FAS í Gettu Betur

Gettur betur fór af stað í síðustu viku þar sem fyrsta umferð fór fram á Rás2. FAS á sitt lið í keppninni eins og hefð hefur verið undanfarin ár.
Þetta árið skipar lið FAS þeim Önnu Birnu Elvarsdóttur, Lilju Karen Björnsdóttur og Jóhanni Klemens Björnssyni. Stelpurnar tvær kepptu einnig í fyrra fyrir FAS.
Eftir mjög spennandi og jafna keppni við FVA (Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi) tapaði lið FAS með 20 stigum á móti 23 hjá FVA. Það var þó ákveðið hjá stjórn Gettu betur á þessu ári að þrjú stigahæstu tapliðin kæmust áfram og áttum við þar mikla möguleika. Lengi framan af var lið FAS stigahæsta tapliðið og komst örugglega áfram í næstu umferð sem næst stigahæsta tapliðið.
Viðureign FAS í seinni umferð verður spennandi því liðið keppir á móti margföldum meisturum MR í kvöld kl 21.00. Við hvetjum alla til að hlusta á keppnina í kvöld og fyrir þá sem vilja er velkomið að mæta í fyrirlestrarsal Nýheima og byðjum við fólk að mæta ekki seinna en kl 20.45.
Við óskum okkar fólki að sjálfsögðu góðs gengis í kvöld.

Ferðalag í frumkvöðlafræði

Um helgina komu fjórir nemendur í FAS ásamt tveimur kennurum heim úr viku leiðangri til suður Ítalíu þar sem unnið var í Erasums+ verkefni með fjórum Evrópuþjóðum. Þetta er frumkvöðlaverkefni sem snýst um að búa til fjölþjóðlega hópa, einskonar fyrirtæki, sem hanna og framleiða vörur eða þjónustu sem hægt er að selja. Einnig er markmið verkefnisins að tengja saman ungt fólk í Evrópu, auka skilning á ólíkum menningarheimum og efla skapandi hugsun og lýðræðisvitund ungs fólks. Nemendurnir unnu hörðum höndum í samstarfsskólanum í bænum Lioni í Campania héraði á Ítalíu en einnig gafst tími til að skoða sig um, m.a. hina sögufrægu borg Pompei.
Auk Íslands taka skólar í Grikklandi, Eistlandi, Lettlandi og Ítalíu þátt í verkefninu. Næst fer hópur frá FAS til Grikklands í vor og næsta haust koma nemendahópar í heimsókn til okkar á Höfn. Verkefninu lýkur í Lettlandi vorið 2018.
Íslensku sendinefndina skipuðu Arndís Ósk Magnúsdóttir, Guðjón Vilberg Sigurbjörnsson, Sóley Lóa Eymundsdóttir og Svandís Perla Snæbjörnsdóttir.

Heimsókn til Skotlands

Í síðustu viku fóru Eyjólfur og Hulda í heimsókn til Skotlands að kynna sér útivistarnám, en sl. 6 ár hefur FAS boðið upp á nám í fjallamennsku. Skólinn sem heimsóttur var heitir University of the Highlands and Islands (UHI). Hann er háskóli sem starfar í nánu samstarfi við 13 skoska framhaldsskóla og rannsóknarstöðvar og eru starfsstöðvar skólans víða í norður Skotlandi. Skólinn sem var heimsóttur er í Fort William, bæ sem Skotarnir nefna „Útivistarhöfuðborg Bretlandseyja”.

Markmið heimsóknarinnar var að kynna sér nám og kennslu í útivist og skapa tengsl milli FAS og UHI. Móttökur voru virkilegar góðar og ræddu Eyjólfur og Hulda við stjórnendur, kennara og nemendur. Þau fóru einnig í heimsókn til starfsstöðvar skólans á eyjunni Skye sem er undan vesturströnd Skotlands. Hver starfstöð hefur sérhæft sig í ákveðinni gerð útivistar s.s. fjallahjólreiðum, fjallgöngum, klettaklifri, kayak róðri bæði vatna- og sjókayak og fleiru.

Umhverfi og allur aðbúnaður í UHI er virkileg góður, en eitt er það sem Skotana vantar og er það jökullinn. Heimsókn í jöklaveröldina okkar vakti mikinn áhuga og var rætt af fullri alvöru um nemendaskipti milli skólanna og annað samstarf.

FAS hlýtur Menntaverðlaun Suðurlands

Menntaverðlaun Suðurlands voru afhent í gær við hátíðlega athöfn í Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita árlega verðlaunin fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi.
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin sem í þetta sinn fóru til Framhaldsskólans í Austur- Skaftafellssýslu. Hér í FAS hefur verið unnið markvisst að náttúrufarsrannsóknum frá árinu 1990 og eru nemendur skólans ávalt þátttakendur í þeim rannsóknum.
Á hverri önn fara nemendur í ákveðnum áföngum í vettvangsferðir og kynnast náttúrurannsóknum með mælingum og rannsóknarúrvinnslu. Þannig eru jökulsporðar mældir og fylgst er með framvindu gróðurs á Skeiðarársandi ásamt því að fylgjast með álftastofni í Lóni og fuglar taldir í Óslandi.
FAS starfar í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands. Sérþekking þeirra er mikilvæg og kynnast nemendur þannig náttúrunni og fá leiðsögn í vísindalegri úrvinnslu sem mun nýtast þeim í frekara námi.
Nánari upplýsingar um náttúrufarsrannsóknir í FAS má sjá á slóðinni nattura.fas.is
Við í FAS erum ótrúlega stolt af því að hljóta þessa viðurkenningu og tileinkum hana öllum þeim hafa komið að vöktunarverkefnum í gegnum árin.

Upphaf vorannar 2017

Í morgun byrjaði skólastarf í FAS með svipuðum hætti og hefur verið undanfarin ár. Skólasetning var kl. 10.00 þar sem skólameistari fór yfir ýmsa þætti og kynningar voru á dagatali vorannar. Að skólasetningu lokinni hittu nemendur umsjónarkennarana sína og áttu með þeim stuttan fund varðandi skipulag sitt fyrir komandi vorönn.
Á morgun 5. Janúar hefst svo kennsla samkvæmt stundaskrá.

Annarlok

Það myndast alltaf ákveðin stemmning innan veggja skólans í desember þegar önnin klárast og nemendur vinna af kappi við að skila síðustu verkefnunum og spenningurinn við að komast í jólafrí er að taka yfir.
Síðasta kennsluvika fyrir jólafrí er nú að klárast og voru þær breytingar gerðar þetta skólaárið að ekki eru hefbundin lokapróf heldur er svokallað lokamat. Vinna nemenda yfir önnina vegur því meira og mæta nemendur svo í lokamatsviðtal hjá kennara hvers áfanga í stað þess að mæta í lokapróf.

Í lok síðustu viku kynntu nemendur í listgreinum sína vinnu fyrir samnemendum og almenningi. Það hefur skapast sú hefð að kynning nemenda í listgreinum sé í Vöruhúsinu þar sem margir af þeim áföngum fara fram.
Kynningin tókst mjög vel og voru nemendur með sýningar á verkum sínum ásamt því að nemendur í matreiðslu sáu um veitingar fyrir gesti og gangandi.

Í síðustu viku kláruðu 8 nemendur Smáskipanám sem kennt hefur verið í lotum hér í FAS á önninni. Kennt var í þremur lotum, alls 11 daga og var það Gunnlaugur Dan Ólafsson sem sá um kennsluna. Við óskum nemendunum innilega til hamingju með þennan áfanga.