Staðan í fjallamennskunámi FAS

Nú er ljóst að námi í fjallamennsku í FAS í núverandi mynd er lokið og ekki verða innritaðir nemendur í námið á næstu haustönn.

Sagan í tengslum við námið er orðin nokkuð löng og það hefur verið endurskrifað nokkrum sinnum með það fyrir augum að bæta námið og aðlaga að íslenskum aðstæðum. Enn fremur til að auðga íslenska ferðaþjónustu og móta ný tækifæri í ævintýraferðaþjónustu.

Núna hafa rúmlega 100 manns lokið námi í fjallamennsku og um 80% þeirra vinna nú í ferðaþjónustu og flestir þeirra í leiðsögn eða landvörslu.

Staðan eins og hún er núna er ekki það sem skólinn hefur verið að vinna að en er óumflýjanleg.

Vonandi finnst lausn til framtíðar þar sem þetta mikilvæga nám heldur áfram. Það er ósk okkar í FAS að námið verði áfram í nærsamfélaginu eins og það hefur verið að stórum hluta hingað til. Við munum styðja við það eftir bestu getu.

Við í FAS erum mjög stolt af fjallamennskunáminu og teljum að það hafi stuðlað að aukinni fagmennsku og bætt öryggi í ferðum til fjalla.  Við viljum þakka öllum þeim sem hafa komið að náminu í gegnum tíðina. Þar erum við að tala um þá sem hafa mótað námið, okkar frábæru kennara í fjallamennskunáminu, þá sem hafa staðið með okkur í að halda náminu áfram og síðast en ekki síst samfélaginu okkar sem alltaf er tilbúið að leggja okkur lið.

Það er okkur þó gleðiefni að segja frá því að skólinn er með leyfi frá Umhverfisstofnun til að bjóða upp á nám í landvörslu og það mun verða gert á næsta skólaári.

FAS á Austfirsku Ólympíuleikunum

Fyrir margt löngu var margs konar samstarf á milli framhaldsskólanna á Austulandi. Þar á meðal voru Austfirsku Ólympíuleikarnir þar sem nemendur skólanna hittust og áttu góðar stundir saman í alls konar leikjum. Þessi viðburður lagðist af fyrir mörgum árum en það hefur þó alltaf verið talað um af og til að endurvekja hann. Forsvarsmenn nemendafélaganna í ME, VA og FAS hafa unnið að því í vetur og nú tókst að endurvekja þessa gömlu leika og þeir voru haldnir í gær, miðvikudag.

Stór hluti staðnemenda í FAS ásamt nokkrum kennurum lögðu af stað í gærmorgun með rútu til Egilsstaða þar sem leikarnar fóru fram að þessu sinni. Keppt var í blaki, fótbolta og körfubolta og voru spilaðir þrír leikir í hverri íþrótt. Þeir sem ekki tóku þátt í keppnum mynduðu stuðningslið FAS og létu óspart í sér heyra. Eftir mót bauð ME upp á hamborgara og á meðan á borðhaldi stóð var spilað Kahoot. Nemendur eru sammála um að ferðin hafi verið mjög skemmtileg og gaman að hitta nemendur úr hinum skólunum.

Áður en haldið var heim í gær var komið við á veitingastaðnum Aski þar sem hópurinn gæddi sér á pizzum og voru þeim gerð góð skil. Það var ánægður hópur sem kom til baka á Höfn um kvöldmatarleytið í gær. Og nú er búið að ákveða að næstu ólympíuleikar verði haldnir á Höfn.

 

Nemendur bjóða í kaffi

Í morgun var komið að næsta sameiginlega kaffi á Nýtorgi og auðvitað mæltist það vel fyrir í húsinu.

Að þessu sinni voru það nemendur sem sáu um veitingarnar en nutu aðstoðar Sigrúnar við að skera niður kökur. Margt var skrafað og allir gengu saddir og sælir frá borði. Allir eru sammála um að þessir sameiginlegu kaffitímar séu mikilvægir til að kynnast og eiga góða stund saman.

