Afmælisfjör í FAS

Það hefur heldur betur verið líflegt í Nýheimum í dag og margt um manninn. Tilefnið er að sjálfsögðu 30 ára afmæli skólans.
Í morgun mættu þeir hópar sem hafa verið að störfum á Vísindadögum til að leggja lokahönd á vinnuna sem í öllum tilfellum var að gera vinnuna sýnilega.
Á hádegi var svo sýningin opnuð formlega. Það var skólameistari sem bauð gesti velkomna og í kjölfarið kynntu hóparnir vinnu sína á Vísindadögum. Eftir það gafst gestum tækifæri til að skoða afmælissýninguna en þar er meðal annars að finna; heimildamynd um sögu skólans, alls kyns myndir frá skólastarfinu, fatatísku síðustu 30 ára, könnun um viðhorf Hornfirðinga til FAS, viðtöl og fleira. Skólinn bauð upp á hádegisverð sem mæltist vel fyrir.

Það var einkar ánægjulegt að sjá hversu margir komu í Nýheima í dag en hingað komu um 200 manns. Við viljum vekja athygli á að afmælissýningin verður opin til 3. nóvember og hægt er að skoða hana á opnunartíma Nýheima.

[modula id=“9733″]

Vísindadagar í FAS

Nú í morgunsárið hófust hinir árlegu Vísindadagar í FAS. Viðfangsefnið að þessu sinni er 30 ára afmæli skólans. Nemendur vinna að ýmsum verkefnum sem varða skólann og líklegt er að íbúar sveitarfélagsins verði varir við það á ýmsan hátt. Einn hópurinn er t.d. að leggja fyrir könnun í síma og aðrir eru að vinna að ýmis konar heimildaröflun.

Á föstudag, 27. október verður síðan blásið til mikillar afmælisveislu í Nýheimum þar sem afrakstur vinnunnar verður sýndur. Skólinn býður upp á veitingar á milli 12:00 og 14:00 þann dag. Við hvetjum alla sem geta til að koma í Nýheima og fagna með okkur þessum áfanga og skoða um leið vinnu nemenda.

Við hlökkum til að sjá ykkur !!

Á slóðum Kristjáns fjórða

Í áfanganum DANS2SS05 í FAS eru nemendur að læra dönsku og kynna sér danska menningu, siði og venjur. Til dæmis hafa nemendur kynnt sér ævi og störf Kristjáns 4. konungs, sem ríkti í Danmörku, Noregi og Íslandi frá 1588 – 1648.
Hluti þessa náms var síðan náms- og kynnisferð til Danmerkur 13. – 16.  október síðast liðinn.  Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að sjá með eigin augum nokkrar af þeim byggingum, sem Kristján 4. lét reisa í Kaupmannahöfn.  En þar á meðal eru nokkrar fegurstu byggingar borgarinnar t.d. Rosenborg slot og Børssen.  Einnig var farið á söfn og að sjálfsögðu í Tívolíið.
Ferðin tókst í alla staði mjög vel og voru nemendur sammála um að þeir hefðu lært mikið um danskt samfélag.

Nemendur sóttu um styrki til fyrirtækja í sveitarfélaginu og viljum við færa þeim sem sáu sér fært að styrkja ferðina kærar þakkir. Okkur langar að benda á að þau fyrirtæki, sem ekki hafa lagt okkur lið geta gert það.  Reikningur í Landsbankanum er enn opinn.

                                                                                         Nemendur og kennari í DANS2SS05

 

[modula id=“9729″]

Ferð að Fláajökli

Í dag var farið í árlega mælingaferð að Fláajökli. Það er Náttúrustofa Suðausturlands sem hefur umsjón með verkefninu en fyrir fáum árum var ákveðið að nemendur í jarðfræði í FAS fái að fara með og kynnast vinnubrögðunum við jöklamælinguna. Við mælingar á jöklinum er stuðst við GPS punkta og með því má fá mun nákvæmari niðurstöður en þegar beitt er t.d. þríhyrningamælingum. Upplýsingarnar eru settar í GIS gagnagrunninn sem er stafrænt landfræðilegt upplýsingakerfi sem m.a. vinnur út frá gögnum frá gervihnöttum. Út frá þessum upplýsingum er hægt að teikna mynd af stöðu jökulsins á hverjum tíma.

Það er einstaklega fallegur dagur í Hornafirði í dag og aðstæður til mælinga hinar ákjósanlegustu. Miklar breytingar eru á svæðinu fyrir framan Fláajökul frá því að síðast var farið. Næstu daga verður svo unnið úr niðurstöðunum. Það verður spennandi að sjá samanburð frá því í fyrra.

 

[modula id=“9728″]

Vímuefnaneysla ungmenna

Miklar breytingar eiga sér stað á unglingsárunum og má segja að um eitt mesta breytingaskeið sé að ræða á lífsleiðinni.   Auk líkamlegra breytinga verður sýn unglinga á lífið annað ásamt því að væntingar annara til þeirra breytist.

