Skuggakosningar í FAS

Framboðsfundur í FAS

Eins og eflaust flestir vita á að kjósa til Alþingis laugardaginn 28. október næst komandi. Mikið hefur verið rætt um að þátttaka ungs fólks í kosningum fari minnkandi. Engu að síður er þó afskaplega mikilvægt að ungt fólk móti sér skoðanir og taki þátt í kosningum og verði þá um leið virkir þjóðfélagsþegnar. Á því byggir lýðræðið.
Í dag, miðvikudag 11. október komu nokkrir frambjóðendur til að kynna stefnu sinna flokka fyrir nemendur í FAS. Nánar er hægt að lesa um stefnumál flokkanna hér.

Á morgun, 12. október fara svo fram skuggakosningar í FAS. Þá geta nemendur kosið og munu kosningarnar fara fram í stofu 205 frá 9:00 – 16:00. Við hvetjum alla nemendur til að mæta á kjörstað og kjósa og láta þar með í ljós vilja sinn.

Rýnt í umhverfið

Það er margt í umhverfi okkar sem við veitum ekki athygli dags daglega en er þó sannarlega þess virði að eftir því sé tekið. Í dag brugðu nemendur sér á lista- og menningarsviði í FAS í vettfangsferð um Höfn með það að markmiði að veita umhverfinu athygli og jafnvel að nýta það til að veita sér innblástur.

[modula id=“9730″]

 

Spilakvöld í Nýheimum kl 20:00

Annað kvöld, fimmtudaginn 5. október, kl 20:00 mun Nýheimar þekkingasetur standa fyrir spilakvöld í Nýheimum. Albert Eymundsson ætlar að kenna fólki að spila Hornafjarðarmanna eða manna eins og margir kalla spilið. Það var töluvert spilað á árum áður en þá voru hvorki tölvur né sjónvarp til að stytta fólki stundir. Þegar Höfn fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 1997 endurvakti Albert spilið og síðan þá hefur það verið spilað reglulega. Þannig eru haldin árlega t.d. heimsmeistaramót og Íslandsmeistaramót.
Árið 2004 var haldið fyrsta framhaldsskólamótið í Hornafjarðarmanna og auðvitað var það Albert sem kom þar við sögu. Síðan þá hefur Hornafjarðarmanni verið árlegur viðburður í opinni viku sem er á vorönninni. Nú viljum við hvetja nemendur til að nýta tækifærið og mæta í Nýheima til að læra þetta ágæta spil og um leið að undirbúa sig fyrir komandi mót í Hornafjarðarmanna sem verður spilað í mars á næsta ári.

Í fréttum er þetta helst

Gestirnir okkar í síðustu viku fóru ekki varhluta af vatnsveðrinu mikla. Það þurfti að gera smávægilegar breytingar dagskránni en það kom þó ekki að sök. Í vikunni voru m.a margir frumkvöðlar heimsóttir og þökkum við þeim kærlega fyrir móttökurnar.

Leiðin frá Höfn var þó lengri en gert var ráð fyrir í upphafi því eins og allir vita eyðilagðist brúin yfir Steinavötn. Það var því ekki um annað að ræða fyrir erlendu gestina en að fara norður fyrir. Hópurinn lagði af stað klukkan 6 á laugardagsmorgun í rútu og ferðalagið tók um 14 tíma til Keflavíkur en gestirnir frá Grikklandi áttu flug heim um miðnætti.

Í þessari viku standa svo yfir miðannarviðtöl. Þá hitta nemendur kennara sína í hverju fagi og fara þeir saman yfir stöðu mála. Eins og áður eru gefnar einkunnirnar G (góður árangur), V (viðunandi árangur) og O (óviðunandi árangur). Miðannarmatið er sett í Innu og geta nemendur séð matið þar. Í næstu viku verður útprentun af miðannarmatinu sent heim til þeirra sem eru yngri en 18 ára. Við hvetjum foreldra/aðstandendur til að ræða miðannarmatið við sinn ungling því það er mikilvægt að foreldrar viti af stöðu mála og geti hvatt sitt fólk áfram.

Fjölþjóðlegt í FAS

Það má með sanni segja að þessa vikuna ríki fjölþjóðlegt yfirbragð í FAS en hér eru staddir gestir frá samstarfsskólunum í Erasmus + verkefninu „Sharing competencies in entrepreneruial learning“ sem er verkefni í frumkvöðlafræði. Það verkefni hófst haustið 2016 og taka fimm lönd þátt í því. Auk Íslands eru það Eistland, Grikkland, Ítalía og Lettland og eru bæði nemendur og kennarar í gestahópnum. Eins og í fyrri samstarfsverkefnum gista nemendur hjá okkar nemendum í FAS sem taka þátt í verkefninu.
Dagskráin er þétt skipuð á meðan gestirnir staldra við. Á morgun (miðvikudag) klukkan 10:20 kynna þeir lönd sín fyrir nemendum FAS og þá er nokkrum tíma varið í að skoða Nýheima og Vöruhúsið. Megnið af tímanum er þó tengt þema verkefnisins sem er frumkvöðlafræði. Fyrirhugað er að heimsækja nokkra frumkvöðla hér á Höfn en mestur tíminn fer þó í að vinna í hópum að ýmsum verkefnum. Það verður spennandi að fylgjast með þeirri vinnu.

Kræsingar í Nýheimum

Góðgjörðir í Nýheimum.

Í Nýheimum er fjölbreytt mannlíf og oft margt um manninn. En það er þó langt í frá að allir þekki alla eða viti við hvað íbúar hússins starfa dags daglega. Því var í haust ákveðið að efna nokkrum sinnum á önninni til kaffisamsætis þar sem fólk úr ólíkum áttum kæmi saman yfir góðgjörðum,  rabbaði saman og kynntist um leið.

Fyrsta kaffiboðið var haldið í morgun og voru það starfsmenn á háskóla- og frumkvöðlagangi sem sáu um veitingarnar og þar var ekkert skorið við nögl.

Þessu nýmæli var vel tekið og það var líf og fjör á Nýtorgi í kaffitímanum. Við erum strax farin að hlakka til næsta samsætis sem verður eftir um mánuð.