Nú er upp runnin síðasta heila kennsluvika annarinnar og mikið um að vera. Nemendur eru í óða önn að leggja lokahönd á vinnu sína í skólanum.
Á miðvikudag munu nemendur í áfanganum Hönnun og nýsköpun kynna Graffíl listahátíð sem þau eru að vinna að ásamt fleiri verkefnum sem hafa verið unnin á önninni. Á sama tíma verða nemendur á starfsbraut með kynningu á verkefni um eyjarnar í Hornafirði. Kynningarnar verða í stofu 202 á milli klukkan 14:30 og 15:30. Það væri gaman að sjá sem flesta á miðvikudag.
Á fimmtudag kynna væntanleg stúdentsefni lokaverkefni sín í FAS. Kynningin fer fram í fyrirlestrasal Nýheima og hefst klukkan 13:15. Umfjöllunarefni eru mjög fjölbreytt að þessu sinni. Það má t.d. nefna áhrif ferðaþjónustu á Hornafjörð, skjánotkun barna, lífsstílsverkefni, prjónamenningu á Íslandi og hönnun kennslurýma. Við hvetjum sem flesta til að koma og fylgjast með þessum mikilvæga lokaspretti nemenda við skólann.
Síðasti kennsludagur annarinnar er fimmtudagurinn 15. maí. Lokamatssamtöl hefjast svo strax þann 16. maí og gert er ráð fyrir að þeim ljúki 22. maí. Útskrift nemenda verður laugardaginn 24. maí klukkan 12:30 og útskrift verður úr fjallamennskunámi föstudaginn 30. maí.
Áfanginn hájöklaferðamennska í grunnnámi fjallamennskubrautarinnar fór fram dagana 26. apríl til 1. maí á Öræfajökli. Ákveðið var að fara aðeins aðra leið en hefur verið farin undanfarin ár og lagt af stað upp Svínafellið vestanvert, gengið upp í gegnum Skörð og þaðan niður í Hvannadal bak við Svínafell. Úr Hvannadal lá leiðin svo upp á Öræfajökul þar sem var tjaldað nálægt vesturhlíð Hvannadalshnjúks. Á öðrum degi ferðarinnar fór hópurinn í ferðalag út frá tjaldsvæðinu upp á Hvannadalshnjúk. Mjög lítið skyggni var þennan dag sem eru bestu aðstæður sem hægt er að fá til að æfa rötun með rötunartæki og áttavita. Vegna veðurs sem átti að koma á fjórða degi ferðarinnar fórum við niður þriðja daginn eftir tvær nætur á hájöklinum. Þann dag var byrjað á að æfa sprungubjörgun í snjó áður en leiðin lá niður Virkisjökul. Síðasti dagur áfangans var nýttur í að fara betur yfir mismunandi aðferðir sprungubjörgunar í snjó á Svínafellsjökli þar sem hægt er að líkja eftir aðstæðum uppi á hájökli þrátt fyrir að snjóinn vanti. Nemendur fengu einnig að æfa sig í að koma sér sjálf upp úr sprungu með því að júmma upp línuna og yfir hnúta. Áfanginn gekk vel og nemendahópurinn er orðin sterk og náin liðsheild sem leysir svona stór verkefni með mikilli prýði.
Kennarar í áfanganum voru Árni Stefán Haldorsen, Íris Ragnarsdóttir Pedersen, Ólafur Þór Kristinsson og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.
Í byrjun apríl lauk áfanga í landvörslu FAS í blíðskaparveðri í Skaftafelli. Landvarðanámskeið hefur lengi verið námskeið sem skólastjórnendum í FAS hefur langað til að bæta við námsbrautirnar í fjallamennsku en það tókst síðasta haust og nú hefur FAS leyfi til að bjóða upp á sjálfstæðan áfanga í landvörslu. Áfanginn stóð öllum nemendum fjallamennskubrautanna til boða en einnig almenningi. Nám í landvörslu smellpassar inn í námsframboð FAS og fjallamennskubrautirnar enda margir sameiginlegir snertifletir milli leiðsagnar og landvörslu. FAS og Vatnajökulsþjóðgarður hafa lengi unnið náið saman enda er þjóðgarðurinn kennslustofa fjallamennskunámsins og gott samstarf lykill að velgengni námsins. Með tilkomu nýs áfanga í landvörslu innan skólans, varð til enn betri samstarfsvettvangur við þjóðgarðinn.
