Pöndubirnir á vappi

Nú í morgunsárið mátti sjá nokkra pöndubirni skunda í skólann. Hér voru á ferðinni nokkrir af væntanlegum útskriftarnemendum í FAS sem þó ætla ekki að nema fræðin í dag heldur aðeins að sprella í tilefni þess að nú er farið að hilla í hvítu kollana. Reyndar laumuðust nokkrir nemendur í skólann í gærkveldi og forfærðu aðeins húsgögnum til að stríða samnemendum sínum.
Þegar pöndurnar komu í FAS í morgun beið þeirra morgunmatur sem kennarar höfðu undirbúið en undanfarin ár hefur sú hefð skapast að kennarar bjóði til morgunverðar þegar nemendur dimmitera.
Við vonum að pöndurnar eigi góðan dag og óskum þeim góðs gengis í náminu.

Frumkvöðlaverkefni í Grikklandi

Í Trikala á Grikklandi.

Löng hefð er fyrir erlendu samstarfi í FAS og eitt eða fleiri verkefni hafa verið í gangi hverju sinni undanfarin ár. Í vetur eru fjögur slík verkefni í gangi og þessa viku er sex manna hópur frá FAS í Trikala í Grikklandi. Hópurinn tekur þar þátt í fjölþjóðlegu frumkvöðlaverkefni ásamt nemendum frá Ítalíu, Eistlandi, Lettlandi og Grikklandi.  Verkefnið stendur yfir í tvö ár og fyrr á önninni fór hópur frá FAS til Ítalíu.  Næsta haust er von á ríflega 20 manna hópi til Hafnar og verkefninu lýkur í Lettlandi vorið 2018.

Í verkefninu vinna nemendur frá þátttökulöndunum í sex hópum að því að hanna og framleiða einhverja vöru eða þjónustu.  Auk þessa frumkvöðlastarfs fá þátttakendur mikilvæga reynslu í að vinna saman, yfirstíga tungumálaerfiðleika og brúa þann menningarmun sem er á milli þjóða í Norður- og Suður-Evrópu. Það er því margs konar ávinningur af verkefnum sem þessum og mjög lærdómsríkt fyrir alla þá sem taka þátt.

Á myndinni eru Ástrós Aníta, Hafsteinn, Ragnar og Bjarmi við veisluborð sem útbúið var með mat frá löndunum fimm og að sjálfsögðu buðu Íslendingarnir upp á harðfisk.

Umhverfisdagur í Nýheimum

Hildur, Kristín og Adisa stóðu sig vel í innkaupapokagerðinni.

Í dag tóku nemendur FAS og starfsfólk Nýheima saman höndum og vörðu hluta úr deginum til að fegra og bæta umhverfið.
Hugrún Harpa var með kynningu á því fyrir nemendur hvernig eigi að standa að flokkun á efri hæðinni en þar er hægt að gera betur.
Klukkan 11 hófst vinnan við að fegra og bæta. Unnið var í nokkrum hópum bæði innanhúss og utan. Það er ótrúlega mikið drasl sem safnast saman þegar að er gáð. Utanhúss bar mest á sígarettustubbum, rakettudrasli og plasti. Þá vann einn hópur í því að hreinsa upp tyggjóklessur utandyra en margir hafa þann leiða ávana að spýta tuggunum út úr sér þar sem þeir eru. Tyggjóklessurnar liggja síðan á gangstéttum og eru til lítillar prýði. Það voru líka einhverjir sem mættu með saumavélur og bjuggu til poka úr gömlum bolum fyrir pokastöðina í Nettó. Það var orðin dágóð hrúga af pokum sem voru gerðir í þetta sinn.
Að lokinni vinnunni var síðan boðið upp á hamborgara sem runnu ljúflega niður.
Það má með sanni segja að í dag hafi máltækið „margar hendur vinna létt verk“ sannað gildi sitt og ávinningurinn er hreinna og um leið fallegra umhverfi. Myndir frá deginum má sjá á fésbókarsíðu skólans.

