Hæfniferð Fjallamennskunáms FAS vor 2023

26.maí.2023

Hæfniferð FAS er ígildi lokaprófs en þar fá nemendur tækifæri til að sýna fram á þá hæfni og þekkingu sem þeir hafa öðlast í gegnum skólagönguna. Lagt er upp með í áfanganum að nemendur takist á við fjölbreytt og flókið landslag, hvort sem það er utan hefðbundinna gönguleiða eða upp á hájökli. Leiðbeinendur í þessum áfanga eru í aftursætinu og til ráðgjafar en nemendur stýra ferðinni og skiptast á að leiðsegja hópnum.

Veðurspáin var ekki upp á sitt besta fyrir fyrri hæfniferð en í byrjun ferðar rigndi mikið. Á meðan beðið var eftir veðurglugga til að hefja upphaf ferðar var samið við kajakfyrirtækið Iceguide um að leigja báta og búnað og róa um Heinabergslón en þetta bauð nemendum upp á aðra sýn inn í þá fjölbreyttu möguleika sem ferðaþjónustan býr að á svæðinu.

Næst var förinni heitið milli Skaftafells og Núpsstaðaskógar, yfir Skeiðarárjökul. Það er tilkomumikil ganga sem oft er gengin á þremur eða fjórum dögum. Hópurinn fór hratt yfir og kláraði gönguna á tveimur og hálfum degi. Aðra nóttina gistu þau í Skaftafellsfjöllum í um 700 metra hæð og hina á heiðinni norðan Súlutinda þar sem komið er í land af jöklinum. Hópurinn tók eftir það einn hvíldardag og skipulagði ferð á Þverártindsegg daginn eftir sem lá um Kálfafellsdal. Á hvíldardeginum var æfður böruburður með léttri línuaðstoð en oft á tíðum eru það leiðsögumenn sem eru fyrstir á staðinn þegar slys verða í fjalllendi og því nauðsynlegt að kunna réttu handtökin.

Í seinni hæfniferð var spáin allslæm á sunnanverðu landinu. Því var brugðið á það ráð að skipuleggja göngu um Víknaslóðir þar sem besta veðrinu var spáð. Gengið var á þremur dögum frá Borgarfirði eystri og suður á Seyðisfjörð með gistingu í skálum Breiðuvíkur og Loðmundarfjarðar. Við viljum þakka fyrir frábærar móttökur hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs sem tók höfðinglega á móti nemendum og kennurum og við erum viss um að þarna kemur FAS aftur. Það var gaman að enda árið í veglegum skálum í óbyggðum enda frábær ferðamáti sem gerir fólki kleyft að ganga lengra með léttari poka, svo ekki sé minnst á samveruna sem er hvergi betri en utan símasambands í fögrum dal og góðum skála.

Í lok ferðar var ætlunin að ganga á Snæfell en vegna veðurs var ákveðið að ganga á hinn formfagra Búlandstind í Berufirði. Frábær tindur sem bauð upp á brölt og skemmtilegt leiðarval í brattlendi. Einnig fór hópurinn saman á Óbyggðasetrið á glæsilega sýningu um sögu óbyggða- og fjallaferða í gegnum aldirnar. Þetta var því ekki bara fjalla- og hæfniferð heldur einnig nokkurs konar menningarferð þar sem nemendur lærðu sitthvað nýtt um sögu fjallaferða hér á landi.

Ferðirnar tvær voru ólíkar að flestu leyti en gengu þó báðar stórvel, spiluðu með veðri og stóðu nemendur sig með stakri prýði.

Kennarar í áfanganum voru: Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Elín Lóa Baldursdóttir, Erla Guðný Helgadóttir og Árni Stefán Haldorsen.

Aðrar fréttir

Framhald í klettaklifri – maí 2023

Framhald í klettaklifri – maí 2023

Eins og svo oft áður á þessu fallega skeri var veðrið aðeins að stríða okkur. Því var ákveðið að byrja kennsluna innanhúss og til þess er enginn staður betri en Mikligarður – við kunnum Klifurhúsinu og Garðabæ bestu þakkir fyrir að fá að nýta þessa aðstöðu....

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 11 stúdentar, einn nemandi af Vélstjórn A og einn nemandi af framhaldsskólabraut. Nýstúdentar eru: Carmen Diljá Eyrúnardóttir, Erlendur Rafnkell Svansson, Eydís Arna Sigurðardóttir, Júlíana Rós Sigurðardóttir,...

Útskrift frá FAS 20. maí

Útskrift frá FAS 20. maí

Laugardaginn 20. maí verður útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast ellefu stúdentar, einn nemandi af framhaldsskólabraut og einn nemandi úr Vélstjórn A. Athöfnin fer fram í Nýheimum og hefst klukkan 14. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Það væri gaman ef...