Jöklaferð hjá fjallamennskunemendum

by 08.Oct.2020Fréttir

Grunnnámskeið í jöklaferðamennsku var haldið dagana 2.- 5. október. Að þessu sinni var nemendahópnum skipt í tvennt, en helmingur hópsins fór á jökul meðan hinir æfðu fjallahjólreiðar. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson og Elín Lóa Baldursdóttir. Markmið námskeiðsins var að byggja ofan á línuvinnuna sem hópurinn lærði á klettaklifurnámskeiðinu á dögunum, kynnast virkni og hegðun jökla, að læra rétta notkun mannbrodda og æfa ísklifur. Námskeiðið byrjaði í fyrirlestrasal Nýheima en fór eftir það fram á skriðjöklum Öræfajökuls.

Við hófum leikinn með útdeilingu búnaðar í Nýheimum og fórum yfir ýmis hagnýt atriði fyrir næstu daga, t.d. að stilla mannbrodda á skó. Þá var fyrirlestur um myndun og hegðun jökla og hvernig hún útskýrir sprungumyndun á þeim. Farið var í sprungumynstur á jöklum og hvernig það hefur áhrif á leiðaval. Að þessu loknu var stefnan sett á Fjalljökul. Hann er ekki mikið heimsóttur en er óneitanlega með tilkomumeiri skriðjöklum landsins. Jökullinn er þó mikið sprunginn og getur því verið erfiður yfirferðar. Farið var í grunnatriði göngutækni með mannbrodda og svo fórum við í stutta göngu um neðsta sprungusvæði jökulsins, þar sem nemendur fengu að spreyta sig á að lesa í landslag jökulsins, velja leið og æfa broddatæknina. Að þessu loknu fór hópurinn á Svínafell í gistingu.

Á laugardeginum var ferðinni heitið á Virkisjökul, en til þess að komast á hann var farið yfir fremsta hluta Falljökuls. Markmið dagsins var að vinna áfram með sig og júmm sem farið var í á fyrra námskeiðið, auk þess sem nemendur lærðu um ístryggingar og sitthvað fleira. Jökullinn tók vel á móti okkur og við fengum stórkostlega sýningu þegar stórir ísturnar hröpuðu úr ísfallinu hærra á jöklinum. Í lok dags skoðaði hópurinn flottan íshelli og svo var haldið heim.

Sunnudagurinn var helgaður ísklifri og nú héldum við á Kvíárjökul. Hópurinn setti upp ísklifurakkeri til ofanvaðs og æfði svo ísklifur. Farið var í mismunandi tækni, fótavinnu, jafnvægi og fleira, auk þess sem nemendur héldu áfram að æfa að tryggja klifrara í ofanvað. Þetta reyndist hin besta skemmtun, en ljóst var að margir vildu meiri áskorun. Við enduðum því daginn á því að færa okkur að djúpum svelg þar sem kennarar slökuðu nemendum rúma um 30 metra niður nær lóðréttan ísvegg þar sem eina leiðin út var beint upp. Það þarf varla að spyrja að því að nemendur voru ekki í miklum vandræðum með þessa áskorun.

Síðasta daginn var haldið á Svínafellsjökul. Hann var um langan tíma einn mest heimsótti skriðjökull landsins en eftir uppgötvun sprungu í Svínafelli fyrir ofan hefur hann nánast staðið auður. Hættustigi Almannavarna hefur verið aflétt þar og ráðfærðu kennarar sig að auki við Daniel Ben-Yehoshua, sem er vísindamaður við Háskóla Íslands og hefur rannsakað mögulegt berghlaup undanfarin ár, áður en farið var á jökulinn. Markmið dagsins var að læra um dobblanir, þ.e.a.s. að nota jöklalínu til að gera hífingu. Farið var yfir grunnatriði í þessum fræðum og byggt upp að kerfi sem notað er til sprungubjörgunar.

Námskeiðslok voru með hefðbundnu sniði, búnaður var flokkaður og yfirfarinn, námskeiðið rýnt, spurningum svarað og ráðleggingar fyrir framhaldið gefnar.

Námskeiðið tókst með eindæmum vel og við hlökkum til að sjá hópinn halda áfram að vaxa og dafna. Við þökkum kærlega fyrir okkur. Myndir sem fylgja með eru samsafn frá nemendum og kennurum.

Árni Stefán

Aðrar fréttir

Mælingar á Heinabergsjökli

Mælingar á Heinabergsjökli

Allt frá árinu 1990 hafa nemendur í FAS farið í ferðir til að mæla jökla og skoða áhrif þeirra á landið. Ýmist hefur verið farið að Fláajökli eða Heinabergsjökli í jöklamælingar og eru þessar ferðir hluti af námi í tilteknum áföngum. Mælingar á Heinabergsjökli eru...

Selma Ýr á meðal tuttugu efstu í STAK 2020

Selma Ýr á meðal tuttugu efstu í STAK 2020

Íslenska stærðfræðafélagið hefur um langt skeið staðið fyrir stærðfræðikeppni á meðal framhaldsskólanema. Keppninni er skipt í tvö stig, annars vegar fyrir nýnema sem hófu nám í framhaldsskóla í haust og hins vegar fyrir þá sem eru komnir lengra í námi. Þegar Arndís...

Nýjasta samstarfsverkefnið í FAS

Nýjasta samstarfsverkefnið í FAS

Núna í haust byrjaði nýtt samstarfsverkefni í FAS undir merkjum Nordplus áætlunarinnar. Þetta verkefni er til þriggja ára og er á milli Brønnøysund videregående skole í Noregi, Vaala Upper Secondary School í Finnlandi og FAS. Skólarnir eiga það sameiginlegt að vera...