Annáll FAS

Þann 1. ágúst 1987 hóf Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu formlega göngu sína.

Hér er stiklað á stóru í sögu skólans frá ári til árs. Auk þess er skrá yfir starfsmenn skólans á hverju ári og útskriftarmyndir frá því að skólinn hóf að útskrifa stúdenta. Einnig er hér að finna viðtöl við fyrrverandi nemendur og starfsfólk en þessi viðtöl hafa verið unnin af nemendum skólans. Þá er samantekt um hvað skrifað var um skólann í Eystrahorn á meðan það var gefið út.

Óskað er eftir myndum og öðru efni sem varðar skólann og starfsemi hans. Hægt er að senda efni á fas@fas.is eða koma með það á skrifstofu skólans.

Þessi annáll er nokkurs konar drög að sögu skólans sem vonandi verður skrifuð síðar.

Annáll kemur síðar

Annáll kemur síðar

Annáll kemur síðar

Aftari röð frá vinstri: Sigjón Atli Ragnheiðarson, Ísar Svan Gautason, Sævar Ingi Ásgeirsson, Viktor Örn Einarsson, Svandís Perla Snæbjörnsdóttir, Kristján Vilhelm Gunnarsson, Hákon Guðröður Bjarnason, Þórir Kristinn Olgeirsson, Halldór Hrannar Brynjúlfsson, Birkir Fannar Brynjúlfsson, Kolbeinn Benedikt Guðjónsson og Kristofer Hernandez.

Fremri röð frá vinstri; Eyjólfur Guðmundsson, Brandur Ingi Stefánsson, Arnar Ingi Jónsson, Wiktoria Anna Darnowska, Díana Sóldís Einarsdóttir, Sóley Lóa Eymundsdóttir, Óttar Már Einarsson, Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir, Arndís Ósk Magnúsdóttir, Bryndís Arna Halldórsdóttir, Íris Björk Rabanes, Katrín Soffía Guðmundsdóttir og Aleksandra Wieslawa Ksepko.

Á myndina vantar nýstúdentinn Birki Atla Einarsson en hann lauk einnig námi í fjallamennsku. Þá vantar á myndina Helgu Sveinbjörnsdóttur sem lauk námi í tækniteiknun.

Skólaárið 2018 – 2019

Á skólaárinu voru 160 nemendur skráðir í skólann. Skólastarf haustannar hófst formlega þann 20. ágúst með skólasetningu. Tveimur dögum seinna gekk þorri nemenda og kennara um Krossbæjarskarð í blíðskaparveðri. Gangan var sérstaklega til heiðurs nýnemum og þeir boðnir á þann hátt velkomnir í skólann.

Líkt og undanfarin ár fylgast nemendur FAS með umhverfinu og framkvæma ýmsar rannsóknir árlega. Gróðurreitirnir á Skeiðarársandi voru skoðaðir í lok ágúst og árleg jöklamælingaferð að Heinabergsjökli var á vísindadögum í október. Þar eru aðstæður svo mikið breyttar frá því sem hefur verið að mælingar eru nú einungis mögulegar á einum stað en áður var mælt út frá tveimur mælilínum. Á vorönninni voru fuglar taldir reglulega í Óslandi og álftanna í Lóni var vitjað í mars. Líkt og áður birtast upplýsingar úr þessum verkefnum á https://nattura.fas.is/.

Í september var gerður samningur á milli Körfuknattleiksdeildar Sindra og FAS sem kveður á um að heimaleikjum verði streymt á netið svo hægt verði að fylgjast með þeim í beinni útsendingu. En Sindri er nú að spila í fyrstu deild í fyrsta skipti. Samningurinn gildir til vors 2019. Auk þess að streyma leikjunum er ráðgert að taka viðtöl við leikmenn og aðra í tengslum við leikina. Sindri sér um að útvega þann búnað sem þarf til slíkra sýninga. Nemendur í kvikmyndagerð í FAS munu annast streymið og nemendur í fjölmiðlafræði og kvikmyndagerð taka viðtölin og annast eftirvinnslu.

Í apríl var undirritaður samstarfssamningur á milli Sindra og FAS. Þessi samningur kveður á um að efla afreksíþróttastarf í Sveitarfélaginu Hornafirði. Markmiðið er að gefa þeim sem stunda skipulagðar æfingar í tilteknum íþróttum tækifæri til að tvinna saman íþróttir og nám. Sindri heldur utan um æfingar viðkomandi nemenda en FAS um námið. Hver nemandi sem ákveður að taka þátt þarf að skrifa undir samning ásamt þjálfara frá Sindra og íþróttakennara í FAS og þar er kveðið á um skyldur sem þarf að uppfylla. Þessi samstarfssamningur er mikið gleðiefni því hjá okkur í FAS eru nemendur sem hafa mikinn metnað í íþróttum og standa sig vel, t.d. í fótbolta og körfubolta.

Lista- og menningarsvið FAS fór í námsferð til Akureyrar dagana 14. til 16. nóvember. Það voru tuttugu nemendur úr myndlista-, ljósmynda-, kvikmynda- og leiklistaráföngum sem fóru í ferðina ásamt þremur kennurum. Þessi ferð var fyrst og fremst hugsuð til að kynna nemendum hvað sé að gerast í öðrum bæjarfélögum en jafnframt til að kunna að meta og skilja hversu margir möguleikar finnast í heimabyggð. Það var farið í heimsókn á marga staði sem tengjast listum og var hópnum alls staðar einstaklega vel tekið.

Á vorönninni stóðu Lista- og menningarsvið FAS og Leikfélag Hornafjarðar fyrir uppfærslu á leikritinu „Fílamanninum“ eftir Bernard Pomerance. Leikstjóri sýningarinnar var Stefán Sturla en hann hefur áður sett upp sýningar á Hornafirði.  Í leikritinu er verið að fjalla um stöðu manneskjunnar og hræðslu hennar við það óþekkta,  hið ytra og áþreifanlega, annars vegar og hins vegar manneskjuna sjálfa, sálina og hvort hægt sé að greina þarna á milli. Sýningin tókst vel og stóðu sig allir sem að henni komu með mikilli prýði.

Mikið var um að vera í fjallamennskunáminu sem er fyrst og fremst ætlað þeim sem vilja vinna í ferðaþjónustugreinum. Nemendur fóru í alls kyns ferðir og lærðu margt til að verða hæfari í margs konar aðstæðum. Þar má t.d. nefna hvernig á að útbúa sig fyrir fjallaferðir, notkun á áttavita, helstu atriði bæði í kletta- og ísklifri, þverun straumvatna, björgun við ýmis konar aðstæður, ferðalög á jöklum og skíðaferðir. Þá kynntust nemendur fjallahjólum og fóru í siglingu á kajak. Nemendur eru allir sammála um að námið sé skemmtilegt og skilji eftir mikla reynslu.

Það má með sanni segja að mikil gróska sé í erlendu samstarfi í skólanum og voru þrjú mismunandi verkefni í gangi á skólaárinu. Þar ber fyrst að nefna Erasmus+ verkefnið ADVENT sem er þriggja ára verkefni og nú fór í hönd annað ár verkefnisins. ADVENT stendur fyrir Adventure tourism in vocational education and training en þar er unnið að því með starfandi ferðaþjónustuaðilum að mennta fólk í greininni. FAS hefur yfirumsjón með verkefninu. Margar ferðir voru í tengslum við ADVENT á þessu öðru ári verkefnisins og tilgangur þeirra var að prufukeyra námskeið sem var verið að hanna. Markmið námskeiðanna er að þjálfa starfandi ferðaþjónustuaðila og nemendur í ævintýraferðaþjónustunámi í að nýta slíka þekkingu í störfum sínum.
Fyrsta ferðin var í október til Skotlands og fóru þrír fulltrúar frá FAS í þá ferð. Það námskeið fjallaði um hvernig nýta má náttúruna til endurhæfingar og sjálfsuppbyggingar.
Í lok nóvember fóru þrír fulltrúar frá FAS til Finnlands á námskeið sem snerist um staðarþekkingu.
Í janúar var svo komið að því að Ísland myndi halda námskeið fyrir samstarfslöndin og snerist það námskeið um jöklaferðamennsku. Námskeiðið fékk enska heitið Ice adventure – Planning and Skills sem útleggst sem Ævintýri á ís, skipulag og færni á íslensku. Meðal þess sem var gert á námskeiðinu var að fara á Skaftafells- og Breiðamerkurjökul og þeir jöklar nýttir til að kynnast mismunandi skriðjöklum með jöklagöngum, íshellaskoðun, næturgistingu og ísklifri.
Í lok mars var námskeið í Skotlandi sem fjallaði um leiðsögn, túlkun og umhverfisvitund.
Í maí var aftur farið til Finnlands þar sem mismunandi hópar ferðamanna, væntingar þeirra og áhugasvið voru í brennidepli.

Á miðju sumri 2019  var sjötta námskeið verkefnisins haldið á Íslandi. Það fjallaði um hið staðbundna; vöruvæðing og öðlun/nýting sem á ensku er Localism; commodifictioan and gentrification. Þrír aðilar frá ævintýraferðaþjónustufyrirtækjum af svæðinu og fyrirlesari frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála leiddu námskeiðið þar sem leitast var við að kanna hið staðbundna í tengslum við breytingar í náttúru, sveitarsamfélagi og sjávarútvegsbæ. Í samstarfi við fyrrum nemendur skólans var unnið myndefni í tengslum við verkefnið.

Annað Eramsus+ verkefni er í gangi á þessu skólaári. Það ber heitið Cultural heritage in the context of students’ careers“ eða „Nemendur skapa verkefni byggð á menningararfleið“ eins og það er kallað á íslensku. Þar er unnið verkefni um menningararfleifð þjóðarinnar og á verkefnið jafnframt að tengjast menningartengdri ferðaþjónustu. Samstarfsskólarnir eru frá Ítalíu, Grikklandi, Eistlandi og Litháen. Í lok janúar var komið að fyrstu heimsókninni í verkefninu. Fjórir nemendur frá FAS ásamt tveimur kennurum fóru til Eistlands og fengust þar við ýmis verkefni. Í byrjun apríl var svo komið að næstu ferð í tengslum við verkefnið en þá fóru fjórir nemendur til Grikklands. Haustið 2019 er svo von á þátttakendum frá samstarfslöndunum í heimsókn til Íslands.

Það var einnig nemendaskiptaverkefni undir merkjum Nordplus Junior í gangi þetta skólaár. Það var unnið með skóla í Danmörku. Verkefnið kallast „Góður granni er gulli betri“ eða „En god nabo er guld værd“. Á haustönninni voru samskipti Íslands og Danmerkur í gegnum tíðina skoðuð og á vorönninni var unnið með Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna sem skipta bæði lönd miklu máli.
Hópurinn að þessu sinni var óvenju stór en á Íslandi voru 25 þátttakendur og hvorki meira né minna en 50 í Danmörku. Það var því mikill og föngulegur hópur þegar allir voru komnir saman. Íslenski hópurinn hélt til Danmerkur í lok október og gestirnir komu í heimsókn síðustu vikuna í mars. Það verður að segjast eins og er að það var töluverð vinna að skipuleggja heimsókn fyrir svo marga. Allt gekk þetta vel og eins og áður var samfélagið tilbúið til að aðstoða við móttöku gesta og bjóða í heimsókn. Þegar líða tók á heimsókn gestanna bárust fréttir af því að flugfélagið WOW væri farið í gjaldþrot en Danirnir höfðu flogið með þeim til Íslands. Það urðu mörg símtölin og tölvupóstarnir til að leysa málið en allt hafðist þetta og gestirnir flugu heim tæpum sólarhring seinna en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.

