Fjallamennskunemendur í gönguferð

14.sep.2021

Nemendur á fyrsta ári í Fjallamennskunámi FAS fóru í áfangann Gönguferð dagana 30. ágúst til 5. september. Hópurinn sem er að byrja í náminu í ár er stór og er því skipt í tvennt í þessum áfanga. Seinni hluti hópsins tekur áfangann 13. til 19. september. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Ástvaldur Helgi Gylfason, Elín Lóa Baldursdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson. Markmið áfangans er að nemendur öðlist grunn í kortalestri, rötun, að ferðast með allan búnað á bakinu, útieldun, tjaldbúðalífi og þverun straumvatna. Hópurinn gekk í Lóni í fjóra daga og varði þremur nóttum í tjaldi en áfanginn er vika í heildina.

Á fyrsta degi var farið í hópefli til að hrista nýjan hóp saman og talað var um væntingar hvers og eins bæði til námsins og áfangans. Næst var farið í hvernig lesa og skrá niður veðurspá og hvaða búnað er nauðsynlegt og/eða gott að hafa með í gönguferð. Hópnum var skipt í tjald- og matarhópa en þau sáu sjálf um að skipuleggja matarinnkaup fyrir ferðina.

Á öðrum degi var farið í að lesa hæðarlínur á landakorti, átta sig á því að taka stefnu með áttavita og finna hnit á korti. Farið var yfir gerð leiðarkorts og heimaverkefni dagsins var að skipuleggja fyrstu tvo daga ferðarinnar hvað varðar vegalengdir, stefnur og tímaáætlanir.

Á þriðja degi var farið í GPS og ýmis símaforrit kynnt sem hægt er að nota til rötunar og kortalesturs. Eftir hádegi var hópnum skutlað að Borgarbrekku í Lóni og lagt var af stað í göngu. Nemendum var skipt í hópa og einn hópur leiðsagði hinum þangað sem ferðinni var heitið. Þegar komið var á áætlaðan náttstað var farið yfir hvað er gott að hafa í huga þegar tjaldað er og hvernig hægt er að forðast að stór gönguhópur eins og okkar skilji eftir sig nokkur ummerki þegar tjaldsvæðið er yfirgefið næsta morgun.

Á fjórða degi námskeiðsins var tjöldum pakkað saman og göngu haldið áfram eftir morgunmat. Lítið var í öllum ám og lækjum vegna lítillar úrkomu undanfarið en vaðið var yfir Karlsá einu sinni áður en leiðsöguhópur dagsins stefndi hópnum upp Fokkugil. Þegar komið var upp úr Fokkugili var stefnan tekin niður Sléttugil. Leiðsöguhópi dagsins reyndist erfiðara en þau höfðu gert ráð fyrir að finna leið niður meðfram Sléttugili og að endingu var tekin ákvörðun um að tjalda á litlum grasbala vestan í Lambafelli á bakka gilsins.

Á fimmta degi var haldið niður austan Sléttugils og Karlsánni fylgt vestur og svo gengið suður Hvannadal og niður Hvannagil. Á þessari leið komu upp sviðsett meiðsli þar sem hópurinn þurfti að bregðast við, hlúa að “meidda” einstaklingnum og vera reiðubúinn að gefa björgunarteymi upp staðsetningu sína á korti. Þriðju og síðustu nóttina gisti hópurinn á tjaldsvæðinu í Smiðjunesi.

Á sjötta degi var gengið frá Smiðjunesi að Vötnum og þaðan niður Raftagil þar sem rúta beið hópsins. Seinnipartur dagsins fór í frágang á tjöldum og öðrum búnaði.

Á sjöunda og síðasta degi áfangans var farið yfir þverun straumvatna fyrst inni í skólastofu í FAS en síðan fór hópurinn í Laxá í Nesjum og æfði sig í að þvera missterka strauma í ánni. Farið var yfir hvernig hægt er að lesa í varasama og örugga staði í ánni og allir æfðu sig bæði að vaða og að synda í ánni.

Alla daga tók hópurinn reglulega umræðuhring og deildi uppbyggilegri gagnrýni á það sem hafði farið fram þann dag til að draga lærdóm af því sem vel var gert og því sem hefði mátt gera betur. Síðasta daginn var tekin lokaumræða um áfangann í heild, hvernig hann mætti væntingum fólks, hvað var gott og hvað hefði gert hann betri.

Aðrar fréttir

Gisti- og kennslutjald í FAS

Gisti- og kennslutjald í FAS

Á dögunum eignaðist skólinn stórt og mikið tjald sem einkum er hugsað sem gistiaðstaða fyrir nemendur í fjallamennskunámi en auðvitað er hægt að nýta það fyrir annað starf í skólanum ef þarf. Tjaldið var notað í fyrsta skipti í klifuráfanga sem var kenndur í Öræfum í...

Grunnur í klettaklifri

Grunnur í klettaklifri

Nýr nemendahópur í grunnnámi á fjallamennskubraut FAS var boðinn velkominn á dögunum. Hópurinn verður stór í vetur og því voru fyrstu námskeiðin, gönguferðin annars vegar og klettaklifur og línuvinna hins vegar, haldin samtímis og hópnum skipt í tvennt. Kennarar í...

Fréttir af DETOUR verkefninu

Fréttir af DETOUR verkefninu

Fjölþjóðlega Erasmus+ verkefnið, DETOUR sem FAS er þátttakandi í er nú langt komið. Í verkefninu hefur verið unnið stuðnings- og upplýsingaefni sem nýst getur ferðaþjónustuaðilum og samfélögum sem vilja efla framboð heilsueflandi ferðaþjónustuafurða eða viðburða í...