Möguleikar á námi eða starfi erlendis

Í dag var komið að fyrsta uppbroti vetrarins. Það var kynning frá Rannís um alla þá möguleika sem ungt fólk hefur í dag til að dvelja erlendis um tíma í námi eða starfi. Þar er svo sannarlega margt í boði. Það má t.d. nefna skiptinám & starfsnám á vegum Erasmus+, nám á eigin vegum, sjálfboðaliðastörf eða samfélagsverkefni.

Vefsíðan farabara.is var kynnt en þar er hægt að finna gagnlegar upplýsingar um lönd sem hægt er að sækja styrki til. Þá var líka sagt frá því hvernig hægt sé að búa til rafræna ferilskrá á europass.is á 30 mismunandi tungumálum.

Þá fengum við kynningu á öllum þeim möguleikum sem eru í boði varðandi sjálfboðaliðastarf. Þar er svo sannarlega margt í boði. Á vefsíðunni European Youth Portal er hægt að finna margs konar upplýsingar er varða sjálfboðaliðastörf. Instagram reikningurinn Eurodesk Iceland inniheldur líka mikið af gagnlegum upplýsingum fyrir þá sem vilja fara erlendis í nám eða starf.

Við þökkum þeim Óla Erni og Ara frá Rannís  kærlega fyrir skemmtilega og gagnlega kynningu og hvetjum okkar fólk til að kynna sér alla þá möguleika sem í boði eru.

 

 

Foreldrafundur í FAS

Fimmtudaginn 1. september var haldinn foreldrafundur fyrir foreldra og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára. Ákvörðun var tekin um að halda fundinn á Teams þar sem slíkt fyrirkomulag hafði reynst vel. Því miður fengum við upplýsingar eftir fundinn um að bæði foreldrar og kennarar hafi lent í erfiðleikum með að komast inn á fundinn.

Okkur þykir það mjög leitt að þessi tæknilegu erfiðleikar hafi átt sér stað og nú vinnum við í því að komast að orsökum þess svo þetta gerist ekki aftur. Af þessu tilefni viljum við benda á póst frá Fríði námsráðgjafa þar sem hún reifar umfjöllunarefni fundarins fyrir þá sem ekki komust inn. Við viljum minna á að það má alltaf hafa samband við skólann ef eitthvað er óljóst eða þarfnast nánari skýringar.

Námsferð á Skeiðarársand

Síðasta fimmtudag fóru nemendur í áfanganum Inngangur að náttúruvísindum í árlega námsferð á Skeiðarársand. Tilgangur ferðarinnar var annars vegar að skoða gróðurreiti sem skólinn hefur umsjón með og hins vegar að fræðast um svæðið og gróðurframvindu þess.

Fyrir ferðina er mikilvægt að fara í gegnum það sem á að gera til að allt gangi sem best. Nemendum er skipt í hópa og hafa allir ákveðið hlutverk. Eftir helgina munu nemendur svo vinna skýrslu um ferðina.

Það spillti ekki fyrir að það var sól og blíða á meðan hópurinn athafnaði sig á sandinum. Það var því sannarlega nærandi fyrir sál og líkama að fara í þessa ferð.

Fyrsta árs fjallamennskunemar í gönguferð

Síðustu daga hafa nemendur á fyrsta ári í fjallamennsku verið í FAS. Þar hafa þeir verið að undirbúa aðra ferð annarinnar sem er gönguferð um fjalllendi. Undirbúningur felst m.a. í því læra að nota áttavita og staðsetja sig á korti, undirbúa og velja bestu leiðina svo eitthvað sé nefnt.

í dag klukkan 15 var svo komið að því að halda af stað en þá sótti rúta hópinn til fara með hann á upphafsstað göngunnar. Hópurinn kemur til baka á þriðjudaginn og verður þá væntanlega reynslunni ríkari.

Þeir sem vilja fylgjast með ferðum hópsins geta smellt á þessa slóð og séð staðsetningu hverju sinni. Við óskum hópnum góðrar ferðar og vonum að allt gangi sem best.

Samstarf FAS og Fenris

Í dag var undirritaður samstarfsamningur á milli FAS og Fenris. Þessi samningur kveður á um að efla afreksíþróttastarf í Sveitarfélaginu Hornafirði. Markmiðið er að gefa þeim sem stunda skipulagðar æfingar hjá Fenri tækifæri til að tvinna saman íþróttir og nám. Fenrir heldur utan um æfingar viðkomandi nemenda en FAS um námið.

Þessi samstarfssamningur er mikið gleðiefni því hjá okkur í FAS eru nemendur sem hafa mikinn metnað í íþróttum og vilja standa sig.

Lind Draumland Völundardóttir skólameistari FAS og Erlendur Rafnkell Svansson eigandi og þjálfari hjá Fenrir – Elite Fitness skrifa undir samstarfs samning 

Afmælishátíð Nýheima

Fyrir tuttugu árum síðan var starfsfólk FAS í óða önn að flytja skólann og öllu sem honum fylgir í Nýheima hér á Höfn. Skólinn hafði áður verið í hluta af húsnæði Nesjaskóla og það húsnæði var bæði óhentugt og allt of lítið fyrir skólann. Það voru því spennandi tímar framundan með flutningi í nýtt húsnæði. Það er ótrúlegt en satt að það séu orðnir tveir áratugir síðan að skólinn flutti.

Nú er komið að því að minnast þessara tímamóta. Laugardaginn 27. ágúst verður efnt til afmælishátíðar í Nýheimum á milli 13 og 16. Það er ýmislegt á dagskrá, s.s. hátíðarerindi, tónlistaratriði og þá munu nokkrar stofnanir innan Nýheima standa fyrir skemmtilegum viðburðum. Síðast en ekki síst verður boðið upp á hátíðarkaffi á Nýtorgi.

Við hvetjum alla sem geta að mæta í Nýheima á laugardag á afmælishátíðina og kynna sér þá fjölbreyttu starfsemi sem hér fer fram.