Málalok

Á þessari önn var sjónlistaráfanginn SJLI3VE05 kenndur í FAS og voru fjórir nemendur skráðir. Hver nemandi valdi sér þema í byrjun annar og vann með það út önnina í þeim tilgangi að setja upp sýningu í lok annar. Þemun sem nemendur völdu voru: andlit, bláar myndir, tré og útsýni.

Myndlistasýning sem fékk nafnið „Málalok“ var opnuð í Miklagarði 8. desember síðastliðinn og var opin um helgina. Þar gaf að líta verkefni annarinnar. Um 140 manns mættu á sýninguna sem er góð aðsókn á þeim tíma sem jólaundirbúningur er að ná hámarki.
Við viljum þakka listamönnunum og  þeim sem að mættu fyrir að gera þetta svona vel heppnaðan og  skemmtilegan viðburð.

 

Frá vinstri: Svafa Herdís Jónsdóttir, Ólafía Ingibjörg Gísladóttir, Páll E Kristjánsson og Ísabella Ævarsdóttir.

Gersemi í grjóti

Undanfarnar vikur hafa nemendur í jarðfræði verið að læra um grjót og hvernig eigi að greina það. Þar skiptir t.d. miklu máli hvort bergið hafi myndast í eldgosi eða á annan hátt. Auðvitað er hægt að finna helling um steina í bókum en það er samt alltaf best að skoða það sem er í umhverfinu. 

Í síðustu viku fór hópurinn í gönguferð út að Leiðarhöfða og skoðaði það sem bar fyrir augu. Og það má með sanni segja að náttúran geti sýnt á sér margar hliðar því frá ákveðnu sjónarhorni mátt sjá vígalegan risa blasa við.

Í gær brugðu nemendur sér í heimsókn á Leiruna til Kidda frá Dilksnesi og Jónu Bennýjar en Kiddi  hefur safnað grjóti um langt skeið. Auk þess að skoða garðinn hans fórum við í heimsókn á Heppuna þar sem hann hefur aðstöðu til að vinna úr steinunum. Þar eru áform um að opna steinasafn þar sem  m.a. verður hægt að skoða fallega steina og hvernig þeir eru unnir.

Við þökkum þeim Kidda og Jónu Bennýju kærlega fyrir að taka á móti okkur.

 

Amnesty International í FAS

Það er nú ýmislegt fleira en námið sem margir nemendur okkar í FAS eru að fást við. Og oft á tíðum eru það mikilvæg málefni sem varða okkur öll.

Í síðasta fréttabréfi Amnesty International er m.a. sagt frá öflugu starfi ungliðahreyfingar Amnesty á Íslandi. Og á myndum sem fylgja má sjá kunnugleg andlit úr skólanum en síðustu ár hafa nokkrir af nemendum okkar verið virkir í starfsemi Amnesty og tekið þátt í starfsemi samtakanna. Landinu er skipt upp í nokkra hluta en Höfn fylgir Austurlandi og á því svæði er mjög öflug starfsemi. Á síðasta skólaári stóðu ungliðar úr FAS ásamt öðrum félagsmönnum á svæðinu fyrir fræðslufundi um störf Amnesty. Amnesty var sýnilegt á Humarhátíðinni síðasta sumar og voru með bás á hátíðasvæðinu. Þá tóku nokkrir félagar héðan þátt í Reykjavík Pride en þar er verið að vekja athygli á minnihlutahópum í þjóðfélaginu.

Amnesty stendur m.a. fyrir bréfamaraþoni sem er löngu orðinn árlegur viðburður þar sem er verið að vekja athygli á erfiðum aðstæðum þeirra sem láta sig mannréttindi varða og berjast fyrir réttlæti í heiminum. Um þessar mundir er bréfamaraþonið að fara af stað. Veitt eru verðlaun fyrir flestar undirskriftir annars vegar og flestar undirskriftir á höfðatölu hins vegar. Síðustu þrjú árin hefur FAS skorað hátt í maraþoninu. Í næstu viku er ætlunin að hvetja alla í FAS til að taka þátt, einnig verður hægt að taka þátt á aðventuhátíð í Nýheimum næstkomandi laugardag og á þriðjudag í næstu viku verður bréfamaraþon á opnu húsi í Heppuskóla. Það er alltaf hægt að skrifa undir rafrænt og við hvetjum alla til að taka þátt en munið eftir að merkja við FAS.

Það fer vel saman að starfa í skemmtilegum félagsskap og um leið að láta gott af sér leiða. Að sjálfsögðu er þetta allt sjálfboðavinna sem er svo mikilvægur þáttur í hverju samfélagi.

 

 

Ljósmyndasýning og frumsýning stuttmyndar

Síðasta föstudag opnuðu nemendur í ljósmyndun sýningu á Nýtorgi.  Nemendur hafa á önninni lært undirstöðuatriði í ljósmyndun en einnig einbeitt sér að hugmyndavinnu og er sýningin afrakstur hennar. Síðustu vikur annarinnar munu nemendur spreyta sig á stúdíóljósmyndun. Á vorönn heldur námið áfram og þá verður haldið eins langt frá stafrænni tækni og komist verður og nemendur smíða sér svokallaða Pinhole myndavél og taka myndir á hana. Síðan tekur við ljósmyndun á filmu, svarthvít framköllun og stækkun og að endingu vinna nemendur að lokaverkefnum sem sýnd verða í vor. Ljósmyndun í FAS er námslína sem spannar tvær annir en auk þess er hægt að bæta við þriðju önninni í formi verkefnaáfanga.

Á föstudaginn frumsýndi Ísar Svan Gautason stuttmyndina Kaffi sem hann gerði í verkefnaáfanga í kvikmyndagerð. Myndina má sjá hér: [embedyt] https://www.youtube.com/watch?v=crwQZA4989s[/embedyt]

Wiktoria bikarmeistari í Fitness

Um síðustu helgi fór fram mót í Fitness. Mótið var haldið í Háskólabíói og voru alls um 90 keppendur. Einn þeirra flokka sem var keppt í heitir Bodyfitness kvenna og þar keppti Wiktoria Darnowska sem er nemandi í FAS. Hún náði þeim frábæra árangri að vera efst í unglingaflokki, í sjötta sæti í sínum hæðarflokki og í heildina var hún í þriðja sæti.
Wiktoria byrjaði að æfa líkamsrækt fyrir um það bil tveimur árum. Það hefur lengi verið draumur hjá henni að keppa í fitnessmóti. Í janúar síðast liðnum ákvað hún að taka þátt í þessari keppni.
Það er að mörgu að huga þegar á að taka þátt í móti sem þessu.
Dómarar meta heildarútlit líkamans í öllum lotum með hliðsjón af samræmi, áferð og lögun vöðvanna, hóflegri líkamsfitu en einnig er tekið tillit til förðunar, hárs og framkomu hvers og eins. Fas og glæsileiki skiptir máli. Margir telja þessa keppnisgrein heppilega fyrir konur sem æfa mikið og vilja fylgja heilbrigðu mataræði og lífsstíl. Öllu máli skiptir þó að hafa góða leiðsögn. Þjálfari Wiktoriu er staðsettur í Reykjavík en hún æfir í Sporthöllinni. Að sögn Wiktoriu skiptir mataræðið hvað mestu máli því ef ekki er borðað rétt verður enginn árangur.
Wiktoria var að vonum ánægð með árangurinn á þessu fyrsta móti sínu og ætlar að halda ótrauð áfram.
Við í FAS óskum henni til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.