Spilauppbrot á öskudegi

Það er við hæfi á öskudegi að bregða aðeins út af vananum. Margir mættu í dag í grímubúningi í FAS. Þannig má sjá t.d. Klóa, vitring, fótboltavöll og íþróttafrík á göngum skólans í dag svo eitthvað sé nefnt.

Í seinni vinnustund dagsins var komið að spilauppbroti. Nemendur voru hvattir til að mæta með spil og eiga stund saman með sprelli og leik. Eftir hádegið má búast við mörgum gestum í Nýheima af tilefni öskudagsins sem ætla að gleðja með söng og fá smáræði í staðinn. Við hvetjum okkar fólk til að hefja upp raust sína og taka þátt í fjörinu.

Bolla, bolla í FAS

Það fer víst ekki fram hjá mörgum að í dag er bolludagur en sá dagur er einn af þremur sem marka upphaf  lönguföstu sem má rekja til 40 daga föstu Gyðinga fyrir páska. Langafasta, einnig kölluð sjöviknafasta, hefst á öskudegi, miðvikudegi í 7. viku fyrir páska. Föstuinngangur stendur frá sunnudeginum á undan og getur borið upp á 1. febrúar til 7. mars. Þetta segir okkur líka að á miðvikudag séu 40 dagar til páska.

FAS bauð nemendum og starfsfólki upp á bollur á Nýtorgi í dag og voru þeim gerð góð skil. Þær stöllur Anna Lára og Siggerður létu sig að sjálfsögðu ekki vanta í svona fínt bolluboð.

 

Styttist í miðannarsamtöl

Áfram flýgur tíminn og við erum nú komin í sjöttu viku vorannar. Það þýðir að það er farið að styttast í miðannarsamtölin sem fara fram í viku átta. Í flestum áföngum þurfa nemendur að skila vinnugögnum og/eða taka kannanir fyrir miðannarsamtölin svo kennarar geti betur metið stöðu hvers og eins. Það er því ekki ólíklegt að skil á vinnugögnum séu í þessari eða næstu viku.

Við viljum minna á mikilvægi þess að vinna jafnt og þétt svo álag verði ekki of mikið á einhverjum tímapunktum. Ef kennslustundir duga ekki til að ljúka verkefnum hverrar viku er upplagt að nýta vinnustundirnar til þeirra verka. Við viljum líka minna á að þið getið alltaf leitað til kennara í vinnustundum til að fá aðstoð ef þarf.

PEAK vinnustofa

FAS er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu PEAK sem á ensku ber nafnið New Heights for Youth Entrepreneurship . Verkefnið tengist eins og nafnið ber með sé, ungu fólki og nýsköpunarmenntun og vinnu og beinist að þeim sem búa í fjallahéruðum og á einangruðum svæðum. Verkefnið leitast við að efla aðgerðir sem geta stuðlað að styrkingu og sjálfbærri þróun fyrrnefndra svæða. Kveikjan að verkefninu er sú staða sem þessi svæði hafa verið að fást við víða í Evrópu, þ.e. brottflutningur ungs fólks, almenn fólksfækkun og áhrif þess á félagslega og efnahagslega stöðu svæðanna.

Markmið PEAK eru að:

  • Valdefla ungt fólk í gegnum frumkvöðlastarf og nýsköpun með það að leiðarljósi að efla atvinnuuppbyggingu í heimabyggð.
  • Vinna gegn, og snúa við fólksfækkun (þar sem það á við) með því að efla frumkvöðlafærni og starf meðal ungs fólks.

Á morgun, föstudaginn 3. febrúar er boðað til vinnufundar á Zoom þar sem afurðir verkefnisins verða kynntar og ræddar með það að leiðarljósi að fá álit og endurgjöf frá þátttakendum. Þetta er gert til að vinnuhópur PEAK fái fleiri að borðinu við að útbúa gott og gagnlegt efni sem nýtist ungum frumkvöðlum og kennurum/leiðbeinendum þeirra.

Eftirfarandi þættir verða kynntir og ræddir:

IO1: PEAK verkefnið í hnotskurn
IO2: Myndbönd og kynning ungra frumkvöðla
IO3: Námsefnispakkar fyrir leiðbeinendur ungra frumkvöðla
IO4: Gagnvirkt fjarnámsumhverfi

Allir áhugasamir um uppbyggingu og eflingu atvinnutækifæra ungs fólks eru hvattir til þátttöku. Hér er aðgangur að vinnustofunni.

 

FAS með tvö lið í Lífshlaupinu

Í mörg ár hefur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands staðið fyrir Lífshlaupinu sem er heilsu- og hvatningarverkefni  sem höfðar til allra aldurshópa. Í Lífshlaupinu eru allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er t.d. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Skrá má alla hreyfingu niður ef hún nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum en það er sá tími sem Embætti landlæknis telur vera lágmarkshreyfingu fyrir hvern og einn. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.

Lífshlaupið hefur þróast nokkuð og í dag er því skipt í nokkra hluta.  Við hér í FAS tökum að sjálfsögðu þátt og erum með tvö lið. Annars vegar tökum við þátt í Framhaldsskólakeppni sem er fyrir nemendur 16 ára og eldri og stendur yfir í tvær vikur og hins vegar tekur starfsfólk þátt í vinnustaðakeppni sem stendur yfir í þrjár vikur.

Við hvetjum alla til að vera með og minnum á mikilvægi þess að hreyfing stuðlar að aukinni vellíðan.

 

Listaverk nemenda í Miðbæ

Sam Rees er einn þeirra listamanna sem á verk á yfirstandandi sýningu Svavarssafns; Tilraun Æðarrækt, Sjálfbært samlífi. Sam Rees vinnur með gervigreind og nýtir hann þá tækni til listsköpunar. Verk hans hafa verið til sýnis í Miðbæ frá því að sýningin opnaði síðasta haust. 

Nú er Sam Rees hingað kominn aftur og nú í samvinnu við Svavarssafn til að halda listasmiðju með nemendum á lista- og menningarsviði FAS. Síðustu daga hefur hann verið með námskeið fyrir krakkana og hafa þau svo sannarlega lært margt nýtt. Það spillir ekki fyrir að krökkunum sem tóku þátt fannst það bæði lærdómsríkt og skemmtilegt að taka þátt.

Í dag var komið að því að kynna afraksturinn af vinnu nemenda. Sam Rees ætlar að skipta út sínum verkum fyrir verk nemenda FAS og mun þau standa uppi nú um helgina. Þemað í vinnu nemenda var framtíðarsýn fyrir Hornafjörð. Verkefnin eru stórskemmtileg og við hvetjum alla til að gefa sér tíma til þess að stilla sér upp fyrir framan sjónvarpsskjáinn í Miðbæ og fikta í tökkunum á stóra kassanum.