Fyrsti stúdentinn frá FAS til að hljóta doktorsgráðu

vedis_vidbÞann 22. nóvember síðastliðinn varði Védís Helga Eiríksdóttir doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum sem ber heitið: Heilsa barnshafandi kvenna og fæðingaútkomur á tímum mikilla efnahagsþrenginga á Íslandi – Maternal health indicators during pregnancy and birth outcomes during times of great macroeconomic instability: the case of Iceland.
Markmið doktorsverkefnisins var að rannsaka möguleg áhrif íslenska efnahagshrunsins 2008 á heilsu barnshafandi kvenna og fæðingarútkomur. Ennfremur að kanna að hversu miklu leyti efnahagsástandið á Íslandi skýrði mögulegar heilsufarsbreytingar hjá ófrískum konum og afkvæmum þeirra.
Védís er Hornfirðingur og eru foreldrar hennar Eiríkur Sigurðsson og Vilborg Gunnlaugsdóttir.
Védís útskrifaðist frá FAS vorið 1998 og er hún fyrsti stúdentinn frá skólanum til að hljóta doktorsgráðu.
Við erum einstaklega stolt af Védísi og óskum henni innilega til hamingju með áfangann.

Leiklist á vorönn

piltur-og-stulkaÁ vorönn mun FAS bjóða upp á áfanga í leiklist og setja upp leikrit eins og venja er. Það er unnið í samvinnu við Leikfélag Hornafjarðar og Tónskóla Austur- Skaftafellssýslu.
Leikstjóri sýningarinnar verður Stefán Sturla Sigurjónsson sem við þekkjum vel en hann leikstýrði hjá okkur bæði Grease og svo síðasta Bítlasöngleiknum Love me do.
Nú hefur verið ákveðið að taka fyrir verkið Piltur og Stúlka sem gert er eftir bók Jóns Thoroddsen og var ákveðið að gera nútímaútfærslu á þessari fléttuástarsögu sem kom fyrst út árið 1850 og er talin fyrsta skáldsagan sem gefin er út á Íslandi.
Við munum því vinna verk sem er „byggt á sögunni“ og munum styðjast að einhverju leiti við leikgerð Emils Thoroddsens og bæta við dægurlögum sem gætu passað inn í verkið.
Fyrir utan okkar nemendur hér í FAS þyrftum við að fá til liðs við okkur eldra fólk og þá erum við að hugsa um tvær konur, helst eldri en 40 ára og tvo til þrjá karlmenn sem einnig væru helst eldri en 40 ára.

Olíuleit í FAS

20161117_150347Í gær og í dag hafa nokkrir nemendur í FAS verið að leita að olíu.
Hér er um að ræða tölvuleikinn Petro Challenge sem FAS hefur tekið þátt í frá árinu 2003. Þessi leikur hefur um langt skeið verið notaður til að kynna þeim sem vilja starfa í olíuiðnaði um hvað olíuleit og olíuvinnsla snýst.
Í FAS voru níu krakkar í fjórum liðum. Í gær var farið í gegnum leikinn, reglur kynntar og liðin prufuðu sig áfram. Dagurinn í dag fór svo að mestu leiti í keppnina sjálfa.
Það er margt sem þarf að huga að því leikurinn fer fram á ensku, það þarf að skoða margs konar jarðfræðigögn, túlka upplýsingarnar og í framhaldinu að taka skynsamlegar ákvarðanir. Því reynir á samvinnu og snerpu.
Liðið Arri rokk frá FAS lenti í öðru sæti á landsvísu og voru þeir ansi nálægt því að hreppa fyrsta sætið en lið frá Vestmannaeyjum sem sigraði landskeppnina í ár. Í liði Arra Rokk voru þeir Arnar Ingi Jónsson, Ingólfur Ásgrímsson og Ægir Sigurðsson.

Mælingar á Heinabergsjökli

DCIM100MEDIADJI_0020.JPG

Heinabergsjökull – séður með augum drónans.

Föstudaginn 4. nóvember fóru nemendur úr inngangsáfanga að náttúruvísindum frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu í ferð til að mæla Heinabergsjökul. Með í ferðinni voru kennarar ásamt Kristínu Hermannsdóttur og Snævari Guðmundssyni frá Náttúrustofu Suðausturlands og Helgu Árnadóttur frá Vatnajökulsþjóðgarði. Hópurinn lagði af stað klukkan 8:00 og var keyrt upp að Heinabergsjökli. Veður var ágætt en nokkur vindur var fyrri hlutann. Nemendunum var fyrir ferðina skipt í hópa sem hver hafði sitt hlutverk. Stórt lón er fyrir framan jökulröndina og því er ekki hægt að notast við hefðbundnar mæliaðferðir heldur eru notaðar þríhyrningamælingar þar sem ákveðnar lengdir og horn eru mæld. Til þess nota nemendur svokallaðan latta sem er mælistöng sem hægt er að lengja í fimm metra, málbönd og byggingakíki.