FAS hefur um árabil tekið þátt í tölvuleik sem snýst um að leita að olíu. Leikurinn er spilaður á netinu og snýst um að skoða jarðlög til að leita að olíu. Þessi leikur hefur verið lengi notaður til að fræða fólk um hvað olíuiðnaðurinn snýst. Einnig þurfa liðin að huga að því að ná olíunni upp á sem hagkvæmastan hátt. FAS tók þátt í landskeppni og voru eitt stelpulið og eitt strákalið skráð til keppni. Það var liðið „Olíuleit með pabba“ sem vann landskeppnina og vann sér um leið rétt til að taka þátt í lokakeppninni sem fór fram í Cambridge 25. janúar. Þar mætti liðið sigurliðinu frá Noregi og gerði sér lítið fyrir og vann keppnina og hlaut að launum verðlaunagrip og sæmdarheitið „Evrópumeistarar í olíuleit“.

Vísindadagar voru að venju í lok október en þá fellur hefðbundin kennsla niður í nokkra daga og nemendur velja sér verkefni eftir áhuga. Að þessu sinni voru fimm hópar starfandi og unnu þeir að eftirtöldum verkefnum; könnun meðal fyrrum nemenda um hvernig námið í FAS hefði nýst í framhaldsnámi, mælingaferð að Heinabergsjökli og skýrslugerð í tengslum við ferðina, leiklistarsaga skólans var skoðuð og búin til tímalína og yfirlit yfir öll þau verk sem hafa verið sýnd frá því að skólinn hóf göngu sína, viðtöl við íbúa af erlendu bergi brotnu sem búa í sveitarfélaginu og tölulegar upplýsingar um fjölda þjóðerna búsetta í sveitarfélaginu og síðast en ekki síst voru gögn sem tengjast menningu sveitarfélagsins skoðuð.

Í lok október stóð Ungmennaráð Hornafjarðar fyrir Ungmennaþingi í Nýheimum í dag. Yfirskrift þingsins var Ungt fólk og samfélagið og markmiðið var að efla samfélagsvitund ungs fólks. Allir nemendur FAS voru boðaðir á þingið ásamt 8. – 10. bekk í Grunnskóla Hornafjarðar. Þingið hófst á fyrirlestri frá Stígamótum og að honum loknum voru fjórar málstofur sem fjölluðu um fjölbreytileikann, félagslíf, umhverfis- og skipulagsmál og í síðustu málstofunni voru umræður út frá fyrirlestrinum. Ungmennaþingið tókst einkar vel og skemmtilegar og málefnalegar umræður áttu sér stað í málstofunum.

Skömmu fyrir jól kom afar ánægjulegur póstur í FAS. Það var bréf frá menntamálaráðuneytinu um styrk að upphæð einni milljón. Styrkinn átti að nota til að vinna að þarfagreiningu fyrir lista- og verknámsaðstöðu fyrir skólann og samfélagið. Að sjálfsögðu brást skólinn strax við og myndaði hóp sem samanstóð af fulltrúa úr skólanefnd, fulltrúa frá sveitarfélaginu og skólameistara. Þessi hópur hittist vikulega og lauk þarfagreiningunni í mars. Menntamálaráðuneytið fékk síðan þarfagreininguna sem vonandi nýtist til að rökstyðja ósk um fjárframlag til framkvæmda. Langþráður draumur yrði að veruleika ef FAS fengi lista- og verknámsaðstöðu.

Það var mikið um að vera í félagslífi nemenda á síðasta skólaári. Nú hefur klúbbastarf fest sig í sessi og reglulega standa klúbbar fyrir viðburðum. Hápunktur félagslífsins er þó alltaf árshátíðin sem að þessu sinni fór fram á Hafinu. Undirbúningur að hátíðinni er í höndum nemenda og hefur jafnan staðið yfir í langan tíma. Það er alltaf spenna í gangi fyrir árshátíðina hverju sinni, bæði yfir því hvaða hljómsveit spilar og eins hvað er boðið upp á. Það má segja að árshátíðarhópurinn í ár hafi farið ótroðnar slóðir í hljómsveitarvali og ekki síður í skemmtiatriðum og skreytingum en þemað var sveitalífið. Birgir Fannar Reynisson var fenginn til að vera veislustjóri og leysti hann það hlutverk ljómandi vel af hendi. Þá mættu nokkrir galvaskir Glófaxamenn sem sungu nokkur lög og var gaman að heyra að nemendur þekktu þessi lög og tóku vel undir. Hornfirska hljómsveitin kef LAVÍK spilaði nokkur lög. En það var svo Helgi Björnsson sem mætti með hljómsveit sína og tryllti lýðinn fram eftir nóttu. Líklega hefðu margir búist við að önnur hljómsveit myndi sjá um ballið en þetta var einlæg ósk árshátíðarhópsins og skemmtu allir sér hið besta á ballinu.

FAS leggur mikla áherslu á gott samstarf við foreldra. Því eru haldnir fræðslufundir í upphafi anna og umsjónarkennarar senda reglulega póst til foreldra til að halda þeim upplýstum. Á síðasta kennsludegi haustannar var að frumkvæði FAS efnt til sameiginlegs málsverðar fyrir íbúa Nýheima og aðstandendur nemenda. Tilefnið var að fá fólk til að hittast og ræða um FAS og hlutverk skólans í samfélaginu og um leið að spjalla saman. Það var mjög vel mætt og fólk átti gott samtal yfir ljúffengum kræsingum sem Hafdís í veitingasölunni reiddi fram. Í apríl var aftur boðið til samtals með foreldrum en nú yfir súpu. Einnig þá átti sér stað gott spjall milli nemenda, foreldra og starfsfólks.

Nokkrum sinnum á skólaárinu eru „uppbrot“ í FAS en þá er felld niður kennsla í eina klukkustund og nemendur hittast í öðrum tilgangi. Oft er verið að miðla fræðslu sem ætluð er öllum nemendum. Í vetur fengum við marga góða gesti. Fyrstur kom Oscar Avila sem er upplýsinga- og menningarfulltrúi bandaríska sendiráðsins á Íslandi sem sagði okkur frá starfsemi bandaríska sendiráðsins á Íslandi. Þær Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur og Fríður námráðgjafi voru með uppbrot þar sem var fjallað um heilsu og líðan og hvað hver og einn geti gert til að líðanin sé sem best. Í febrúar kom Sölvi Tryggvason til okkar og fjallaði um mikilvægi þess að hafa vald á skjánotkun sinni og vera stjórnandi í eigin lífi. Í mars komu þær Guðbjörg og Guðrún Ósk frá Landsbankanum og voru með fjármálafræðslu.

Félag þýzkukennara hefur staðið fyrir nokkurs konar prófi þar sem nemendur velja hvort þeir taka þátt. Prófið er hvatning fyrir nemendur til að læra þýsku en tveir efstu fá mánaðardvöl í Þýskalandi að launum og 20 efstu fá bókaviðurkenningar fyrir þátttökuna. Að þessu sinni tók einn nemandi þátt frá FAS. Það var Ingunn Ósk Grétarsdóttir og gerði hún sér lítið fyrir og vann þrautina. Hún dvaldi í mánuð í Þýskalandi og var það mikil og góð reynsla. Ingunn Ósk hefur lengi spilað á þverflautu og hefur áhuga á klassískri tónlist. Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands auglýsti inntökupróf fyrir Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar sendi Ingunn inn upptöku og var umsókn hennar samþykkt. Hún fær því tækifæri næsta haust til að æfa í hálfan mánuð í september 2019.

Það eru margir sem starfa í Nýheimum og er mikilvægt að sem flestir viti hvaða starfsemi er þar í gangi. Því hafa íbúar Nýheima skipst á að bjóða upp á kaffi og veitingar á Nýtorgi. Þessar samverustundir hafa mælst vel fyrir og vonandi verður framhald á þeim.

Skólastarfi vorannar lauk svo formlega með útskrift 25. maí 2019. Að þessu sinni útskrifuðust 20 stúdentar, einn nemandi lauk námi í fjallamennsku, tveir nemendur luku  framhaldsskólaprófi, einn útskrifaðist af fisktæknibraut, einn nemandi útskrifaðist úr tækniteiknun og einn nemandi lauk A stigi vélstjórnar. Bestum árangri á stúdentsprófi náði Arndís Ósk Magnúsdóttir.

Skólaárið 2017 – 2018

Á skólaárinu voru um 190 nemendur skráðir í skólann. Eins og áður er FAS aðili að Fjarmenntaskólanum. Langflestir áfangar sem eru í boði er einnig hægt að taka í fjarnámi. Áfram eru sömu áherslur í námsmati. Í stað formlegra lokaprófa kemur lokamatsviðtal þar sem hver nemandi ræddi við kennara sinn um vinnuna á önninni.

Skólastarf haustannar hófst með skólasetningu 18. ágúst. Í upphafi skólaárs voru innleiddar breytingar á stafrænu vinnuumhverfi nemenda og starfsfólks. Nú er stuðst við Office 365 kerfið og þar er að finna öll helstu forrit sem nemendur og kennarar þurfa að nota.

Þetta er annað árið sem haldin er nýnemahátíð í stað busavígslu. Í lok ágúst var gengið fyrir Horn í blíðskaparveðri. Á gönguleiðinni er margt að sjá og sagan nánast á hverju strái. Það varð því margur fróðari eftir daginn.

Sjö nemendur voru skráðir í fjallamennskunám í FAS og strax í annarri viku fóru þeir í sína fyrstu ferð. Á skólaárinu fór þeir í þrettán ferðir sem allar eru undir handleiðslu kennara. Þar kynntust þeir íslenskri náttúru og lærðu að takast á við mismunandi aðstæður og áskoranir.

Stöðugt er verið að reyna að finna nýjar leiðir til að þróa skólann og koma á móts við samtíðina. Það er m.a. gert með því að tengja saman atvinnulífið og skólann. Í september var undirritaður samningur milli Hótels Hafnar og FAS. Samningurinn er um starfsnám í framreiðslu og matreiðslu sem fer fram samhliða vinnu á hótelinu en er jafnframt nám í FAS sem heitir vinnustaðanám. Þá var í vetur nám á fisktæknibraut fyrir starfsmenn Skinneyjar-Þinganess og útskrifuðust fjórir af þeirri braut.

Skólastarf haustönninni var hefðbundið. Í upphafi skólaárs voru gróðurreitirnir á Skeiðarársandi skoðaðir og bæði Fláajökull og Heinabergsjökull mældir. Til að aðstæður séu sem sambærilegastar er alltaf farið á svipuðum tíma í þessar ferðir. Það er óhætt að segja að miklar breytingar séu á jöklunum frá ári til árs.

Erlent samstarf var fyrirferðarmikið á skólaárinu. Þar ber fyrst að nefna Erasmus+ verkefnið ADVENT sem er þriggja ára verkefni. ADVENT stendur fyrir Adventure tourism in vocational education and training en þar er unnið að því með starfandi ferðaþjónustuaðilum að mennta fólk í greininni. Þar hefur FAS yfirumsjón í samvinnu við  Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn. Þann 14. mars var haldin fjölmenn ráðstefna í Nýheimum sem bar heitið Adventure Tourism – Innovation and Education. Það var fjallað annars vegar um ADVENT verkefnið og hins vegar verkefnið slow adventure in nothern territories sem snýst um að fá ferðamanninn til að fara hægt yfir og njóta augnabliksins. Rannsóknasetur háskólans hefur yfirumsjón með því verkefni. Sérstakur gestur á ráðstefnunni var frú Eliza Reid forsetafrú en hún er sérstakur sendiherra ferðaþjónustu og markmiða sjálfbærrar þróunar. Markmiðið með því að hafa slíkan sendiherra er að talað sé fyrir framlagi ferðaþjónustu til sjálfbærrar þróunar og hvetja til þess að ferðaþjónusta og markmið sjálfbærrar þróunar verið innleidd að fullu í áætlanir þjóðlanda og svæða á heimsvísu.

