Framhald í klettaklifri – maí 2023

26.maí.2023

Eins og svo oft áður á þessu fallega skeri var veðrið aðeins að stríða okkur. Því var ákveðið að byrja kennsluna innanhúss og til þess er enginn staður betri en Mikligarður – við kunnum Klifurhúsinu og Garðabæ bestu þakkir fyrir að fá að nýta þessa aðstöðu.

Leiðsluveggurinn í Miklagarði býður upp á frábært tækifæri til að vinna í tækni, æfa sig í að leiða og læra á GriGri (tryggingartól sem notað er í sportklettaklifri og er skylda að nota í flestum veggjum innanhúss). Það var gaman að sjá hvað nemendurnar okkar þrír voru áhugasamir og höfðu gaman af því að „toga í plastið.“

Við náðum svo einum útidegi í Stardal – sem er gýgtappi rétt utan við Reykjavík sem býður upp á það allra besta dótaklifur sem fyrirfinnst á íslandi. Þessa fyrstu tvo daga var Óli með okkur sem gestakennari og við því með þrjá kennara og þrjá nemendur. Það var upplagt að nýta það. Við byrjuðum því á að klifra hver og einn með sinn nemanda og skiptum leiðinni upp í stuttar spannir þannig að þeir fengu allir að kynnast því hvernig ferlið virkar, millitryggingar, megintryggingar og það að skipta á milli spanna. Eftir hádegið hafði veðrið batnað verulega og við lékum okkur aðeins í Leikhúsinu og svo tóku nemendurnir við að leiða mjög létta leið, setja inn sínar eigin tryggingar og byggja akkeri. Við kennararnir fylgdum svo með léttu spjalli um hvað var vel gert og hvað væri hægt að bæta.

Þriðja daginn var veðrið aftur orðið vafasamt og við tókum léttan dag í Miklagarði. Fjórði dagurinn fór svo alfarið í veður (sem var stjörnuvitlaust) og akstur á Höfn. Því miður höfðu orðið nokkur afföll af nemendum þegar til Hafnar var komið og aðeins þriðjungur skilaði sér alla leið – Guðný Gígja var ein eftir og fékk því að velja sér sjálf hvernig við nýttum fimmta daginn. Hún valdi ekki minna metnaðarfullt en 11 spanna leiðina Boreal sem var boltuð af þeim félögum Guðjóni Snæ og Snævari Guðmundssyni. Leiðin er litlir 480m af klifri + aðkoma um mjög grófa skriðu upp Vestrahornið og eitt sig af bakhliðinni – og svo sama skriðan niður. Þó klifrið sé kannski ekki erfitt í sjálfu sér skiptir öllu máli að allir kunni til verka, skiptingar milli spanna séu fumlausar og að klifrið flæði nokkuð vel. Því þó 480m séu ekki mikil vegalengd í okkar daglega lífi – þá er þetta töluverð vegalengd í klifri.

Í stuttu máli gekk þessi dagur eins og í sögu. Við vorum í skjóli frá hvössum austanvindi þangað til kom að því að síga niður bakhliðina og klifrið var því hið ánægjulegasta. Guðný hafi greinilega verið að fylgjast með dagana áður og var fumlaus í allri sinni vinnu og við Mika áttum algerlega frábæran dag í vinnunni.

Þar sem það var litlu við þetta að bæta, bara einn nemandi eftir sem var þegar búinn að klifra leið sem fæstir ná nokkurn tímann að klifra og rigning í spánni þá fékk Guðný frí síðasta daginn. Hægt er að skoða leiðina nánar á https://www.isalp.is/problem/boreal

Kennarar voru Mike Walker & Ívar F. Finnbogason. Nemendur í ferðinni voru: Arna, Guðný Gígja og Ásta.

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...