Samstarf um afreksíþróttir

Forsvarsmenn afreksíþrótta hjá Sindra og FAS.

Mánudaginn 8. apríl var undirritaður samstarfsamningur á milli Sindra og FAS. Þessi samningur kveður á um að efla afreksíþróttastarf í Sveitarfélaginu Hornafirði. Markmiðið er að gefa þeim sem stunda skipulagðar æfingar í tilteknum íþróttum tækifæri til að tvinna saman íþróttir og nám. Sindri heldur utan um æfingar viðkomandi nemenda en FAS um námið. Hver nemandi sem ákveður að taka þátt þarf að skrifa undir samning ásamt þjálfara frá Sindra og íþróttakennara í FAS og þar er kveðið á um skyldur sem þarf að uppfylla.
Þessi samstarfssamningur er mikið gleðiefni því hjá okkur í FAS eru nemendur sem hafa mikinn metnað í íþróttum og standa sig vel, t.d. í fótbolta og körfubolta. Engu að síður vilja þeir stunda nám í FAS.
Nú þegar hafa sjö nemendur ákveðið að taka þennan áfanga sem tvinnar saman íþróttir og nám.

Súpufundur í FAS

Súpufundur – 9. apríl – hluti fundargesta.

Í gær bauð FAS foreldrum í súpu og spjall á Nýtorgi. Tilgangurinn var að fá foreldra og aðstandendur til að koma í skólann og setjast niður með nemendum og starfsfólki og ræða um skólann og lífið og tilveruna. Við höfum áður efnt til slíkra funda en fyrri fundir hafa tekist ljómandi vel þar sem ákveðin mál hafa verið rædd en okkur finnst mikilvægt að fá að heyra sem flest sjónarmið.
Það var ekki neitt sérstakt umræðuefni á fundinum í gær en margt bar á góma. Það kom t.d. fram að það ríkir almenn ánægja með veitingasöluna í vetur og er vonast eftir því að hún verði með svipuðu fyrirkomulagi áfram. Þá heyrðist líka að gott sé að hafa heimavist fyrir þá sem eiga langt að. Þá bar umhverfismál á góma, bæði hvað varðar rusl og plastmengun og eins loftlagsbreytingar. En svo er líka greinilegt að fólki finnst fínt að farið sé að styttast í páskafrí.
Takk öll sem komuð og vonandi sjáumst við á fleiri svona fundum

Nemendur FAS kynnast menningu Grikklands

Nemendur FAS eru þátttakendur í Evrópu verkefninu „Cultural heritage in the context of students’ careers“ þar sem nemendur ólíkra landa kynna menningu og ferðamennsku á sínu heimasvæði.
Þann 31. mars fóru fjórir nemendur í viku ferð til Trikala í Grikklandi. Fyrsta stopp var í Aþenu þar sem hópurinn hitti nemendur og kennara frá Eistlandi, Lettlandi og Ítalíu. Farið var á Akrópólis, eða Háborg eins og nafnið mundi hljóma á íslensku, Akró = uppi, hátt, hátt uppi. Pólis = borg. Þar var saga þessarar ótrúlegu mannvirkja kynnt fyrir hópnum.
Frá Aþenu var síðan farið með rútu í fimm klukkustunda ferð inn í landið til Trikala en þar er fimmti samstarfsskóli verkefnisins staðsettur. Trikala er landsvæði þar sem um 80 þúsund manns búa, í einstakri náttúrufegurð þar sem Kósakafjöllin bera við himin í norðri. Í þessari borg fæddist gríski guð lyfjafræðinnar, Asklipios. Þar er ákaflega falleg brú hönnuð af sama arkitekt og hannaði Eiffelturninn í París en náttúruundrið „Meteora“ er kannski það allra þekktasta á svæðinu. Þetta eru há sandsteinafjöll en á tindum þeirra hafa verið byggð klaustur. Hópurinn gekk um fjöllin þar sem komið var að stærsta klaustrinu, sem kennt er við heilagan Stefán. Þar fengu nemendur að ganga um sali klaustursins.
Samverustundir, kvöldvaka og grill hátíð er stór hluti af skipulagi heimsókna í þessu verkefni.
Nemendur sofa í heimahúsum og fengu íslensku krakkarnir einstaklega góðan vitnisburð frá gestgjöfum sínum. Hornfirðingar mega vera stoltir af framlagi nemenda FAS.
Fyrstu vikuna í október í haust munu þátttakendur í verkefninu koma til Hornafjarðar og verður gaman að kynna náttúru, sögu, og menningu landsins fyrir nemendum Grikklands, Ítalíu, Eistlands og Litháen.