Þá var seinna árið í Eramsus+ samskiptaverkefninu Sharing competencies in entrepreneurial learning, connecting theory with practise en það hófst formlega á haustönn 2016. Eins og nafnið gefur til kynna snýst það um nýsköpun og hvernig eigi að stofna og reka fyrirtæki. Þetta verkefni er unnið með skólum í Eistlandi, Lettlandi, Grikklandi og Ítalíu. Það var mikið um að vera í september en þá komu þátttakendur frá öllum samstarfslöndunum í heimsókn í FAS. Móttaka gestanna gekk vel en þó þurfti að breyta dagskrá vegna gríðarlegrar úrkomu og þurfti hópurinn m.a. að keyra norðurleiðina til Keflavíkur því brúin yfir Steinavötn eyðilagðist í flóðunum. Í mars var síðan síðasta nemendaferðin í tengslum við verkefnið en þá fóru fjórir nemendur til Lettlands.
Þessir samstarfsskólar ákváðu að halda áfram að vinna saman og sendu inn aðra umsókn en nú í tengslum við menningu landanna. Ekki er enn vitað hvort þessi umsókn hlýtur brautargengi.

Í vetur var unnið að umsókn með skóla í Faarvejle í Danmörku um nemendaskipti á vegum Nordplus áætlunarinnar. Sú umsókn hefur verið samþykkt og mun hópur nemenda fara til Danmerkur í lok október. Danirnir munu svo endurgjalda heimsóknina í mars 2019.

Um langt skeið hafa verið sett upp leikverk í FAS og síðustu ár undir stjórn Stefáns Sturlu Sigurjónssonar. Á þessu skólaári varð til ný áhersla tengd leiklistinni að frumkvæði Stefáns Sturlu eða svokallað lista- og menningarsvið. Hugmyndin var að tengja vinnu við leiklist í marga aðra áfanga í skólanum. Það má segja að þessi nýbreytni hafi fallið í góðan jarðveg því að á haustönninni voru 20 nemendur skráðir á Lista- og menningarsvið. Þá fór fram hugmyndavinna, skilgreiningarvinna og  nemendur unnu hugmynd að útfærslu á leiksýningunni. Eftir áramótin var haldið áfram en nú var aðaláherslan á uppsetningu leikverksins. Það voru nemendur í saumum sem hönnuðu búninga, nemendur í ljósmyndun sáu um myndatöku og nemendur í myndlist hönnuðu grímur. Að þessu sinni var leiksýningin í Nýheimum. Aðsókn var góð og var verkið sýnt átta sinnum fyrir fullu húsi. Ætla má að um 500 manns hafi séð sýninguna. Vinnan í kringum leiksýninguna að þessu sinni vakti eftirtekt og fékk m.a. umfjöllun í mannlífsþættinum Landanum.
Nemendur á Lista- og menningarsviði fóru í námsferð til Reykjavíkur í byrjun febrúar og var aðalmarkmiðið að kynna nemendum þær námsleiðir sem eru í boði eftir framhaldsskóla í þessum greinum.

Á þessu skólaári var ákveðið að finna leið til að tengja saman alla þá sem starfa í Nýheimum. Og auðveldasta leiðin liggur frá munni til maga. Ákveðið var að hafa sameiginlega kaffitíma á Nýtorgi fjórum sinnum á hvorri önn. Stofnanir og starfsfólk skiptu á milli sín dögum. Dýrindis kræsingar litu dagsins ljós sem voru gerð góð skil. Þetta mæltist svo vel fyrir að telja verður líklegt að þessar sameiginlegu stundir séu komnar til að vera.

Vísindadagar á haustönninni voru að þessu sinni helgaðir 30 ára afmæli skólans. Í lok vísindadaga var mikil sýning á Nýtorgi þar sem var farið yfir sögu skólans í máli og myndum.
Opnir dagar voru í byrjun mars en þá gefst nemendum tækifæri til að breyta til og heimsækja aðra skóla. Skólarnir sem starfa undir merkjum Fjarmenntaskólans eru með fardaga á sama tíma svo svigrúm sé til að hafa samgang á milli skólanna. Nokkrir nemendur úr FAS fór í ME og tóku þar þátt í fardögum. Í FAS var unnið að mörgum verkefnum, m.a. var gefið út skólablað, útvarpshópur sá um dagskrá og það var námskeið í Fab Lab í Vöruhúsinu svo eitthvað sé nefnt.

Starfsemi nemendafélagsins var með ágætum á skólaárinu undir stjórn Arndísar Óskar og Sóleyjar Lóu. Í upphafi skólaárs stóð félagið fyrir brennu á bökkum Laxár til heiðurs nýnemum. Líkt og undanfarin ár störfuðu klúbbar og stóðu þeir fyrir mörgum smærri viðburðum.
Nemendafélagið kom að skuggakosningum í tengslum við bæði Alþingis- og sveitastjórnarkosningar. Í nóvember var haldið ungmennaþing þar sem var fjallað um mannréttindi annars vegar og hamingju og vellíðan hins vegar. Í lok skólaárs fóru fram forsetakosningar fyrir komandi skólaár og þar urðu Aðalsteinn og Bjarmi Þeyr hlutskarpastir.
Að auki tengdist önnur starfsemi óbeint inn í skólann og nemendafélagið. Þar má t.d. nefna Bréf til bjargar lífi sem Íslandsdeild Amnesty stendur fyrir. Nemendur FAS söfnuðu flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda af öllum framhaldsskólum landsins. Samtals söfnuðu þeir 2.312 undirskriftum til stjórnvalda þar sem þrýst er á um úrbætur í mannréttindamálum. Það jafngildir því að hver nemandi í dagskóla FAS hafi safnað rúmlega 20 undirskriftum. Forsvarsmenn Amnesty hérlendis gerðu sér ferð í FAS til að veita skólanum viðurkenningu fyrir framtakið.

Annað merkilegt sem gerðist á skólaárinu og sem markvert er að nefna er t.d. námsferð dönskunemenda til Kaupmannahafnar í október. Í sama mánuði voru Almannavarnir með kynningu um skipulag og stjórn aðgerða þegar hætta vofir yfir. Þessi kynning var ekki síst vegna þess að svo virðist sem Öræfajökull sé eitthvað að rumska.
Í janúar tóku nokkrir nemendur þátt í að leita að olíu. Þá fór einnig fram undankeppni í Gettu betur þar sem lið FAS keppti við MH og beið lægri hlut í viðureigninni. Í lok janúar var skrifað undir umsókn um aðild Vatnajökulsþjóðgarðs að heimsminjaskrá UNESCO. Við það tækifæri kom menntamálaráðherra í stutta heimsókn og kynnti sér skólann og starfsemina í Nýheimum.
Í lok febrúar tók Arndís Ósk tók þátt í þýskuþraut sem félag þýskukennara stendur fyrir ásamt þýska sendiráðinu. Arndís Ósk gerði sér lítið fyrir og varð í efsta sæti og fer í júní til mánaðardvalar í Þýskalandi.
Um miðjan mars stóðu háskólar landsins að kynningu á námsframboði eftir stúdentspróf.
Eftir páskafrí var bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða nemendum, foreldrum og starfsfólki í súpu og spjall og var þetta liður í að tengja saman betur heimili og skóla en þó með aðaláherslu á nemendur. Í lok apríl færði Kiwanisklúbburinn Ós nemendafélaginu gjafir til tómstundaiðkunar en báðir fögnuðu 30 ára afmæli á árinu.

Skólastarfi vorannar lauk svo formlega 26. maí með útskrift. Að þessu sinni útskrifuðust 14 stúdentar, einn nemandi lýkur framhaldsskólaprófi, einn nemandi lýkur námi í fjallamennsku, fjórir útskrifast af fisktæknibraut, einn nemandi útskrifast úr tækniteiknun og fimm nemendur af sjúkraliðabraut.

Útskrift frá FAS 2018

Aftari röð frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, Guðbjörg Guðlaugsdóttir, Mahder Zewdu Kebede, Stefanía Hilmarsdóttir, Inga Jenný Reynisdóttir, Heiða Vilborg Sigurbjörnsdóttir, Ágúst Máni Aðalsteinsson, Kristófer Laufar Hansson, Skúli Ingólfsson, Pálmi Snær Brynjúlfsson, Sigurbjörg Einarsdóttir, Sigrún Stefanía Ingólfsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Klemens Sæmundsson sem var fulltrúi Fisktækniskólans við útskrift.

Fremri röð frá vinstri: Sigurbjörg Karen Hákonardóttir, Áróra Dröfn Ívarsdóttir, Hildur Ósk Hansdóttir Christensen, Patrycja Rutkowska, Ólöf María Arnarsdóttir, Sunna Dögg Guðmundsdóttir, Sólveig Ýr Jónsdóttir, Ísabella Ævarsdóttir og Júlía Þorsteinsdóttir.

Á myndina vantar nýstúdentana Amalíu Petru Duffield, Janus Gilbert Stephensson og Lukku Óðinsdóttur. Einnig Auðbjörn Atla Ingvarsson útskrifast af framhaldsskólabraut og Birki Atla Einarsson útskrifast úr fjallamennskunámi.

 

Skólaárið 2016 – 2017

Á skólaárinu voru um 180 nemendur skráðir í skólann. Eins og áður er FAS aðili að Fjarmenntaskólanum. Á þessu skólaári var líka lögð áhersla á að bjóða upp á fjölbreytt fjarnám. Nýjar aðferðir voru teknar upp við lokamat. Í stað formlegra lokaprófa kemur lokamatsviðtal þar sem hver nemandi ræddi við kennara sinn um vinnuna á önninni.

Skólastarf haustannar hófst formlega 19. ágúst þegar skólinn var settur. Nú heyra svokallaðar „busavígslur“ sögunni til  en þess í stað er haldin hátíð til að bjóða nýnema velkomna í skólann. Nemendafélagið skipulagði  hópeflisleiki þar sem öllum árgöngum er blandað saman til að nemendur kynnist. Nýnemar voru boðnir velkomnir með rós og starfsfólk sá um grillveislu.

Skólastarf var nokkuð hefðbundið á haustönninni. Gróðurreitanna á Skeiðarársandi var vitjað og Heinabergsjökull mældur. Þegar loftmynd af jöklinum var skoðuð kom í ljós að það sem áður var haldið að væri ísjaðarinn er stærðarinnar jaki. Því er nauðsyn á að finna nýjar leiðir til að fylgjast með breytingum á Heinabergsjökli. Þá var aftur farið að Fláajökli en vorið 2016 hófust mælingar á honum þar sem er stuðst er við GPS hnit og gervihnattamyndir af jöklinum og upplýsingar settar í Qgis forritið. Náttúrustofa Suðausturlands og FAS fjárfestu saman í dróna sem mun nýtast m.a. til að fylgjast með vöktunarverkefnum skólans.

Þann 15. september var haldið starfastefnumót í Nýheimum sem Þekkingasetur Nýheima stóð fyrir. Þar kynntu flest fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu sína starfsemi. Starfastefnumótið þóttist takast einstaklega vel og húsið iðaði af mannlífi.

Í lok september fóru fjórir nemendur úr FAS og einn frá Heppuskóla á ráðstefnu ungmennaráða á Hvolsvelli. Tilgangurinn var m.a. að vekja athygli sveitastjórna á málefnum ungmenna.

Í tengslum við alþingiskosningar í lok október var fulltrúum frá framboðum í Suðurkjördæmi boðið í FAS til að kynna sitt framboð og sín málefni þann 12. október. Daginn eftir efndu nemendur svo til skuggakosninga í FAS.

Og að venju voru Vísindadagar í FAS í lok október. Líkt og áður voru unnin fjölbreytt verkefni en flest þeirra tengdust lýðræði á einhvern hátt enda kosningar til Alþingis á næsta leyti.

Um miðjan nóvember var blásið til olíuleitar í FAS en það er tölvuleikurinn Petro Challenge sem FAS hefur tekið reglulega þátt í frá árinu 2003. Að þessu sinni tóku níu nemendur í FAS í fjórum liðum þátt.

Védís Helga Eiríksdóttir varði doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum þann 22. nóvember. Hún varð þar með fyrsti stúdentinn frá FAS til að hljóta doktorsgráðu.

Þann 11. janúar voru Menntaverðlaun Suðurlands afhefnt á Selfossi en þau eru afhent fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi. Að þessu sinni hlaut FAS verðlaunin fyrir vöktunarverkefnin í náttúrufarsrannsóknum sem hafa verið stundaðar við skólann allt frá árinu 1990. En helstu verkefnin eru jöklamælingar, rannsóknir á gróðurframvindu á Skeiðarársandi, fuglatalningar í Óslandi og álftatalningar í Lóni.

