Grunnur í fjallaskíðamennsku

Einungis tæpum tveimur vikum eftir snjóflóðanámskeiðið voru nemendur aftur mættir norður á Dalvík á fjögurra daga grunnnámskeið í fjallaskíðamennsku. 19 nemendur sóttu námskeiðið og voru kennarar þrír.

Nú var áherslan lögð á ferðamennsku á skíðum í fjalllendi og bjuggu nemendur yfir góðum snjóflóða- og skíðagrunni fyrir það síðan í byrjun febrúar. Nemendur fengu góða kynningu á svæðinu og á fjórum dögum var skíðað vítt og breitt um Tröllaskagann. Hópurinn stóð saman í blíðaskaparveðri á toppi Karlsárfjalls, skíðaði mjúka lausamjöll í innanverðum Svarfaðardal og upplifði almennilegan skafrenning í fjallahæð og harðfenni á Presthnjúki og Vatnsendahnjúki. Námskeiðinu lauk síðan á hóp-snjóflóðabjörgun í Upsadal ofan Dalvíkur. 

Að morgni hvers dags var farið yfir veðurspá og snjóalög ásamt áætlun dagsins og fengu nemendur að spreyta sig á því verkefni í hópum til skiptis. Það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir fjallaskíðaferðir, hafa góða mynd af snjóalögum og veðurspá dagsins en einnig að þekkja landslagið vel, skoða vandlega kort og leiðir og hlaða þeim niður í tækið sitt. Í feltinu er síðan hægt að nýta þá vitneskju til ákvarðanatöku en einnig bætast við mikilvægar upplýsingar á ferðinni um snjó og leiðarval og það er nauðsynlegt að temja sér umhverfisvitund og læra vel inn á landslagslestur m.t.t. snjóflóða. 

Nemendur sýndu mikla framför á námskeiðinu, einnig þrautseigju og áhuga á námsefninu. Fjallaskíðin veita manni mikið frelsi á fjöllum og ef skíðakunnáttan samhliða snjóflóðaþekkingu, góðum undirbúningi og umhverfisvitund er til staðar þá gerist útivistin varla betri. 

Næst á dagskrá er fjallaskíðanámskeið fyrir framhaldsnema og við kennararnir hlökkum til að taka fjallaskíðaævintýrið á næsta stig!  

Kennarar námskeiðsins voru Erla Guðný Helgadóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Smári Stefánsson. Erla skrifar greinina. 

10. bekkur kynnir sér FAS

Það styttist óðum í að nemendur í 10. bekk ljúki grunnskólagöngunni og þá þarf að fara að huga að næstu skrefum. Af því tilefni er 10. bekk boðið að koma og kynna sér líf og starf í FAS og í dag kom helmingur væntanlegra útskriftarnemenda í heimsókn.

Það voru nemendur í áfanganum „Inngangur að framhaldsskóla“ sem sáu um að skipuleggja heimsóknina og taka á móti gestunum. Fyrst var boðið upp á graut á Nýtorgi en nemendur FAS eiga þess kost að fá hafragraut í löngu pásunni fyrir hádegi. Gestunum var einnig sagt frá skólanum og starfseminni þar. Að því loknu var gengið með nemendur í smærri hópum inn í kennslustundir sem voru í gangi og aðstaða í öllum skólanum skoðuð.

Heimsóknin gekk ljómandi vel og vonandi hafa margir nemendur betri hugmynd um skólastarf FAS eftir heimsóknina. Þann 18. mars kemur svo hinn helmingur væntanlegra útskriftarnemenda grunnskólans í heimsókn og þá verður leikurinn endurtekinn.

Farfuglarnir farnir að mæta

Í dag var komið að annarri fuglatalningu vetrarins í Óslandi. Vetur konungur er greinilega enn við völd því það var nokkur vindur, hiti um frostmark og jafnvel mátti sjá nokkur snjókorn falla. Það er þó greinilegt að það styttist í að vorið sé á næsta leiti því það mátti sjá nokkrar tegundir farfugla sem þegar eru mættir. Á meðan við dvöldum í Óslandinu í dag mátti sjá tvær álftir setjast á vatnið en mjög líklega má telja að þær séu nýkomnar úr farfluginu yfir hafið frá Bretlandi. Í fjörunni spókuðu sig nokkrir tjaldar og höfðu hátt og þegar betur var að gáð var nokkuð greinilegt að einhverjir þeirra voru að gera sig líklega til að finna sér förunaut fyrir sumarið.

Það sáust 15 tegundir í dag og það voru rúmlega 2000 fuglar taldir, mest var af æðarfugli en einnig margar tegundir máva.

