Tvö námskeið í menntaverkefninu ADVENT (Adventure Tourism in Vocational Education and Training) voru prufukeyrð nú á haustdögum. Þetta voru námskeiðin Túlkun strandsvæða sem fram fór í Skotlandi í september síðast liðinn og Vöruþróun sem fram fór í Finnlandi í nóvember. Þátttakendurnir í þessum námskeiðum komu líkt og í fyrri prufukeyrslum frá skólum og fyrirtækjum í samstarfslöndum ADVENT; Finnlandi, Skotlandi og Íslandi.

Bæði þessi námskeið byggðu á náttúru og menningu landanna þar sem fræðin voru aðeins skoðuð í kennslustofunni en þó aðallega úti á vettvangi. Námskeiðin sjálf voru þó ólík vegna mismunandi viðfangsefna hvors um sig.

Námskeiðið í Skotlandi fjallaði um ströndina, þ.e. hafið og fjöruna, og leiðir til að njóta og nýta þennan hluta náttúrunnar í tengslum við ævintýraferðir og almenna útivist. Þátttakendur tóku m.a. þátt í sjókajak ferð og öflun sjávar- og fjörufangs sem þeir síðan matreiddu og neyttu í fjörunni.

Finnska námskeiðið fjallaði um leiðir til að þróa vöru sem ferðamenn gætu haft áhuga á að kaupa. Þátttakendur prófuðu m.a. mismunandi gerðir gufubaða, böð í ísvökum og snjó, göngu á snjóþrúgum í þjóðgarðinum Hiidenportti og þeir elduðu fjölbreytta hefðbundna finnska rétti undir stjórn matreiðslumeistara.

Níunda og síðasta námskeið ADVENT verkefnisins verður prufukeyrt hér heima í lok janúar. Viðgangsefni þess námskeiðs verður myndataka með snjallsímum og leiðir til að birta afraksturinn á áhrifaríkan hátt á samfélagsmiðlum. Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir og Guillaume M. Kollibay hjá Local Icelander munu hafa yfirumsjón með því námskeiði.

Nánar má fræðast um ADVENT á heimasíðu verkefnisins: https://adventureedu.eu

Hulda L. Hauksdóttir verkefnastjóri ADVENT

 

Deila