Teams og fjarkennsla fimmtudag og föstudag

Nú er vitað að það er komið upp annað smit í sveitarfélaginu okkar. Á meðan það er verið að skoða stöðuna hefur verið ákveðið í FAS að bjóða upp á fjarkennslu í flestum áföngum í dag, fimmtudag og á morgun föstudag. Í einhverjum tilvikum verður þó um staðkennslu að ræða og mun hver kennari hafa samband við sína nemendur og láta vita nánar um tilhögun.
Nemendur sem vilja mega koma og vinna í skólanum en þurfa þá að sjálfsögðu að fylgja öllum reglum um grímunotkun, fjarlægðarmörk og öðrum reglum um sóttvarnir. Veitingasalan verður lokuð í dag og á morgun en opnar aftur á mánudag.
Á mánudag verður staðkennsla með grímur í húsi líkt og var í gær miðvikudag. Líklegt er að það skipulag vari fram eftir næstu viku.
Við hvetjum alla til að fara vel með sig og huga vel að eigin líðan.

Grímunotkun í FAS

Nú hefur komið upp smit á Höfn og við ætlum að bregðast við því í FAS með því að nota grímur í skólanum. Nemendur og starfsfólk fær afhentar grímur þegar þau mæta í skólann á morgun og verða að bera þær á meðan verið er í skólanum. Þar sem mælt er með að einnota grímur séu einungis notaðar í fjóra tíma fá allir nýjar grímur í hádeginu. Notuðum grímum á að henda í almennt rusl og mikilvægt er að þvo og sótthreinsa hendur áður en nýjar grímur eru settar upp.
Allir eiga að nota aðalinnganginn, Nettómegin. Þá viljum við hvetja alla til að forðast óþarfa umgang og lágmarka neyslu á mat og drykk.
Í einhverjum áföngum verður tekin upp fjarkennsla og fá nemendur upplýsingar um það frá viðkomandi kennurum.
Okkur í FAS finnst mikilvægt að hægt sé að halda úti sem eðlilegustu skólastarfi og því hvetjum við alla til að fara að reglum og huga að eigin sóttvörnum. Ef við pössum okkur öll eru líkur á að þetta ástand vari stutt.
Hér eru leiðbeiningar um hvernig nota skal grímur rétt.

Spennandi námskeið í FAS

Nú eru að fara af stað spennandi námskeið í FAS. Þetta eru námskeið sem nemendur á lista- og menningarsviði þurfa að taka í sínu námi. Námskeiðin eru jafnframt opin almenningi og eru ýmist í FAS eða Vöruhúsinu.
Fyrsta námskeiðið verður síðustu helgina í september og þar verður unnið með hljóðupptöku og hljóðblöndun. Annað námskeiðið er í byrjun október og þar er verið að vinna í FABLAB. Á þriðja námskeiðinu er verið að vinna með málun, teiknun, ljósmyndun og Photoshop og verður það námskeið seinni hluta október. Síðasta námskeiðið snýr að förðun og verður líklega seinni partinn í október eða byrjun nóvember. Leiðbeinandi á því námskeiði verður Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Nánar má lesa um námskeiðin í meðfylgjandi auglýsingu og í síðasta tölublaði Eystrahorns.
Þeir sem hafa hug á því að sækja eitt eða fleiri af þessum námskeiðum þurfa að skrá sig og það er gert á vef FAS. Skráningargjald er 6000 krónur og viljum við vekja sérstaka athygli á því að upphæðin er sú sama hvort sem tekið er eitt námskeið eða fleiri.
Við hvetjum fólk sem langar til að fást við áhugamál sín eða kljást við eitthvað nýtt að skrá sig.

Birkiskógurinn á Skeiðarársandi

Þeir sem eiga leið um Skeiðarársand geta allir orðið vitni að miklum breytingum á náttúrunni. Mest áberandi eru birkitrén sem mynda nú samfellda breiðu um miðbik sandsins. Í FAS viljum við gjarnan að nemendur verði meðvitaðir um umhverfi sitt og kynnist um leið vísindalegum vinnubrögðum. Fimmtudaginn 27. ágúst síðastliðinn fóru þrettán nemendur í FAS sem allir stunda nám í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ í sína árlegu rannsóknarferð á Skeiðarársand. Skólinn á þar fimm 25 m2 gróðurreiti og frá árinu 2009 hefur verið farið með nemendahópa á sandinn til að fylgjast með framvindu gróðursins. Veður var eindæma gott; logn, sól og hiti 11 gráður.

