Amnesty International í FAS

Það er nú ýmislegt fleira en námið sem margir nemendur okkar í FAS eru að fást við. Og oft á tíðum eru það mikilvæg málefni sem varða okkur öll.

Í síðasta fréttabréfi Amnesty International er m.a. sagt frá öflugu starfi ungliðahreyfingar Amnesty á Íslandi. Og á myndum sem fylgja má sjá kunnugleg andlit úr skólanum en síðustu ár hafa nokkrir af nemendum okkar verið virkir í starfsemi Amnesty og tekið þátt í starfsemi samtakanna. Landinu er skipt upp í nokkra hluta en Höfn fylgir Austurlandi og á því svæði er mjög öflug starfsemi. Á síðasta skólaári stóðu ungliðar úr FAS ásamt öðrum félagsmönnum á svæðinu fyrir fræðslufundi um störf Amnesty. Amnesty var sýnilegt á Humarhátíðinni síðasta sumar og voru með bás á hátíðasvæðinu. Þá tóku nokkrir félagar héðan þátt í Reykjavík Pride en þar er verið að vekja athygli á minnihlutahópum í þjóðfélaginu.

Amnesty stendur m.a. fyrir bréfamaraþoni sem er löngu orðinn árlegur viðburður þar sem er verið að vekja athygli á erfiðum aðstæðum þeirra sem láta sig mannréttindi varða og berjast fyrir réttlæti í heiminum. Um þessar mundir er bréfamaraþonið að fara af stað. Veitt eru verðlaun fyrir flestar undirskriftir annars vegar og flestar undirskriftir á höfðatölu hins vegar. Síðustu þrjú árin hefur FAS skorað hátt í maraþoninu. Í næstu viku er ætlunin að hvetja alla í FAS til að taka þátt, einnig verður hægt að taka þátt á aðventuhátíð í Nýheimum næstkomandi laugardag og á þriðjudag í næstu viku verður bréfamaraþon á opnu húsi í Heppuskóla. Það er alltaf hægt að skrifa undir rafrænt og við hvetjum alla til að taka þátt en munið eftir að merkja við FAS.

Það fer vel saman að starfa í skemmtilegum félagsskap og um leið að láta gott af sér leiða. Að sjálfsögðu er þetta allt sjálfboðavinna sem er svo mikilvægur þáttur í hverju samfélagi.

 

[modula id=“9739″]

 

Ljósmyndasýning og frumsýning stuttmyndar

Síðasta föstudag opnuðu nemendur í ljósmyndun sýningu á Nýtorgi.  Nemendur hafa á önninni lært undirstöðuatriði í ljósmyndun en einnig einbeitt sér að hugmyndavinnu og er sýningin afrakstur hennar. Síðustu vikur annarinnar munu nemendur spreyta sig á stúdíóljósmyndun. Á vorönn heldur námið áfram og þá verður haldið eins langt frá stafrænni tækni og komist verður og nemendur smíða sér svokallaða Pinhole myndavél og taka myndir á hana. Síðan tekur við ljósmyndun á filmu, svarthvít framköllun og stækkun og að endingu vinna nemendur að lokaverkefnum sem sýnd verða í vor. Ljósmyndun í FAS er námslína sem spannar tvær annir en auk þess er hægt að bæta við þriðju önninni í formi verkefnaáfanga.

Á föstudaginn frumsýndi Ísar Svan Gautason stuttmyndina Kaffi sem hann gerði í verkefnaáfanga í kvikmyndagerð. Myndina má sjá hér: [embedyt] https://www.youtube.com/watch?v=crwQZA4989s[/embedyt]