Fjallanám – Í vetur hefur verið unnið að því að efla útivistarnám í FAS. Um miðjan janúar fóru Eyjólfur og Hulda Laxdal til Skotlands og heimsóttu University of the Highlands and Islands (UHI). Í kjölfarið var efnt til formlegs samstarfs á milli þessara skóla auk skóla í Finnlandi og stofnana í löndunum þremur. Búið er að senda inn umsókn í flokk starfsnáms hjá Erasmus + til að vinna að samstarfinu.
Þá hefur nám í fjallamennsku verið endurskipulagt að hluta og var námsbrautin kynnt um miðjan mars í  Laugardalshöll á samkomu sem bar heitið: „Mín framtíð – Íslandsmót verk- og iðngreina 2017
& Framhaldskólakynning“.

Í vetur hafa tíu starfsmenn frá Skinney-Þinganesi verið í námi á Fiskvinnslubraut í FAS en námið var skipulagt í samvinnu við Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi og Fisktækniskóla Íslands. Þessir starfsmenn höfðu áður farið í gegnum raunfærnimat og hafa nú tækifæri til að taka þá áfanga sem á vantar til að ljúka brautinni.

Erlent samstarf hefur aldrei verið jafn öflugt og á síðasta skólaári. Nú var seinna árið í Erasmus + verkefninu 120 myndir sem er samstarfsverkefni skóla í Frakklandi, Þýskalandi, Lúxemborg, Belgíu, Litháen og á Íslandi en tveir kennarar í FAS taka þátt í verkefninu að hálfu Íslands. Eins og nafnið gefur til kynna snýst það um myndir og hvernig þær geti auðveldað ungu fólki að velja sér starfsvettvang. Jafnframt nýtist verkefnið við tungumálakennslu. Nú er verið að leggja lokahönd á vefsíðu með kennsluefni sem verður öllum aðgengilegt.

Þá er einnig seinna árið í  Eramsus+ verkefninu „Your Health is Your Wealth“ sem er í samstarfi við Liceum Ogólnokształcące nr VII  (LO nr VII) í borginni Wroclaw í Póllandi og er unnið í anda heilsuskólans. Gert var ráð fyrir að heimsóknir yrðu bæði árin. Vegna mikils áhuga í báðum skólum voru teknir fleiri inn á seinna árinu en gert var ráð fyrir í umsókninni. Í október fóru 17 nemendur frá FAS til Wroclaw og í mars komu 17 nemendur til Íslands. Alls hafa 63 nemendur farið í ferðir á þessum tveimur árum en mun fleiri hafa þó kynnst verkefninu. Nemendur hafa unnið fjölbreytt verkefni og eru þau birt á heimsíðu verkefnisins. Í umsókn um verkefnið var gert ráð fyrir tveimur fundum fyrir verkefnastjóra og var sá fyrri haldinn á Íslandi í apríl 2016. Seinni verkefnastjórafundurinn verður í Wroclaw í júni 2017. Það eru þó ekki bara verkefnastjórar sem fara á þann fund heldur fer lunginn úr kennarahópi FAS og ætlar hópurinn einnig að nota tækifærið til að kynnast pólska skólakerfinu og skoða nokkra skóla.

Á vorönn 2016 var unnið að umsókn um frumkvöðlaverkefni með skólum í Eistlandi, Lettlandi, Grikklandi og Ítalíu. Sú umsókn hlaut brautargengi og verkefnið sem ber heitið: „Sharing competencies in entrepreneurial learning, connecting theory with practise“ hófst formlega á haustönn 2016. Eins og nafnið gefur til kynna snýst það um nýsköpun og hvernig eigi að stofna og reka fyrirtæki. Gert er ráð fyrir heimsókn til allra landanna en einungis þrír nemendur fara í hverja heimsókn. Á vorönn 2017 fóru nemendur í heimsókn til Ítalíu og Grikklands. Nemendur í verkefninu heimsækja Ísland í september næst komandi. Í FAS taka 12 nemendur þátt í verkefninu.

Félagslíf skólans var með svipuðu sniði og síðustu ár þar sem áhersla er lögð á klúbbastarf. Virkni nemenda hefði þó mátt vera meiri.
Strax á haustdögum var myndað Gettu betur lið í skólanum og æfði liðið reglulega alla önnina. Í fyrstu umferð keppti skólinn við FVA (Fjölbrautarskóla Vesturland) en tapaði með 20 stigum gegn 23. FAS komst þó áfram í aðra umferð sem eitt af þremur stigahæstu tapliðunum. Þar keppti FAS við MR en beið lægri hlut. Að sjálfsögðu stefnir FAS á að vera með á næsta ári og fara þá enn lengra í keppninni.
Á vorönninni var haldin árshátíð skólans í tengslum við opna viku. Í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar setti leikhópur skólans upp Pilt og stúlku í leikgerð Stefáns Sturlu Sigurjónssonar. Það er skemmst frá því að segja að sýningin tókst einstaklega vel og sáu um 600 manns sýninguna.
Í apríl voru Arndís Ósk og Sóley Lóa  kosnar forseti og varforseti nemendafélagsins fyrir næsta skólaár. Þær eru staðráðnar í því að efla félagslíf skólans og auka virkni nemenda.

Nú hefur skapast sú hefð í lok hverrar annar að haldin er uppskeruhátíð í Vöruhúsinu þar sem þær list- og verkgreinar sem eru í boði sýna afrakstur vinnu sinnar. Það er vel því skólinn leggur mikla áherslu á list- og verknám. Til að gera námið enn sýnilegra hefur verið ákveðið að bjóða upp á lista- og menningarsvið sem hluta af námi til stúdentsprófs.

Skólastarfi vorannar lauk svo formlega 27. maí með útskrift. Að þessu sinni voru útskrifaðir 19 stúdentar, einn nemandi af framhaldsskólabraut og fjórir af A-stigi vélstjórnar. Flestir útskriftarnema eru að útskrifast samkvæmt nýrri námskrá og má segja að nú hafi hún að fullu tekið gildi.

Aftari röð frá vinstri: Björk Davíðsdóttir, Adisa Mesetovic, Sigrún Birna Steinarsdóttir, Hafdís Lára Sigurðardóttir, Anna Birna Elvarsdóttir, Anna Soffía Ingólfsdóttir, Þórdís Gunnarsdóttir, Petra Augusta Pauladóttir, Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, Elín Ása Heiðarsdóttir og Lilja Karen Björnsdóttir.

Fremri röð frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, Gunnar Örn Olgeirsson, Rannver Olsen, Eggert Helgi Þórhallsson, Hjörvar Ingi Hauksson, Sigmar Þór Sævarsson, Dagur Snær Guðmundsson, Birkir Freyr Elvarsson, Mirza Hasecic, Sævar Örn Kristjánsson og Berglind Óttarsdóttir.

Á myndina vantar nýstúdentana Helgu Guðrúnu Kristjánsdóttur og Jón Guðna Sigurðsson. Einnig Gísla Skarphéðin Jónsson sem lauk framhaldsskólaprófi.

 

 

 

 

Skólaárið 2015 – 2016

Á haustönn voru um 150 nemendur skráðir við upphaf skólastarfs og um 170 á vorönn. Nemendaígildi, þ.e. nemendur í fullu námi á skólaárinu voru 97. Eins og áður er FAS aðili að Fjarmenntaskólanum. Eyjólfur Guðmundsson settist aftur í stól skólameistara eftir árs námsleyfi.

Skólastarf haustannar hófst formlega 21. ágúst þegar skólinn var settur. Skólastarf var nokkuð hefðbundið á haustönninni. Gróðurreitanna á Skeiðarársandi var vitjað og Heinabergsjökull mældur. Og að venju voru Vísindadagar í FAS í lok október. Að þessu sinni voru dagarnir í samstarfi við aðrar stofnanir í Nýheimum. Markmiðið var tvíþætt. Annars vegar að kynna fyrir nemendum þá blómlegu starfsemi sem er í húsinu og hins vegar að nýta þann mannauð sem hér starfar.
Á vorönninni var skólastarf einnig hefðbundið. Fuglar voru taldir nokkrum sinnum í Óslandi og um miðjan mars var farið í árlega álftatalningaferð upp í Lón. Að þessu sinni var fremur lítið af fugli en vegna óvenjulangrar kuldatíðar var lónið að stærstum hluta ísilagt þegar var talið.

Það hefur verið talað um það um nokkurt skeið að gaman væri að nýta tæknina til jöklamælinga og fá um leið nákvæmari upplýsingar en þegar þríhyrningamælingum er beitt. Leitað var til Náttúrustofu Suðausturlands eftir samstarfi. Í lok apríl var farið að Fláajökli og jökullinn mældur með stafrænum fjarlægðamæli og GPS tækjum. Upplýsingarnar voru síðan tengdar við GIS gagnagrunninn sem er landfræðilegt upplýsingakerfi. Vonandi eru þessar mælingar komnar til að vera.

Langflestir áfangar í list- og verkgreinum eru nú kenndir í Vöruhúsinu. Í lok september var FabLab smiðja opnuð þar formlega og með tilkomu hennar hægt að efla kennslu í þessum greinum enn frekar.

Nú er verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli formlega lokið og á hendi hvers skóla að fylgja því eftir. Í lok vorannar 2015 var lögð fyrir könnun á meðal nemenda þar sem mátti merkja að það þyrfti að gefa betri gaum að líðan nemenda. Til að bregðast við þessu var Birgir Guðmundsson sálfræðingur sveitarfélagsins fenginn til að vera með fyrirlestur um andlega líðan og mikilvægi þess að þekkja einkenni ef ekki allt er í lagi. Einnig var boðið upp á námskeið fyrir nemendur í hugrænni atferlismeðferð (HAM). Líkt og undanfarin ár var boðið upp á ókeypis hafragraut á Nýtorgi og var almenn ánægja með það.

Erlent samstarf hefur verið nokkuð áberandi undanfarin ár. Á þessu skólaári hófust tvö tveggja ára Eramsus+ verkefni. Hið fyrra nefnist 120 myndir og er samstarfsverkefni skóla í Frakklandi, Þýskalandi, Lúxemborg, Belgíu, Litháen og á Íslandi. Tveir kennarar í FAS taka þátt í verkefninu að hálfu Íslands. Verkefnið snýst um það hvernig myndir geti auðveldað ungu fólki að velja sér starfsvettvang í framtíðinni. Verkefnið hefur verið unnið á nokkrum tungumálum en ætlunin er að uppfæra verkefnið og þýða yfir á ný tungumál. Í lok verkefnisins verður til vefsíða með kennsluefni sem verður öllum aðgengilegt.
Hitt Eramsus+ verkefnið nefnist „Your Health is Your Wealth“ og er samstarfi við Liceum Ogólnokształcące nr VII  (LO nr VII) í borginni Wroclaw í Póllandi. Þetta verkefni er unnið í anda heilsuskólans. Myndaðir eru nemendahópar í hvoru landi sem vinna að sameiginlegum verkefnum og einnig heimsækja þeir hvora aðra. Í nóvember fóru 12 nemendur til Póllands og dvöldu þar í viku og í byrjun apríl komu 17 pólskir nemendur til Íslands í tíu daga heimsókn. Þetta verkefni heldur áfram á næsta skólaári og er gert ráð fyrir að hópur íslenskra nemenda fari til Póllands í lok september. Um miðjan apríl var haldinn verkefnastjórafundur í FAS. Þá komu fjórir pólskir kennarar sem allir höfðu komið að verkefninu. Farið var yfir framgang verkefnisins þetta fyrra ár og línur lagðar fyrir seinna árið.
Á haustdögum lauk tveimur samstarfsverkefnum formlega. Annars vegar við Max-Plank-Gymnasium í Trier í Þýskalandi og hins vegar við Vajda János Gimnázium í Keszthely í Ungverjalandi. Bæði þessi verkefni höfðu verið skráð sem eTwinning verkefni sem eru rafræn samstarfsverkefni. Hægt er að sækja um viðurkenningar fyrir verkefnin og hlaut ungverska verkefnið evrópsku gæðaverðlaunin fyrir framúrskarandi árangur í samstarfsverkefni þar sem fjallað er um loftslagsbreytingar. Þetta er mesta viðurkenning sem FAS hefur fengið fyrir erlent samstarf.
Dagana 9.-13. nóvember var haldin ráðstefna í Zagreb um menntun og upplýsingamiðlun. Þar voru mættir sjö fulltrúar frá  Fjarmenntaskólanum.  Ráðstefnan var tíunda ársráðstefna ecoMedia sem eru samtök 5000 skóla víðsvegar um Evrópu.  Fjarmenntaskólanum var boðið að taka sæti í stjórn samtakanna og óskir komu fram um að halda ráðstefnu ecoMedia á Íslandi árið 2018.
Þá fóru nemendur sem völdu framhaldsáfanga í dönsku á slóðir Kristjáns fjórða í Kaupmannahöfn í október og gerðu góða ferð.

