Fjallaskíðanámskeið FAS

14.mar.2023

Nú í lok febrúar og byrjun mars voru haldin tvö námskeið í grunni að fjallaskíðamennsku. Sem fyrr voru námskeiðin gerð út frá Dalvík og að hluta á því frábæra kaffihúsi Bakkabræðra. Lögð var áhersla á skipulag fjallaskíðaferða, leiðarval og landslagslestur, rötun, uppgöngutækni og auðvitað skíðamennsku utan leiða. Nemendur höfðu flestir nýlokið snóflóðanámskeiði sem er nauðsynlegur grunnur til þess að byggja ofan á. 

Farið var um víðan völl og fengu nemendur smjörþefinn af því frábæra fjallaskíðalandslagi sem Tröllaskagi og Eyjafjörður hafa upp á að bjóða. Meðal viðfangsefna á námskeiðinu voru klassísk svæði og tindar eins og Karlsárfjall, Kaldbakur, Múlakolla, Hlíðarfjall, Bæjarfjall á Dalvík og fleiri.  

Hóparnir tveir fengu vægast sagt ólík skilyrði. Fyrri hópurinn mætti í vorfæri og hita og þurfti víða að leita uppi skafla neðst í fjöllum sem þótti furðulegt ástand í lok febrúar. Skíðafærið var krefjandi en veðrið var með okkur í liði og hópurinn náði fjórum löngum dögum á fjöllum. Stuttu síðar mætti seinni hópurinn norður í fimbulkulda, éljagang og dásamlega mjúkt færi. Það var kærkomið að fá snjóinn aftur enda var skíðamönnum ekki farið að lítast á blikuna í lok febrúar þegar ástandið var sambærilegt maílokum. Veðurskilyrði voru krefjandi en það skemmdi þó ekki fyrir þegar hópurinn neyddist til þess að skíða ferska lausamjöll í lyftunum í Hlíðarfjalli vegna veðurs.  

Alltaf er hægt að læra á fjöllum og nemendur fengu tækifæri til þess að nýta kunnáttu sína og snjóflóðaþekkingu til þess að æfa leiðarval, hættumat og ákvarðanatöku í snævi þöktu fjalllendi. 

Nú vonum við kennararnir að við höfum náð að smita fleiri FASara af fjallaskíðadellunni enda ekkert skemmtilegra en að renna sér niður eftir góða fjallgöngu! 

Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir og Daniel Saulite 

Aðrar fréttir

Opið fyrir umsóknir í fjallanámi FAS

Opið fyrir umsóknir í fjallanámi FAS

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í fjallamennskunáminu okkar í FAS. Námið hefur verið endurskipulagt til að mæta sem best þörfum nemenda. Námið samsett úr verklegum vettvangsáföngum og bóklegu fjarnámi. Eins og áður er boðið upp á grunnnám í fjallamennsku annars...

Fókus í úrslit Músiktilrauna

Fókus í úrslit Músiktilrauna

Fyrir nokkru sögðum við frá því að stúlknabandið Fókus ætlaði að taka þátt í Músiktilraunum en þar hefur fjöldi hljómsveita komið fram fjögur síðustu kvöld í undankeppninni. Hvert kvöld hefur salurinn valið eina hljómsveit áfram og dómnefnd aðra. Það var þó vitað að...

Isabella Tigist í Söngkeppni framhaldsskólanna

Isabella Tigist í Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin laugardaginn 1. apríl í Hinu húsinu í Reykjavík. Allir framhaldsskólar landsins geta sent einn keppenda fyrir sína hönd. FAS hefur oft tekið þátt í söngkeppninni og svo er einnig nú. Það er hún Isabella Tigist sem verður...