Wiktoria bikarmeistari í Fitness

Um síðustu helgi fór fram mót í Fitness. Mótið var haldið í Háskólabíói og voru alls um 90 keppendur. Einn þeirra flokka sem var keppt í heitir Bodyfitness kvenna og þar keppti Wiktoria Darnowska sem er nemandi í FAS. Hún náði þeim frábæra árangri að vera efst í unglingaflokki, í sjötta sæti í sínum hæðarflokki og í heildina var hún í þriðja sæti.
Wiktoria byrjaði að æfa líkamsrækt fyrir um það bil tveimur árum. Það hefur lengi verið draumur hjá henni að keppa í fitnessmóti. Í janúar síðast liðnum ákvað hún að taka þátt í þessari keppni.
Það er að mörgu að huga þegar á að taka þátt í móti sem þessu.
Dómarar meta heildarútlit líkamans í öllum lotum með hliðsjón af samræmi, áferð og lögun vöðvanna, hóflegri líkamsfitu en einnig er tekið tillit til förðunar, hárs og framkomu hvers og eins. Fas og glæsileiki skiptir máli. Margir telja þessa keppnisgrein heppilega fyrir konur sem æfa mikið og vilja fylgja heilbrigðu mataræði og lífsstíl. Öllu máli skiptir þó að hafa góða leiðsögn. Þjálfari Wiktoriu er staðsettur í Reykjavík en hún æfir í Sporthöllinni. Að sögn Wiktoriu skiptir mataræðið hvað mestu máli því ef ekki er borðað rétt verður enginn árangur.
Wiktoria var að vonum ánægð með árangurinn á þessu fyrsta móti sínu og ætlar að halda ótrauð áfram.
Við í FAS óskum henni til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.

 

Maulað á góðgæti

Í morgun var komið að þriðja sameiginlega morgunkaffi íbúa Nýheima. Að þessu sinnu voru það kennarar og starfsfólk FAS sem sá um veitingarnar og líkt og áður svignuðu borðin undan kræsingunum.
Þessir sameiginlegu kaffitímar hafa heldur betur slegið í gegn og bíða margir þessara daga. Fólki finnst fínt að setjast aðeins saman og spjalla og njóta um leið veitinganna.
Fjórða og síðasta kaffisamsætið verður svo í desember og þá sýna nemendur hvað í þeim býr.

[modula id=“9738″]

Kíkt í fiðrildagildrur

Þó farið sé að halla í miðjan nóvember er enn nokkuð um skordýr á ferli. Í morgun var verið að tæma fiðrildagildrur í Einarslundi í síðasta sinn á þessu hausti og fengu nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum í FAS að fylgjast með. Björn Gísli tók á móti hópnum í Guðmundarhúsi og sagði frá því helsta sem fer fram í Einarslundi. Einnig sagði hann frá sögu hússins.
Miðað við hvað kemur í gildrurnar á góðum sumardegi var „aflinn“ ekki mikill. Það voru þó nokkur fiðrildi sem voru í gildrunum og töluvert af flugum.
Við fengum að taka fiðrildin með í FAS og ætlunin er að skoða þau nánar í víðsjá og smásjá á næstunni.

[modula id=“9735″]

Mælingar á Heinabergsjökli

Í dag fór nemendur í INGU1NR05 til að sinna árlegum mælingum á Heinabergsjökli. Með í för voru þau Kristín og Snævarr frá Náttúrustofu Suðausturlands og einnig Eyjólfur og Hjördís frá FAS.
Það var töluverður garri á Höfn þegar var farið af stað og veðurspáin ekkert allt of góð. Það kom því skemmtilega á óvart að uppi við jökulinn var nánast logn og því auðvelt að framkvæma mælingar.
Fyrir þá sem ekki vita að þá liggur Heinabergsjökull fram í jökullón og því þarf að notast við þríhyrningamælingar til að finna út vegalend frá ákveðnum punktum á landi og í jökulsporðinn. Undanfarin ár hefur jökullinn verið að rýrna og hopa og eftir mælingar fyrir ári síðan kom í ljós að mælingar frá punkti 155 eru ekki lengur marktækar því þar sem áður var jökulsporður eru nú bara jakar. Því var að þessu sinni einungis stuðst við mælilínu 157 sem er sunnar á jökulruðningunum.
Mælingar gengu ljómandi vel og það náðist að safna þeim gögnum sem þarf að nýta við útreikninga. Í framhaldinu verður staða jökulsins reiknuð og nemendur þurfa að vinna skýrlsu um ferðina.

[modula id=“9736″]