 

Snjóflóðafræði og leiðsögn

Tíu nemendur í framhaldsnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur dagana 2.- 6. febrúar. Eins og á flestum námskeiðum FAS, stýrði veður för en engu að síður fékk hópurinn frábærar lærdómsaðstæður og komst á fjöll alla dagana. Að auki gafst öllum tækifæri til þess að fjallaskíða og sum prófuðu fjallaskíði (og skíði) í fyrsta skipti. Það eykur mikið möguleikana til lærdóms um snjóflóðafræðin að geta ferðast um fjöll á skíðum, en auðvitað líka ánægju.  

Fyrsti morguninn fór í upprifjun á námsefni, enda mislangt síðan nemendur fóru á grunnsnjóflóðanámskeið. Þegar útdeilingu og yfirferð á búnaði var lokið hélt hópurinn upp að Selhnjúk beint frá Dalvík. Snjógryfjur voru gerðar til athugunar á snjóalögum en eftir það fengu öll að skíða dúnmjúkan snjó í sólskini og var þetta frábær byrjun á námskeiðinu. 

Á degi tvö skipti hópurinn sér í tvennt. Eftir morgunfund, þar sem snjóflóða- og veðuraðstæður voru ræddar í þaula fór annar hópurinn á fjallaskíði í Héðinsfirði á meðan hinn hópurinn æfði skíðatækni á skíðasvæðinu á Dalvík og fór stutta fjallaskíðaferð frá lyftunum. Annar frábær dagur, sem endaði þó í lélegu skyggni fyrir seinni hópinn og skringilegu skíðafæri fyrir hinn hópinn.  

Þriðja degi var varið í Hlíðarfjalli. Spáin var ekki hliðholl fjallaskíðaferðum en hópurinn nýtti daginn vel og æfði snjóflóðaleitina í þaula í ýlagarði Hlíðarfjalls (Takk fyrir okkur!) og síðan utanbrautarskíðamennsku í lyftunum í Hlíðarfjalli þar sem snjóaði viðstöðulaust og færið var mjúkt og djúpt innan brauta. Auk þess var það frábær æfing að skíða í lélegu skyggni. Enn og aftur gerðum við það besta sem var í boði miðað við veðuraðstæður.  

Fjórði dagur bauð upp á tæpt skyggni og éljagang en þó ákváðum við að drífa okkur innst inn í Svarfaðardal þar sem spáði minni vindi en annars staðar og reyndist það rétt ákvörðun. Gengið var upp með Sandá í átt að Sandskálahnjúki og fengu nemendur almennilegt tækifæri til þess að æfa rötun í lélegu skyggni og leiða hópinn í gegnum hvítmyrkrið. Það gekk aldeilis vel en þegar komið var upp í um 800 m hæð var ákveðið að snúa við, þar sem skyggni batnaði um stundarkorn og ekkert víst að tækifærið komi aftur til niðurskíðunar í góðu ljósi. Og færið var með eindæmum einstakt! Síðasti spottinn niður að bíl var með skemmtilegri skíðun námskeiðsins, í flottu skyggni og 50 cm af púðursnjó. Þá njóta sín allir! 

Fimmti dagur námskeiðs og komin örlítil þreyta í hópinn, en þá var komið að stærsta deginum. Markmiðið var toppurinn á Grjótskálarhnjúki, austan Eyjafjarðar með 1200 m hækkun. Alvöru fjall. Nú var skyggnið gott en farið að hvessa töluvert í SV-áttum en það var góð ákvörðun að keyra alla þessa leið þar sem skyggnið var betra. Uppgangan gekk vel en á miðri leið fékk hópurinn tækifæri til þess að grafa gryfjur og gera stöðugleikaprófanir upp á eigin spýtur. Niðurstöður voru misjafnar og greinilega veik lög til staðar í snjóþekjunni en ákveðið var að halda áfram og nýta landslagið til þess að forðast snjóflóðahættu á uppleiðinni. Á útsýnispunkti skiptist hópurinn aftur í tvennt og sumir fóru niður sama gil í dúnmjúku færi en hinn helmingurinn hélt áfram upp á topp, í átt að Grýtuskál neðan Grjótskálarhnjúks. Veðrið skánaði ekki þegar ofar dróg en loks komst hópurinn á góðan stað til þess að skíða niður. Eftir smávegis bras og brölt kom hópurinn sér niður í skálina niður úr veðrinu og skíðaði endalausa púðurskál af góðum snjó sem virtist engan endi ætla að taka. Dagurinn endaði á Bautanum í börger og spjall um daginn, enda lærdómsríkur dagur að baki. 

