Vettvangs- og upplifunarferð á vísindadögum

01.nóv.2021

Það er löngu orðin hefð í FAS að hafa vísindadaga síðast í október. Annað hvert ár hefur verið farið með staðnemendur í tveggja daga ferð til að kynna sér önnur bæjarfélög og hvað er í gangi þar.
Dagana 27. og 28. október var farið til Stöðvarfjarðar. Þar voru þrír staðir skoðaðir. Fyrst var stoppað var á Kambanesi þar sem vitinn var skoðaður sem og náttúra og mannvist.

Á Stöð innst í Stöðvarfirði eru miklar fornleifarannsóknir og var það næsti viðkomustaður. Þar tóku á móti hópnum Erla Jóna Steingrímsdóttir og Björn Valur Guðmundsson kennari. Þau sögðu frá uppgreftinum og rannsóknum sem hafa átt sér stað og þeim niðurstöðum sem liggja fyrir í dag. Þarna er stærsta langhús sem hefur fundist á Íslandi hingað til og það er talið hafa verið reist 50 – 70 árum fyrir landnám og bendir til þess að þarna hafi menn komið og haft tímabundna búsetu.

Þorpið á Stöðvarfirði var heimsótt og tóku nemendur viðtöl við fólk á staðnum. Einnig var Sköpunarmiðstöðin heimsótt en hún er til húsa í gamla frystihúsinu. Þar hófst uppbygging á listasmiðju 2011 og er hún í miklum blóma í dag. Hópurinn gisti í íþróttahúsinu og hafði þar líka aðstöðu til hópavinnu.

Á leiðinni heim var aftur stoppað á Kambanesi þar sem hóparnir kynntu sína vinnu í ferðinni. Ferðin gekk í alla staði einstaklega vel. Nemendur voru í alla staði til mikillar fyrirmyndar og komu reynslunni ríkari heim síðdegis á fimmtudag. Við þökkum Stöðfirðingum fyrir góðar móttökur.

Aðrar fréttir

Þorramatur á bóndadegi

Þorramatur á bóndadegi

Í dag er bóndadagur en það er fyrsti dagurinn í Þorra sem er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Bóndadagur er alltaf í 13. viku vetrar og ber ætíð upp á föstudag og eins og nafnið ber með sér er dagurinn helgaður körlum landsins á öllum aldri. Í gegnum...

Uppsetning á Silfurtúnglinu

Uppsetning á Silfurtúnglinu

FAS ætlar í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar að setja upp leikverkið Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness á þessari önn. Mánudaginn 17. janúar boðar leikfélagið til kynningarfundar í Hlöðunni sem er á Fiskhól 5. Þar ætlar leikstjórinn Stefán Sturla að fara yfir...

FAS keppir í Gettu betur á fimmtudag

FAS keppir í Gettu betur á fimmtudag

Enn og aftur er spurningkeppnin Gettu betur farin af stað og að sjálfsögðu tekur FAS þátt. Í ár taka 29 skólar þátt í keppninni. Þegar lið voru dregin saman kom í ljós að mótherji FAS í fyrstu umferð er MH. Lið FAS skipa þau Anna Lára Grétarsdóttir, Selma Ýr...