Íris Ragnarsdóttir Pedersen hafði umsjón með náminu og sá um kennslu og að stilla saman sérfræðingum í bóklegum hluta námsins og hún fékk t.d. Hrafnhildi Hannesdóttur hjá Veðurstofu Íslands til að halda erindi um jökla- og loftslagsbreytingar og Þorvarð Árnason hjá rannsóknarsetri HÍ á Hornafirði, til að halda erindi um sjálfbærni og þolmörk á ferðamannastöðum. Bóklega námið stóð frá miðjum janúar til lok mars og verklegi hluti námsins fór fram dagana 3. – 7. apríl á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í verklegu lotunni var Ragnar Frank Kristjánsson aðstoðarkennari, en hann hefur áratugareynslu af náttúruvernd, kennslu, stígagerð og leiðsögn en víðtæk þekking hans var mjög dýrmæt í kennslunni. Þjóðgarðsverðir og sérfræðingar hjá Vatnajökulsþjóðgarði komu víða að bóklegu kennslunni og héldu t.d. erindi um öryggismál, stjórnsýslu, gestastofur og náttúrutúlkun. Í verklegu lotunni var virkilega skemmtilegt að hitta þjóðgarðsverði á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og landverði á svæðunum en þau tóku þátt í kennslunni alla daga.
Við vörðum fjórum dögum í Skaftafelli og einum á Jökulsárlóni, en starfsstöðvarnar eru mjög ólíkar og því lærdómsríkt að sjá fjölbreytnina í vinnulagi og útfærslum. Á námskeiðinu fengu nemendur m.a. sýnikennslu í náttúrutúlkun og leiðsögn, þeir kynntust fjölbreyttum útfærslum í stígagerð og fengu tækifæri til að æfa handtökin við raunaðstæður, bæði við Fjallsárlón og í Skaftafelli. Á lokadegi námskeiðsins leiddu nemendur sína eigin fræðslugöngu í smærri hópum. Hér létu nemendur ljós sitt skína og stóðu sig frábærlega.
Veðrið lék við okkur alla daga en við hjá FAS teljum það mikið heillaspor að geta boðið upp á nám í landvörslu undir Vatnajökli, í faðmi þjóðgarðsins. Við þökkum öllum sem komu að kennslu í áfanganum kærlega fyrir vel unnin störf.
Frábærum fimm daga vetrarferðamennskuáfanga með Fjallamennskunámi FAS lauk nýverið þar sem við lögðum leið okkar á Fjallabak með viðkomu í Landmannalaugum. Ferðin var farin á ferðaskíðum en þrátt fyrir snjóleysi fengum við fínasta veður til kennslu. Að kenna þennan áfanga að Fjallabaki hefur verið draumur í nokkur ár en þarna eru kjöraðstæður þar sem hægt er að tvinna saman óbyggðum og flóknu en skemmtilegu umhverfi bæði til rötunar og fjallamennskukennslu.
Kennarar í áfanganum voru: Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, Daníel William Saulite og Ólafur Þór Kristinsson.
FAS hefur í nokkur ár verið með svokallaða Erasmus+ aðild sem er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Fjallamennskunám FAS hefur verið duglegt að nýta þennan möguleika til að nemendur fái tækifæri til að heimsækja önnur lönd og kynnast sambærilegu námi þar. Í síðasta mánuði fóru nokkrir nemendur úr framhaldsnáminu í fjallamennsku til Svíþjóðar og nýttu til þess Erasmus+ aðildina. Hér á eftir fer frásögn ferðalanganna og nokkrar myndir fylgja.
