HAPPEY verkefnið – Heuristic Approach to Educating Youth on Hidden Hunger

HAPPEY verkefnið er Erasmus+ verkefni sem FAS tekur þátt í, í samstarfi við Dalpro í Noregi og Alliance for Global Development í Lúxemborg en það eru fyrirtæki sem taka þátt í Erasmus+ verkefnum. Í verkefninu er unnið með hollan lífsstíl og sjálfbærni í matvælaframleiðslu. Afurð verkefnisins er leiðarvísir sem hefur verið gefinn út og þýddur yfir á 5 tungumál sem eru; enska, franska, íslenska, norska og þýska.

Markhópur verkefnisins eru ungmenni og felur leiðarvísirinn „Hollur lífstíll og sjálfbærni í matvælaframleiðslu“ í sér málefni eins og hvaðan maturinn okkar kemur, dulið hungur, sjálfbærni í matvælaframleiðslu, svæðisbundnar vörur, vísbendingar um heilbrigðan lífsstíl, hvað þú getur ræktað í bakgarðinum þínum og hvers vegna ungt fólk þarf að opna möguleika sína á starfsframa í matvælageiranum. Verkefnið hefur meðal annars staðið fyrir matreiðslunámskeiði á netinu, hópmatreiðslunámskeiðum og kynningu á verkefninu.

Með því að sameina kraftana vill verkefnið takast á við málefni ungs fólks í matvælaiðnaðinum ásamt umfjöllun um sjálfbært og heilbrigt neyslumynstur.

Hér er hlekkur til þess að hlaða niður leiðarvísinum: https://agd.lu/project-happey/

 

 

Rare R.O.U.T.E.S

Eitt þeirra erlendu verkefna sem hefur verið í gangi í FAS ber heitið Rare R.O.U.T.E.S. Það verkefni var upphaflega í samstarfi við leiðsögumannanám hjá Keili í Ásbrú. Þegar það nám lagðist af færðist verkefnið yfir til FAS.

Verkefnið snýst um sjálfbæra og ábyrga ferðaþjónustu þátttökulandanna sem eru Ísland, Ítalía og Tyrkland. Farið hefur verið í nokkrar ferðir innanlands og utan sem m.a. nemendur hafa skipulagt.

Í dag var komið að lokaviðburði verkefnisins en það var að kynna afraksturinn fyrir fyrirtækjum og stofnunum sem tengjast ferðaþjónustu og náttúruvernd. Kynningin fór fram í Nýheimum og var ágæt mæting. Það var Lind skólameistari sem rak þennan endapunkt á verkefnið.

Hangikjöt og laufabrauð

Það var margt um manninn á Nýtorgi í dag en þá bauð skólinn nemendum og starfsfólki upp á hádegisverð. Á borðum var hangikjöt með tilheyrandi og svo laufabrauð. Það var sannarlega gott að fá góðan og staðgóðan hádegisverð á þessum næstsíðasta kennsludegi annarinnar.

Takk FAS fyrir að bjóða okkur og Sigrún – takk fyrir frábæran mat.

Lokamat framundan

Þessa dagana eru nemendur á fullu að leggja lokahönd á verkefni annarinnar en síðasti kennsludagur er fimmtudagurinn 7. desember. Strax á föstudag hefst síðan lokamat þar sem hver nemandi og kennari hittast og fara yfir það sem hefur áunnist á síðustu mánuðum. Lokamat kemur í stað lokaprófa sem fyrir nokkrum árum voru allsráðandi og fyrir marga nemendur mjög stressandi tímabil.

Nemendur finna tímasetningar fyrir lokamat í sínum áföngum á Námsvef og í mörgum tilfellum er einnig að finna yfirlit yfir það helsta sem þarf að kunna skil á í lokamati. Mikilvægt er að undibúa sig vel svo allt gangi sem best. Staðnemendur mæta í kennslustofur sínar en fjarnemendur fá fundarboð á Teams.

Síðasti dagur fyrir lokamat er föstudagurinn 15. desember og allar einkunnir ættu að vera komnar inn fljótlega eftir það. Við óskum okkar fólki góðs gengis í törninni sem er fram undan.

Fyrsta hjálp í fjallamennskunáminu

Kennsla í fyrstu hjálpar áfanga var haldin á Höfn helgina 17. – 20. nóvember. Það voru fjórir dagar af verklegri kennslu, umræðum, æfingum, fyrirlestrum og fleiru sem nýst getur verðandi leiðsögumönnum í fjallamennskunámi FAS.
Meðal áhersluatriða voru slys, ofkæling, sár, stoðkerfisáverkar og bráð vandamál í helstu líffærakerfum sem bregðast þarf hratt við. Námskeiðið gekk í alla staði mjög vel og umhverfi Nýheima reyndist vel þrátt fyrir gráleitt veður.

Kennarar í áfanganum voru: Tómas Eldjárn Vilhjálmsson og Ármann Ragnar Ægisson.

Nýheimar fá jólaupplyftingu

Nú er að ganga í hönd sá tími ársins þegar dagar eru hvað stystir og myrkur sem mest. Því er upplagt að finna til það sem kætir og léttir lund. Öll getum við verið sammála um það að litlu ljósin marglitu og skær geti verið gleðiauki.

Á efri hæðinni í Nýheimum var vinnustundin nýtt til að skreyta og má með sanni segja að margar hendur vinni létt verk. Einhverjum fannst ekki heldur úr vegi að bregða aðeins á leik.