Eineltisstefna

Grundvallarreglan er að stuðla ávallt að góðum og heilbrigðum samskiptum í FAS og að þau ber að rækta með öllum tiltækum ráðum. Mikilvægt er að allir séu þó vakandi fyrir því að einelti getur sprottið upp meðal nemenda og starfsfólks og einnig milli nemenda og starfsmanna og að slíkt er ekki liðið undir neinum kringumstæðum.

Einelti getur lýst sér sem stríðni, dónalegt orðbragð, útilokun, þöggun eða höfnun o.fl. Einnig sem líkamlegt ofbeldi, s.s. barsmíðar, hrindingar og hvers kyns valdbeiting eða áreitni, s.s. þukl eða káf. Aðalatriðið er að þolandinn upplifir eitthvað ástand eða atvik sem einelti og að einhver gerandi (gerendur) sé tilgreindur sem aðili málsins.

Viðbrögð við einelti

  • Mikilvægt er að hver og einn geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð að tilkynna ber um öll eineltistilvik.
  • Tilkynna skal einelti umsvifalaust til umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólameistara sem mynda teymi um úrlausn málsins. Haldin er trúnaðarbók um málið og allt skráð sem því viðkemur. Skólameistari heldur utan um trúnaðarbók.
  • Ef málið varðar starfsmann þá ber að hafa trúnaðarmann starfsmanna / fulltrúa stéttarfélags upplýstan um málið frá fyrstu stundu.
  • Eineltisteymið kemur saman og ákveður til hvaða viðbragða skuli gripið.
  • Rannsaka ber öll mál og taka til afgreiðslu en hunsa þau ekki og láta niður falla.
  • Þolandinn er upplýstur um viðbragðsáætlunina og sé hann í hópi ólögráða nemenda þá ber að hafa samband við foreldra hans. Sama gildir ef gerandi er ólögráða.
  • Liður í viðbrögðum við einelti er að ná sambandi við meintan geranda (gerendur) málsins og rjúfa það hegðunarmynstur og atferli sem málið snýst um.
  • Liður í viðbrögðum getur einnig verið að virkja nemendaráð skólans, skólaráð, starfsfólkið og síðast en ekki síst nemendahópinn með umræðum í smærri eða stærri hópum eftir atvikum.
  • Það gæti þurft að fá aðstoð hjá aðilum utan skólans við að ráða fram úr eineltismálum sem koma upp innan hans.
  • Viðbrögðin ráðast að öðru leyti af alvarleika og umfangi en ævinlega er leitað lausna í hverju máli.
  • Samþykkt og endurskoðun eineltisáætlunar er í höndum skólaráðs.

Eftirfylgni

Fylgst er með framvindu málsins og meginmarkmiðið er að eitthvert gagn sé að þeim viðbrögðum sem gripið var til og að þolandi og gerandi séu ekki skildir eftir með málið í sömu stöðu eða jafnvel verri en í byrjun.