Uppbrot 22.1 kl 09:00

Ragnheiður Rafnsdóttir skólahjúkrunarfræðingur segir frá vinnunni við að fara yfir skimunarlistana sem nemendur svöruðu á haustönn. Einnig fjallar hún almennt um líðan og að hver og einn taki ábyrgð á heilsu sinni.

Fríður Hafsteinsdóttir náms- og starfsráðgjafi segir frá sínu starfssviði.

Jólafrí og vorönn 2018

Skólastarfi haustannarinnar lýkur formlega í dag og allar einkunnir eiga að vera komnar í Innu fyrir lok dagsins.  Um leið er komið jólafrí. Það verður örugglega kærkomið að leggja skræðurnar til hliðar um stund og jafnvel lúra lengur í skammdeginu.

Skólastarf vorannar hefst fimmtudaginn 4. janúar klukkan 10 en þá verður skólinn settur. Í kjölfarið verða umsjónarfundir þar sem nemendur fá afhentar stundaskrár. Kennsla hefst svo föstudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og vonar að nýtt ár verði öllum gott og gæfuríkt.

Fjarnám í FAS

Undanfarnar annir hefur FAS verið að auka framboð á fjarnámi. Langflestir áfangar sem eru í boði í skólanum eru nú einnig fjarnámsáfangar. Helstu áherslur í fjarnámi eru persónuleg þjónusta við nemendur og ekki eru lengur lokapróf í áföngum en í staðinn ræða nemendur og kennari saman um það sem hefur áunnist á önninni. Vegna þessa hefur hlutfall fjarnemenda aukist jafnt og þétt við skólann.

Helsta markmið skólans er að bjóða fjarnemendum upp á persónulega þjónustu. Kennarar hafa samband við nemendur í upphafi annar í gegnum Skype eða aðra samskiptamiðla til að koma á tengslum. Allt námsefni er sett upp á Kennsluvef og er leitast við að hafa skipulag sem einfaldast og skýrast. Stutt myndbönd fylgja námsefninu þar sem farið er í helstu atriði. Nemendur skila verkefnum í gegnum Kennsluvefinn.

Núna í lok haustannar lagði Þekkingasetur Nýheima fyrir könnun meðal fjarnemenda um námið í FAS. Í úrvinnslu gagna fær FAS almennt mikið lof frá nemendum og kemur skólinn  vel út í samanburði þeirra sem hafa reynslu af fjarnámi við aðra skóla. „Sanngjörn gjöld, góð samskipti við kennara, persónuleg þjónusta og engin lokapróf“ voru þeir þættir sem oftast voru nefndir sem þeir eiginleikar sem FAS hefur umfram aðra skóla.

 

 

 

Þegar fjarnemendur voru spurðir hvort þeir hefðu ábendingar til þeirra sem hygðu á nám vildu þeir koma eftirfarandi á framfæri:

„Ég mæli með FAS fyrir alla og tel hann fyrirmynd annarra skóla, ódýr og þægilegur.“ og “Mjög gott að vera í fjarnámi frá FAS.“

 

Hægt er að skrá sig í nám í FAS til 10. janúar með því að smella hér.

Hægt er að skoða námsframboð á vorönn 2018 hér.

Málalok

Á þessari önn var sjónlistaráfanginn SJLI3VE05 kenndur í FAS og voru fjórir nemendur skráðir. Hver nemandi valdi sér þema í byrjun annar og vann með það út önnina í þeim tilgangi að setja upp sýningu í lok annar. Þemun sem nemendur völdu voru: andlit, bláar myndir, tré og útsýni.

Myndlistasýning sem fékk nafnið „Málalok“ var opnuð í Miklagarði 8. desember síðastliðinn og var opin um helgina. Þar gaf að líta verkefni annarinnar. Um 140 manns mættu á sýninguna sem er góð aðsókn á þeim tíma sem jólaundirbúningur er að ná hámarki.
Við viljum þakka listamönnunum og  þeim sem að mættu fyrir að gera þetta svona vel heppnaðan og  skemmtilegan viðburð.

 

Frá vinstri: Svafa Herdís Jónsdóttir, Ólafía Ingibjörg Gísladóttir, Páll E Kristjánsson og Ísabella Ævarsdóttir.

Gersemi í grjóti

Undanfarnar vikur hafa nemendur í jarðfræði verið að læra um grjót og hvernig eigi að greina það. Þar skiptir t.d. miklu máli hvort bergið hafi myndast í eldgosi eða á annan hátt. Auðvitað er hægt að finna helling um steina í bókum en það er samt alltaf best að skoða það sem er í umhverfinu. 

Í síðustu viku fór hópurinn í gönguferð út að Leiðarhöfða og skoðaði það sem bar fyrir augu. Og það má með sanni segja að náttúran geti sýnt á sér margar hliðar því frá ákveðnu sjónarhorni mátt sjá vígalegan risa blasa við.

Í gær brugðu nemendur sér í heimsókn á Leiruna til Kidda frá Dilksnesi og Jónu Bennýjar en Kiddi  hefur safnað grjóti um langt skeið. Auk þess að skoða garðinn hans fórum við í heimsókn á Heppuna þar sem hann hefur aðstöðu til að vinna úr steinunum. Þar eru áform um að opna steinasafn þar sem  m.a. verður hægt að skoða fallega steina og hvernig þeir eru unnir.

Við þökkum þeim Kidda og Jónu Bennýju kærlega fyrir að taka á móti okkur.