Foreldraráð

Í skólanum starfar foreldraráð samanber grein 50 í lögum um framhaldsskóla.  Hlutverk foreldraráðs er: „að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann.”  Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.  Foreldraráð setur sér starfsreglur.

Í Foreldraráði FAS skólaárið 2022-2023 eru:

  • Guðrún Sturlaugsdóttir
  • Hugrún Harpa Reynisdóttir
  • Sigrún Gylfadóttir

Facebook foreldrafélags FAS ber heitið Foreldrar og forráðamenn ungmenna í FAS og hægt er að smella hér til að komast inn á síðuna.

Reglur Foreldraráðs FAS

1. grein

Félagið heitir Foreldraráð Framhaldsskólans í Austur – Skaftafellssýslu, Foreldraráð FAS. Aðsetur þess er Framhaldsskólinn í Austur – Skaftafellssýslu.

2. grein

Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann, sbr. 50. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92 frá 12.06. 2008.

3. grein

Félagsmenn eru allir foreldrar og aðrir forráðamenn nemenda skólans.

4. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum foreldraráðs. Hann skal haldinn á tímabilinu 15. september til 15.október ár hvert. Til fundarins skal boðað bréflega og/eða með tölvupósti eða opinberri auglýsingu með a.m.k. 7 daga fyrirvara með dagskrá. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins.
  3. Umræður um skýrslu stjórnar og hún afgreidd.
  4. Nýir foreldrar boðnir velkomnir í foreldraráðið.
  5. Breytingar á lögum.
  6. Kjósa skal nýja stjórnarmenn.
  7. Önnur mál.
Stjórn foreldraráðs:

Á aðalfundi skal kjósa í aðalstjórn og æskilegt er að einn úr fyrri stjórn sitja áfram. Auk þess skal kjósa þrjá í varastjórn til eins árs í senn. Stjórn foreldraráðs tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Stjórn foreldraráðs skal fylgja samþykktum aðalfundar. Það skal halda gerðabók þar sem gerð er grein fyrir starfsemi foreldraráðsins og stjórnarfundum. Einnig skal birta fundargerðir á vef skólans.

5. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Tillögur að breytingum þurfa að berast stjórn félagsins ekki síðar en 14 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Tillögur til breytinga á lögum þessum skal kynna um leið og boðað er til aðalfundar.