Select Page

Alpaferð og AIMG Jöklaleiðsögn 1

09.maí.2022

Það var nóg að gera í lok apríl í Fjallamennskunáminu. Að þessu sinni voru það alpaferðin og AIMG Jöklaleiðsögn 1. Námskeiðin voru haldin í Öræfum, enda býður svæðið upp á einstakt aðgengi að sprungnum skriðjöklum, bröttum fjöllum og hájöklum. Vegna stærðar hópsins var hvort námskeið haldið í tvígang. Veðrið lék við okkur allan tímann og ljóst að sumarið kom snemma í Öræfin.  

Alpaferðin leggur áherslu á að undirbúa nemendur fyrir ferðalög á hájöklum. Áhersluatriði eru rötun, ferðaskipulagning, notkun línu til að tryggja gönguhóp og sprungubjörgun. Farið var upp á Hrútsfjallstinda og tjaldbúðir reistar í tæplega 1600m hæð í skjóli Vesturtinds. Þaðan voru Vesturtindur, Hátindur og Miðtindur heimsóttir auk þess sem stórar jökulsprungur milli tindanna voru nýttar í björgunaræfingar. 

AIMG Jöklaleiðsögn 1 er staðlað námskeið sem haldið var í samvinnu við Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG). Námskeiðið miðar að því að undirbúa nemendur fyrir að vinna á skriðjöklum við leiðsögn. Farið er í sprungubjörgun og ísklifur, en megináherslan er á leiðsöguhliðina; samskipti við gesti, leiðaval, leiðsögutækni og áhættustýringu. 

Öll námskeiðin tókust vel og stóðu nemendur sig með prýði. Næstu skref hjá hópnum verða valnámskeið í klettaklifri og svo hæfniferð, en það er vikulöng ferð sem nemendur skipuleggja.

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Laugardaginn 21. maí verður útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast átta nemendur af Vélstjórn A og fjórtán stúdentar. Athöfnin fer fram í Nýheimum og hefst klukkan 14.Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Það væri gaman ef þeir sem eiga útskriftarafmæli...

Hæfniferð vor 2022 – Núpstaðaskógur – Skaftafell

Hæfniferð vor 2022 – Núpstaðaskógur – Skaftafell

Eftir langan og skemmtilegan vetur endar námsár nemenda við Fjallamennskunám FAS á áfanganum Hæfniferð. Markmið áfangans er að nemendur undirbúi og skipuleggi eigin ferð á hálendi Íslands. Þegar hópurinn lagðist í fyrstu skipulagsvinnuna þá komu upp margar hugmyndir....

Stjórnarskipti hjá NEMFAS

Stjórnarskipti hjá NEMFAS

Í dag lauk formlega starfi í nemendafélagi FAS á yfirstandandi skólaári. Starfsemi nemendafélagsins hefur gengið þokkalega þó sérstaklega á vorönninni eftir að takmörkunum tengdum covid var aflétt. Fimm klúbbar voru starfandi á skólaárinu og stóðu þeir fyrir...