Uppfærsla á netbúnaði í FAS og miðannarmat

Í dag er námsmatsdagur í FAS og kennarar vinna að því að setja inn miðannarmat í Innu. Matið ætti að vera sýnilegt nemendum í lok dags. Í næstu viku verða svo miðannarsamtöl þar sem farið verður yfir matið.

Nemendur eru í fríi á námsmatsdegi en engu að síður er mikið um að vera í FAS. Nú er verið að endurnýja alla þráðlausa beina í skólastofum og uppfæra hugbúnað skjávarpa þannig að þeir gagnist sem best. Þessi vinna klárast vonandi í dag og því ættu tengingar við net að vera auðveldari og hraðvirkari strax í næstu viku.

Fuglatalning í febrúar

Í gær var komið að annarri fuglatalningu vetrarins í Óslandi en þær talningar eru eitt af vöktunarverkefnum skólans. Það eru staðnemendur í umhverfis- og auðlindafræði sem fara í talningar hér á Höfn. Fjarnemendur í áfanganum finna sér sambærilegt svæði þar sem þeir fylgjast með fuglum nokkrum sinnum á önninni.

Það voru óvenju fáir fuglar í Óslandinu í gær, það var að flæða að og því lítið um æti fyrir þá fugla sem helst hafast við í fjöruborðinu. Oftast er mikið af mávum í Óslandi en svo var ekki í gær – líklega hafa þeir komist í æti utan fjarðar. Það vakti hins vegar athygli að mikið var af stokköndum á Óslandstjörninni og minnist Björn Gísli, okkar helsti fuglasérfræðingur í FAS, þess ekki að hafa séð svo margar á tjörninni á þessum árstíma. Alls voru taldar 46 stokkendur á tjörninni.

HeimaHöfn á Heppunni

Í dag var komið að uppbroti í tengslum við HeimaHöfn en það er verkefni sem tekur á fjölþættum áskorunum sem ungt fólk og landsbyggðarsamfélög standa frammi fyrir. Að þessu sinni var umfjöllunarefnið ferðaþjónusta og tækifæri sem tengjast henni í heimabyggð. Nokkrir aðilar sem tengjast mikið ferðaþjónustu á svæðinu komu og sögðu frá starfsemi sem er á þeirra vegum.

Fyrst sagði Steinunn Hödd þjóðgarðsvörður á Suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs frá starfsemi í kringum þjóðgarðinn og hvaða störf eru innt þar af hendi. Þessi stofnun heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Haukur Ingi hjá Glacier Adventure sem er fjölskyldufyrirtæki í afþreyingarferðaþjónustu sagði frá starfsemi síns fyrirtækis og Una sem er hótelstjóri á Hótel Jökli sagði frá starfsemi í kringum hótelrekstur. Öll sögðu þau frá hversu fjölbreytt störf eru í tengslum við ferðaþjónustu og hversu mikilvægt er að fara og afla sér þeirrar menntunar sem hugurinn stefnir til. Og líka að vita af því að það er hægt að koma aftur á heimaslóðirnar og finna starf sem er bæði skemmtilegt og gefandi. Mörg þeirra sem tóku á móti okkur á Heppunni í dag eru fyrrum nemendur okkar í FAS sem hafa farið og aflað sér menntunar en ákveðið að snúa aftur heim því hér er bæði gott að búa og starfa.

Á meðan á kynningunum stóð var boðið upp á veitingar í anda Heppu og voru þeim gerð góð skil, ekki síst gladdi gestina að sjá „dólga“ á borðum. Eftir kynningarnar var svo Kahoot-keppni þar sem spurningar tengdust umfjöllunarefni dagsins. Að sjálfsögðu voru verðlaun fyrir þá sem stóðu sig best.

Við þökkum kærlega fyrir skemmtilegar og fræðandi kynningar og ekki síður fyrir veitingarnar.

Snjóflóðagrunnur og skíðamennska

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur dagana 13.-18. febrúar. Markmiðið var að skíða eins og við gátum en einnig auðvitað að fara yfir helstu snjóflóðafræði á fimm dögum. Fyrirlestrar og innikennsla fóru fram í Menntaskólanum á Tröllaskaga en þar er glæsileg aðstaða til kennslu. Útiæfingar og skíðamennska fóru fram á Dalvík, Siglufirði og í Hlíðarfjalli.  

Þrátt fyrir óvenjulega lítinn snjó miðað við árstíma þá gekk námskeiðið vel og kom snjóleysið ekki niður á skíðamennsku og lærdómi og farið var yfir allt námsefnið. Dagskráin var þétt enda þarf alltaf að koma miklu námsefni að á þessu námskeiði. Farið var yfir grunninn að snjóflóðafræðum, notkun snjóflóðaspáa, grunn að leiðarvali og landslagslestri í snjóflóðalandslagi, kynning á snjóflóða- og skíðabúnaði, mannlega þætti og ákvarðanatöku, áhættumat, snjóvísindi og snjóprófanir og að sjálfsögðu var farið ítarlega í félagabjörgun úr snjóflóði.  

