Útskrift á laugardag

SANYO DIGITAL CAMERA

Nú er prófum að ljúka í FAS en síðasti prófadagurinn er miðvikudagurinn 18. maí.  Prófsýning verður fimmtudaginn 19. maí. Nemendur eru hvattir til að koma og skoða prófin sín.

Laugardaginn 21. maí kl. 14:00 er svo komið að útskrift frá FAS. Að þessu sinni verða útskrifaðir nemendur af framhaldsskólabraut, fjallamennskubraut, vélstjórnarbraut, vélvirkjabraut og svo stúdentar. Að venju fer athöfnin fram í Nýheimum og hefst klukkan 14:00. Allir eru velkomnir á meðan að húsrúm leyfir.

Mælingar á Fláajökli

IMG_4207

Jökuljaðar Fláajökuls hnitsettur.

Nemendur í FAS hafa komið að jöklamælingum í rúma tvo áratugi. Þar hefur oftast berið beitt svokölluðum þríhyrningsmælingum til að mæla jökulsporða sem ganga fram í jökullón. Í nokkurn tíma hefur verið rætt um það í skólanum að gaman væri að prófa nýjar aðferðir sem myndu gefa nákvæmari niðurstöður.
Í gær fóru nemendur í land- og jarðfræði ásamt kennurum sínum og Snævarri Guðmundssyni frá Náttúrustofu Suðausturlands upp að vestanverðum Fláajökli til að mæla jökulinn. Aðgengi að jöklinum þar er fremur gott og oft hægt að komast alveg að jaðrinum. Tilgangur ferðarinnar var tvíþættur. Annars vegar að nýta stafrænan fjarlægðamæli til að finna út vegalengd að jökli þar sem vatn liggur fyrir framan hann. Hins vegar að ganga meðfram jökulröndinni og taka GPS punkta á allmörgum stöðum. Á milli nokkurra GPS punkta var tækið síðan notað til að varða jökuljaðarinn.
Áður en farið var í þessa ferð höfðu nemendur fræðst um meðferð GPS tækja og hvernig tengja megi upplýsingar úr þeim við GIS gagnagrunninn sem er stafrænt landfræðilegt upplýsingakerfi sem m.a. vinnur út frá gögnum frá gervihnöttum. Þá höfðu krakkarnir notað mynd af Fláajökli frá 2010 til að teikna upp jökuljaðarinn eins og hann var þá og tengja við GPS hnit. Næstu daga verða upplýsingarnar sem var safnað í gær notaðar til að teikna nýja mynd af jökuljaðrinum. Þannig að á að fást mun nákvæmara yfirlit yfir breytingarnar á þessum sex árum heldur en með þeim aðferðum sem hingað til hafa verið notaðar. Það verður spennandi að bera myndirnar saman þegar vinnunni er lokið.
Ferðin í gær gekk ljómandi vel. Það var nokkuð kalt en bjart og stillt uppi við jökulinn. Hægt er að skoða myndir úr ferðinni á fésbókarsíðu skólans.

Nemendafundur og nýr forseti

NemendafundurÍ þessari viku höfum við í FAS gefið okkur smá tíma fyrir félagslíf nemenda.
Á síðasta vetrardag var hefðbundin kennsla lögð niður í 2 tíma og nemendafundur haldinn. Þar var nemendum skólans skipt upp í hópa. Hver hópur fékk ákveðin fyrirmæli sem snérust um félagslíf og hvers vegna það væri mikilvægt. Einnig átti koma með hugmyndir um hvað hægt væri að gera til að efla félagslífið. Margar flottar hugmyndir komu frá hópunum og munu þær verða teknar fyrir af nemendaráði næsta haust. Það er jú undir nemendum komið að skipuleggja sitt félagslíf.
Sama dag voru kosningar í fullum gangi og nemendur kusu sér nýjan forseta og varaforseta nemendafélagsins. Í framboði voru fjórar glæsilegar stúlkur. Það voru þær Adisa Mesetovic, Björk Davíðsdóttir, Hafdís Lára Sigurðardóttir og Sigrún Birna Steinarsdóttir.
Það kom í ljós að ekki mátti minna muna á tveimur efstu frambjóðendunum en það munaði ekki nema einu atkvæði á milli þeirra. Það var hún Adisa sem hlaut flest atkvæði og verður þar með forseti nemendafélagsins á næsta ári og með henni verður Björk sem hlaut næstflest atkvæði. Við viljum óska þeim innilega til hamingju og á sama tíma vonum við innilega að Hafdís og Sigrún taki fullan þátt í nemendaráði næsta vetur líka enda mikill fengur að hafa þær.

