Verklegir áfangar í FAS

Það er auðveldara í sumum áföngum en öðrum að skipta yfir í fjarkennslu. Það er t.d. í flestum tilfellum auðveldara að skipta yfir í fjarkennslu í bóklegum greinum.

List- og verkgreinakennarar í FAS bregðast þó við aðstæðum og þá skiptir máli að hafa ímyndunaraflið í lagi. Við tókum stöðuna í verklegum greinum í dag: Í verklegum íþróttum sjá nemendur sjálfir um sína hreyfingu sem þau skrá niður í OneNote. Hægt er að nota snjalltæki til að fylgjast með t.d hversu langt er gengið eða taka púls. Í matreiðslu elda eða baka nemendur einu sinni í viku. Það þarf að senda uppskriftina til kennara og einnig myndband bæði af eldamennskunni og því sem er matreitt. Það er gott ef fjölskyldan getur tekið þátt með því að smakka og gefa álit sitt á því sem er búið til. Kennari sendir nemendum einnig fræðsluefni til að lesa. Í sjónlistum hittast nemendur og kennarar samkvæmt stundatöflu í fjarkennslu á Teams. Þá verða vikulegir fundir á Teams í tómstundum. Í leiklist hefur verið tekin sú ákvörðun að hætta við sýningu á Bláa hnettinum. Það finnst okkur mjög leiðinlegt því það var farið að styttast í frumsýningu. Í athugun er hvort hægt verði að sýna leikritið í haust. Kennarar á lista- og menningarsviði eru að safna saman efni til að senda á nemendur. Þeir ætla að nýta sér Adobe forritið og þessa dagana er verið að gera það aðgengilegt fyrir nemendur.

Umsjónarnemendur á lista- og menningarsviði fá fastan fundartíma á föstudögum klukkan 13.30. Sá fundur verður í gegnum Teams og munu nemendur fá fundarboð fljótlega.

 

Skilaboð frá stoðteyminu

Komið þið sælir kæru nemendur,

Á meðan þetta ástand varir mun margt vera öðruvísi og ljóst að meira mæðir á öllum. Á meðan kennarar og nemendur finna taktinn í hvernig kennslan fer fram þá er nauðsynlegt að draga djúpt andann og muna að þessu ástandi mun linna. Foreldrar og forráðamenn skipta miklu máli í þessu öllu saman, gott að hvetja nemendur áfram og reiða fram hjálparhönd ef þess þarf og aðstæður leyfa.

Við hér í stoðteymi FAS erum öll að vilja gerð að veita þá aðstoð sem við getum veitt og hvetjum ykkur til að hafa samband. Við munum vera til staðar í gegnum netspjall (Teams) og tölvupósta auk þess sem hægt er að spjalla saman í síma. Einnig hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með á Instagram en þar munum við deila með ykkur hjálplegum ráðum.

Fagkennarar geta alltaf veitt betri upplýsingar sem snúa beint að náminu og ég minni á að allir nemendur eiga einnig umsjónarkennara sem gott er að geta snúið sér til.

Númer eitt, tvö og þrjú er að leggja ekki árar í bát heldur standa saman og muna að við komumst yfir þetta.

Bestu kveðjur,

Fríður fridur@fas.is

Aðalheiður adalheidurth@fas.is

Nýnemaviðtölum frestað vegna COVID-19

Vegna takmörkunar  á skólastarfi í FAS verður nýnemaviðtölum frestað í óákveðinn tíma. Við hvetjum ykkur þó til að ljúka við skráningu í framhaldsskóla þrátt fyrir að viðtöl fari ekki fram.

Frestur til forinnritunar rennur út 13. apríl næstkomandi. Sjá hér nánar um skráningu í framhaldskóla: https://mms.is/um-innritun. Hægt er að skoða allar námsbrautir á heimasíðum skólanna, t.d á fas.is.

Viðtöl munu fara fram eins fljótt og auðið er. Þá er hægt að yfirfara skráningu og breyta ef þess þarf. Ef einhverjar spurningar vakna hikið þá ekki við að hafa samband.