Í ferðinni fá allir nemendur hlutverk við athuganir og skráningu á náttúrunni. Meðal þess sem er skoðað er gróður innan hvers reits, hæð trjáa og ársvöxtur. Þá er horft eftir ummerkjum um beit og ágang skordýra.

Við höfum oft séð meiri breytingar á vexti trjánna á milli ára. Mörg tré stækka lítið en innan hvers reits má þó finna plöntur sem hækka jafnt og þétt og eru einnig farnar að mynda rekla.

Þegar farið er á milli reitanna má sjá mörg tré sem eru hærri en þau sem eru innan reita FAS. Í nokkur ár hefur verið fylgst sérstaklega með tveimur trjám. Annað er staðsett ofan í jökulkeri og hefur einhvern tímann brotnað að hluta. Það er greinilegt að skemmdin hamlar vexti því það tré hækkar lítið á milli ára og mælist alltaf rétt yfir 3,30 m. Hitt staka tréð sem er mælt vex ágætlega og er hæð þess nú 3,53 metrar og hefur hækkar um tæpa 30 cm á síðustu tveimur árum.

Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/

En í þessari ferð var ekki bara fylgst með gróðurreitunum. Vegna COVID-19 hefur þurft að breyta frá upphaflegu skipulagi í skólanum. Það varðar ekki hvað síst erlent samstarf þar sem við bæði fáum gesti eða sendum nemendur okkar erlendis. Á þessari önn verður ekkert um slíkar ferðir en verkefnin þurfa engu að síður að halda áfram. Í ferð okkar í síðustu viku var prófað að „streyma“ frá því sem var gert og það gekk ágætlega. Þessi tilraun var því ágætis undirbúningar fyrir samstarfsverkefni á milli Finnlands, Noregs og Íslands sem er nýfarið af stað. Þá er ráðgert að nýta þessa tækni til að ljúka ADVENT verkefni sem hefur staðið yfir í þrjú ár.

Þá komu til okkar á sandinn tökufólk frá kvikmyndafyrirtæki sem er að vinna að heimildamynd um birki. Þau fengu að fylgjast með vinnunni á sandinum. Sá þáttur verður sýndur á RUV í fyllingu tímans.

Eyjólfur Guðmundsson
Hjördís Skírnisdóttir
Kristín Hermannsdóttir

Félagslíf nemenda

Nú er félagslífið í FAS komið á ágætt skrið. Fyrirkomulagið er svipað og undanfarin ár þar sem klúbbastarf er einkennandi. Það eru nemendur sem koma með hugmyndir og stofna klúbba og svo þarf hver klúbbur að uppfylla ákveðin skilyrði. Hver klúbbur hefur formann og klúbbaformenn ásamt forsetum og hagsmunafulltrúa mynda stjórn nemendafélagsins. Þessi hópur kemur að stefnumótun skólans í ákveðnum verkefnum. Forsetar nemendafélagins á þessu skólaári eru Daníel Snær Garðarsson og Aníta Aðalsteinsdóttir. Það er Guðrún Brynjólfsdóttir sem er hagsmunafulltrúi skólans hjá SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanemenda).

Eftirfarandi klúbbar eru starfræktir núna; sketsklúbbur, samfélagsmiðlaklúbbur, fótboltaklúbbur, tölvuklúbbur, spilaklúbbur, viðburðaklúbbur og málfundafélag. Fyrsti fundur var haldinn fyrir skemmstu og það er mikill hugur í fólki og vilji til að vinna gott félagsstarf við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu vegna COVID-19 þar sem fjarlægðatakmörk eru í gildi.

Það verður spennandi að fylgjast með starfi krakkanna í vetur.

Fyrsta námskeið í fjallamennsku

Áfanginn gönguferð í fjallamennskunámi FAS fór fram dagana 31.ágúst – 6.september. Það má segja að haustið hafi heldur betur tekið hressilega á móti þeim 27 nemendum sátu námskeiðið ásamt fimm kennurum. Dagskráin var þétt, veðrið með ýmsu móti, lærdómskúrfan brött en hópurinn afburða jákvæður og duglegur.

Námskeiðið hófst í Nýheimum snemma morguns þann 31. ágúst. Þar voru mættir nemendur sem koma úr öllum áttum og eru á öllum aldri sem gerir um leið hópinn fjölbreyttan og hlaðinn alls konar reynslu. Nemendur voru tilbúnir að læra á allt sem tengist gönguferðum og að kynnast nýju fólki. Þann daginn var lögð áhersla á kynningar, skipulag ferða, kortalestur, áttavitann, veður og hvernig skyldi pakka fyrir gönguferð. Búnaði skólans var skipt á nemendur sem fóru svo heim með heimavinnu, kort og áttavita að vopni.

