Hangikjöt og laufabrauð

Það var margt um manninn á Nýtorgi í dag en þá bauð skólinn nemendum og starfsfólki upp á hádegisverð. Á borðum var hangikjöt með tilheyrandi og svo laufabrauð. Það var sannarlega gott að fá góðan og staðgóðan hádegisverð á þessum næstsíðasta kennsludegi annarinnar.

Takk FAS fyrir að bjóða okkur og Sigrún – takk fyrir frábæran mat.

Lokamat framundan

Þessa dagana eru nemendur á fullu að leggja lokahönd á verkefni annarinnar en síðasti kennsludagur er fimmtudagurinn 7. desember. Strax á föstudag hefst síðan lokamat þar sem hver nemandi og kennari hittast og fara yfir það sem hefur áunnist á síðustu mánuðum. Lokamat kemur í stað lokaprófa sem fyrir nokkrum árum voru allsráðandi og fyrir marga nemendur mjög stressandi tímabil.

Nemendur finna tímasetningar fyrir lokamat í sínum áföngum á Námsvef og í mörgum tilfellum er einnig að finna yfirlit yfir það helsta sem þarf að kunna skil á í lokamati. Mikilvægt er að undibúa sig vel svo allt gangi sem best. Staðnemendur mæta í kennslustofur sínar en fjarnemendur fá fundarboð á Teams.

Síðasti dagur fyrir lokamat er föstudagurinn 15. desember og allar einkunnir ættu að vera komnar inn fljótlega eftir það. Við óskum okkar fólki góðs gengis í törninni sem er fram undan.

Fyrsta hjálp í fjallamennskunáminu

Kennsla í fyrstu hjálpar áfanga var haldin á Höfn helgina 17. – 20. nóvember. Það voru fjórir dagar af verklegri kennslu, umræðum, æfingum, fyrirlestrum og fleiru sem nýst getur verðandi leiðsögumönnum í fjallamennskunámi FAS.
Meðal áhersluatriða voru slys, ofkæling, sár, stoðkerfisáverkar og bráð vandamál í helstu líffærakerfum sem bregðast þarf hratt við. Námskeiðið gekk í alla staði mjög vel og umhverfi Nýheima reyndist vel þrátt fyrir gráleitt veður.

Kennarar í áfanganum voru: Tómas Eldjárn Vilhjálmsson og Ármann Ragnar Ægisson.

Nýheimar fá jólaupplyftingu

Nú er að ganga í hönd sá tími ársins þegar dagar eru hvað stystir og myrkur sem mest. Því er upplagt að finna til það sem kætir og léttir lund. Öll getum við verið sammála um það að litlu ljósin marglitu og skær geti verið gleðiauki.

Á efri hæðinni í Nýheimum var vinnustundin nýtt til að skreyta og má með sanni segja að margar hendur vinni létt verk. Einhverjum fannst ekki heldur úr vegi að bregða aðeins á leik.

Landmótun jökla við Heinaberg

Það hefur lengi verið lögð áhersla á ýmis konar náttúruskoðun í FAS. Eitt af því sem hefur verið gert lengi er að fylgjast með og mæla framskrið eða hop jökla og hefur ýmist verið farið að Fláajökli eða Heinabergsjökli. Í allmörg ár var fjarlægð mæld frá ákveðnum punktum á landi að jökuljaðrinum og kröfðust þær ferðir vandaðra vinnubragða við mælingar og svo þurfti að notast við aðferðir stærðfræðinnar til að reikna út fjarlægðir. Það voru tveir mælipunktar á jökulruðningunum fyrir framan Heinabergsjökul sem var stuðst við.

Við höfum öll tekið eftir miklum og örum breytingum á náttúrunni undanfarin ár sem má að stórum hluta rekja til loftslagsbreytinga. Árið 2017 höfðu orðið svo miklar breytingar á Heinabergslóni að ekki var lengur hægt að styðjast við nyrðri mælipunktinn. Þar sem áður lá jökull mátti sjá jaka fljótandi í lóninu. En áfram héldu mælingarnar við syðri mælipunktinn en þar hafði jökulinn virst fremur stöðugur.

Það var svo árið 2020 sem Náttúrustofa Suðausturlands styrk frá Loftslagssjóði til þess að fljúga yfir jökla landsins og taka myndir af þeim, í því skyni að nýta til ýmissa rannsókna. Það var Snævarr Guðmundsson sem þekkir hvað best til jöklanna hér um slóðir sem fékk það hlutverk að taka myndirnar. Þá kom í ljós að syðri hluti Heinabergsjökull var ekki lengur virkur hluti skriðjökulsins heldur í raun risavaxinn ísjaki sem bíður örlaga sinna. Við höfum samt fylgst nokkuð með stöðu þessa mikla ísjaka síðustu ár.

Þessar miklu breytingar á umhverfinu hafa kallað á breytingar á ferðinni með nemendur FAS. Nú tölum við ekki lengur um jöklamælingaferð heldur skoðunarferð þar sem sjónum er sérstaklega beint að landmótun jökla og hvernig megi „lesa“ í landið og sjá ummerki um hvar jökulinn hefur verið. Og þar er af nógu að taka.

Ferðin í dag hófst við brúna yfir Heinabergsvötn. Það eru alltaf nokkrir í hópnum sem hafa ekki farið á þetta svæði og vita því ekki af þessari brú eða að þarna hafi þjóðvegurinn legið eitt sinn. Frá brúnni er síðan gengið inn að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er staldrað alloft við og lesið í landið. Í ferðinni í dag vorum við t.d. að skoða árfarvegi, jökulruðninga, jökulkembu, landmótun jökla uppi í fjöllum, gróðurframvindu, veðrun og mismunandi grjót og hversu vel eða illa það veðrast. Frá lóninu lá síðan leiðin fram hjá gömlu mælingarpunktunum og á bílaplanið fyrir framan Heinabergslónið þar sem rútan beið eftir okkur. Ferðin í dag gekk ljómandi vel og gera má ráð fyrir að allir hafi komið heim reynslunni ríkari.

Spilastund í vinnustund

Stundum getur verið gott að breyta til frá daglegu amstri og fást við annars konar verkefni. Í dag var ákveðið að breyta vinnustund í spilastund. Hægt var að velja um ýmis konar spil en aðalmarkmiðið var að hafa gaman saman og einnig að kynnast fólki á annan hátt en dags daglega. Það var ekki annað að heyra en að allir skemmtu sér hið besta og á það bæði við um nemendur og starfsfólk.