Mörg undanfarin ár hafa verið haldnir vísindadagar í FAS. Það er gert til að brjóta aðeins upp hefðbundið nám og fást við eitthvað nýtt í þrjá daga. Þetta er hluti af námi nemenda og fá þeir einingu fyrir þátttöku og vinnuframlag sitt.

Að þessu sinni var ákveðið að nemendur og kennarar færu í Skaftárhrepp og myndu kynnast landi, lífi og starfi í sveitarfélaginu. Fyrir ferðina gátu nemendur valið sig í hópa eftir því hvað hver og einn vildi skoða. Átta hópar voru í boði og á meðan einhverjir hópar skoðuðu landið lögðu aðrir hópar áherslu á mannlífið og menninguna í sveitarfélaginu og þá afþreyingu sem er í boði þar. Fyrir ferðina var búið að ákveða hvar ætti að stoppa og hvað ætti að skoða. Hver hópur sat síðan með sínum kennara í rútunni og var tíminn á milli stoppa nýttur til að fræðslu og upplýsingaöflunar.

Í ferðin fóru 50 manns. Fyrsta stoppið í Skaftárhreppi var við Djúpá og hádegisnestið var borðað á hinu einstaka kirkjugólfi við Kirkjubæjarklaustur sem er úr stuðlabergi. Síðan var haldið í Skaftárstofu þar sem þær Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri og Eva Björk Harðardóttir oddviti tóku á móti hópnum og sögðu frá sveitarfélaginu og svöruðu spurningum. Í Skaftárstofu tók starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs líka á móti okkur og miðlaði af sinni sérþekkingu. Eftir kynningarnar fóru hóparnir hver í sína átt til að safna gögnum og/eða ræða við fólk. Næsta stopp var í Eldhrauni og hópurinn gekk einnig yfir gömlu brúna yfir Eldvatn. Gisting hafði verið ákveðin í félagsheimilinu Tunguseli í Skaftártungu. Þar lá hópurinn í flatsæng, kennarar sáu um matseld á meðan að nemendur unnu úr þeim gögnum sem hafði verið safnað. Eftir kvöldmat hélt vinnan áfram hjá nemendum en þeir vissu að það átti að kynna vinnu hvers hóps í Kvíármýrarkambi næsta dag. Hver hópur þurfti því að ákveða hvernig hann myndi greina frá vinnu innan hópsins.

Á fimmtudagsmorgni voru allir komnir á ról upp úr sjö og eftir morgunmat var lögð lokahönd á undirbúning kynninganna. Á leiðinni til baka var fyrst stoppað við Laufskálavörðu. Næsti viðkomustaður var í Fjaðrárgljúfri sem eru einkar tignarleg gljúfur grafin í móberg. Hádegisnestið var borðað í Skaftafelli.

Kynningar á verkefnum nemenda fórum fram í Kvíármýrarkambi. Hver hópur þurfti að bera ábyrgð á því að kynningin yrði tekin upp á síma því það er ætlunin að birta kynningarnar á heimasíðu skólans á næstunni. Það er skemmst frá því að segja að kynningarnar gengu ljómandi vel og það má með sanni segja að staðsetningin fyrir skil á verkefnavinnunni hafi verið nýstárleg.

Við hér í FAS erum afar ánægð með vísindadaga að þessu sinni. Það var áskorun fyrir bæði nemendur og kennara að breyta rútunni í raun í margar litlar kennslustofur þar sem hver hópur vann að tilteknum verkefnum. Þegar hlustað var á kynningar nemenda var það svo greinilegt að nemendur höfðu lært ótrúlega margt á þessum stutta tíma. Og margir voru að koma á staði þar sem þeir að öllu jöfn láta sér nægja að keyra framhjá. Nemendur voru líka mjög sáttir með ferðina og fannst gaman að blanda saman leik og starfi og læra um leið eitthvað nýtt.

Við viljum þakka öllum þeim sem tóku á móti okkur í Skaftárhreppi fyrir að gefa okkur af tíma sínum.

Deila