Framhaldsskólabraut

Námi á framhaldsskólabraut er ætlað að veita nemendum góða, almenna undirstöðuþekkingu og er lögð áhersla á hvort tveggja, annars vegar bóklegt nám og hins vegar og list- og verkgreinar. Brautinni lýkur með framhaldsskólaprófi. Framhaldsskólabrautin er 90 einingar og er miðað við að nemendur ljúki henni á tveimur árum. Í kjarna brautar eru 20 einingar. Val er þrískipt: Nemendum er skylt að velja minnst 20 einingar í hefðbundnum bóklegum greinum og minnst 30 einingar af verk- og listgreinaáföngum. Nemendur velja svo 20 einingar í frjálsu vali í samráði við skólann út frá lokamarkmiðum náms.
Markmið framhaldsskólabrautar eru sniðin að einstaklingsbundnum þörfum hvers nemanda en þó eru gerðar kröfur um að námslok séu á hæfniþrepi 2. Í upphafi náms gerir nemandi og skóli námsáætlun þar sem lokamarkmið náms eru skilgreind. Nemandi þarf við upphaf náms að gera sér grein fyrir hvort hann stefnir við námslok beint á vinnumarkað eða í áframhaldandi nám. Lokamarkmið og áfangaval skulu vera í samræmi við það. Við námslok eiga nemendur að vera færir um að takast á við skilgreind lokamarkmið brautar. Nemendur eiga einnig að hafa öðlast almenna hæfni sem er í samræmi við hin níu svið lykilhæfninnar og grunnþætti menntunar.

Kjarni allra stúdentsbrauta • 20 einingar

Heilsufræði
HEIF
1NH03 • 1ÞJ03
6 ein.
Íslenska
ÍSLE
2GO05 eða 2NH05
5 ein.
Lífsleikni
LÍFS
1HÖ02 • 1VÖ02
4 ein.
Tómstundir og þemavinna
ÞEMA
1ÞT05
5 ein.

Bóklegt val • 20 einingar

Nemandi getur valið úr þeim bóklegu áföngum sem eru í framboði í skólanum en einnig má meta nám frá öðrum skólum.

Verklegt val • 30 einingar

Nemandi getur valið úr þeim verklegu áföngum sem eru í framboði í skólanum en einnig má meta nám frá öðrum skólum.

* Nemandi vinnur að lokaverkefni í framhaldi af verk- eða listgrein sem hann lagði stund á.

Óbundið val • 20 einingar

Nemandi getur valið úr þeim bóklegu áföngum sem eru í framboði í skólanum en einnig má meta nám frá öðrum skólum. Val nemenda á áföngum skal miðast við að 25-50% (23-46 einingar) séu á hæfniþrepi 1, 50-75% (46-69 einingar) séu á hæfniþrepi 2 og á hæfniþrepi 3 séu að hámarki 10 einingar.

  Alls 90 einingar

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði á brautina er að hafa lokið grunnskóla eða sambærilegri menntun.

Skipulag

Nemanda er skylt að ljúka 20 eininga námi í kjarna brautarinnar og þar af eru 5 einingar á 2. þrepi í íslensku. Auk þess þarf nemandi að hafa lokið námi á 1. þrepi í ensku og stærðfræði. Áfangar á fyrsta þrepi í íslensku, ensku og stærðfræði geta verið hluti af 20 eininga bóklegu vali. Sama gildir um nám á 1. þrepi í dönsku. Nemandi getur að því loknu valið aðra áfanga eða nám sem gerir frekari hæfnikröfur. Miðað er við að nemandi sérhæfi sig á tilteknu sviði í 30 eininga verklegu vali og taki þar minnst 10 einingar í hverri grein. Loks er óbundið val 20 einingar. Tónlistarnám er viðurkennt nám frá tónskólum og leiklistarnám er þátttaka í uppsetningu leikverks. Námslok framhaldsskólabrautar eru á hæfniþrepi 2. Val nemenda á áföngum skal því miðast við að 25-50% (23-46 einingar) séu á hæfniþrepi 1, 50-75% (46-69 einingar) séu á hæfniþrepi 2 og á hæfniþrepi 3 séu að hámarki 10 einingar.

Hæfniviðmið

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að

  • tjá skoðanir sínar og skýra verklag tengt skilgreindu starfsumhverfi á ábyrgan, sjálfstæðan og skýran hátt
  • tjá sig á einfaldan og skýran hátt á erlendum tungumálum
  • bera virðingu fyrir grundvallarreglum starfsumhverfis
  • bera ábyrgð á starfi og starfsumhverfi
  • meta sjálfan sig á hlutlægan hátt og gera sér grein fyrir tækifærum í umhverfi sínu
  • vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi, innan starfsgreinar eða annarrar sérþekkingar
  • tengja þekkingu sína og leikni við starfsumhverfi og daglegt líf.