 

Afreksíþróttasvið FAS í fræðandi og skemmtilegri heimsókn til Reykjavíkur

Dagana 24. og 25. mars fór afreksíþróttasvið FAS í fræðandi og skemmtilega ferð til Reykjavíkur. Lagt var af stað frá skólanum eftir hádegismat á mánudegi og fyrsta stopp var í Smáralind áður en haldið var í Keiluhöllina, þar sem hópurinn spreytti sig í keilu og gæddi sér á dýrindis pizzum. Kvöldið var svo nýtt til hvíldar fyrir viðburðaríkan dag daginn eftir.
Á þriðjudagsmorgni hófst dagskráin með heimsókn í Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Þar tók Milos Petrovic á móti hópnum og kynnti fjölbreytt tæki og búnað sem notaður er við rannsóknir á líkamlegri getu. Nemendur fengu meðal annars að prófa tæki sem mæla viðbragðstíma, stökkhæfni og gripstyrk – og vöktu tækin mikla lukku.
Eftir heimsóknina í HÍ var haldið yfir í höfuðstöðvar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Þar fengu nemendur innsýn í starfsemi og hlutverk ÍSÍ, ásamt kynningu á afrekssviði og afreksmiðstöð sambandsins. Kynningarnar vöktu áhuga nemenda og veittu þeim betri skilning á uppbyggingu og stuðningi við afreksíþróttafólk á Íslandi. Að lokinni heimsókn í ÍSÍ var snæddur hádegismatur áður en hópurinn lagði af stað heim á leið, fullur af nýrri þekkingu og góðum minningum.

Við þökkum kærlega öllum þeim sem tóku á móti hópnum fyrir hlýlegar móttökur og fróðlega kynningu.

Mikið um að vera í FAS

Í þessari viku er margt um manninn í FAS en hér eru nemendur í heimsókn frá Finnlandi og Noregi. Þetta eru nemendur sem taka þátt í Nordplus samstarfsverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir. Allir þrír skólarnir í verkefninu eiga það sameiginlegt að vera í fremur fámennum samfélögum en búa jafnframt yfir miklum möguleikum til að vera blómstrandi samfélög.

Hópurinn kom til landsins á laugardag og austur á Höfn á sunnudag. Á leiðinni var stoppað á nokkrum þekktum áningarstöðum. Í gær og í dag hafa nemendurnir fengið nokkrar kynningar sem tengjast verkefnum áfangans og einnig var farið í heimsókn í Skinney-Þinganes í gær til að fræðast um starfsemina og skoða fyrirtækið.

Núna er hafin hópavinna þar sem nemendur vinna ýmis verkefni sem tengjast svæðunum og þeim tækifærum sem þar eru. Hópurinn dvelur á Höfn fram yfir hádegi á fimmtudag en heldur því áleiðis til Keflavíkur þar sem gist er síðustu nóttina á Íslandi. Nánar er hægt að fylgjast með verkefnum hópsins á https://nr.fas.is/ – meðfylgjandi mynd var tekin á þaki Skaftafellsstofu en hópurinn kom þar við á leiðinni austur og fékk að snæða nestið sitt.

Samfélagslögreglan í kjúklingasúpu og kynningu í FAS

Í dag var samfélagslögreglunni boðið í hádegisverð í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS), þar sem nemendur og starfsfólk nutu saman dásamlegrar kjúklingasúpu. Í kjölfarið hélt samfélagslögreglan stutta kynningu fyrir nemendur, þar sem áhersla var lögð á að kynna starfsemi lögreglunnar og svara spurningum nemenda.

Samfélagslögreglan gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Hlutverk hennar er meðal annars að efla tengsl milli lögreglu og almennings, stuðla að öryggi og vinna markvisst að forvörnum. Hún vinnur í nánu samstarfi við íbúa, skóla og aðra aðila og leggur áherslu á að vera sýnileg og aðgengileg í daglegu lífi fólks. Með því móti eykst traust, samvinna og sameiginleg ábyrgð á heilbrigðu og öruggu samfélagi.

Við þökkum samfélagslögreglunni kærlega fyrir heimsóknina