Samkvæmt lögum er óheimilt að selja, veita eða afhenda ungmennum undir 20 ára aldri áfengi. Þessi lög eru sett til þess að vernda heilsu ungs fólks.  Áfengisneyslu geta fylgt ýmis vandamál, félagsleg og persónuleg sem hafa áhrif á einstaklinginn sjálfan og þá sem að honum standa.  Á árunum til tvítugs og jafnvel lengur er mikill líkamlegur þroski í gangi m.a. í heila og taugakerfi en áfengisneysla á þessum árum hefur því mjög slæm áhrif á líf og þroska ungmenna.  Neysla áfengis getur skaðað ákveðnar heilastöðvar fyrir lífstíð og því mikilvægt að fresta neyslu ungmenna á áfengi og öðrum vímugjöfum eins lengi og hægt er.

En hvernig frestum við drykkju og vímuefnaneyslu ungmenna?

Sýnt hefur verið að verndandi þættir felast  t.d. í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum. Í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum gefst ungmennum tækifæri á að taka virkan þátt og við það eflist sjálfsálitið og sjálfsmyndin.  Þeir unglingar sem hafa sterka sjálfsmynd eru yfirleitt hugrakkir og þora að taka góðar ákvarðanir fyrir sig, þora að segja nei við hlutum sem þau vita að eru ekki góð fyrir þau.   Þrátt fyrir að reglur  gildi um hluti eins og áfengisneyslu þá berum við sjálf að lokum alltaf ábyrgð á ákvörðunum okkar og stöndum og föllum með þeim eins og öðrum ákvörðunum sem við kunnum að taka á lífsleiðinni.

Þeir unglingar sem stunda íþróttir eða líkamsþjálfun reglulega eru líklegri til að upplifa betri líðan en öðrum jafningjum og eru þar að auki ólíklegri til að neyta áfengis og annara vímuefna en jafningjar.  Þjálfarar og leiðbeinendur eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á ungmennin með því að leggja áherslu á forvarnir gegn vímuefnum en einnig með að sýna áhuga, gott fordæmi,  vera hvetjandi og sýna skilning. Íþróttafélögin gegna í raun mjög mikilvægu hlutverki í þessu sambandi og ættu að vera leiðandi í allri forvarnarvinnu.

Stuðningur foreldra er mjög mikilvægur og því meiri stuðning sem unglingar fá að heiman því ólíklegri eru þau til að neyta áfengis og vímuefna. Samvera unglinga við foreldra sína og fjölskyldur hefur verndandi áhrif og er mjög jákvæð. Verum ekki hrædd við að draga unglingana okkar með  út í gönguferðir, á kaffihús eða í bíltúr. Spilakvöld eru frábær samvera ásamt góðu spjalli. Gleymum ekki að við foreldrar erum fyrirmyndir og afstaða okkar skiptir máli.

Hreyfing og líkamleg þjálfun er mikilvæg fyrir alla en þátttaka í íþróttum tengist ekki bara líkamlegri heilsu heldur hefur sýnt sig að minnki líkur á þunglyndi, streitu og kvíða ásamt því að hafa áhrif á hegðun eins og minni neyslu á áfengi og fíkniefnum.

Unglingar eyða stórum hluta dagsins í skólanum og skólinn er því góður vettvangur fyrir forvarnir sem eiga við vímuefnaneyslu.  Gott samstarf milli heimila og skóla er mikilvægt til að styðja við vímuefnaforvarnir en einnig er samstarf við aðrar stofnanir samfélagsins nauðsynlegar og ber að nefna lögreglu og heilbrigðiskerfið í því samhengi.

Að þessu sögðu, langar mig að við tökum öll höndum saman og styðjum ungmennin okkar og sýnum þeim áhuga og virðingu. Við getum kannski gert lítið eitt og eitt en saman erum við öflugri. Það þarf nefnilega allt samfélagið að leggjast á eitt og það er trú mín að ef við gerum það munu þau vaxa og dafna sem best á þessu svo kallaða breytingarskeiði sem endar með fullorðinsárum.

Með þessari grein vil ég vekja athygli á vímuefnaneyslu ungmenna, forvörnum og skapa umræðugrundvöll fyrir okkur öll til að finna þessu málefni góðan farveg í allra þágu.

Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur
Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólans í A-Skaftafellssýslu.

Skuggakosningar í FAS

Framboðsfundur í FAS

Eins og eflaust flestir vita á að kjósa til Alþingis laugardaginn 28. október næst komandi. Mikið hefur verið rætt um að þátttaka ungs fólks í kosningum fari minnkandi. Engu að síður er þó afskaplega mikilvægt að ungt fólk móti sér skoðanir og taki þátt í kosningum og verði þá um leið virkir þjóðfélagsþegnar. Á því byggir lýðræðið.
Í dag, miðvikudag 11. október komu nokkrir frambjóðendur til að kynna stefnu sinna flokka fyrir nemendur í FAS. Nánar er hægt að lesa um stefnumál flokkanna hér.

Á morgun, 12. október fara svo fram skuggakosningar í FAS. Þá geta nemendur kosið og munu kosningarnar fara fram í stofu 205 frá 9:00 – 16:00. Við hvetjum alla nemendur til að mæta á kjörstað og kjósa og láta þar með í ljós vilja sinn.