Að þessu sinni var líka með í för dróni sem Náttúrustofan og FAS eiga saman og var nýlega keyptur. Hann var setur á loft eins mikið og hægt var en vegna vinds var það lítið hægt. Þegar hann fór á loft náði hann ágætum loftmyndum sem gáfu nýtt sjónarhorn á jökulinn. Dróninn getur bæði tekið ljósmyndir og mynband.  Hér  má sjá stutt myndband af jöklinum en það voru nemendur FAS sem klipptu myndbandið saman.

flaajokull-landsat8_27092016

Gervihnattamynd (USGS/Earth Explorer (2016, 27. september) Landsat 8, sena 217/röð 15).

Framhaldsskólinn hefur í 16 ár farið og mælt Heinabergsjökul. Alltaf er mælt frá nákvæmlega sömu stöðum og notaðar sömu aðferðir. Vinna nemenda er þó ekki búin eftir ferðina að jöklinum. Það þarf að vinna úr upplýsingum sem er safnað á vettvangi og bera saman við upplýsingar frá fyrri árum og reyna þannig að fá raunsæja mynd af breytingu jökulsins. Samkvæmt útreikningum hefur jökullinn hopað norðantil en gengið lítillega fram sunnan megin. Niðurstöðurnar eru þó ekki alveg réttar, en nýlegar loftmyndir sýna að það sem haldið var að væri jökulsporðurinn norðan megin eru í rauninni ísjakar sem hafa  brotnað frá jöklinum eins og sést á meðfylgjandi gervihnattamynd. Það þarf því að leita nýrra leiða til að fá réttari mynd af stöðu jökulsins á næsta ári.

Við þökkum þeim Helgu frá Vatnajökulsþjóðgarði og Kristínu og Snævari frá Náttúrustofunni fyrir aðstoðina og samveruna við mælingarnar í ár. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr ferðinni.

 

Náttúrustofa Suðausturlands og FAS fjárfesta saman í dróna

Guðmundur Ingi í miðju, Kristín og Snævar frá Náttúrustofunni og svo Eyjólfur og Hjördís frá FAS. Að sjálfsðgðu var myndin tekin með drónanum.

Nýlega bættist í tækjabúnað Náttúrustofu Suðausturlands og Framhaldsskólans í Austur – Skaftafellssýslu. Að þessu sinni var fjárfest í DJI Phantom 4 dróna. Nokkrir aðilar styrktu kaupin en þeir eru: Flutningadeild KASK, Landsbankinn, Nettó, Skinney-Þinganes og Uppbyggingasjóður Suðurlands.

Upphaf þess að þetta tæki er nú til má rekja til umræðu á kennarastofunni í FAS þar sem var verið að ræða jöklamælingar og gaman væri að geta skoðað jöklana ofan frá. Guðmundur Ingi dönskukennari greip þetta á lofti og sagðist vilja skoða möguleika á því að finna aura til að fjármagna kaupin. Hann gekk í málið og eru honum  hér með færðar bestu þakkir. Þeim sem styrktu drónakaupin eru einnig færðar þakkir.

Dróninn kemur til með að nýtast Náttúrustofu og FAS vel við margvísleg verkefni. Nefna má eftirlit og mælingar á jöklum, ekki síst þar sem erfitt og hættulegt er að fara um. Þar verður nú hægt að fljúga yfir og afla gagna úr lofti. Einnig verður hægt að mynda jökulsporða ofan frá eða framan við t.d. þar sem lón liggja við jökulinn. Þá nýtist hann við kortlagningu á jökulgörðum og öðrum jarðmenjum. Dróninn mun þar að auki nýtast vel við gerð yfirlitsmynda og fræðsluefnis í tengslum við ýmis verkefni sem Náttúrustofan vinnur að.

Dróninn lyfti sér upp í nokkura tuga metra hæð og myndaði hópinn ofan frá.

Síðustu daga hafa Kristín og Snævarr verið að læra á drónann. Þessi mynd var tekin í morgun á einni slíkri æfingu. Þess má geta að á föstudag er ætlunin að mæla Heinabergsjökul og þá á einnig að nota drónann til að mynda jökulinn.

Vísindadagar í FAS

visindavikaVísindadagar hófust í FAS í morgun.
Seinni hluta þessarar viku vinna nemendur í hópum að ákveðnum verkefnum og brjóta aðeins upp hefðbundna kennslu.
Nemendur völdu sér hópa sem vinna að mismunandi verkefnum en öll verkefnin eiga það sameiginlegt að þeir koma inn á mismunandi þætti lýðræðis.
Á föstudaginn frá kl 12.30 og til kl 14.00 munu hóparnir svo kynna afurðir sínar og niðurstöður verkefna í skólastofum FAS og eru þær kynningar öllum opnar.
Við hvetjum alla til að kíkja við og skoða verkefni nemendanna.