Select Page

Grunnur í klettaklifri

06.sep.2021

Nýr nemendahópur í grunnnámi á fjallamennskubraut FAS var boðinn velkominn á dögunum. Hópurinn verður stór í vetur og því voru fyrstu námskeiðin, gönguferðin annars vegar og klettaklifur og línuvinna hins vegar, haldin samtímis og hópnum skipt í tvennt. Kennarar í klettaklifri og línuvinnu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Daniel Saulite, Íris Ragnarsdóttir og Magnús Arturo Batista.

Námskeiðið gekk afar vel enda hópurinn hress og metnaðarfullur og við nutum eindæma veðurblíðu. Markmið námskeiðsins er að kynna hópinn fyrir klettaklifursíþróttinni auk þess að leggja grunninn að línuvinnu. Námskeiðið var vikulangt og því góður tími til æfa bæði klifurtæknina sem og tæknilega hluti.

Háfjallatöffarinn og efnafræðingurinn Arlene Blum var á landinu og stödd í Skaftafelli í vikunni. Hún var með myndasýningu og fyrirlestur á Hótel Skaftafelli og hópurinn mætti þangað. Hún sagði frá ævintýrum sínum; m.a. fyrstu kvennaleiðöngrunum á Denali og Annapurna, göngu yfir Himalaya fjallgarðinn endilangan og störfum hennar sem efnafræðingur og baráttu gegn skaðlegum efnum í neytendavörum. Frábær fyrirlestur og mikil fyrirmynd þar á ferð.

Námskeiðið hófst á kynningu á skólanum og vetrinum framundan, nemendum og kennurum, og helsta búnaði sem notaður er í klettaklifri. Að því loknu hélt hópurinn út á Hafnartanga við Vestrahorn þar sem flestir stigu sín fyrstu skref í grjótglímu. Grjótglíma er undirgrein klettaklifurs þar sem klifrað er í lágum klettum og notast við dýnur til fallvarnar. Í lok dags var keyrt í Skaftafell og þar settar upp tjaldbúðir. Næstu þrjá daga notuðum við á Hnappavöllum, sem er stærsta klifursvæði landsins. Farið var vel í notkun sigtóla, bæði til sigs og tryggingu klifrara, hópurinn lærði innsetningu bergtrygginga, helstu hnúta, uppsetningu akkera, þræðingu akkera, sig, gráðunarkerfi klettaklifurs skoðað og margt fleira. En umfram allt var mikið klifrað. Á fimmta degi var kominn tími á hvíld frá klifrinu. Við skoðuðum eðlisfræði klifurs og gerð klifurlína, fleiri hnúta og klifur upp línu. Daginn enduðum við svo með bíókvöldi þar sem horft var á klifurmyndina Progression. Sjötta daginn var haldið í klifurvegginn í Káraskjóli þar sem nemendur kynntust innanhússklifri fram eftir degi og enduðu svo á því að æfa uppsetningu einstefnuloka og að líkja eftir ferli fjölspannaklifurs. Það var svo æft í raunverulegri aðstæðum á lokadegi námskeiðsins þegar farið var aftur að Vestrahorni og leiðin Námsbraut klifin.

Æðisleg vika og magnaður hópur, það stefnir í frábæran vetur! Takk fyrir okkur.

Árni Stefán

Aðrar fréttir

Skiptibókamarkaður hjá Menningarmiðstöðinni

Skiptibókamarkaður hjá Menningarmiðstöðinni

Það getur verið nokkur kostnaður í því að kaupa bækur og margir eiga námsbækur sem þeir þurfa ekki að nota lengur. Menningarmiðstöð Hornafjarðar stendur fyrir skiptibókamarkaði á bókasafninu þar sem hægt er að koma með slíkar bækur. Nánari upplýsingar er að finna á...

Skólabyrjun á haustönn

Skólabyrjun á haustönn

Nú er heldur betur farið að styttast í að skólastarf haustannarinnar hefjist. Skólinn verður settur fimmtudaginn 18. ágúst í fyrirlestrasal Nýheima klukkan 10. Í kjölfarið verða svo fundir með umsjónarkennurum. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 19. ágúst....

Lind Draumland Völundardóttir er nýr skólameistari FAS

Lind Draumland Völundardóttir er nýr skólameistari FAS

Nú er orðið ljóst að Lind okkar í FAS hefur verið skipuð skólameistari til næstu fimm ára. Það var orðið langþráð fyrir okkur starfsfólk og nemendur að fá að vita hver myndi gegna þessu embætti. Við bjóðum Lind hjartanlega velkomna í starfið og hlökkum til samvinnu á...