Erasmus í Åre, Svíþjóð – ferðasaga fjallaleiðsögunema FAS
Þann 21. mars 2025 lögðu átta ævintýragjarnir nemendur úr framhaldsnámi fjallaleiðsögubrautar FAS upp í spennandi leiðangur til Åre í Svíþjóð, en ferðin er hluti af valáfanganum erlent skiptinám sem annars árs nemendum stendur til boða og er styrkt af Erasmus+. Með í för var mikið af útivistarbúnaði, enda framundan margbreytilegar áskoranir í ókunnu landi. Flugið fór beint frá Reykjavík til Stokkhólms, og þaðan hélt hópurinn áfram með lest til smábæjarins Järpen. Þar beið þeirra hlýleg móttaka og heimsókn á pizzastað – kærkomið eftir langa og þreytandi ferð. Þar var stemmingin létt og hláturinn fylgdi með þegar hópurinn gæddi sér á dásamlegum pizzum seint um kvöld.
Laugardagur: Skandinavískt útivistarlíf og fyrstu kynni við náttúruna Rennfjallet
Laugardagurinn rann upp bjartur og nokkuð hlýr, með mjúku vetrarljósi. Þar sem lítið var um að vera í skólanum þann dag, ákváðu Olle og Jessica að nýta tækifærið og kynna okkur fyrir útivistarsvæði rétt fyrir utan bæinn, Åre Rennfjäll. Þetta er lítið en vel búið svæði með tveimur skíðalyftum, fjölbreyttum gönguskíða brautum og aðstöðu fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Við héldum af stað inn í skóginn á utanbrautargönguskíðum – náttúran ótrúlega friðsæl og falleg með mjúkum hæðum.
Í þessari fyrstu kynningu fengum við innsýn í hugmyndafræðina Friluftsliv, sem liggur djúpt í hjarta sænskrar menningar. Þetta er lífsstíll sem snýst um að vera úti í náttúrunni, njóta hennar í einfaldleika og rólegheitum – án tímapressu. Einnig kynntumst við Fíka, þessari rómuðu sænsku hvíldarstund þar sem fólk stoppar, drekkur kaffi, borðar bakkelsi og spjallar í góðum félagsskap. Þetta var eitthvað sem við tókum fljótt upp og urðum ansi góð í.
Sunnudagur: Skíðasvæði Åre
Sunnudagurinn var frjáls og margir nýttu tækifærið til að heimsækja stóra Åre skíðasvæðið – sem kom okkur skemmtilega á óvart. Þetta var nútímalegt, fjölbreytt og vel við haldið svæði með fjölda lyfta og brekka í öllum erfiðleikastigum. Hér fann hver og einn eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það var þægilegt svig niður víðar brekkur eða spennandi utanbrautaraðstæður með stórbrotnu útsýni yfir fjallalandslagið.
Mánudagur: Kynning skólans
Á mánudeginum var formleg móttaka í skólanum. Okkur var heilsað með miklum tilþrifum – með svokölluðu víkingaklappi. Við hittum sænska nemendur, kynntum skólann okkar í FAS og fengum að kynnast kennsluháttum og lífinu í útivistar skólanum þeirra.
Þriðjudagur – fimmtudagur: Gönguskíðaleiðangur í Vålådalen
Þá hófst þriggja daga leiðangur á gönguskíðum undir leiðsögn tveggja reynslumikilla leiðsögunema frá skólanum. Við héldum af stað í Våladålen, snjóléttt dalalandslag umlukið þöndum fjöllum og skógi. Ferðin var skemmtileg í stilltu veðri og einstakri kyrrð. Fika og friluftsliv var fullnýtt. Fyrir einn í hópnum var þetta frekar rólegur dagur og náði hann að nota orkuna sinn í að höggva eldivið fyrir næstu tvær vikur. Skálaverðir voru einstaklega hrifnir að tilþrifum drengsins.
Við gistum tvær nætur í hlýlegum og einföldu skála sem nefnist Stensdals-skálinn. Þar var lítil, viðarofnknúin sauna sem fékk mikla notkun eftir langa skíðadag – og það má segja að enginn hafi farið óánægður út þaðan. Þetta var frábær kynning á sænskri menningu – friluftsliv í sinni tærustu mynd.