Félagslíf skólans var með svipuðu sniði og síðustu ár þar sem áhersla er lögð á klúbbastarf. Virkni nemenda hefði þó mátt vera meiri. Á haustdögum fór fram undankeppni í Söngkeppni framhaldsskólanna þar sem Marteinn bar sigur úr býtum. FAS tók þó ekki þátt í lokakeppninni á vorönninni og vildi þar með mótmæla reglum um þátttöku og kostnað en nú þurftu keppendur að borga til að fá að vera með.

Strax á haustdögum var myndað Gettu betur lið í skólanum og æfðu þau reglulega alla önnina. Í fyrstu umferð keppti skólinn við MK og vann með 27 stigum gegn 15. Í annarri umferð keppti FAS við Menntskólann við Sund og tapaði naumlega. Að sjálfsögðu stefnir FAS á að vera með á næsta ári og fara þá enn lengra í keppninni.
Í fyrsta sinn tók FAS þátt í MORFÍs sem er mælsku- og ræðukeppni. Lið skólans hélt á Selfoss og keppti þar við FSU. Einnig þar tapaði liðið naumlega en stefnir jafnframt á að vera með á næsta ári.
Á vorönninni var haldin árshátíð skólans í tengslum við opna viku. Í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar setti leikhópur skólans um tvö stutt leikverk; Perfect og Tjaldið. Verkin voru sýnd nokkrum sinnum og tókust sýningar vel.
Í apríl voru Adisa og Björk kosnar forseti og varforseti nemendafélagsins fyrir næsta skólaár. Þær eru staðráðnar í því að efla félagslíf skólans og auka virkni nemenda.

Skólastarfi voranna lauk svo formlega 21. maí með útskrift. Að þessu sinni voru útskrifaðir 20 stúdentar, átta nemendur af framhaldsskólabraut, tveir nemendur af fjallamennskubraut og úr starfsnámi útskrifast einn af vélvirkjabraut og einn af A-stigi vélstjórnar. Flestir útskriftarnema eru að útskrifast samkvæmt nýrri námskrá og má segja að nú hafi hún að fullu tekið gildi.

Nýstúdentar eru: Agnar Ólafsson, Arnar Freyr Valgeirsson, Auður Lóa Gunnarsdóttir, Ármann Örn Friðriksson, Birkir Þór Hauksson, Björgvin Konráð Andrésson, Guðrún Ósk Gunnarsdóttir, Hallmar Hallsson, Inga Kristín Aðalsteinsdóttir, Ingólfur Waage Jónsson, Ívar Örn Valgeirsson, Maria Selma Haseta, Marteinn Eiríksson, Šejla Zahirović, Sóley Þrastardóttir, Sunneva Dröfn Jónsdóttir, Sædís Harpa Stefánsdóttir, Vigdís María Borgarsdóttir, Þorkell Ragnar Grétarsson og Þorsteinn Geirsson.

Af framhaldsskólabraut útskriftast: Bryndís Arna Halldórsdóttir, Egill Jón Hannesson, Hákon Guðröður Bjarnason, Helgi Ernir Helgason, Kristófer Örvar Ögmundsson, Patrycja Rutkowska, Viktor Örn Einarsson og Yrsa Ír Scheving.

Af fjallamennskubraut útskrifast: Emilía Blöndal og Kristín Jóna Hilmarsdóttir. Jens Olsen útskrifast af vélvirkjabraut og vélstjóri af A-stigi er Kristján Björn Skúlason.
Bestum árangri á stúdentsprófi  að þessu sinni náði Ármann Örn Friðriksson.

 

 

Skólaárið 2014-2015

Á haustönn voru 184 nemendur skráðir við upphaf skólastarfs en aðeins færri á vorönn. Nemendaígildi, þ.e. nemendur í fullu námi á skólaárinu voru 125.

Skólastarf haustannar hófst formlega 22. ágúst þegar að skólinn var settur. Miðað við stærð skólans var námsframboð fjölbreytt. Undanfarin ár hefur aukin áhersla verið lögð á list- og verkgreinar þar sem að aðstaða í Vöruhúsinu er nýtt. Starf haustannar var nokkuð hefðbundið. Að venju voru gróðurreitirnir á Skeiðaársandi skoðaðir  og Heinabergsjökull mældur. Vísindadagar voru á sínum stað í lok október þar sem fjölbreytt verkefni voru unnin.

Vígsla nýnema fór fram 29. ágúst. Síðustu ár hefur verið unnið markvisst að því breyta móttöku nýnema. Nú er aðalmarkmiðið að eldri og yngri nemendur sprelli aðeins saman og að öllum líði vel.

Margir góðir gestir hafa komið í heimsókn í FAS á skólaárinu til að miðla af reynslu sinni eða til að fræða. Þar má nefna Þorgrím Þráinsson með fyrirlesturinn Láttu drauminn rætast sem fjallaði um hvað hver einstaklingur getur gert til að ná sem bestum árangri. Magnús Stefánsson frá  Maritafræðslunni hélt fyrirlesturinn  „Satt og logið um kannabis“  og svaraði spurningum um efnið.  Teitur Guðmundsson læknir fjallaði um kynheilbrigði. Síðast en ekki síst koma Ugla Stefanía Jónsdóttir frá Samtökunum 78 og fræddi nemendur um samtökin og fjallaði um fordóma í garð hinsegin fólks.

Líkt og undanfarin ár var megináherslan í félagslífi nemenda á klúbbastarf og stóðu margir klúbbar fyrir föstum viðburðum. Þar má t.d. nefna  árshátíð sem er haldin í tengslum við Opna daga. Nokkrum sinnum spiluðu meðlimir í tónlistarklúbbi í hádeginu á Nýtorgi.  Í byrjun vorannar setti Leiklistarklúbburinn  í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar söngleikinn Love me do á svið. Höfundur og leikstjóri verksins er Stefán Sturla Sigurjónsson. Söngleikurinn er byggður á lögum Bítlanna. Alls komu um þrjátíu nemendur að sýningunni sem tókst með eindæmum vel. Hljómsveit skipuð nemendum og einum kennara spilaði undir á sýningum. Leikritið var sýnt mörgum sinnum fyrir fullu húsi.

Verkefnið heilsueflandi framhaldsskóli hélt áfram.  Í vetur var áherslan á lífsstíl sem er fjórða og síðasta viðfangsefni heilsuskólans. Lífsstíll byggir á viðfangsefnum undanfarinna ára sem eru: næring, hreyfing og geðrækt. Á haustdögum hlaut FAS bronsviðurkenningu fyrir skólaárið 2013 – 2014. FAS leggur sitt af mörkum í heilsuskólanum og hefur í vetur boðið nemendum upp á hafragraut á Nýtorgi á morgnana og hafa nemendur verið duglegir að nýta sér það.

Það má með sanni segja að ferð starfsfólks Nýheima og bæjarstjórnarmanna til Söderhamn í Svíþjóð vorið 2012 hafi verið heilladrjúg því í kjölfarið hafa margs konar samstarfsverkefni farið af stað. Eitt þeirra verkefna sem fór af stað síðasta haust kallast Mótstöðuafl (Opposing Force) og er viðfangsefnið ungt fólk og atgervisflótti. Í haust tóku tólf nemendur í FAS þátt í námskeiði um jafningjafræðslu en jafningjafræðsla byggir á þeirri hugmynd að hópur ungmenna kynni sér tiltekið málefni og miðli svo til jafningja sinna. Hópurinn í FAS valdi að fjalla um jafnrétti. Í kjölfarið á námskeiðinu hefur verið mikil gróska í jafnréttisumræðu í skólanum. Stofnun Femínistafélags FAS og Hinseginfélags FAS má rekja til þeirrar umræðu. Í lok skólaársins stóð jafningjafræðsluhópurinn síðan fyrir Lifandi bókasafni  í Nýheimum en tilgangurinn með því verkefni var m.a. að takast á við fordóma og ranghugmyndir. Það er Þekkingarsetur Nýheima sem hefur umsjón með verkefninu hér.

Undankeppni í Söngkeppni framhaldsskólanna fór fram í lok nóvember. Þar bar Yrsa Ír Scheving sigur úr býtum. Birkir Þór Hauksson spilaði undir á hljómborð.  Þau tóku þátt í lokakeppninni sem fór fram 11. apríl.

Í lok síðasta árs fékk FAS styrk frá Vinum Vatnajökuls til að hanna nýja vefsíðu. Sú vinna hefur staðið yfir á vorönninni og stefnt er að því að  nýr vefur verði opnaður næsta haust.

Tvö erlend samstarfsverkefni voru í gangi á skólaárinu. Verkefnið „Living in a Changing Climate“ við Vajda János Gimnázium í Ungverjalandi hófst haustið 2013 og var meginþunginn í því verkefni skólaárið 2013-2014. Skólinn ytra sótti um eTwinning verðlaun og hafnaði í öðru sæti. FAS gat ekki sótt um verðlaunin síðasta haust því hérlendis er það ekki hægt fyrr en verkefninu er að fullu lokið og lokaskýrslu hefur verið skilað.
Verkefnið Nachhaltigkeit im Nationalpark – Wir finden den Weg  með Max Plank Gymnasium í Tríer í Þýskalandi fjallar um sjálfbærni í þjóðgörðum hófst einnig haustið 2013. Þar starfa FAS og ME saman og eru það nemendur í þýskunámi sem koma að því verkefni. Þar  hefur aðaláherslan verið á þessu skólaári. Gert var ráð fyrir að nemendur frá Tríer kæmu til Íslands í lok ágúst. Eldgosið í Holuhrauni breytti þó ferðaáætlun gestanna og frestuðu þeir för fram í júlí 2015. Þátttakendur í verkefninu í FAS og ME hittust í byrjun september og gengu m.a. á Snæfell. Farið var utan um miðjan mars og áttu Íslendingarnir  góðan tíma í Tríer.
Í vetur var einnig unnið að umsókn um næsta samstarfsverkefni og vænta má svars innan nokkurra vikna um hvort það hljóti brautargengi.

Á vorönn var nám í fjallamennsku endurskipulagt með það að markmiði að yngri nemendur geti skráð sig í námið. Skólastarf vorannar var hefðbundið. FAS tók þátt í Gettu betur í janúar. Í mars héldu háskólar á Íslandi sameiginlega kynningu í Nýheimum á námsframboði skólanna. Það var ánægjulegt að sjá nokkra útskrifaða nemendur mætta  til að kynna nám á næsta skólastigi. Fyrir páska staldraði Menntalest Suðurlands við í Nýheimum til að kynna fjölbreytt vísindi. Nemendur í stjórnmálafræði fóru í námsferð til Reykjavíkur í apríl. Þá voru fuglar taldir reglulega í Óslandi og eftir páska voru taldar álftir á Lónsfirði.