Fréttir frá FAS

Hljómsveitin Misty

Það þekkja flestir Músíktilraunir enda hafa margar frægar hljómsveitir hafið feril sinn þar. Í vetur tók hljómsveitin Misty þátt en það eru strákar sem við hér í FAS þekkjum vel. Hljómsveitina skipa þeir Birkir Þór og Þorkell Ragnar sem báðir útskrifuðust síðast liðið vor. Þeir spila báðir á rafmagnsgítar og það má einnig geta þess að Birkir smíðaði gítarinn sinn sjálfur í Fablab smiðjunni í fyrra. Trymbillinn í hljómsveitinni er Ísar Svan en hann er nemandi í FAS. Strákarnir semja tónlistina sjálfir og lýsa sem „instrumental post-rokki með smá progg áhrifum“. Það er skemmst frá því að segja að strákarnir komust áfram úr undankeppninni og spiluðu í úrslitum síðasta laugardag. Þar voru þeir kosnir „hljómsveit fólksins“ en þeir sigruðu símakosninguna.
Við í FAS erum stolt af okkar mönnum og óskum þeim til hamingju með flottan árangur.

Nú er að koma að langþráðu páskafríi en það hefst eftir að kennslu lýkur á morgun, föstudag. Um leið og við óskum öllum gleðilegra páska vonum við að allir hafi það sem best í fríinu og komi endurnærðir til baka.
Kennsla hefst aftur 19. apríl samkvæmt stundaskrá.

Íslandsmeistarar 2017

Síðastliðna helgi varð meistaraflokkur Sindra Íslandsmeistari 3. deildar í körfuknattleik með sigri á Þór Þorlákshöfn. þetta er fyrsti titillinn í sögu körfuknattleiksdeildar Sindra. Liðið náði frábærum árangri á þessu tímabili og vann 13 af 14 leikjum vetrarins. Kjarni liðsins eru drengir sem stunda nám við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu og langar okkur til þess að óska þeim innilega til hamingju með þennan stórkostlega árangur.

Góðir gestir frá Póllandi

Health hópurinn 2016 – 2017

Fyrr í þessum mánuði komu góðir gestir í FAS. Það voru 17 nemendur og tveir kennarar frá Wroclaw Póllandi í samstarfsverkefninu „Your Health is Your Wealth“ en það er undir merkjum Erasmus+ áætlunarinnar. Þessi heimsókn er liður í tveggja ára verkefni sem lýkur formlega í haust. Verkefnið er byggt á hugmynd um heilsueflandi framhaldsskóla þar sem hugað er að andlegri sem líkamlegri líðan og hvernig megi ná sem bestum árangri í leik og starfi. Það er gert með fjölbreyttri verkefnavinnu og skólaheimsóknum. Hægt er að skoða verkefnið á http://health.fas.is/
Á síðasta skólaári tóku rúmlega 30 nemendur þátt í verkefninu og í ár voru 17 nemendur í hvoru landi sem tóku þátt í ferðunum. Það eru því um 70 nemendur sem hafa tekið beinan þátt í verkefninu. Þá eru ótaldir allir þeir sem kynnast verkefninu á annan hátt.
Í heimsóknum er miðað að því að þátttakendur kynnist eins og kostur er landi og þjóð. Það er m.a. gert með því að nemendur búa hjá gestafjölskyldum á meðan á dvöl stendur. Þá er farið í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir til að gefa sem besta mynd af lífinu á staðnum. Gestirnir okkar urðu margs fróðari um sögu staðarins og líf í sjávarþorpi eftir heimsóknina hingað. Það er mikils virði fyrir okkur í FAS hversu margir eru tilbúnir að aðstoða við að taka á móti gestunum. Það á við bæði um gestafjölskyldur og ekki síður þá sem opna dyr sínar, segja frá starfseminni og jafnvel leysa gestina út með gjöfum. Öllum þeim sem komu að móttöku gestanna eru hér með færðar bestu þakkir.
Í júní verður svo síðari fundur verkefnastjóra þar sem m.a. er hugað að skýrslugerð. Sá fundur verður haldinn í Póllandi. Það eru þó ekki bara umsjónarmenn verkefnisins sem mæta á þann fund heldur ætlar lunginn af starfsliði FAS með í þá för og þá á jafnframt að skoða fleiri skóla.