Föstudagur: Slökun og skoðunarferð
Eftir langa útivistardaga tók föstudagurinn á sig rólegri mynd. Sumir nemendur fóru til Duved og prófuðu sig áfram í klifurhúsinu þar, á meðan aðrir leyfðu sér afslappandi skoðunarferð í miðbæ Åre. Þetta var góður tími til að slaka á og melta reynsluna úr ferðinni.
Laugardagur: Fjallaskíði á Getryggen
Á laugardag fórum við á fjallaskíði á Getryggen, stórbrotið fjall í um 1382 metra hæð sem margir Svíar telja sitt uppáhalds fjallaskíðasvæði. Þó veðrið hafi leikið okkur grátt – við lentum í algjöru hvítmyrkri á leiðinni upp – var upplifunin eftirminnileg. Skyggnið var nánast ekkert, en um leið og við komum niður tók sólina á móti okkur, og útsýnið blasti við með ótrúlegri fegurð og friðsælu veðri. Það minnti óneitanlega á íslenska fjalladaga, þar sem allt getur breyst á örskotstundu. Samt held ég að flestir séu hrifnari af íslenski fjallaskíðun þar sem maður er oftast einn á ferð en gaman var að upplifa fjölbreytni í Svíþjóð. Um kvöldin var samkoma með kennurum og nemendum þar sem við flöttum út deig og bökuðum brauð á eldi, hreindýr og elgur voru steikt og einfaldar vefjur búnar til.
Sunnudagur: Lokadagur í náttúrunni
Síðasti dagurinn var nýttur á fjölbreyttan hátt. Tveir fóru til Trillevallen á skíði, einn fór á svigskíði í Åre, tveir héldu í utanbrautaskíðaferð til Björnu, og hinir fóru í gönguferð í nærliggjandi náttúru. Allir kusu að verja síðustu stundum á sínum eigin forsendum – í sinni útgáfu af friluftsliv.
Heimferð þar sem eldgos tók á móti okkur
Á mánudeginum kvöddum við skólann, þökkuðum Olle og Jessicu kærlega fyrir hlýjar móttökur, og héldum með lest í átt að flugvellinum – átta klukkustunda ferð í gegnum sænskt vetrarlandslag. Að kvöldi gistum við á einföldu og notalegu hosteli nálægt flugvelllinum og morguninn eftir, þann 1. apríl, héldum við heimleiðis – þar sem Ísland tók á móti okkur á dramatískan hátt með eldgosi.
Nú er ljóst að námi í fjallamennsku í FAS í núverandi mynd er lokið og ekki verða innritaðir nemendur í námið á næstu haustönn.
Sagan í tengslum við námið er orðin nokkuð löng og það hefur verið endurskrifað nokkrum sinnum með það fyrir augum að bæta námið og aðlaga að íslenskum aðstæðum. Enn fremur til að auðga íslenska ferðaþjónustu og móta ný tækifæri í ævintýraferðaþjónustu.
Núna hafa rúmlega 100 manns lokið námi í fjallamennsku og um 80% þeirra vinna nú í ferðaþjónustu og flestir þeirra í leiðsögn eða landvörslu.
Staðan eins og hún er núna er ekki það sem skólinn hefur verið að vinna að en er óumflýjanleg.
Vonandi finnst lausn til framtíðar þar sem þetta mikilvæga nám heldur áfram. Það er ósk okkar í FAS að námið verði áfram í nærsamfélaginu eins og það hefur verið að stórum hluta hingað til. Við munum styðja við það eftir bestu getu.
Við í FAS erum mjög stolt af fjallamennskunáminu og teljum að það hafi stuðlað að aukinni fagmennsku og bætt öryggi í ferðum til fjalla. Við viljum þakka öllum þeim sem hafa komið að náminu í gegnum tíðina. Þar erum við að tala um þá sem hafa mótað námið, okkar frábæru kennara í fjallamennskunáminu, þá sem hafa staðið með okkur í að halda náminu áfram og síðast en ekki síst samfélaginu okkar sem alltaf er tilbúið að leggja okkur lið.
Það er okkur þó gleðiefni að segja frá því að skólinn er með leyfi frá Umhverfisstofnun til að bjóða upp á nám í landvörslu og það mun verða gert á næsta skólaári.