Daginn sem gönguferð 1 gekk í garð hófst ferðin í Nýheimum á fyrirlestri um leiðarkort sem unnið var að fyrir ferðina. Áhersla var lögð á að vinna eingöngu með kort og áttavita en leiðin lá í Bæjardal í Lóni þar sem gista átti fyrri nóttina. Veðurspáin bauð upp á bleytu og vind sem átti heldur betur eftir að setja sitt strik í reikninginn. Gangan var nýtt til kortalesturs, í rötunaræfingar og í lok dags fannst góður náttstaður og veglegum tjaldbúðum var slegið þar upp. Tjaldbúðarlífið gekk vel, kúkaholupælingar voru efst á dagskrá en nú ætti ekki að fara á milli mála hvernig þeim málum er háttað.

Annar göngudagur átti að enda í Smiðjunesi neðst í Hvannadal en eftir langan dag af rötun um gil, gljúfur og ár í rigningu fann hópurinn sér sæmilegan stað efst í Hvannadal. Fólk var fljótt að skella upp búðum og hverfa inn í tjöld eftir stuttan kvöldverð enda bætti stöðugt í regnið. Þegar allir voru skriðnir inn í poka leið ekki á löngu þar til fór að blása allhressilega og stuttu síðar fóru fyrstu tjöldin að fjúka. Þarna komu styrkleikar hópsins vel í ljós en samstaðan og hjálpsemin sem greip um sig meðal nemenda og kennara við það að laga tjöld, staga og bera steina í hávaðaroki um miðja nótt var mögnuð. Þetta atriði var eins og eftir pöntun kennara enda eru svona kennslustundir þær allra bestu.

Nóttin var þó svefnlítil en mannskapurinn lét það ekki á sig fá og gekk með jöfnum og góðum hraða niður Hvannadalinn og í gegnum litríkt Hvannagilið þar sem áin var þveruð nokkrum sinnum. Rútan beið undir Raftagili og rútuferðin á Höfn var róleg enda nýttu hana flestir í kærkominn lúr. Þá var dagskránni lokið þennan daginn en þreytan sagði til sín og kennslustund í þverun straumvatna fékk að bíða betri tíma.

Dagur fjögur var vindasamur verkefna- og fyrirlestradagur þar sem nemendur skipulögðu næstu gönguferð. Eftir kynningar hópa á flottum leiðum og spennandi kosningu var ákveðið að ganga Krossbæjarskarð við Ketillaugarfjall, gista í Laxárdal og nýta Laxá í Nesjum fyrir þverun straumvatna seinni daginn.

Seinni gangan byrjaði í blíðu en nemendum var skipt í fimm hópa sem skiptust á að leiðsegja hópnum. Þau lærðu af hvort öðru og fengu ráð frá kennurum og samnemendum um hvernig gott er að leiða hópa í fjallgöngum en flottar umræður um leiðsögn, hópstjórnun og rötun sköpuðust og allir fengu að spreyta sig. Þegar komið var að náttstað í Laxárdal spruttu tjöldin upp og greinilegt að handtökin væru komin í fingurna.

Síðasti dagurinn rann upp en hópurinn gekk niður með Laxá í morgunsárið. Það er mikilvægt að rýna og lesa í ár fyrir þverun og kunna skil á eiginleikum sem kynnu að gera þverun erfiða eða hættulega. Eftir vatnalesturinn var bara eitt í stöðunni; að skella sér út í. Alls kyns aðferðir voru prófaðar til þverunar og loks var synt í straumnum. Þrátt fyrir bleytu og kulda var gleðin allsráðandi og sumir fóru meira að segja margar ferðir niður strauminn! Sundspretturinn setti punktinn yfir i-ið og nú var kominn tími til þess að slíta námskeiðinu.

Vikan var vægast sagt skemmtileg, pökkuð af lærdómi og gekk eins og í sögu. Aðstæður voru krefjandi á stundum en jákvæðnin var alltaf til staðar og stutt í gleðina. Metnaður og dugnaður hópsins er áþreifanlegur og smitandi en kennarahópurinn vildi helst vinna með þeim í allt haust og vetur. Næsti hópur kennara fær þó að njóta þeirra frábæra félagsskapar í komandi viku á klettaklifurnámskeiði og það verður spennandi að heyra af þeim æfingum. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru teknar af Skúla Pálmasyni nemanda í fjallamennsku. Þá er líka hægt að fylgjast með á instragram síðu námsins.

Ástvaldur Helgi, Elín Lóa, Erla Guðný, Sólveig Valgerður og Tómas Eldjárn
sem voru kennarar á fyrsta námskeiði vetrarins.