá skóla.
Það verður að segjast eins og er að fundurinn gekk ljómandi vel og voru bæði nemendur og starfsmenn virkir og höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Á næstunni er ætlunin að vinna enn betur úr svörum nemenda og finna leiðir til að minnka neyslu og um leið að bæta umhverfið.

Flokkun og úrgangur í FAS

Hluti úrgangs sem féll til í FAS vikuna 23. - 27. september.

Hluti úrgangs sem féll til í FAS vikuna 23. – 27. september

Eins og við sögðum frá í síðustu viku stóð umhverfisnefnd FAS fyrir neyslukönnun þar sem m.a. úrgangur tengdur matarneyslu var sérstaklega skoðaður. Allir voru beðnir um að flokka samkvæmt sérstöku skipulagi. Í fyrsta lagi voru hreinar umbúðir, í öðru lagi óhreinar, í þriðja lagi lífrænn úrgangur og í fjórða og síðasta lagi drykkjarumbúðir sem er hægt að skila. Það voru þrír flokkunarstaðir í húsinu. Fyrst má telja veitingasöluna á Nýtorgi. Á setustofu nemenda og kennarastofu var líka flokkað.

Á föstudag eftir hádegi var komið að því að mæla og skrá úrganginn. Það féllu til 23 kíló af lífrænum úrgangi í FAS í síðustu viku og um fjórðungur þess voru matarafgangar. Í vikunni söfnuðust 158 umbúðir undan drykkjavörum og af því eru tæplega 90% af setustofu nemenda. Við viljum benda á að það er komin vatnsvél í kaffiteríuna og við hvetjum alla til að nýta sér hana og spara um leið pening.

Áætlaður heildarfjöldi af umbúðum utan af matvælum skiptist þannig að um 55% umbúða voru hreinar en 45% óhreinar. Þar getum við gert miklu betur.
Hluti af úrgangi síðustu viku var hengdur upp á Nýtorgi og sést hann á meðfylgjandi mynd.

Síðar í vikunni er ætlunin að birta fleiri upplýsingar og taka í framhaldi ákvörðun um hvernig við getum dregið úr neyslu og minnkað úrgang.

Neyslukönnun í FAS

Flokkunartunnur í FAS.

Flokkunartunnur í FAS.

FAS tekur nú þátt í verkefninu Skólar á grænni grein og þema skólaársins er neysla. Í síðustu viku var stofnuð Umhverfisnefnd FAS en í henni eru fulltrúar nemenda, kennara og annarra starfsmanna. Í nefndinni eru níu manns og hún heldur utan um og skipuleggur starfið.
Í þessari viku fer fram neyslukönnun meðal allra í FAS og gengu fulltrúar nemenda í stofur í morgun og dreifðu eyðublöðum þar sem á að skrá ferðir vikunnar og matarneyslu. Í lok vikunnar verður blöðunum safnað saman og unnið úr gögnunum.
Auk þess að skoða ferðir og matarneyslu er úrgangur flokkaður á sérstakan hátt í þessari viku. Í lok vikunnar verður flokkað, talið og vigtað allt sem viðkemur matarneyslu í FAS. Markmiðið með þessu hvoru tveggja er að fá mat á stöðunni og sem síðan verður nýtt til að bæta um betur.
Við ætlumst til að allir leggi sig fram og vandi til verka í þessari viku.

FAS stefnir á græna fánann

Katrín Magnúsdóttir og Eyjólfur Guðmundsson staðfesta þátttöku FAS í Grænfánaverkefninu.

Katrín Magnúsdóttir og Eyjólfur Guðmundsson staðfesta þátttöku FAS í Grænfánaverkefninu.

Um miðjan ágúst var námskeið fyrir kennara í FAS. Viðfangsefni námskeiðsins var þema skólaársins sem er neysla og væntanleg þátttaka skólans í verkefni sem kallast Skólar á grænni grein (Eco-Schools), stundum líka kallað Grænfánaverkefnið. Það var Katrín Magnúsdóttir verkefnastjóri hjá Landvernd sem sá um námskeiðið.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að gera þátttakendur fróðari og meðvitaðri um sjálfbærni og umhverfisvernd. Þátttakendur í námskeiðinu skoðuðu mögulega útfærslu á verkefninu þannig að það myndi nást sem bestur árangur í FAS. Það er líka verðugt verkefni að gera alla meðvitaðari um neyslu sína. Það er fátt mikilvægara í dag en að fá fleiri til að draga úr neyslu og minnka sóun. Frekar þarf að huga að endurnýtingu og finna allar mögulegar leiðir til að minnka vistspor sitt. Og þar skipta öll litlu skrefin máli.

Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli sem efla vitund nemenda og starfsmanna allra um umhverfismál. Ef skólinn nær markmiðum sínum fær hann að flagga grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Nú þurfum við í FAS að taka höndum saman og ná settu marki.