Nýsköpunarverkefni í FAS tengt jöklaferðamennsku

Undanfarin þrjú ár hefur FAS leitt Erasmus+ menntaverkefnið ADVENT þar sem leitast var við að efla menntun, þróa og prófa nýjungar í ferðaþjónustu. Þetta verkefni var m.a. í samstarfi og samvinnu við ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Verkefnið tókst vel og margar nýjungar í afþreyingu litu dagsins ljós, ekki hvað síst í tengslum við jöklaferðir.

Nú hefur Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gert samning við FAS og veitt skólanum styrk til að efla menntun og rannsóknir á sviði jöklaferðamennsku. Markmið verkefnisins er að styðja við fyrirtæki sem starfa innan Vatnajökulsþjóðgarðs við að þróast og byggja sig upp með því að tengja menntun og rannsóknir við þarfir þeirra sem starfa í greininni.

Verkefninu verður í fyrstu stýrt af FAS og Háskólasetrinu á Höfn en gert er ráð fyrir að aðrir tengdir jöklaferðamennsku eigi fulltrúa í stýrihópi. Verkefnisstjóri mun vinna náið með stýrihóp að útfærslu og framkvæmd verkefnisins og gagnvirkri samvinnu við alla þátttakendur í verkefninu. Gert er ráð fyrir að verkefninu verði lokið í apríl 2021.

Seinni partinn í janúar verður öllum fyrirtækjum sem eru með starfsleyfi til jöklaferðamennsku í þjóðgarðinum boðin þátttaka í verkefninu. Hvert fyrirtæki getur nýtt sér verkefnið á þann hátt sem því gagnast best en ætlunin er að búa til gagnvirkt, skapandi fagsamfélag þar sem fólk miðlar af þekkingu sinni og reynslu og styrkir um leið nýsköpun hópsins í heild.

Nú hvetjum við alla sem að vinna við ferðir tengdar jöklum til að bregðast við boði um að taka þátt í spennandi verkefni og bæði miðla af reynslu sinni og læra af öðrum.

Unga fólkið og Heimsmarkmiðin

Undanfarið hafa bæði ríkistjórn landsins og sveitarfélagið unnið að því að kynna Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að bæta lífskjör og hag allra. Það hafa verið haldnir margir fundir þar sem íbúar eru fengnir tll að koma að því að móta stefnu sveitarfélagsins til framtíðar.
Í dag var komið að því að hlusta á raddir unga fólksins og heyra hvað þau hafa til málsins að leggja. Matthildur bæjarstjóri boðaði til fundar með nemendum bæði í FAS og Heppuskóla. Eftir stutta kynningu á viðfangsefni fundarins fengu nemendur tækifæri til að koma sínum áherslum á framfæri með því að svara tilteknum spurningum. Nokkrir tugir nemenda tóku þátt og það er óhætt að segja að alls konar hugmyndir komu fram.
Sveitarfélagið mun svo á næstunni vinna úr hugmyndum sem komu fram og nýta til innleiðingar Heimsmarkmiðanna. Í febrúar á svo að skrifa undir samning þar sem sveitarfélagið skuldbindur sig til að innleiða markmiðin.

Sviðslistir í boði í FAS fyrir alla

Á vorönn 2021 býður FAS upp á sviðslistaáfanga í leiklist og kvikmyndagerð. Tvær stuttmyndir verða unnar í áfanganum og munu allir nemendur koma að hvorri mynd sem tæknihópur og leikarar. Þessi áfangi er tilvalinn fyrir fólk sem sækist eftir grunnþekkingu í vinnu við gerð kvikmynda eða hefur áhuga á frekara kvikmyndanámi. Einnig þjálfun í framkomu og raddbeitingu. Áfanginn verður kenndur á miðvikudögum frá 8:00 til 12:30 og er gert ráð fyrir náinni samvinnu hópsins og lögð áhersla á 100% mætingu í tíma.

Þessi áfangi er líka í boði fyrir fólk utan skólans og er upplagður fyrir þá sem eru atvinnuleitendur en þeir mega taka allt að 12 einingum án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Námið hefst miðvikudaginn 20 janúar næstkomandi. Kennarar verða þeir Stefán Sturla og Skrýmir Árnason sem veitir nánari upplýsingar en hann hefur netfangið skrymir@fas.is

Umsóknarform er hægt að nálgast hér

 

Hæfnimat í fjallamennsku

Í dag byrjaði hæfnimat fyrir fólk með reynslu úr fjallamennsku. Á síðustu önn var ákveðið að bjóða upp á þennan valmöguleika í tengslum við verkefnið Nám er tækifæri sem Vinnumálastofnun stendur fyrir.
FAS ákvað að bjóða þeim sem hafa einhverja reynslu úr fjallamennsku að ganga í gegnum hæfnimat á því námi sem átti sér stað á haustönninni í fjallamennsku. Standist nemendur hæfnimat munu þeir stunda nám í fjallamennsku á vorönninni og hafa möguleika á því að ljúka brautinni í vor. Þetta mæltist vel fyrir og allir þeir sem sóttu um fyrir tilskilinn tíma og uppfylltu skilyrðin fyrir inntöku í námið fengu námsvist. Núna eru hingað mættir 15 nemendur víðs vegar af landinu og munu þeir eyða helginni hér, bæði innandyra og eins úti í náttúrunni.
Það má með sanni segja að það séu spennandi tímar í fjallamennskunáminu. Þegar þessir nemendur hafa lokið hæfnimati verða 40 nemendur skráðir á brautina í tveimur aðskildum hópum.
Þá má líka segja frá því að farið er að huga að framhaldsnámi í fjallamennsku sem vonandi verður í boði í haust.

 

 

FAS keppir í Gettu betur í kvöld

Eins og undanfarin ár keppir FAS í Gettu betur. Þegar lið voru dregin sama kom í ljós að FAS keppir við lið Menntaskólans í Kópavogi og verður viðureignin í kvöld, 5. janúar. Viðureigninni verður útvarpað á Rás 2 og munu liðin keppa klukkan 20:20.
Lið FAS er skipað þeim Ingunni Ósk Grétarsdóttur, Júlíusi Aroni Larssyni og Selmu Ýr Ívarsdóttur. Keppnin leggst vel í krakkana og þau hlakka til kvöldsins. Þegar spurt var um undirbúning sögðust þau hafa verið nokkuð dugleg að undirbúa sig í jólafríinu.
Vegna sóttvarnarreglna er ekki hægt að koma og horfa á viðureignina en við hvetjum alla til að stilla á Rás 2 í kvöld og fylgjast með okkar fólki og senda þeim góða strauma. Að sjálfsögðu óskum okkar fólki góðs gengis í kvöld.

Skólastarf vorannar hafið

Skólastarf vorannarinnar hófst formlega í dag með skólasetningu. Það var þó óvenjulegt að þessu sinni því það var bæði hægt að mæta í skólann og einnig að vera á Teams. Í kjölfarið voru umsjónarfundir sem bæði voru í stofu og á Teams.
Þann 1. janúar tók gildi ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar sem gildir til 28. febrúar. Þar er kveðið á um að fjöldi í hverju rými geti verið allt að 30. Ef fjarlægð á milli manna nær tveimur metrum þarf ekki að hafa grímu. Þá er blöndun á milli hópa leyfileg. Þess vegna getum við verið með skólahald með nánast hefðbundnu sniði en þó þurfa allir að gæta vel að sóttvörnum.
Kennsla hefst svo 5. janúar samkvæmt stundaskrá og við hlökkum til annarinnar og ganga mót hækkandi sól.