Listviðburður í Gömlubúð

Við höfum áður sagt frá leiklistarnámskeiði sem hófst eftir áramótin þar sem þátttakendur beita fyrst og fremst heyfilist en þar er list tjáð með líkamanum. Þetta námskeið er hluti af námi nemenda á lista- og menningarsviði FAS og er einnig styrkt af SASS (Samtök sunnlenskra sveitarfélaga).

Í síðustu viku stóðu þátttakendur í leiklistarnámskeiðinu fyrir viðburði í Gömlubúð þar sem gamlar sögur voru tjáðar með hreyfingu. Þeir sem mættu á sýninguna voru spurðir í upphafi hversu mikilvægar gamlar sagnir væru í þeirra hugum.

Um 30 manns mættu í Gömlubúð og tóku margir þeirra virkan þátt í viðburðinum. Sýningin var sett saman úr nokkrum senum þar sem hreyfilist, bæði hjá einstaklingum og eins í hópum, stuttir textar og tónlist voru í fyrirrúmi. Til aðstoðar nemendum voru þau Lind og Skrýmir en það var Tess Rivarola sem hafði veg og vanda að sýningunni. Myndirnar tók Tim Junge.

Þeir sem mættu á viðburðinn voru sammála um að einkar vel hefði tekist til. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og sýningin var konfekt fyrir augu og eyru. Vonandi eigum við eftir að sjá aðra viðburði í svipuðum anda.

Tíundi bekkur heimsækir FAS

Í gær komu nemendur úr tíunda bekk grunnskólans í heimsókn í FAS en senn líður að því að nemendur sem ljúka grunnskóla í vor fari að huga að því hvað tekur við.

Eyjólfur skólameistari, nokkrir kennarar og fulltrúar úr nemendaráði tóku á móti hópnum og gestirnir fengu kynningu á námsframboði skólans og hvernig innritun í skólann er háttað. Einnig var sagt frá hvaða stuðningur og námsráðgjöf er í boði og hvernig félagslífið er uppbyggt. Í lok heimsóknarinnar gengu svo nemendur úr nemendaráði með gestunum um skólann og sýndu aðstöðuna. Um kvöldið var svo sambærileg kynning fyrir foreldra. Næstu daga býðst nemendum og foreldrum að mæta í viðtal til Hildar áfangastjóra og Fríðar námsráðgjafa um nám að loknum grunnskóla. Nemendur munu fá póst fljótlega þar að lútandi.

Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta hjá okkur í haust.

Opnir dagar í FAS í næstu viku

Í næstu viku verða þrír fyrstu virku dagar vikunnar helgaðir opnum dögum. Þá verða skólabækurnar settar til hliðar og nemendur fást við sitthvað annað þar sem frumkvæði og sköpun verður í fyrirrúmi. Opnir dagar eru hluti af námsframboði skólans og allir verða að taka a.m.k. tvisvar þátt í þeim á sinni skólagöngu.

Fyrr í þessari viku var haldin kynning á því hvaða hópar verða í boði á opnum dögum og þar er margt spennandi í boði. Það eru þó takmarkanir á því hversu margir geta verið í hverjum hópi. Fjölmennastur er árshátíðarhópurinn en árshátíð FAS verður haldin fimmtudaginn 5. mars í Sindrabæ.

Þeim sem enn eiga eftir að skrá sig er bent á skráningarblöð inni á lesstofu. Það þarf þó að gerast í dag, fimmtudag 27. febrúar. Þeir sem ekki velja hópa verður skipað niður í hópa eftir því sem þurfa þykir.

Styttist í árshátíð FAS

Áfram flýgur tíminn og farið að styttast í opna daga í FAS. Þeir verða 2. – 4. mars næstkomandi en á opnum dögum er ekki hefðbundin kennsla en nemendur vinna í hópum að ýmsum verkefnum.

Hápunktur opinna daga er árshátíð FAS en strax í upphafi annar fór nemendaráð að undirbúa þennan stórviðburð ársins. Árshátíðin verður að þessu sinni í Sindrabæ fimmtudaginn 5. mars. Fyrir lítinn skóla eins og FAS fylgir því töluverður kostnaður að halda árshátíð og til þess að mæta þeim kostnaði þurfa nemendur að safna pening.

Á morgun, föstudaginn 21. febrúar munu nemendur FAS vera með kökubasar í Nettó. Þar verður ýmiskonar góðgæti á boðstólum og hefst salan klukkan 15:30. Við hvetjum alla til að styrkja nemendafélag FAS og fá sér gott í gogginn fyrir helgina og styrkja um leið gott málefni unga fólksins okkar.

Ástráður með kynfræðslu

Í dag komu til okkar góðir gestir og af því tilefni var efnt til uppbrots. Það voru nemendur frá Ástráði en það er nafnið á kynfræðslufélagi læknanema en læknanemar hafa um margra ára bil farið í framhaldsskóla og elstu bekki grunnskóla með fræðslu. Það voru nemendur FAS og nemendur úr 10. bekk grunnskólans sem voru boðaðir á uppbrotið í dag.

Læknanemarnir eru hingað komnir til að fræða nemendur um allt það sem viðkemur kynheilbrigði og kynlífi. Nemendum gafst líka kostur á því að bera fram spurningar. Það þarf ekki að tíunda hversu mikilvægt er að nemendur fái sem besta fræðslu því margir eru á þessum árum að stíga sín fyrstu skref í kynlífi.

Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna í dag.