ADVENT námskeið í skosku hálöndunum

Í síðustu viku lögðu þrír fulltrúar frá FAS land undir fót og héldu í fimm daga ferð til Fort William í skosku hálöndunum, til að taka þátt í námskeiði. Þetta voru þau Sigurður Ragnarsson og Hulda Laxdal Hauksdóttir kennarar og leiðsögumenn og Sólveig Sveinbjörnsdóttir leiðsögumaður.

Námskeiðið var haldið á vegum ADVENT menntaverkefnisins sem FAS er í ásamt Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetri Hí og skólum, rannsóknarstofnunum og ferðaþjónustuklösum í Skotlandi og Finnlandi. Verkefnið er styrkt af Erasmus+.

Námskeiðið var eitt af níu tilraunanámskeiðum sem prufukeyrð verða í ADVENT verkefninu.

Háskólinn í Fort William (UHI) skipulagði námskeiðið sem bar enska heitið Guiding and Interpretation og snérist um leiðsögumennsku, framkomu og hvernig setja megi fram fræðsluefni fyrir ferðamenn á skýran og skilmerkilegan hátt. Var námskeiðið ætlað bæði starfandi fólki í ferðaþjónustu sem og nemendum í ferðamála- leiðsögu- og útivistarnámi.

Auk Íslendinganna þriggja voru þrír ferðaþjónustuaðilar og kennarar frá Skotlandi og tveir kennarar frá Finnlandi. Sambærilegt námskeið verður í framhaldinu mögulegt að keyra á Íslandi eða í Skotlandi, nema lagað að því svæði sem um ræðir í hverju landi fyrir sig.

Mánudagur og föstudagur fóru í ferðalög milli Íslands og Fort William en námskeiðið sjálft tók þrjá daga. Fyrsti námskeiðsdagurinn fór í að ræða hlutverk leiðsögumanna og hvers viðskiptavinir ætlast til af leiðsögumönnum. Einnig var farið yfir hugmyndafræði Leave no Trace sem í stuttu máli snýst um að skilja sem minnst eftir sig á sama tíma og náttúrunnar er notið á ábyrgan og öruggan hátt. Krafa sem gerð er til leiðsögumanna í auknum mæli um allan heim. Seinni partur dagsins var svo nýttur við rætur Ben Nevis, hæsta fjalls Bretlands, þar sem hugmyndafræðin var spegluð í verklegri kennslu.

Annar dagurinn hófst á að æfa mismunandi leiðsögutækni og í framhaldinu gerðar verklegar æfingar til að búa til sem besta upplifun fyrir viðskiptavini með misjafnar þarfir. Einnig var hugmyndafræði Slow Adventure skoðuð, en hún hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið innan ævintýraferðamennsku. Seinni parturinn fór í að fræðast um nágrenni bæjarins með þjóðgarðsvörðum frá Nevis Landscape Partnership og fór hópurinn m.a. með þeim að planta trjám. Mikið var rætt hlutverk leiðsögumanna þegar kemur að verndun náttúrunnar og hvernig leiðsögumenn geti lagt sitt af mörkum til náttúruverndar.

Þriðja daginn var svo keyrt um nærumhverfi Fort William, skoðaðir voru vinsælir ferðamannastaðir eins og Glenfinnan þar sem hluti út Harry Potter myndunum var tekinn og söfn og gestastofur heimsóttar. Verkefni þessa dags var að skoða hvernig upplýsingar eru settar fram á mismunandi hátt og velt vöngum yfir hvernig best sé að gera það. Auk þess þurftu þátttakendur að nýta það sem þeir höfðu lært dagana á undan með því að standa fyrir kynningu eða hópefli fyrir aðra þátttakendur.

