Office 365 fyrir nemendur FAS

Nú er kominn í gagnið aðgangur nemenda að Office 365 hjá Microsoft þar sem að nemendur hafa meðal annars aðgang að helstu forritum sem þeir þurfa að nota s.s. exel, word og power point. Aðgangurinn er nemendum að kostnaðarlausu.
Á heimasíðu FAS er að finna leiðbeiningar um það hvernig nemendur geta nálgast aðganginn. Við hvetjum nemendur til að nýta sér þessa þjónustu og vista gögnin sín á öruggum stað en fátt er leiðinlegra en þegar tölvur hrynja og ekki er til afrit af gögnum.

Styrkur til þróunar náms

 

Eyjólfur skólameistari og Hulda Laxdal verkefnastjóri ásamt Ágústi Hirti Ingþórssyni forstöðumanni Erasmus + á Íslandi.

Miðvikudaginn 30. ágúst var skrifað undir samning um styrkveitingu til að þróa nám í afþreyingarferðaþjónustu. Styrkurinn er undir merkjum menntaáætlunar Evrópusambandsins, Erasmus + og er til þriggja ára.  Styrkupphæð er um 45 milljónir og er þetta hæsti styrkur sem var veittur á vegum menntaáætlunarinnar í ár á Íslandi.
Samstarfslöndin eru Ísland, Skotland og Finnland. Auk FAS koma Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði og Ríki Vatnajökuls að verkefninu af Íslands hálfu. Í Finnlandi og Skotlandi koma samtök fyrirtækja í afþreyingarferðaþjónustu, skólar og rannsóknastofnanir að verkefninu.
Það er FAS sem að hefur yfirumsjón með verkefninu en því er ætlað að efla menntun í afþreyingarferðaþjónustu og gera skólana betur í stakk búna til að sinna þörfum fyrirtækja og um leið að efla rannsóknir á menntun í ferðaþjónustu.
Við erum að vonum afar ánægð og vonumst til að verkefnið styrki og efli ferðaþjónustu enn frekar.

Fjallamennskunemar farnir í fyrstu ferð

Fjallamennskunemar að leggja af stað í fyrstu ferð ásamt kennurum sínum.

Núna í haust eru sjö nemendur skráðir í fjallamennskunám í FAS sem er mikið gleðiefni fyrir skólann. Námið byggist einkum upp á ferðum undir leiðsögn. Á báðum önnum munu nemendurnir fara í alls tólf ferðir þar sem ýmis konar áskoranir bíða sem og verkefni sem þarf að leysa. Auk þess fara nemendur í ferðir á eigin vegum, læra um skipulag ferða og hópstjórn, veðurfræði og jöklafræði í fjarnámi. Hluti nemendanna er þar að auki í stúdentsnámi á kjörnámsbraut í FAS.
Í morgun var komið að fyrstu ferðinni. Það er þriggja daga ferð þar sem farið er um fjalllendi á svæðinu. Nemendur munu gista í tjöldum og læra ýmis undirstöðuatriði í fjallamennsku. Auk nemendanna fóru með í ferðina Hulda Laxdal sem heldur utan um fjallamennskunámið í FAS, Ástvaldur Helgi Gylfason og Sigurður Ragnarsson kennarar á brautinni. Við vonum að ferðin gangi sem best.
Hægt er að fylgjast með hópnum á fésbókarsíðu fjallamennskunámsis en þar verða settar inn myndir þegar færi gefst.

Nýnemadagur í FAS

Nestispása í gönguferðinni í dag.

Dagurinn í dag er tileinkaður nýnemum í FAS og af því tilefni gekk stór hópur nemenda og starfsfólks fyrir Horn. Það er varla hægt að hugsa sér betri skilyrði til gönguferðar því sólin skín glatt í dag og vindur er hægur.

Rúta skutlaði hópnum að Horni þar sem lagt var af stað. Á leiðinni ber margt fyrir augu og Zophonías göngustjóri staldraði víða til að benda fólki á merkilega staði eða til að segja frá sögu svæðisins en á þessari gönguleið má segja að sagan sé á hverju strái. Að sjálfsögðu var stoppað nokkrum sinnum til að næra sig og einnig var brugðið á leik.

Að gönguferð lokinni mynduðu eldri nemendur og starfsfólk skjaldborg um nýnema og buðu þá á þann hátt velkomna í skólann. Á fésbókarsíðu skólans má sjá myndir úr ferðinni.

Skólastarf í FAS að hefjast

Skólasetning í FAS

Í morgun hófst starf haustannar formlega þegar skólinn var settur. Í upphafi var farið yfir helstu viðburði annarinnar en í kjölfarið hittu nemendur umsjónarkennara sína til að fá stundatöflu og nánari upplýsingar um námið.

Nú standa yfir breytingar á stafrænu vinnuumhverfi nemenda og kennara. Verið er að taka upp Microsoft 365 kerfi þar sem m.a. er að finna helstu forrit sem nemendur þurfa að nota.

Kristín Vala Þrastardóttir sem starfar hjá Nýheimum Þekkingarsetri mun í vetur vera nemendafélagi FAS innan handar um skipulagningu og framkvæmd félagslífs nemenda.

Það var góð stemming í skólanum í dag og nemendur sem og starfsfólk greinilega tilbúið að takast á við verkefni annarinnar. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 21. ágúst.

Sumarfrí og styrkur

Skrifstofa skólans verður lokið frá og með 19. júní og til 4. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks. Hægt er að sækja um nám á vef skólans og verður þeim umsóknum svarað í byrjun ágúst. Ef einhver hefur sérstakar fyrirspurnir má hafa samband við skólameistara í síma 860 29 58 eða á eyjo@fas.is.
Skólinn verður settur 18. ágúst klukkan 10 í Nýheimum og kennsla hefst samkvæmt stundaskrá 21. ágúst. Stundatöflu og upplýsingar um bækur er að finna í Innu eftir 15. ágúst.

Í þessari viku bárust þau ánægjulegu tíðindi að umsókn FAS um styrk til þróunar náms í afþreyingarferðaþjónustu hefur verið samþykkt. Ásamt FAS koma Ríki Vatnajökuls og Háskólasetrið að umsókninni að hálfu Íslands en auk þess eru sambærilegir aðilar í Finnlandi og Skotlandi. Vinna við verkefnið hefst í haust og mun standa yfir í þrjú ár. Það eru því spennandi tímar framundan í þróun náms í ferðaþjónustu.

Bestu óskir um gleðilegt sumar!