Gettu Betur – Sigur

– Uppfært : FAS hafði betur gegn Framhaldsskólanum á Húsavík 19-9 og eru kominn áfram í næstu umferð.

Líkt og undanfarin ár tekur Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu þátt í Gettu Betur. Liðið að þessu sinni skipa þau Björgvin Freyr Larsson, Ingunn Ósk Grétarsdóttir og Oddleifur Eiríksson en þjálfari liðsins er Sigurður Óskar Jónsson, fyrrum nemandi í FAS og þátttakandi í Gettu Betur. Síðustu mánuði hafa farið fram stífar æfingar hjá liðinu en varamenn hafa einnig tekið þátt í þeim.

Í kvöld, 6. janúar, mun fyrsta viðureign keppninnar fara fram en Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu keppir á móti Framhaldsskólanum á Húsavík klukkan 20:30. Keppninni verður ekki útvarpað en hægt er að nálgast hana á vefnum ef smellt er á meðfylgjandi hlekk. Við sendum liðinu góða strauma með von um gott gengi.

https://www.ruv.is/null

Fleiri styrkir til FAS

FAS hefur lagt mikla áherslu á erlent samstarf á liðnum árum og er ekkert lát á því. Þetta samstarf hefur m.a. verið styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+ og Nordplus svo eitthvað sé nefnt. Tvö verkefni eru í gangi þessi misserin; annað tengist listasviði skólans og hitt menntun í ferðaþjónustu og útivist.

Það er gaman að greina frá því að FAS hefur nýlega hlotið tvo nýja styrki frá Erasmus+ fyrir verkefni sem bæði tengjast menntun á sviði ferðaþjónustu og fjallamennsku. Annað verkefnið kallast Aukin fagmennska í fjallamennskunámi. Þetta er nemenda- og kennaraskiptaverkefni sem felst í því að tveir nemendur og kennarar sem tengjast fjallamennskusviði skólans fá styrk til að fara erlendis í tveggja vikna náms- og kynnisdvöl. Skóli í Skotlandi, The school of adventure studies hefur orðið fyrir valinu sem samstarfsskóli en hann er hluti af háskólanum The University of the Highlands and Islands. Stefnt er að því að fara í þessa námsferð í mars 2020. Þetta finnst okkur frábært því dvölin ytra verður bæði viðbót og dýpkun á því sem nemendur hafa þegar lært í fjallamennskunáminu í FAS.

Hitt verkefnið er samstarfsverkefni sex landa; Portúgals, Bretlands, Slóveníu, Írlands, Danmerkur og Íslands. Verkefnið heitir á ensku Destinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions, skammstafað DETOUR. Þetta er ekki nemendaskiptaverkefni en snýst um að kanna og hanna leiðir til að efla heilsutengda ferðaþjónustu í tengslum við áfangastaði, menntastofnanir og ferðaþjónustufyrirtæki í nærumhverfi þátttökustofnananna. Þetta er tveggja ára verkefni sem hefst í desember. Það verður gaman að fylgjst með framvindu þessara verkefna.

Uppbrot 22.1 kl 09:00

Ragnheiður Rafnsdóttir skólahjúkrunarfræðingur segir frá vinnunni við að fara yfir skimunarlistana sem nemendur svöruðu á haustönn. Einnig fjallar hún almennt um líðan og að hver og einn taki ábyrgð á heilsu sinni.

Fríður Hafsteinsdóttir náms- og starfsráðgjafi segir frá sínu starfssviði.

Jólafrí og vorönn 2018

Skólastarfi haustannarinnar lýkur formlega í dag og allar einkunnir eiga að vera komnar í Innu fyrir lok dagsins.  Um leið er komið jólafrí. Það verður örugglega kærkomið að leggja skræðurnar til hliðar um stund og jafnvel lúra lengur í skammdeginu.

Skólastarf vorannar hefst fimmtudaginn 4. janúar klukkan 10 en þá verður skólinn settur. Í kjölfarið verða umsjónarfundir þar sem nemendur fá afhentar stundaskrár. Kennsla hefst svo föstudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og vonar að nýtt ár verði öllum gott og gæfuríkt.

Fjarnám í FAS

Undanfarnar annir hefur FAS verið að auka framboð á fjarnámi. Langflestir áfangar sem eru í boði í skólanum eru nú einnig fjarnámsáfangar. Helstu áherslur í fjarnámi eru persónuleg þjónusta við nemendur og ekki eru lengur lokapróf í áföngum en í staðinn ræða nemendur og kennari saman um það sem hefur áunnist á önninni. Vegna þessa hefur hlutfall fjarnemenda aukist jafnt og þétt við skólann.

Helsta markmið skólans er að bjóða fjarnemendum upp á persónulega þjónustu. Kennarar hafa samband við nemendur í upphafi annar í gegnum Skype eða aðra samskiptamiðla til að koma á tengslum. Allt námsefni er sett upp á Kennsluvef og er leitast við að hafa skipulag sem einfaldast og skýrast. Stutt myndbönd fylgja námsefninu þar sem farið er í helstu atriði. Nemendur skila verkefnum í gegnum Kennsluvefinn.

Núna í lok haustannar lagði Þekkingasetur Nýheima fyrir könnun meðal fjarnemenda um námið í FAS. Í úrvinnslu gagna fær FAS almennt mikið lof frá nemendum og kemur skólinn  vel út í samanburði þeirra sem hafa reynslu af fjarnámi við aðra skóla. „Sanngjörn gjöld, góð samskipti við kennara, persónuleg þjónusta og engin lokapróf“ voru þeir þættir sem oftast voru nefndir sem þeir eiginleikar sem FAS hefur umfram aðra skóla.

 

 

 

Þegar fjarnemendur voru spurðir hvort þeir hefðu ábendingar til þeirra sem hygðu á nám vildu þeir koma eftirfarandi á framfæri:

„Ég mæli með FAS fyrir alla og tel hann fyrirmynd annarra skóla, ódýr og þægilegur.“ og “Mjög gott að vera í fjarnámi frá FAS.“

 

Hægt er að skrá sig í nám í FAS til 10. janúar með því að smella hér.

Hægt er að skoða námsframboð á vorönn 2018 hér.