Almenn ánægja ríkti með námskeiðið og töldu allir þátttakendur að það kæmi sér vel fyrir starfandi einstaklinga í ferðaþjónustu hvar sem er í heiminum.Næsta námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið í Kajaani í Finnlandi í maí þar sem námskeið um Customer Knowledge verður prufukeyrt. Nánar má lesa um ADVENT verkefnið á www.adventureedu.eu

Ingunn Ósk fær að æfa með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Ingunn Ósk Grétarsdóttir

Undanfarin ár hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands staðið fyrir hljómsveitarskóla til að kynna fyrir ungmennum hinn sinfóníska heim og gefa um leið áhugasömum nemendum tækifæri til að njóta þjálfunar og leiðsagnar í hljómsveitarleik líkt og um atvinnumennsku væri að ræða. Á hverju vori eru haldin inntökupróf fyrir hljómsveitarskólann og þeir sem komast þar inn fá að æfa með hljómsveitinni í hálfan mánuð á haustin. Í Ungsveitinni eru gerðar miklar kröfur um faglega frammistöðu og í lok hljómsveitarskólans hafa verið haldnir tónleikar fyrir almenning.
Ingunn Ósk Grétarsdóttir hefur lært á þverflautu í 8 ár í Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu og lauk miðprófi síðastliðið vor. Hún hefur lengi haft áhuga á klassískri tónlist og fylgst með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hún ákvað að sækja um í Ungsveitina og þá þarf að þreyta inntökupróf. Þau voru haldin 26. mars fyrir þverflautu og í Reykjavík. Ingunn ætlaði að fara til Reykjavíkur til að taka inntökuprófið en þá vildi svo til að ekki var flug þann daginn. Ingunn Ósk er einn margra nemenda í FAS sem er í samstarfsverkefninu með Danmörku en nemendur úr danska skólanum voru einmitt hér í síðustu viku og því erfitt að fara frá. Því var brugðið á það ráð að nýta tækniherbergi FAS og taka upp flautuleikinn og senda. Það er skemmst frá því að segja að Ingunn Ósk stóðst inntökuprófið og fær það frábæra tækifæri að æfa með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar í september.
Að sjálfsögðu óskum við Ingunni til hamingju og velfarnaðar í þessu skemmtilega verkefni. Þess má í lokin geta að Ingunn Ósk spilar í föstudagshádegi á Nýtorgi 5. apríl.

Góðir gestir frá Danmörku

God nabo hópurinn.

Það hefur heldur betur verið líf í Nýheimum þessa vikuna en hjá okkur hafa verið tæplega 50 Danir. Það eru nemendur og kennarar úr samstarfsskólanum í Faarevejle en í vetur hafa þessir tveir skólar unnið saman undir merkjum Nordplus.
Hópurinn kom til landsins á mánudag og til Hafnar á þriðjudag. Dagana hér eystra vinna krakkarnir að ýmsum verkefnum sem tengjast Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Sérstaklega er verið að skoða markmið 12, 13 og 14 sem lúta að breytingum í sjó og loftslagsbreytingum. Einnig hafa gestirnir heimsótt bæði fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu og hafa bæði séð og upplifað margt nýtt. Sérstaklega finnst þeim veðrið breytilegt hjá okkur.
Danirnir flugu hingað með WOW en eins og flestir vita er það flugfélag ekki lengur til. Það hefur verið unnið hörðum höndum að því að finna flug heim og nú rétt áðan fékk hópurinn að vita að þeir fá flug heim seinni partinn á sunnudag. Það er mikill léttir að búið sé að finna lausn á heimferðinni.
Hópurinn fer á morgun til Reykjavíkur með viðkomu á Gullfossi, Geysi og Þingvöllum og gistir í Reykjavík.