Dagur 6 byrjaði snemma í morgunspjalli í Gimli og haldið var beint út á Karlsárfjall sem gnæfir tignarlegt yfir Dalvíkinni. Hópurinn náði hálfa leið upp fjallið, æfði sparkbeygjuna, tóku gryfju og ræddi málin. Leiðin niður var síðan enn ein púðurferðin í dásamlegu færi. Það verður að segjast að við vorum virkilega heppin með færi alla vikuna, en auðvitað spiluðum við líka rétt úr þeim spilum sem okkur voru rétt. 

Við kennararnir erum virkilega ánægð með námskeiðið og vonum að nemendur haldi heim með fullan poka af veganesti og innblástur til áframhaldandi fjallaskíðamennsku og snjóflóðaspeki. Það er auðvitað markmiðið, að smita þau af fjallaskíðabakteríunni, því að ef ég væri spurð, þá er varla til betri leið til þess að ferðast um fjöll í snjó. Nemendur sýndu áhuga á efninu og greinilegan vilja til þess að gera vel. Við viljum hvetja þau til þess að fara út, undirbúa sig vel og nýta svo þessa reynslu til þess að æfa ákvarðanatöku í snjóflóðalandslagi, þetta kemur einungis með því að fara út og gera og maður heldur áfram að læra út lífið. 

Takk kærlega fyrir samveruna kæru nemendur, við hlökkum til að sjá sum ykkar á fjallaskíðanámskeiði fyrir austan eftir tæpan mánuð! 

Kennarar voru Erla Guðný Helgadóttir, Ívar Finnbogason og Smári Stefánsson og greinina skrifaði Erla Guðný. 

Snjóflóðagrunnur og skíðamennska

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur dagana 2. – 6. febrúar. Þar var á dagskrá að skíða saman og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð á fimm dögum. Fyrirlestrar og innikennsla fóru fram í Menntaskólanum á Tröllaskaga en þar er glæsileg aðstaða til kennslu. Útiæfingar og skíðamennska fóru fram á Dalvík og í Hlíðarfjalli.  

Námskeiðið gekk vel en nemendur sýndu mikla framför á skíðunum, áhuga á snjóflóðafræðunum, fengu tækifæri til þess að æfa snjóflóðabjörgun og margt fleira. Það voru flottar aðstæður og hópurinn náði að skíða hálfan dag á Dalvík og heilan skíðadag í Hlíðarfjalli. Heilt yfir var veðrið betra en hægt er að biðja um í byrjun febrúar. Þó snjóaði töluvert fyrir síðasta daginn og snjóflóðahætta kom í veg fyrir að hægt væri að keyra um Ólafsfjarðarmúlann til þess að klára námskeiðið í skólanum. Síðasti morguninn var því tekinn í Gistihúsinu Gimli á Dalvík, sem var mjög notalegt.  

Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að. Farið var í snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum. En auðvitað var lögð áhersla á skíða- og brettatækni sem er mikilvægur grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur geti tekið þátt á fjallaskíðanámskeiði, en grunnskíðafærni er skilyrði. 

Eins og svo oft áður þá stýrði veður svolítið förinni og dagskráin á þessu námskeiði hefur alltaf verið sveigjanleg eftir því. Nemendur og kennarar sýndu þolinmæði og aðlögunarhæfni enda mikilvægt að vera móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti I náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.  

Skólinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í Menntaskólanum á Tröllaskaga og við hlökkum til frekara samstarfs í framtíðinni!  

Við hlökkum til að fá fjallaskíðahópinn til okkar eftir tæpar tvær vikur en nú eru frábærar fjallaskíðaaðstæður á Tröllaskaga og Eyjafirði.  

Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite, Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Smári Stefánsson og Ívar Finnbogason.

 

Miðannarsamtöl framundan

Öll erum við farin að taka eftir því að sól er farin að hækka á lofti sem segir okkur að það sé farið að styttast í vorið. Og áfram flýgur tíminn í skólanum. Þessa vikuna eru flestir kennarar með ýmis konar stöðumat og munu í framhaldinu setja miðannarmat í Innu. Því ættu allir nemendur að vera búnir að fá miðannarmat í sínum áföngum í lok vikunnar.

Í næstu viku verða svo miðannarsamtöl en þá hittast nemandi og kennari í spjalli þar sem farið yfir stöðuna. Það er mikilvægt fyrir nemendur að undirbúa sig fyrir þau viðtöl svo þau verði að sem mestu gagni.