Skilaboð frá stoðteyminu

Komið þið sælir kæru nemendur,

Á meðan þetta ástand varir mun margt vera öðruvísi og ljóst að meira mæðir á öllum. Á meðan kennarar og nemendur finna taktinn í hvernig kennslan fer fram þá er nauðsynlegt að draga djúpt andann og muna að þessu ástandi mun linna. Foreldrar og forráðamenn skipta miklu máli í þessu öllu saman, gott að hvetja nemendur áfram og reiða fram hjálparhönd ef þess þarf og aðstæður leyfa.

Við hér í stoðteymi FAS erum öll að vilja gerð að veita þá aðstoð sem við getum veitt og hvetjum ykkur til að hafa samband. Við munum vera til staðar í gegnum netspjall (Teams) og tölvupósta auk þess sem hægt er að spjalla saman í síma. Einnig hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með á Instagram en þar munum við deila með ykkur hjálplegum ráðum.

Fagkennarar geta alltaf veitt betri upplýsingar sem snúa beint að náminu og ég minni á að allir nemendur eiga einnig umsjónarkennara sem gott er að geta snúið sér til.

Númer eitt, tvö og þrjú er að leggja ekki árar í bát heldur standa saman og muna að við komumst yfir þetta.

Bestu kveðjur,

Fríður fridur@fas.is

Aðalheiður adalheidurth@fas.is

Nýnemaviðtölum frestað vegna COVID-19

Vegna takmörkunar  á skólastarfi í FAS verður nýnemaviðtölum frestað í óákveðinn tíma. Við hvetjum ykkur þó til að ljúka við skráningu í framhaldsskóla þrátt fyrir að viðtöl fari ekki fram.

Frestur til forinnritunar rennur út 13. apríl næstkomandi. Sjá hér nánar um skráningu í framhaldskóla: https://mms.is/um-innritun. Hægt er að skoða allar námsbrautir á heimasíðum skólanna, t.d á fas.is.

Viðtöl munu fara fram eins fljótt og auðið er. Þá er hægt að yfirfara skráningu og breyta ef þess þarf. Ef einhverjar spurningar vakna hikið þá ekki við að hafa samband.

Bestu kveðjur,

Fríður Hilda Hafsteinsdóttir, starfs- og námsráðgjafi (fridur@fas.is) og Hildur Þórsdóttir, áfangastjóri (hildur@fas.is)

Skólahald fellur niður í FAS

Samkvæmt ákvörðun yfirvalda þá fellur skólahald í FAS niður næstu fjórar vikur. Í samræmi við þetta hafa eftirfarandi ákvarðanir verið teknar varðandi skólahald í FAS:

 • Miðað við skóladagatal FAS þá fellur skólahald niður frá 16. mars til 3. apríl.
 • Mjög mikilvægt að skoða FAS póstinn daglega.
 • Nám og kennsla mun halda áfram á fjarkennsluformi.
 • Allir nemendur eru nú skilgreindir sem fjarnemendur og fá U í Innu.
 • Kennsla fer fram samkvæmt stundaskrá, fyrsti tími í öllum áföngum verður kenndur í gegnum Office Teams. Hægt er að tengjast í gegnum tölvur og snjalltæki.
 • Leiðbeiningar um notkun Teams
 • Þeir nemendur sem mæta á Teams fundi fá merkta mætingu í Innu.
 • Kennari í hverjum áfanga upplýsir nemendur um fyrirkomulag að öðru leyti.
 • Nemendur geta nálgast bækurnar sínar og önnur námsgögn í skólann.
 • Mikilvægt að skoða FAS vefinn reglulega.
 • Veitingasala Nýheima verður lokuð.

Mikilvægt er að nemendur séu virkir og beri ábyrgð á námi sínu. Ef það kemur til vandræða þá skal leita eftir aðstoð. Sendið póst á viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða námsráðgjafa.
Foreldrar eru hvattir til að styðja og hvetja nemendur til þrautseigju á þessum óvissutímum.

 

Starfsfólk FAS

Skólahald fellur niður

Vegna rauðrar viðvörunar og tilmæla frá viðbragðsaðilum mun skólahald í FAS falla niður á morgun 14. febrúar.

Leiklist í FAS

Í gær fimmtudaginn 9. janúar var haldinn kynningarfundur vegna uppsetningar á leikverki á vorönn.  Líkt og undanfarin ár vinnur skólinn með Leikfélagi Hornafjarðar að uppsetningunni.  Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason er viðfangsefnið og leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson.  Í texta um Bláa hnöttinn segir:

Á bláum hnetti lengst úti í geimnum búa ótal börn sem fullorðnast ekki. Þetta eru eiginlega villibörn því enginn skipar þeim fyrir verkum. Börnin sofna þar sem þau verða þreytt og borða þegar þau eru svöng en leika sér þar sem þeim dettur í hug. Eitt kvöldið þegar Brimir og Hulda eru stödd í Svörtufjöru birtist stjarna á himni sem stefnir beint á þau! Stjarnan lendir í fjörunni með mikilli sprengingu en í reyknum mótar fyrir skuggalegri veru sem starir út í myrkrið. Þá hefst hættulegt ævintýri sem leiðir börnin um myrka skóga, djúpa dali og loftin blá. Reynir þá sem aldrei fyrr á vináttu og ráðsnilld barnanna á bláa hnettinum.

Æfingar hefjast mánudaginn 20. janúar og áætluð frumsýning er í lok mars í Mánagarði.  Uppsetningin er hluti af námi á lista- og menningarsviði í FAS og koma allir kennarar sviðsins að henni.  Þátttaka í verkefninu er þó einnig opin fyrir aðra eins og verið hefur.