Fimmtudaginn 24. október stóð Ungmennaráð Hornafjarðar fyrir ungmennaþingi í Nýheimum. Ráðið naut aðstoðar frá nemendaráði FAS. Þinggestir voru að stærstum hluta nemendur í 8. – 10. bekk grunnskólans og nemendur FAS og var kennsla í skólunum felld niður eftir hádegi vegna þingsins.

Sigríður Þórunn sem er formaður ungmennaráðs setti þingið og kynnti dagskrána en megin þunginn að þessu sinni var lagður á málstofur þar sem fór fram fræðsla, hugmyndavinna og hópefli. Þingið tókst einkar vel og var gaman að sjá þessa hópa vinna saman í leik og starfi þó aldursbilið sé orðið töluvert.

Þetta er í þriðja árið í röð sem ungmennaráð stendur fyrir ungmennaþingi. Þetta eru mikilvægar samkomur þar sem unga fólkið hefur tækifæri til að láta í ljós skoðanir sínar og hafa um leið áhrif á ýmis málefni sem skipta máli.

Þinginu lauk með pizzuveislu og á næstunni mun ungmennaráð vinna úr þeim hugmyndum sem komu fram.

Deila