Fær FAS list- og verknámshús?

Unnið að uppfærslu á Ronju ræningjadóttur 2018.

Skömmu fyrir jól kom afar ánægjulegur póstur í FAS. Það var bréf frá menntamálaráðuneytinu um styrk að upphæð einni milljón. Styrkinn á að nota til að vinna að þarfagreiningu fyrir lista- og verknámsaðstöðu fyrir skólann og samfélagið.
Að sjálfsögðu brást skólinn strax við og myndaði hóp sem samanstendur af fulltrúa úr skólanefnd, fulltrúa frá sveitarfélaginu og skólameistara. Þessi hópur hittist vikulega og áætlar að ljúka þarfagreiningunni í mars. Jóhannes Þórðarson frá arkítektastofunni Glámu-Kím var fenginn til að leiða vinnuna.
Síðasta mánudag kom Jóhannes til Hafnar og hélt fund með heimamönnum. Einnig skoðaði hann aðstöðuna í Vöruhúsinu og Nýheimum.
Eftir að undirbúningshópurinn hefur lokið störfum fær menntamálaráðuneytið þarfagreininguna sem nýtist vonandi til að rökstyðja ósk um fjárframlag til framkvæmda.
Það er því aldrei að vita nema langþráð ósk FAS um hús undir list- og verkgreinar verði að veruleika í náinni framtíð.

Kahoot kvöld í FAS

Nemendafélag FASViðburðaklúbbur FAS ætlar að standa fyrir svokölluðu Kahoot kvöldi næsta fimmtudag fyrir nemendur FAS. Kahoot er smáforrit fyrir síma og tölvur og er notað t.d. í spurningakeppni. Þannig að það má segja að Kahoot sé ný útgáfa af spurningakeppni. Nokkrar umferðir verða haldnar og verður ein þeirra um FAS.
Viðburðurinn verður haldinn í FAS fimmtudaginn 14. febrúar og hefst klukkan 20. Það kostar ekkert inn á keppnina sjálfa en það verður hægt að fá pizzusneiðar og þá þarf að borga 500 krónur.
Það er til mikils að vinna í spurningakeppninni og vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem best standa sig.
Þeir sem að hafa hug á að mæta eru beðnir um að skrá sig í síðasta lagi á hádegi á fimmtudag. Viðburðaklúbbur hlakkar til að sjá sem flesta og hafa gaman saman.

Hvað er markþjálfun?

Lind Völundardóttir Draumland.

Mánudaginn 11. febrúar mun Lind okkar Völundardóttir Draumland halda kynningarfyrirlestur um markþjálfun. Eflaust eru einhverjir sem ekki vita hvað markþjálfun er. Í stuttu máli er markþjálfun bæði fyrir einstaklinga og hópa sem sækjast eftir því að ná ákveðnu markmiði. Þjálfunin fer fram í samtölum við markþjálfa og tekur hvert samtal venjulega um klukkustund. Ástæður og markmið fyrir því að fólk leitar til markþjálfa er mismunandi en markmiðið er alltaf að finna lausn.
Lind er með ACST vottun í markþjálfun frá ICF og stefnir að því að fara í ACC vottun í vor. Við hvetjum alla þá sem vilja kynna sér þetta nánar að koma á kynningarfund Lindar sem verður í fyrirlestrasal Nýheima og hefst klukkan 14:00.

10. bekkur í heimsókn

10. bekkur í heimsókn.

Í dag komu góðir gestir í heimsókn í FAS en það voru nemendur úr 10. bekk Grunnskóla Hornafjarðar sem eru farnir að velta fyrir sér námi að loknum grunnskóla.
Hér tók á móti þeim stór hluti þeirra sem vinna í skólanum og kynntu þær námsleiðir og áherslur sem skólinn býður upp á. Þó að skólinn sé með minni skólum á landinu má segja að námsúrval sé fjölbreytt en um leið einstaklingsmiðað. Sem dæmi um það sem var kynnt í dag var; nám til stúdentsprófs, framhaldsskólabraut, fjallamennskunám, nám á lista- og menningarsviði, nám á íþróttasviði og verknám. Þá var farið yfir þá stoðþjónustu sem skólinn veitir eins og umsjón og störf bæði námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðings. Nemendur í nemendaráði sögðu frá því hvernig félagslíf skólans er byggt upp og að lokinni kynningu gengur þeir með gestunum um húsið.
Í dag klukkan 17 er svo foreldrum nemenda í 10. bekk boðið að koma á fund til að fræðast um hvað skólinn býður upp á. Vonumst við til að sjá sem flesta.

Fuglatalning í febrúar

Eins og margir hafa orðið varir við hefur veður verið fremur hryssingslegt að undanförnu. Það hefur m.a. leitt til þess að nemendahópur í umhverfis- og auðlindafræði hefur þurft að fresta fyrirhuguðum fuglatalningum í Óslandi.
Í gær var þó ákveðið að fara þrátt fyrir óveðursspár og skyldi hópurinn bara klæða sig almennilega. Það var ágæt ákvörðun því miðað við árstíma var töluvert af fugli. Alls sáust 17 tegundir og var heildarfjöldi fugla tæplega 1300. Það kom töluvert á óvart að sjá stóran tjaldahóp sem taldi um 240 fugla. Flestir telja tjaldinn farfugl en það er alltaf töluvert um að fuglinn hafi hér vetursetu. Þá sást í gær strandmávur sem er flækingsfugl á Íslandi.
Líkt og undanfarin ár stjórnar Björn Gísli hjá Fuglaathugunarstöðinni talningum og nú var einnig með í för Lilja frá Náttúrstofu Suðausturlands. Bæði voru dugleg að miðla af reynslu sinni og er það ómetanlegt að hafa aðgang að slíkum sérfræðingum.

Nemendur FAS í Tallin

Eins og við sögðum frá fyrir stuttu tekur FAS þátt í erlenda samstarfsverkefninu „Cultural heritage in the context of students’ careers“ eða „Nemendur skapa verkefni byggð á menningararfleið“ eins og við höfum kosið að kalla það á íslensku. Þar er ætlunin að vinna verkefni um menningararfleifð þjóðarinnar og á verkefnið jafnframt að tengjast menningartengdri ferðaþjónustu. Samstarfsskólarnir eru frá Ítalíu, Grikklandi, Eistlandi og Litháen.
Vikuna 21. – 25. janúar var komið að fyrstu heimsókninni. Fjórir nemendur frá FAS ásamt tveimur kennurum fóru til Eistlands og fengust þar við ýmis verkefni. Eitt af því var að hanna lógó fyrir verkefnið.

Í hádeginu á morgun munu nemendur segja frá ferðinni á Nýtorgi. Við hvetjum þá sem vilja heyra meira að koma í Nýheima og hlusta á ferðasöguna. Þeir sem vilja geta fengið sér súpu og salat.