Á hverju ári stendur  SFR sem er stéttarfélag í almannaþjónustu fyrir könnun á meðal félagsmanna um hvernig þeir meti sinn vinnustað. Þegar úrslit voru kunngjörð hafði FAS hækkað sig um 60 sæti frá fyrra ári og endaði í áttunda sæti allra stofnana. Fyrir vikið hlýtur FAS sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun 2015. Að auki er FAS einn af hástökkvurum ársins hjá SFR.

Laugardaginn 23. maí  fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni voru útskrifaðir 13 stúdentar, þrír nemendur af fjallamennskubraut, fjórir vélaverðir og einn af B stigi vélstjórnar.

Þetta skólaár var Zophonías Torfason skólameistari en Eyjólfur Guðmundsson var í námsleyfi. Eyjólfur kemur aftur til starfa á næsta skólaári.

Aftari röð frá vinstri: Þórdís Kristvinsdóttir, Skúli Magnús Júlíusson, Gestur Hansson, Tómas Ásgeirsson, Ragnar Magnús Þorsteinsson, Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir, Una Guðjónsdóttir, Hallur Sigurðsson, Guðjón Björnsson, Gunnar Freyr Valgeirsson og Zophonías Torfason.

Fremri röð frá vinstri: Sveinbjörg Andrea Auðunsdóttir, Guðrún Kristín Stefánsdóttir, Heiðdís Anna Marteinsdóttir, Ljósbrá Dögg Ragnarsdóttir, Anna Lilja Gestsdóttir, Lydía Angelíka Guðmundsdóttir, Þórhildur V. Sigursveinsdóttir og Ingibjörg Lilja Pálmadóttir.

Á myndina vantar Þorlák Helga Pálmason nýstúdent, Hallmar Hallson vélavörð og Loft Vigni Bjarnason sem útskrifaðist af B stigi vélstjórnar.

Skólaárið 2013-2014

Um 180 nemendur voru skráðir í skólann og samsvarar það um 130 nemendaígildum, þ.e. nemendum í fullu námi. Námsframboð var fjölbreytt.

Skólastarf hófst þann 22. ágúst og nú var verið að kenna eftir nýrri námskrá. Þar er mikil áhersla lögð á að nemendur sinni náminu af kostgæfni. Þess vegna var ákveðið að fyrir hvern fimm eininga áfanga séu nemendur að lágmarki eina klukkustund á lesstofu til að sinna námi í áfanganum. Margir og sérstaklega eldri nemendur voru þessu andsnúnir í byrjun. Minna bar á andstöðu á vorönninni en aðsókn eldri nemenda var enn dræm. Yngri nemendur hafa að langstærstum hluta nýtt lesstofuna vel og voru þeir sáttir við fyrirkomulagið. Áfram er gert ráð fyrir að nemendur nýti ákveðinn tíma í vinnu á lesstofu.

Menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson heimsótti Hornafjörð 13. september og fundaði með forsvarsmönnum Nýheima um áherslur í áframhaldandi uppbyggingu hússins. Á fundinum var m.a. rætt nýtt skipulag fullorðinsfræðslu á svæðinu og óskað eftir framlagi til að ráða verkefnastjóra fyrir Nýheima. Í apríl var Davíð Arnar Stefánsson ráðinn verkefnastjóri Þekkingarseturs Nýheima og mun hann koma til starfa í júní.

Starf haustannar var nokkuð hefðbundið. Nemendur fylgdust með gróðri á Skeiðarársandi og mældu Heinabergsjökul og að venju voru vísindadagar haldnir þegar líða tók á haustönnina. Þá eru bækurnar lagðar til hliðar um stund og önnur verkefni skoðuð þar sem vísindalegum vinnubrögðum er beitt. Meðal verkefna sem voru unnin að þessu sinni var viðhorfskönnun Hornfirðinga til FAS.

Í lok síðasta skólaárs ákváðu nokkrir framhaldsskólar á landsbyggðinni að starfa saman með það fyrir augum að auka framboð náms á framhaldsskólastigi á starfssvæði skólanna og á landinu öllu. Einkum er horft til þess að auka framboð á sérgreinum starfsnámsbrauta. Námið fer fram með stuttum staðbundum lotum og í fjarnámi.  Skólinn kallast Fjarmenntaskólinn. Miðað er við að hægt sé að taka námið samhliða vinnu. Á haustönn 2014 eru í boði 15 starfsnámsbrautir í 10 framhaldsskólum og er hver braut í umsjón eins tiltekins skóla.  Sá skóli ber ábyrgð á náminu, skipuleggur það og veitir nánari upplýsingar.  Kennsla í einstaka áföngum getur þó farið fram hjá fleiri en einum skóla. Aðilar að Fjarmenntaskólanum eru: Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi, Menntaskóli Borgarfjarðar í Borgarnesi, Fjölbrautaskóli Snæfellinga á Grundarfirði, Menntaskólinn á Ísafirði, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Menntaskólinn á Tröllaskaga í Ólafsfirði, Framhaldsskólinn á Húsavík, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu á Höfn.

Nokkur gróska var í erlendu samstarfi. Kennari í FAS og starfsmaður í Vöruhúsi fóru til Söderhamn í Svíþjóð í september til að skoða uppbyggingu á list- og verkgreinakennslu sem fyrirmynd að sambærilegu starfi á Höfn. Þá fór samskiptaverkefnið „Living in a Changing Climate“ við Vadja János Gimnazíum Í Keszthely í Ungverjalandi af stað af krafti en það hafði verið undirbúið á vorönn 2013. Íslenski hópurinn fór í heimsókn til Ungverjalands um miðjan október og átti þar góða daga. Ungverjarnir sóttu síðan Ísland heim á vorönninni. Heimsóknir gengu í alla staði mjög vel og á næsta skólaári mun vinna við verkefnið halda áfram en verkefninu lýkur formlega um mitt ár 2015. Þá fóru nemendur í dönsku í stutta ferð til Kaupmannahafnar að kynna sér danska kónga og menningu. Á vordögum hófst vinna í nýju samstarfsverkefni við Tríer í Þýskalandi þar sem áherslan er á sjálfbærni í þjóðgörðum.

Enn og aftur var leitað að olíu í FAS. Nú var það liðið Sorellas í FAS sem vann landskeppnina í nóvember og þar með þátttökurétt á lokakeppninni í London sem fór fram í janúar. Þar hafnaði liðið í fjórða sæti en hafði lengi framan af leitt keppnina.

Þann 17. mars hófst verkfall í framhaldsskólum. Það stóð í þrjá vikur og hafði nokkur áhrif á skólastarf. Til að bæta um tapið var bætt við fimm kennsludögum auk þess sem munnleg próf voru eftir kennslu eða um helgar.

Félagslíf nemenda var með svipuðu sniði og undanfarin ár þar sem nemendur starfa í klúbbum. Að venju voru nokkrir fastir viðburðir eins og árshátíð sem er í tengslum við Opna daga.  Þá setti leiklistarklúbburinn upp leikritið Blúndur og blásýra í samvinnu við Leikfélag Hornafjarðar.

Laugardaginn 24. maí fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni voru útskrifaðir 20 stúdentar og einn af B stigi vélstjórnar.

Eyjólfur Guðmundsson skólameistari verður í námsleyfi skólaárið 2014 – 2015. Í fjarveru hans sest Zophonías Torfason í skólameistarastólinn.

Brautskráðir 2014

Aftari röð frá vinstri: Daníel Guðmundsson, Maríus Sævarsson, Símon Rafn Björnsson,Júlían Bent Austar Egilsson, Þorkell Óskar Vignisson, Valur Zophoníasson, Kjalar Þór Jóhannsson, Trausti Sævarsson, Ingvi Þór Sigurðsson
Fremri 
röð frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, Nejra Mesetovic, Siggerður Aðalsteinsdóttir, Anna Regína Heiðarsdóttir, Heiða Vilborg Sigurbjörnsdóttir, Guðlaug Jóna Karlsdóttir, Dóra Björg Björnsdóttir, Fjóla Ósk Ögmundsdóttir, María Birkisdóttir, Margrét Vignisdóttir, Hulda Björg Sigurðardóttir, Rannveig Einarsdóttir.

Á myndina vantar Ágúst Jónsson sem útskrifaðist af B stigi vélstjórnar.

Skólaárið 2012-2013

Um 200 nemendur voru skráðir í skólann og samsvarar það um 130 nemendaígildum, þ.e. nemendum í fullu námi. Námsframboð var fjölbreytt. Nýtt í námsframboði var stúdentspróf á umhverfis- og auðlindabraut en það nám er í fjarnámi. Þá var fjallamennskunám í fyrsta sinn í boði sem formlegt framhaldsskólanám frá skólanum.

Þann 14. september var þess minnst að þá var liðinn aldarfjórðungur frá því að Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu var settur í fyrsta sinn. Blásið var til afmælisveislu og þar var frumfluttur skólasöngur FAS en fyrr á árinu hafði verið efnt til samkeppni um einkennislag fyrir skólann. Lagið er eftir Grétar og Karl Örvarssyni og textinn eftir Karl Kristensen. Skólasöngurinn var sunginn við útskrift þann 25. maí.

Þriðja október var haldin afmælisráðstefna FAS og Nýheima um mennta- og menningarmál á svæðinu. Katrín Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra heimsótti skólann þennan dag.  Þar var m.a. undirrituð viljayfirlýsing um eflingu á starfi Nýheima á sviði menningar, menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Það voru bæði ráðuneyti atvinnumála og nýsköpunar og ráðuneyti mennta- og menningarmála sem stóðu að viljayfirlýsingunni ásamt heimamönnum. Þann 31. maí var svo haldinn stofnfundur Þekkingarseturs Nýheima.

Vísindadagar voru að venju haldnir þegar líða tók á haustönnina. Að þessu sinni tengdust verkefni vikunnar 25 ára afmæli skólans.

Verkefnið Heilsueflandi Framhaldsskóli hélt áfram og á þessu ári var sérstök áhersla lögð á hreyfinguna. FAS hlaut silfurviðurkenningu frá Landlæknisembættinu fyrir störf sín í verkefninu. Sú viðurkenning tengist verkefni fyrsta vetrar þar sem lögð var áhersla á næringuna.

Nokkur gróska var í erlendu samstarfi. Í júlí 2012 fór nemandi frá FAS á Ólympíuleika þýskunnar í Frankfurt og var hann eini fulltrúi landsins á leikunum. Í lok ágúst komu nemendur frá samstarfsskólanum í Tríer til Hornafjarðar. Yfirskrift samstarfsverkefnisins er landbúnaður og hér fengu nemendur fræðslu um íslenska hestinn, ræktun á kartöflum og sauðfjár- og nautgriparækt. Í nóvember fóru nemendur í dönsku í stutta námsferð til Kaupmannahafnar. Þá hlaut samstarfsverkefnið við Litháen eTwinning verðlaun í flokki framhaldsskóla fyrir besta samstarfsverkefnið á framhaldsskólastigi skólaárið 2011 – 2012. Einnig fékk samstarfsverkefnið ICEPO viðurkenningu á ráðstefnu í Varsjá. Eins og venjulega leitaði FAS að olíu á haustdögum.

Félagslíf nemenda var öflugt allt árið. Nú er hópastarf í félagslífinu orðið fast í sessi. Í vetur voru starfandi 11 klúbbar með um 90 þáttakendur. Nemendur stóðu fyrir fjölbreyttum viðburðum, bæði fyrir nemendur FAS og eins í samfélaginu. Góð reynsla er nú komin á klúbbastarf nemendafélags FAS og ljóst er að hið breytta fyrirkomulag hentar nemendum vel. Félagið er mun sýnilegra en áður og viðburðum hefur fjölgað til muna.

Undanfarin ár hefur verið unnið að undirbúningi á nýju námsskipulagi í FAS og er það gert í samræmi við ný lög fyrir framhaldsskóla. Á þessu skólaári var enn meiri kraftur settur í þá vinnu. Nú voru skrifaðar áfangalýsingar fyrir áfanga eftir nýju skipulagi. Haustið 2013 verður byrjað að kenna eftir nýrri námskrá. Þar er m.a. lögð áhersla á list- og verkgreinar. Í því sambandi hafa FAS og Sveitarfélagið Hornafjörður unnið að því að efla Vöruhúsið sem miðstöð skapandi greina á svæðinu þar sem bæði nemendur, hönnuðir og starfandi listamenn geta fengið aðstöðu.

