Klettaklifur framhaldsnámskeið

30.ágú.2021

Framhaldsnámskeið í klettaklifri var haldið dagana 24. – 28. ágúst. Í vetur verður í fyrsta skipti boðið upp á framhaldsnám á fjallamennskubraut FAS og byggir það á þeim sterka grunni sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Þetta var fyrsta námskeið vetrarins hjá annars árs nemum. Kennarar á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Daniel Saulite og Íris Ragnarsdóttir.

Námskeiðið gekk afar vel og klifrað var á Vestrahorni, á Hnappavöllum, í Svínafelli og innanhúss í aðstöðu Klifurfélags Öræfa í Freysnesi. Markmið námskeiðsins var að byggja áfram á þeirri grunntækni sem kennd var á fyrra ári og efla nemendur í að verða sjálfbærir klifrarar.

Fyrsti dagurinn var notaður í upprifjun á ferli fjölspannaklifurs. Klifurleiðin “Námsbraut” í Vestrahorni var klifin í fjórum spönnum, en hún er afar heppileg þar sem hún reynir á alla tæknilega hluta klifurferlisins án þess að vera erfitt klifur. Að lokum var sigið niður úr leiðinni. Á öðrum degi var klifrað á Hnappavöllum og áherslan á leiðslu, þá festir klifrarinn klifurlínuna reglulega við klettinn til að varna falli en er ekki tryggður að ofan. Tæknin var fyrst æfð í ofanvaði (klifrarinn tryggður að ofan) en nemendur leiddu allir klifurleið fyrir lok dags, flestir sína fyrstu leiðslu. Þriðja daginn var rigning og því klifrað inni í Káraskjóli en það er aðstaða klifurfélagsins í Öræfum. Lögð var áhersla á viðeigandi upphitun fyrir klifur, meiðsl og mótvægisæfingar, klifurtækni og líkamsbeitingu í yfirhangi. Þegar nemendur höfðu klifrað nægju sína var farið í nokkrar útgáfur félagabjörgunar í klifri. Fjórða deginum var varið í dótaklifur, þá setur klifrarinn inn sínar eigin bergtryggingar í sprungur í klettinum. Þetta var æft í Lambhaga í Svínafelli, en þar hefur nýlega verið unnið að þróun nýs klifursvæðis. Í Lambhaga er stuðlaberg og klifurstíllinn því mjög ólíkur bæði Hnappavöllum og Vestrahorni, og bergið því gott til að æfa annars konar klifurtækni. Á lokadeginum var haldið aftur á Vestrahorn og farið í klifurleiðina Bifröst. Fyrstu þrjár spannirnar voru klifraðar, samtals um 90m af bröttu klifri.

Frábærir dagar að baki og góð byrjun á vetrinum. Takk fyrir okkur.
Árni Stefán

Aðrar fréttir

Jólaljós í FAS

Jólaljós í FAS

Í dag var komið að jólaskreytingauppbroti í FAS. Þá var felld niður kennsla í einn tíma og allir tóku þátt í því að skreyta efri hæðina í Nýheimum. Það er því mikið um lítrík ljós í húsnæði skólans sem eiga sinn þátt í því að lýsa aðeins upp þann tíma ársins þar sem...

Skrefum 1 og 2 náð í FAS

Skrefum 1 og 2 náð í FAS

Við höfum áður sagt frá því að núna vinnur FAS að því að innleiða græn skref ríkisstofnana. Í síðustu viku fékkst það staðfest að skrefum 1 og 2 hefur verið náð í FAS. Af því tilefni var boðið upp á gómsæta gulrótarköku á kennarastofunni í dag. Núna er verið að vinna...

Hættum að slúðra

Hættum að slúðra

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Af því tilefni var efnt til uppbrots í FAS og sýndur var stuttur TED fyrirlestur um áhrif þess að slúðra. Eftir að hafa horft á myndina talaði Fríður námsráðgjafi aðeins um það hvað slúður sé og...