Íslenskur aðall til sýnis

Íslenzkur Aðall1Nemendur í íslensku hafa verið að lesa Íslenzkan aðal eftir Þórberg Þórðarson síðustu vikur. Unnin hafa verið verkefni í tengslum við lesturinn, farið í heimsókn á Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit og velt upp hugmyndum um lífið nú og þá. Atburðirnir sem lýst er í sögunni gerðust árið 1912 og því er forvitnilegt að bera saman tímana tvenna og velta fyrir sér breytingum á nánast öllum sviðum daglegrar tilveru. En innst inni erum við bara venjulegt fólk. Ungt fólk þarf að skemmta sér, ræða um sín áhugamál, stunda vinnu til að geta borgað húsaleigu og mat og eiga sína drauma um betra líf.
Allt þetta og meira til má sjá í sýnishornum af verkefnum nemenda sem verða til hengd upp á veggi í stofu 204 í FAS í dag.
Sýningin verður opin út þennan mánuð og eru allir velkomnir að skoða afrakstur nemenda þegar ekki er verið að kenna í stofunni.
Við viljum koma að sérstöku þakklæti á framfæri til Þorbjargar Arnórsdóttur forstöðumanns Þórbergsseturs fyrir góðar móttökur og fróðleik.

Góðir gestir í FAS

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Pólski hópurinn við lóðsbátinn.

Þessa vikuna höfum við haft góða gesti frá Póllandi í FAS. Það eru nemendur í samstarfsverkefninu „Your health is your wealth“ sem eru að endurgjalda heimsókn nemenda FAS frá því í lok síðustu annar. Hópurinn kom til Hafnar þann fyrsta apríl síðastliðinn.
Dagana sem hópurinn hefur staldrað við hefur verið nóg að gera. Það á við bæði um sameiginlega verkefnavinnu og eins að sýna gestunum okkar fallega landshorn. Helgin var notuð til að sýna gestunum landið og lífið í sveitinni og var m.a. farið á Stokksnes og á Jökulsárslón. Á leiðinni frá Jökulsárlóni var komið við á Þórbergssetri, í hesthúsinu í Lækjarhúsum og fjósinu í Flatey. Í hádeginu voru grillaðar pylsur í Hestgerði og litið í útihúsin þar.
Í þessari viku hefur hópurinn farið í nokkrar heimsóknir hér á Höfn. Þar má m.a. nefna skoðunarferð í Skinney – Þinganes, Gömlubúð, Slysavarnarhúsið og siglingu með lóðsbátunum. Þá hefur pólski hópurinn farið tvisvar í tíma til Huldu í Hornhúsið og tekið nokkrar núvitundaræfingar. Í gær var svo kennsla lögð niður í fáeina tíma og þá kynntu gestirnir land sitt og þjóð, allir nemendur skólans fóru í ratleik um bæinn og í hádeginu voru grillaðir hamborgarar.
Veðrið hefur að stærstum hluta verið ágætt og oft hefur landið skartað sínu fegursta. Gestirnir eiga varla til orð til að lýsa landinu okkar og margar myndir hafa verið teknar. Fréttir af hverjum degi hafa verið skrifaðar á heimsíðu verkefnisins http://health.fas.is/
Á morgun heldur hópurinn svo af stað áleiðis til Keflavíkur þar sem hann gistir áður en haldið er utan á laugardag. Gert er ráð fyrir að sýna hópnum bæði Gullfoss og Geysissvæðið og einnig Þingvelli.
Töluverð áhersla hefur verið lögð á erlent samstarf í FAS undanfarin ár og eiga margir fyrrum nemendur ágætar minningar um þátttöku í slíku verkefni. Þetta samstarf væri varla mögulegt á aðkomu samfélagsins og ekki má heldur gleyma hlut foreldra og fjölskyldna. Eru öllum hér með færðar bestu þakkir.

Sólin bætir og kætir

20160317_124838Við höfum verið svo heppin að hitastig hefur tekið að hækka aðeins hérna á suðausturhorninu síðustu daga. Það má taka vel eftir því hérna í FAS og er eins og lundin léttist örlítið á nemendum og kennurum með hverjum sólardeginum. Kannski er ástæðan að páskafrí hefst eftir að kennslu lýkur á morgun, hver veit?
Í hádeginu í dag tóku nokkrir nemendur sig til og nutu sólarinnar fyrir utan Nýheima. Farið var í hina ýmsu leiki og mátti til dæmis sjá nemendur hoppa í snú snú og takast á í reipitogi.
Við vonum innilega að vorið sé komið og sólardagarnir verði fleiri á næstunni.