Bestu kveðjur,

Fríður Hilda Hafsteinsdóttir, starfs- og námsráðgjafi (fridur@fas.is) og Hildur Þórsdóttir, áfangastjóri (hildur@fas.is)

Skólahald fellur niður í FAS

Samkvæmt ákvörðun yfirvalda þá fellur skólahald í FAS niður næstu fjórar vikur. Í samræmi við þetta hafa eftirfarandi ákvarðanir verið teknar varðandi skólahald í FAS:

 • Miðað við skóladagatal FAS þá fellur skólahald niður frá 16. mars til 3. apríl.
 • Mjög mikilvægt að skoða FAS póstinn daglega.
 • Nám og kennsla mun halda áfram á fjarkennsluformi.
 • Allir nemendur eru nú skilgreindir sem fjarnemendur og fá U í Innu.
 • Kennsla fer fram samkvæmt stundaskrá, fyrsti tími í öllum áföngum verður kenndur í gegnum Office Teams. Hægt er að tengjast í gegnum tölvur og snjalltæki.
 • Leiðbeiningar um notkun Teams
 • Þeir nemendur sem mæta á Teams fundi fá merkta mætingu í Innu.
 • Kennari í hverjum áfanga upplýsir nemendur um fyrirkomulag að öðru leyti.
 • Nemendur geta nálgast bækurnar sínar og önnur námsgögn í skólann.
 • Mikilvægt að skoða FAS vefinn reglulega.
 • Veitingasala Nýheima verður lokuð.

Mikilvægt er að nemendur séu virkir og beri ábyrgð á námi sínu. Ef það kemur til vandræða þá skal leita eftir aðstoð. Sendið póst á viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða námsráðgjafa.
Foreldrar eru hvattir til að styðja og hvetja nemendur til þrautseigju á þessum óvissutímum.

 

Starfsfólk FAS

Meira um viðbrögð vegna veirunnar COVID-19

Í morgun var haldinn fundur með nemendum og starfsfólki FAS. Þar var öllum bent á tengilinn á heimasíðu FAS þar sem er að finna allar nýjustu upplýsingar sem varða veiruna. Við leggjum mikla áherslu á að allir skoði þá síðu reglulega sem og fréttasíðu skólans þar sem ávallt verður að finna nýjustu upplýsingar um áhrif veirunnar á skólastarfið.

Komi til þess að skólanum verði lokað mun skólastarf halda áfram í langflestum áföngum í gegnum fjarkennslu. Tveir starfsmenn ákváðu t.d. að fara varlega og kenndu að heiman í dag. Þó kennari sé ekki á staðnum er hægt að halda uppi kennslu í gegnum fjarfundabúnað. Nemendur sátu í skólastofunni og fylgdust með á skjá og gátu bæði hlustað á útskýringar og spurt spurninga.

 

Viðbrögð í FAS við COVID-19

Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að óvenjulegt ástand er í þjóðfélaginu vegna COVID-19 veirunnar. Þess vegna hefur verið settur tengill á síðu FAS  á síðu landlæknis þar sem öllum upplýsingum sem máli skipta er komið á framfæri. Við hvetjum alla til að skoða þá síðu reglulega til að vera sem best upplýstir.

Upplýsingar og ákvarðanir sem lúta að FAS sérstaklega verða birtar hér á fréttasíðu FAS. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að hætta við ferð nemenda og kennara í fjallamennsku til Skotlands. Einnig að sjálfsafgreiðslu í veitingasölunni hefur verið hætt og er nú skammtað á diska. Þetta er gert til að draga úr hættu á smiti. Í skoðun er hvort sýningar verði á Bláa hnettinum í lok þessa mánaðar eins og fyrirhugað var. Varðandi þrif í húsinu þá eru snertifletir þrifnir sérstaklega á hverjum degi og borð og stólar oftar en áður.

Á þessum tímum er mikilvægt að allir fari að leiðbeiningum landlæknis varðandi handþvott, hegðun og þrif. Á þann hátt getum við dregið úr líkum á smiti.

Á morgun, fimmtudag 12. mars klukkan 9:50 verður fundur á Nýtorgi með nemendum og starfsfólki um viðbrögð FAS við COVID-19 og ætlumst við til að allir mæti þar.