Á slóðum Kristjáns fjórða

Í áfanganum DANS2SS05 í FAS eru nemendur að læra dönsku og kynna sér danska menningu, siði og venjur. Til dæmis hafa nemendur kynnt sér ævi og störf Kristjáns 4. konungs, sem ríkti í Danmörku, Noregi og Íslandi frá 1588 – 1648.
Hluti þessa náms var síðan náms- og kynnisferð til Danmerkur 13. – 16.  október síðast liðinn.  Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að sjá með eigin augum nokkrar af þeim byggingum, sem Kristján 4. lét reisa í Kaupmannahöfn.  En þar á meðal eru nokkrar fegurstu byggingar borgarinnar t.d. Rosenborg slot og Børssen.  Einnig var farið á söfn og að sjálfsögðu í Tívolíið.
Ferðin tókst í alla staði mjög vel og voru nemendur sammála um að þeir hefðu lært mikið um danskt samfélag.

Nemendur sóttu um styrki til fyrirtækja í sveitarfélaginu og viljum við færa þeim sem sáu sér fært að styrkja ferðina kærar þakkir. Okkur langar að benda á að þau fyrirtæki, sem ekki hafa lagt okkur lið geta gert það.  Reikningur í Landsbankanum er enn opinn.

                                                                                         Nemendur og kennari í DANS2SS05

 

Ferð að Fláajökli

Í dag var farið í árlega mælingaferð að Fláajökli. Það er Náttúrustofa Suðausturlands sem hefur umsjón með verkefninu en fyrir fáum árum var ákveðið að nemendur í jarðfræði í FAS fái að fara með og kynnast vinnubrögðunum við jöklamælinguna. Við mælingar á jöklinum er stuðst við GPS punkta og með því má fá mun nákvæmari niðurstöður en þegar beitt er t.d. þríhyrningamælingum. Upplýsingarnar eru settar í GIS gagnagrunninn sem er stafrænt landfræðilegt upplýsingakerfi sem m.a. vinnur út frá gögnum frá gervihnöttum. Út frá þessum upplýsingum er hægt að teikna mynd af stöðu jökulsins á hverjum tíma.

Það er einstaklega fallegur dagur í Hornafirði í dag og aðstæður til mælinga hinar ákjósanlegustu. Miklar breytingar eru á svæðinu fyrir framan Fláajökul frá því að síðast var farið. Næstu daga verður svo unnið úr niðurstöðunum. Það verður spennandi að sjá samanburð frá því í fyrra.

 

Skuggakosningar í FAS

Framboðsfundur í FAS

Eins og eflaust flestir vita á að kjósa til Alþingis laugardaginn 28. október næst komandi. Mikið hefur verið rætt um að þátttaka ungs fólks í kosningum fari minnkandi. Engu að síður er þó afskaplega mikilvægt að ungt fólk móti sér skoðanir og taki þátt í kosningum og verði þá um leið virkir þjóðfélagsþegnar. Á því byggir lýðræðið.
Í dag, miðvikudag 11. október komu nokkrir frambjóðendur til að kynna stefnu sinna flokka fyrir nemendur í FAS. Nánar er hægt að lesa um stefnumál flokkanna hér.

Á morgun, 12. október fara svo fram skuggakosningar í FAS. Þá geta nemendur kosið og munu kosningarnar fara fram í stofu 205 frá 9:00 – 16:00. Við hvetjum alla nemendur til að mæta á kjörstað og kjósa og láta þar með í ljós vilja sinn.

Rýnt í umhverfið

Það er margt í umhverfi okkar sem við veitum ekki athygli dags daglega en er þó sannarlega þess virði að eftir því sé tekið. Í dag brugðu nemendur sér á lista- og menningarsviði í FAS í vettfangsferð um Höfn með það að markmiði að veita umhverfinu athygli og jafnvel að nýta það til að veita sér innblástur.