Select Page

Hæfniferð vor 2022 – Núpstaðaskógur – Skaftafell

16.maí.2022

Eftir langan og skemmtilegan vetur endar námsár nemenda við Fjallamennskunám FAS á áfanganum Hæfniferð. Markmið áfangans er að nemendur undirbúi og skipuleggi eigin ferð á hálendi Íslands. Þegar hópurinn lagðist í fyrstu skipulagsvinnuna þá komu upp margar hugmyndir. T.d. gönguferð um Lónsöræfi, gisting í tjöldum á Öræfajökli, toppadagar í Tindfjöllum og á Eyjafjallajökli.

Margar skemmtilegar hugmyndir voru nefndar en að endingu varð ganga frá Núpstaðaskógum yfir í Skaftafell fyrir valinu þar sem ferðast er með allt á bakinu um 33 kílómetra leið. Ferðin hófst með akstri inn í Núpstaðaskóg með Aroni hjá Local Guide of Vatnajökull. Þaðan hélt leiðin áfram inn Núpstaðaskóg og upp keðjuna margfrægu. Eftir að nemendur og kennarar höfðu tryggt sig þar upp með viðeigandi búnaði var leitað að góðum náttstað.

Ákveðið var að halda snemma af stað daginn eftir þar sem lengsti leggurinn væri framundan, Skeiðarárjökull. Langur en frábær dagur þar sem nemendur þurftu að rata um krefjandi jöklalandslag í þoku mestallan daginn. Fundinn var góður náttstaður undir Færneseggjum, tjaldbúðir reistar og kærkominn kvöldmatur snæddur.

Á þriðja degi þarf að þvera sig í gegnum Skaftafellsfjöll og svo upp og yfir Blátind. Færið var þungt og þurftu nemendur að troða snjó á köflum upp í mitti, en eftir að hafa æft og þjálfað sig í heilan vetur þá gekk þessi dagur alveg glimrandi vel. Allir skiptust á að leiða, segja sögur og alltaf var stutt í húmorinn. Þegar allir voru komnir öryggir fram hjá Blátindi var ákveðið að tjalda í 400 metrum við Vestragil.

Á fjórða degi var haldið í átt að bílunum og farið var yfir Skaftafellsheiði. Dagurinn var frekar afslappaður og var ákveðið að njóta á leiðinni til baka. Frábært var að sjá hversu natnir starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs hafa verið í gegnum árin að byggja upp svæðið, þar sem göngustígar og allar upplýsingar eru alveg til fyrirmyndar.

Eftir um 33 kílómetra göngu komust nemendur og kennarar loks í bílanna þar sem endað var á góðum teygjuhring. Einn dagur var eftir og því þurfti að skipuleggja alveg frábæran dag til að enda áfangann. Ferð í Ingólfshöfða með Einari hjá Öræfaferðum varð fyrir valinu og hvílíkur dagur. Nemendur höfðu sérstaklega gaman að sjá reyndan leiðsögumann í sínu náttúrulega umhverfi og ekki spillti fyrir magnið af lundamyndunum sem náðust í ferðinni. Ferðin heppnaðist vel í alla staði og vilja nemendur og kennarar koma sérstöku þakklæti til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg til að láta ferðina verða veruleika.

Takk fyrir frábæran vetur og gleðilegt sumar!

Aðrar fréttir

Útskrift úr fjallamennskunámi FAS

Útskrift úr fjallamennskunámi FAS

Í dag fór fram útskrift í fjallamennskunáminu í FAS. Af fyrsta ári útskrifuðust 24 nemendur og tveir af öðru ári. Þetta er í fyrsta skipti sem nemendur útskriftast af öðru ári.Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim jafnframt...

Önnur hæfniferð Fjallamennskunámsins

Önnur hæfniferð Fjallamennskunámsins

Þá er síðasta áfanga fjallamennskunámsins lokið en seinni hópurinn í hæfniferð hefur nýlokið ævintýralegri ferð. Að þessu sinni stóð leiðangur upp á Öræfajökul uppi sem sigurvegari kosninganna en nemendur og kennarar velja í sameiningu verkefni við hæfi í hæfniferð.Á...

Valáfangi í klifri

Valáfangi í klifri

Dagana 22. - 25. maí var annar af tveimur valáföngum í klifri haldinn og tóku níu nemendur þátt í námskeiðinu. Veðrið réði för og námskeiðið byjraði á svæðinu Háabjalla - sem hentar einstaklega vel fyrir byrjendur. Ekki spillti veðrið fyrir en það var sól og blíða....