Unnið var í verkefninu Lærdómsamfélagið Hornafjörður af fullum krafti en það verkefni er styrkt af Sprotasjóði og tengist inn á öll skólastig frá leikskóla til framhaldsskóla þar sem áherslan er að samþætta grunnþætti skólastarfs. Auk skólastiganna þriggja eru Háskólasetrið, Tónskólinn og Þekkingarnetið þátttakendur í þessu verkefni. Átta starfsmenn í FAS tóku þátt í verkefninu. Fundað var reglulega. Þann 14. janúar var haldið málþing þar sem fjallað var um grunnþætti menntunar á öllum skólastigum. Verkefnið jók skilning á grunnþáttum meðal þátttakenda. Að auki kviknuðu margar hugmyndir að samskiptum og samvinnu á milli skólastiga sem nýta má í framtíðinni.

Á skólaárinu var einnig unnið að öðrum verkefnum. Þar má t.d. nefna verkefni þar sem könnuð er þörf fyrir menntun í ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi.

Á vorönninni unnu Leikfélag Hornafjarðar, Tónskólinn og FAS saman að uppsetningu á leikverki. Fyrir valinu að þessu sinni var söngleikurinn Grease. Uppsetningin undir stjórn Stefáns Sturlu Sigurjónssonar tókst með eindæmum vel. Fullt var á allar sýningar og þurfti að hafa aukasýningar.

Laugardaginn 25. maí fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni voru útskrifaðir 27 stúdentar, sjö fjallamennskunemar, þrír félagsliðar og þrír af B stigi vélstjórnar. Einn nemandi útskrifaðist af starfsbraut.

utskriftarnemendur_2013_t

Aftasta röð frá vinstri: Björn Ævar Jónsson, Ólafur Jónsson, Halldór Ólafsson, Elísabet Þorsteinsdóttir,Anna Antonsdóttir, Anna Kristín Hauksdóttir, Kristey Lilja Valgeirsdóttir,  Eyjólfur Guðmundsson.
Miðjuröð frá vinstri: Brynja Rut Borgarsdóttir, Sigurður Þór Friðþórsson, Ólafur Einir Birgisson, Pálmi Geir Sigurgeirsson, Rafn Svan Gautason, Fannar Blær Austar Egilsson, Jóhann Árni Andrésson, Reynir Ásgeirsson, Guðjón Ingibergur Ólafsson, Sævar Knútur Hannesson, Þórhildur Sigurðardóttir, Mist Grétarsdóttir.  
Fremsta 
röð frá vinstri: Karen Björg Halldórsdóttir, Þórdís Imsland, Kolbrún Birna Ólafsdóttir, Þorbjörg Gunnarsdóttir, Arna Ósk Harðardóttir, Hjördís Lilja Sveinsdóttir, Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir, Lejla Cardaklija, Eva Kristín Guðmundsdóttir, Kristjana H. Þorvarðardóttir, Róslín Alma Valdemarsdóttir, Aleksandra Vrbaski, Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir, Anna Mekkín Reynisdóttir.

Á myndina vantar fjallamennskunemana Odd Eldjárn, Gísla Þór Briem, Ívar Eiðsson, Margréti Vignisdóttur, Sigurð Ragnarsson og Þorstein Dag Rafnsson. Einnig Emil Karlsson sem útskrifaðist af B stigi vélstjórnar.

 

 

Skólaárið 2011-2012

Á haustönninni voru rúmlega 280 nemendur skráðir í nám og samsvarar það ríflega 160 nemendum í fullu námi.  Rúmlega eitthundrað nemendur eru skráðir á stúdentsprófsbrautir. Margir hópar voru í stærri kantinum og þurfti að bregða á það ráð að kenna stærsta hópnum í fyrirlestrasalnum því stofurnar á efri hæðinni voru of litlar.

Verkefninu Heilsueflandi Framhaldsskóli var formlega hrint af stað 17. október. Þetta er fjögurra ára verkefni og á fyrsta árinu er lögð áhersla á næringuna.

Vísindadagar voru að venju haldnir í byrjun nóvember. Þá voru kennslubækurnar lagðar til hliðar og nemendur fengust við verkefni tengd áhugasviðum.  Alls var unnið að átta mismunandi verkefnum sem voru kynnt í opnu húsi á síðasta degi vísindadaganna.

Tvö nemendaskiptaverkefni voru í gangi á skólaárinu annars vegar við skóla í Siaulai í Litháen og hins vegar við Tríer í Þýskalandi. Íslendingar fóru í heimsókn til Litháen í byrjun nóvember og nemendur frá Litháen komu til Hafnar um miðjan mars. Þá fóru nokkrir nemendur frá FAS ásamt nemendum frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands til Tríer í Þýskalandi seinni partinn í febrúar. Von er á nemendum frá Tríer í upphafi haustannarinnar.

Líkt og undanfarin ár var blásið til olíuleitar á haustönninni. Liðið Senjoríturnar frá FAS unnu landskeppnina og tóku þátt í lokakeppninni í London í lok janúar.

Starf nemendafélags FAS tók miklum breytingum á skólaárinu. Þar var lögð áhersla á að auka virkni nemenda í ýmis konar hópastarfi.  Starf nemendafélagsins var vel sýnilegt í samfélaginu. Þar má t.d. nefna stelpu- og konukvöld á Hótel Höfn, þorrablót og meistaramót FAS sem var haldið einu sinni hvora önn þar sem keppt var í fremur óhefðbundnum greinum.

FAS hlaut styrk frá Vinum Vatnajökuls til að koma á framfæri upplýsingum sem tengjast ýmsum vöktunar- og rannsóknarverkefnum sem hafa verið unnin um árabil í skólanum.  Ætlunin er að setja þessar upplýsingar upp á vef og gera þær um leið aðgengilegar almenningi.

Þann 20. mars var blásið formlega til afmælisárs í FAS en á þessu ári fagnar skólinn 25 ára afmæli sínu. Þann dag árið 1986 samþykkti framhaldsskólanefnd að hefja samningaviðræður við menntamálaráðuneytið um stofnun framhaldsdeildar í Austur-Skaftafellssýslu. Afmæli skólans mun verða minnst á margvíslegan hátt á næstu vikum og mánuðum, t.d. hefur verið efnt til samkeppni um skólasöng.

Á skólaárinu var unnið áfram að nýrri námskrá og miðar þeirri vinnu þokkalega. Stefnt er að því að vinna eftir nýrri námskrá frá og með hausti 2013.

Kennsla í fjallamennskunámi hélt áfram. Stórt og mikið skyndihjálparnámskeið var haldið vegna þess á Höfn rétt fyrir páskana. Alls voru útskrifaðir ellefu nemendur sem höfðu tekið þátt í tilraunkennslu í náminu. Nú hefur fengist leyfi til að bjóða upp á nám í fjallamennsku á framhaldsskólastigi.

Á vorönninni fékk FAS tvo styrki úr Sprotasjóði. Annars vegar fékk FAS styrk til að byggja upp og þróa fjarnámsbraut til stúdentsprófs með áherslu á umhverfis- og auðlindafræði. Auk FAS standa Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Menntaskólinn á Egilsstöðum og Menntaskólinn á Tröllaskaga að þessu verkefni.
Þá styrkti Sprotasjóður verkefnið Lærdómssamfélagið Hornafjörður. Það er verkefni sem tengist inn á öll skólastig frá leikskóla til framhaldsskóla þar sem áherslan er að samþætta grunnþætti skólastarfs svo sem um lýðræði og jafnrétti. Auk skólastiganna þriggja eru Háskólasetrið, Tónskólinn og Þekkingarnetið þátttakendur í þessu verkefni.

Þann 19. maí var fjölmennasta útskrift til þessa. Þá voru útskrifaðir alls 46 nemendur; 22 stúdentar, einn vélstjóri af A stigi, þrír vélstjórar af B stigi, sjö skipstjórar af A stigi, einn húsasmiður og einn leiðbeinandi í leikskóla. Að auki fengu 11 nemendur sem hafa stundað nám í fjallamennsku viðurkenningu.

Í lok skólaárs fóru nokkrir kennarar úr FAS ásamt fleira starfsfólki úr Nýheimum og nokkrum fulltrúum frá sveitarfélaginu í heimsókn í þekkingarsetrið CFL í Söderhamn í Svíþjóð. Tilefni heimsóknarinnar er 10 ára afmæli Nýheima og 25 ára afmæli skólans. Í Söderhamn var blásið til ráðstefnu og stefnt er að ýmis konar samstarf verði á milli staðanna tveggja í kjölfarið.

Brautskráðir 2012

Aftasta röð frá vinstri: Rannveig Einarsdóttir, Ragnar Már Alfredsson, Þórhildur Magnúsdóttir, Björn Ingi Jónsson, Aron Franklín Jónsson, Þröstur Þór Ágústsson, Vignir Júlíusson, Jón Bragason, Hannes Ingi Jónsson, Friðrik Jónas Friðriksson, Jónína Einarsdóttir, Hildur Þórsdóttir.    
Miðjuröð frá vinstri:
 Egill Eiríksson, Sigurður Ragnarsson, Sigfinnur Björnsson, Óli Kristján Benediktsson, Alex Freyr Hilmarsson, Sindri Örn Elvarsson, Sverrir Brimar Birkisson, Níels Brimar Jónsson, Alen Haseta, Ásgrímur Arason, Oddur Gunnarsson. 
Fremsta röð frá vinstri:
  Eyjólfur Guðmundsson skólameistari, Hólmar Hallur Unnsteinsson, Björn Ármann Jónsson, Jóhannes Óðinsson, Sveinbjörg Zophoníasdóttir, Rakel Ösp Elvarsdóttir, Alexandra Geirsdóttir, Amna Hasecic, Ester Lind Önnudóttir, Hafdís Hauksdóttir, Kristín Hallsdóttir.

Á myndina vantar Heiðu Jóhönnu Pálmadóttur, Elís Hlyn Grétarsson, Grétar Smára Sigursteinsson, Guðlaug Birgisson, Jón Kristin Hafsteinsson, Sigurð Jón Ragnarsson, Torfa Hjaltason, Þröst Jóhannsson og Harald Mími Bjarnason.

Þá luku Kristján Friðrik Eiðsson og Þorsteinn Jónínuson B stigi vélstjórnar.

 

Skólaárið 2010-2011

Á haustönninni voru 240 nemendur skráðir til náms í skólanum og á vorönninni 220. Það er sem svarar um 150 nemendaígildum við skólann.

Samstarfsverkefni framhaldsskólanna á Austurland við Max-Planck-Gymnasium í Tríer í Þýskalandi hélt áfram. Fyrstu vikuna á haustönn komu Þjóðverjarnir við á Höfn á ferð sinni til Íslands.

FAS hélt áfram verkefnum sem lúta að því að fara með nemendur út í umhverfið og vinna ýmis konar verkefni. Sem dæmi um verkefni af þessum toga má nefna: Nám í fjallamennsku og ísklifri, rannsóknir á gróðurframvindu á Skeiðarársandi, jöklamælingar við Heinabergsjökul, námsferð í Mývatnssveitina, rannsóknir á álftum á Lónsfirði og reglulegar talningar á fuglum í Óslandi. Nokkur þessara verkefna tengdust við NEED verkefnið sem var Evrópuverkefni sem Háskólasetrið á Hornafirði leiddi.

Enn á ný tók FAS þátt í námsleiknum OILSIM. Flipptuðruskransararnir okkar sem unnu keppnina árið 2008 unnu landskeppnina og þar með þátttökurétt á lokamótinu í London sem fór fram síðustu helgina í janúar. Þar hafnaði liðið í öðru sæti eftir æsispennandi keppni.