Hópurinn náði að skíða þrjá daga af fimm sem er meira en oft áður enda var veðrið með besta móti alla dagana (sem telst ótrúlegt í febrúar) og brekkurnar í góðu standi þó að lítið væri utan leiða. Allir þátttakendur fengu persónulega endurgjöf á skíðatækni og fengu því góðan tíma til þess að æfa hana. Vissulega hefði meiri snjór hjálpað til við félagabjörgunaræfingar og snjógryfjugerð en sem betur fer eru mörg námskeið fram undan í vetur þar sem tækifæri verða til þess að fara enn betur yfir þessi fræði.  

Snjóflóðanámskeiðið er undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Þannig er snjóflóðahluta Fjallamennskunámsins ekki lokið, þar sem þekking á þessu námskeiði nýtist á flestum námskeiðum vorsins. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur geti tekið þátt á fjallaskíðanámskeiði, en grunnskíðafærni er skilyrði. 

Eins og alltaf þá stýra aðstæður og veður förinni og hefur því dagskráin á þessu námskeiði alltaf verið sveigjanleg. Þannig er eðli náms sem fer fram úti I náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.  

Skólinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í Menntaskólanum á Tröllaskaga og við hlökkum til frekara samstarfs í framtíðinni!  

Við kennararnir erum spennt að fá fjallaskíðahópinn til okkar eftir rúmar tvær vikur og bíðum spennt eftir snjónum. 

Kennarar voru: Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite, Smári Stefánsson og Ívar Finnbogason 

Starfsbrautarnemendur á ferð og flugi

Fyrir nokkru sögðum við frá því að nemendur á starfsbraut í FAS hefðu farið í heimsókn í rafmagnsdeild Skinneyjar-Þinganess. Síðustu vikur hafa tveir vinnustaðir bæst í hópinn.

Farið var í heimsókn til Gísla í Beinlínis en hann rekur byggingarfyrirtæki sem tekur að sér alls kyns smíðaverkefni. Fyrirtækið er með verkstæði á Víkurbrautinni og þangað var förinni heitið. Gísli tók á móti strákunum og fór yfir það helsta sem smiðir gera í sinni vinnu. Hann leyfði þeim síðan að spreyta sig á ýmsum verkefnum og prófa alls konar tól og tæki.

Í þessar viku var farið í heimsókn á lögreglustöðina. Þar tóku lögregluþjónarnir Grétar og Einar á móti strákunum. Þeir fóru yfir störf lögreglu á svæðinu og sýndu húsnæðið og alls konar búnað sem lögreglumenn nota í starfi sínu.

Strákarnir á starfsbrautinni eru mjög ánægðir með heimsóknirnar sem hefur verið farið í á önninni þar sem þeir hafa alls staðar fengið góðar móttökur og velvild. Við í FAS erum mjög þakklát fyrir að geta farið í heimsóknir sem þessar og um leið kynnt fjölbreytt störf í sveitarfélaginu. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá síðustu tveimur heimsóknunum.

Fréttir frá NemFAS

Það hefur verið nóg um að vera hjá nemendafélagi skólans undanfarið. Líkt og áður byggist félagslífið upp á klúbbastarfi þar sem nemendur skipuleggja viðburði og dagskrá. Það er góð mæting á fundi hjá nemendaráði, við náum góðum umræðum og skipuleggjum okkur vel. Í byrjun annar var t.d viðburður í íþróttahúsinu sem gekk vel.

Núna stendur yfir vinna við að skipuleggja viðburðadagatal fyrir önnina og það er ljóst að það verður nóg um að vera. Í kvöld ætlar bíóklúbburinn að bjóða upp á bíó í Þrykkjunni og NemFAS býður þar upp á snakk og nammi. Að sjálfsögðu hvetjum við alla til að mæta þar.

Í þessari viku fundaði nemendaráð með VA og ME en ME er að skipuleggja íþróttamót sem fer fram á Egilsstöðum og hugmyndin er að nemendur FAS taki þátt í því móti. Nánari upplýsingar koma seinna.

Þá er nemendaráð á fullu að skipuleggja árshátíð sem verður fimmtudaginn, 13. mars og síðar í sama mánuði ætlar nemendaráð að vera með viðburð þegar FAS fær heimsókn frá samstarfsskólunum í Finnlandi og Noregi.

Það er því nóg um að vera hjá nemendum FAS.