Í byrjun nóvember voru vísindadagar haldnir í annað sinn. Þá var hefðbundin kennsla lögð niður í þrjá daga og nemendur gátu valið sér verkefni eftir áhugasviðum. Verkefnin að þessu sinni voru unnin í samvinnu við Háskólasetrið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands og tengdust öll verkefnin heimabyggðinni. Vísindadagarnir tókust afar vel og koma til með að vera árlegur viðburður.

Á haustönnin var hrint af stað verkefninu Grasrótar listnám í FAS en á síðasta ári fékk skólinn styrk úr verkefnasjóði skólasamninga til að þróa óhefðbundna kennslu í listgreinum. Tvisvar sinnum voru haldnar smiðjur í tengslum við þetta verkefni. Stefnt er að því að yfirfæra þetta verkefni á aðrar listgreinar í framtíðinni.

Í lok nóvember var haldin Afmælishátíð Menntaáætlunar ESB 2010 í Ráðhúsinu í Reykjavík. Þar var tilkynnt að verkefnið ICEPO hefði unnið til fyrstu verðlauna í flokki framhaldsskóla í landskeppni eTwinning, sem er áætlun ESB um rafrænt skólasamstarf. Fékk skólinn að launum myndbandsvél og verðlaunaskjal.

Verkefnið „aftur í nám“ hélt áfram en það tengist fyrst og fremst námi fullorðinna. Í vetur var boðið upp á ensku og dönsku. Þetta nám var mjög vinsælt. Fyrirkomulagið sem miðaði að því að ljúka allri vinnu í skólanum hentaði mörgum.

Á haustönninni hófst undirbúningur að verkefninu FAS – Heilsueflandi framhaldsskóli. Markmiðið með verkefninu er að stuðla markvisst að velferð og góðri heilsu allra í framhaldsskólunum. Verkefnið mun standa yfir í fjögur ár og byrjar af fullum krafti um leið og skólinn hefst næsta haust. Á næsta ári verður lögð áhersla á næringu.

Þann 5. apríl var haldið nemendaþing í skólanum. Umfjöllunarefnið var félagslíf og fyrirhugaðar breytingar á því.

Á vorönninni stóð leikhópur FAS fyrir á leikritinu Krimma eftir Michael Green. Að þessu sinni sáu nemendur einnig um leikstjórn sem verður að teljast frábært framtak.

Þann 21. maí fór fram fjölmennasta útskrift til þessa. Þá voru útskrifaðir alls 31 nemandi; 25 stúdentar, tveir sjúkraliðar, tveir stuðningsfulltrúar, einn leiðbeinandi í leikskóla og einn af A-stigi vélstjórnar.

Brautskráðir 2011

Aftari röð frá vinstri: Cecilia Ingibjörg Þórisdóttir, Anna Lind Þórhallsdóttir, Heba Þórhallsdóttir, Finnur Karl Vignisson, Aron Martin Ágústsson, Ólafur Albert Sævarsson, Einir Pálsson, Sævar Snorrason, Skúli Ingibergur Þórarinsson, Vilhjálmur Þór Ólafsson, Freyr Sigurðarson, Atli Haraldsson, Þorsteinn Jóhannsson,  Hanna Guðrún Kolbeins, Helga Haraldsdóttir, Gerður Mekkín Gunnarsdóttir, Þóra Björg Ingvadóttir, Inga Rósa Ingvadóttir, Eyjólfur Guðmundsson skólameistari. Fremri röð frá vinstri:  Aðalbjörg Hrafnkelsdóttir, Þórhildur Rán Torfadóttir, Guðlaug Margrét Björnsdóttir, Fjóla Jóhannsdóttir, Anna Guðlaug Albertsdóttir, Valdís Kjartansdóttir, Karl Heimir Einarsson, Ásta Margrét Sigfúsdóttir, Amor Joy Magno Pepito, Anita Sóley Jónudóttir, Bryndís Rós Sigurjónsdóttir, Sólveig Morávek Jóhannsdóttir. Á myndina vantar Kristján Helga Hjartarson.

FAS stefnir að áframhaldandi samstarfi við erlenda skóla. Nú hefur verið sótt um styrk til nemendaskiptaverkefni við skóla í Litháen. Sótt hefur verið um styrk til áframhaldandi samstarfs við Max-Planck-Gymnasium í Tríer í Þýskalandi. Þá hafa kennarar í samstarfsskólanum í Póllandi óskað eftir samstarfi við kennara í FAS þar sem markmiðið er að skoða vettvangsferðir í FAS og yfirfæra á skólastarf í Póllandi. Það mun skýrast á næstu vikum og mánuðum hvort skólinn hlýtur styrk til allra þessara verkefna.

 

Skólaárið 2009-2010

Á haustönninni voru 360 nemendur skráðir til náms í skólanum. Á árinu 2009 voru sem svarar 180 nemendaígildum við skólann og er þetta mesti fjöldi sem hefur stundað nám við skólann.

FAS tók þátt í NEED verkefninu sem er Evrópurverkefni sem Háskólasetrið á Hornafirði leiðir. Verkefnið snýst um að auka umhverfisvitund og umhverfisfræðslu í þátttökulöndunum. Undir merkjum NEED var unnið að rannsóknum á gróðurframvindu á Skeiðarársandi, námskeiði i fjallamennsku og ísklifri og rannsóknum á álftum á Lónsfirði. Fyrirhugað er að árlega verði fylgst með gróðurframvindu á Skeiðarársandi og álftunum á Lónsfirði.

ICEPO verkefnið hélt áfram. Pólverjarnir komu í heimsókn um miðjan september. Einn dag heimsóknarinnar var haldin pólsk hátíð í skólanum. Þá var lögð niður kennsla og dagurinn notaður til að kynnast landi og þjóð. Auk þess var hópurinn með skemmtiatriði, sýndi m.a. dans, fjölbragðaglímu og elddans. Þessi pólska hátíð tókst einstaklega vel. Í mars hélt íslenski hópurinn svo í heimsókn til Debica í Póllandi. Sú heimsókn tókst einnig í alla staði vel.

Framhaldsskólarnir á Austurlandi tóku saman  þátt í samskiptaverkefni við Max-Planck-Gymnasium í Tríer í Þýskalandi. Fjórir nemendur frá FAS komu að þessu verkefni. Farið var í heimsókn til Þýskalands um miðjan mars og von er á Þjóðverjunum í heimsókn í lok ágúst.

Enn á ný tók FAS þátt í námsleiknum OILSIM. Liðið Puulsa frá FAS vann landskeppnina og þar með þátttökurétt á lokamótinu í London sem fór fram fyrstu helgina í febrúar. Þar náði liðið fyrsta sæti og því er FAS alþjóðlegur meistari í olíuleit annað árið í röð.

Í byrjun nóvember voru í fyrsta sinn haldnir vísindadagar í FAS. Þá var hefðbundin kennsla lögð niður í þrjá daga og nemendur gátu valið sér verkefni eftir áhugasviðum. Þessir dagar tókust það vel að það hefur verið ákveðið að gera þá að árlegum viðburði.

Í vetur stofnaði hópur nemenda útivistarklúbb sem hafði það aðalmarkmið að fara á fjöll og njóta útivistar. Þessi hópur tók m.a. þátt í ísklifurnámskeiði og gekk á Hvannadalshnjúk.

Þrjú verkefni voru í gangi í vetur sem öll tengjast námi fullorðinna. Þar má nefna „aftur í nám“ sem var ýtt af stað í kjölfar raunfærnimats í vélvirkjun. Í vetur voru kenndar tvær greinar; íslenska og stærðfræði og næsta vetur verður boðið upp á ensku og dönsku. Fjölvirkjar í fiskvinnslu var verkefni þar sem lykilstarfsmönnum í Skinney – Þinganesi gafst kostur á að bæta við sig þekkingu sem námið var metið til framhaldsskólaeininga. Þriðja verkefnið var unnið í samvinnu við Starfsendurhæfingu Austurlands og var hugsað fyrir þá sem hafa hug á því að fara aftur út á vinnumarkaðinn eða í áframhaldandi nám.

Á vorönninni stóð leikhópur FAS fyrir uppfærslu á leikritinu Makalaus sambúð undir stjórn Kristínar Gestsdóttur.

Á skólaárinu var unnið að nýrri námsskrá. Unnið var að endurskipulagningu stúdentsprófsins og nýjum brautum í matvælanámi og fjallamennsku. Búið er að ákveða hvaða brautir verða í boði og einnig helstu áherslur í náminu.

Þann 22. maí fór fram fjölmennasta útskrift til þessa. Þá voru útskrifaðir alls 27 nemendur; 19 stúdentar, fjórir af skrifstofubraut, þrír sjúkraliðar og einn stuðningsfulltrúi.

Aftari röð frá vinstri:  Eyjólfur Guðmundsson skólameistari, Hjördís Edda Olgeirsdóttir, Fjóla Hjaltadóttir, Gunnar Ásgeirsson, Guðrún Sigurðardóttir, Kolbrún Reynisdóttir, Jóhann Kristófer Antonsson, Sandra Rán Ásgrímsdóttir, Særós Ester Leifsdóttir, Einar Andrésson, Ragnar Ingi Jóhannesson, Dagbjört Ýr Kiesel, Inga Birna Albertsdóttir, Erna Rakel Baldvinsdóttir, Einar Björn Halldórsson, Sigríður Ólafsdóttir, Ásta Steinunn Eiríksdóttir, Svava Kristín Þorsteinsdóttir. 
Fremri röð frá vinstri:
 Ingunn S. Friðþórsdóttir, Fanney Magnúsdóttir, Bára Margrét Baldvinsdóttir, Ágústa Baldursdóttir, Ragna Björk Einarsdóttir, Anna Lilja Ottósdóttir, Finndís Harðardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigrún Bessý Guðmundsdóttir og Elsa Gerður Hauksdóttir.

 

Skólaárið 2008-2009

Um miðjan september fóru tæplega sjötíu nemendur af náttúrufræðibrautum í ME, VA og FA í námsferð til Mývatns.

Nýtt samskiptaverkefni ICEPO hófst í kjölfarið á ráðstefnu í Gdansk í Póllandi. Lítillega var byrjað á verkefninu á vorönninni en gert er ráð fyrir gagnkvæmum heimsóknum næsta vetur.

Liðið Flipptuðruskransararnir unnu í nóvember landskeppni í olíuleitinni OILSIM og unnu þar með þátttökurétt í lokakeppninni sem var haldin í London í lok janúar. Þar gerði liðið sér lítið fyrir og sigraði keppnina og er því alþjóðalegur meistari í olíuleit árið 2008.

FAS tók þátt í Þjóðleik sem er leiklistarhátíð fyrir ungt fólk á Austurlandi. Leikhópurinn setti upp Eftir lífið eftir Sigtrygg Magnason.

Á vorönninni var kenndur áfangi í frumkvöðlafræði í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Þekkingarnet Austurlands. Svo mikil þátttaka var að kenna þurfti í tveimur hópum.

Á vorönn hófst fjarkennsla á landsvísu á B stigi vélstjórnar. Námið er í samvinnu við Tækniskólann sem vottar alþjóðleg réttindi.

Metfjöldi nemenda var skráður í FAS á vorönninni. Alls voru skráðir 340 nemendur í upphafi annarinnar.

Aftari röð frá vinstri: Friðrik Jónsson, Elías Tjörvi Halldórsson, Hörður Þórhallsson, Guðni Rúnar Jónsson, Emil Örn Moravek Jóhannsson, Jóhann Bergur Kiesel, Júlía Ingibjörg Geirsdóttir, Gunnhildur Imsland, Steinunn Benediktsdóttir, Júlía Þorsteinsdóttir, Alma Þórisdóttir, Lovísa Bylgja Kristjánsdóttir, Eyjólfur Guðmundsson skólameistari. Fremri röð frá vinstri: Smári Þór Sigurðsson, Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen, Ósk Sigurjónsdóttir, Nanna Halldóra Imsland, Herdís Kristrún Harðardóttir.
Á myndina vantar: Dagbjörtu Hlín Emilsdóttur, Ellen Ölmu Tryggvadóttur og  Steinunni Ósk Jónsdóttur.

 

Hægt er að nálgast eldri annála FAS hér.