Námskeið í þverun straumvatna

by 14.Oct.2019Fréttir

Þann 9. október síðastliðinn hófst seinni hluti námskeiðisins gönguferðir. Sá dagur fór í undirbúning fyrir tveggja daga gönguferð sem hófst 10. október. Morguninn fór í kortalestur og kynningu á GPS tækjum. Farið var yfir hvernig slík tæki virka og hvað beri að hafa í huga við notkun þeirra. Eftir hádegi var svo nýtt námsefni kynnt fyrir hópnum í þverun straumvatna. Nemendur fengu fyrirlestur um þverun straumvatna og hvernig sé best að bera sig að í aðstæðum þar sem þvera þarf straumvötn. Um klukkan 14:00 var svo lagt af stað úr skólanum til að finna hentuga á til að æfa þvera. Nemendur fengu búnað að láni hjá Ice Guide og þökkum við þeim mikið vel fyrir það. Allir nemendur voru í þurrgöllum, neoprene skóm og í björgunarvesti.

Farið var í Laxá í Nesjum. Mikið hafði rignt dagana á undan en áin hafði sjatnað nóg til að hægt væri að æfa þverun straumvatna. Farið var yfir hvernig skuli bera sig að við að velja vað og hvað þurfi að hafa í huga við valið. Ýmsar leiðir voru æfðar til að þvera vatnið á sem öruggastan hátt. Þá æfðu nemendur sig bæði sem hópur og einnig einir. Einnig var æft hvernig á að fara í svokallaða flotstöðu ef ske kynni að einhver félli í vatnið og hvernig ætti að koma sér aftur á bakkann á sem öruggastan hátt. Ásamt því fengu nemendur að prófa sig áfram með svokallaðar kastlínur til að geta bjargað öðrum úr ánni ef til þess kæmi. Dagurinn var mjög skemmtilegur og fengu nemendur að vaða og synda allnokkrar ferðir niður Laxána. Það var mikið fjör og mikið gaman þrátt fyrir kalt vatnið, en við vorum heppin með veður og fengum við fallegt veður meðan á æfingunum stóð.

Fimmtudaginn mættu nemendur svo í skólann tilbúnir í göngu. Fyrstu stundir morgunsins voru þó nýttar til að ljúka að fara yfir og gera leiðarkort fyrir fyrirhugaða ferð. Síðan var lagt af stað frá skólanum og keyrðu nokkrir kennarar okkur uppí Lón nánar tiltekið að mynni Össurárdals en það hafði verið ákveðið að ganga í kringum Reyðarárfjall. Gangan hófst um klukkan 12:00 og var gengið inn dalinn í botn Össurárdals. Á leiðinni var æfð notkun GPS, korts og áttavita. Einnig þurftum við að þvera Össurá sem var nokkuð vatnsmikil eftir vatnsverður undanfarinna daga. Innst í dalnum var tjaldað á fallegum stað með útsýni yfir fagra fossa á svæðinu. Ákveðið var að tjalda í fyrra fallinu vegna þess að spáð var mikilli rigningu og roki þegar líða tók á kvöldið. Drengirnir báru einnig með sér eldivið og kveiktu lítið bál áður en rigningin hófst, það voru meira að segja grillaðir sykurpúðar. Um nóttina var svo mjög mikil rigning og gekk á með nokkuð hressilegum kviðum annað slagið. Því var mismikið sofið og vöknuðu sumir í polli, ef þeir gátu þá sofið á annað borð.

Þrátt fyrir ofsaveðrið og hamaganginn voru allir hressir á föstudeginum, en þá áttum við um 6 kílómetra göngu eftir til byggða. Gengið var þá niður Reyðarárdalinn og var lagt uppúr notkun GPS tæksins og áttavitans enn og aftur. Upp úr hádegi fór sólin loks að skína og gat hlýjað okkur eftir nokkuð kalda og blauta nótt og morgun. Komið var til byggða um klukkan 13:00 þar sem að kennarar biðu eftir okkur og skutluðu okkur aftur í FAS.

Námskeiðið var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt en þverun straumvatna stóð þar hæst að mati nemenda. Kennari á námskeiðinu var Sólveig Sveinbjörnsdóttir.

Aðrar fréttir

Bekkjakerfi í FAS

Bekkjakerfi í FAS

Núna er ljóst að við erum ekki alveg að ná tökum á COVID-19 og þetta ástand mun vara nokkuð lengur. Því hefur verið ákveðið að breyta skipulagi í FAS til að koma á móts við sem flesta en að tryggja um leið smitvarnir. Ákveðið hefur verið að skipta nemendum skólans í...

Jöklaferð hjá fjallamennskunemendum

Jöklaferð hjá fjallamennskunemendum

Grunnnámskeið í jöklaferðamennsku var haldið dagana 2.- 5. október. Að þessu sinni var nemendahópnum skipt í tvennt, en helmingur hópsins fór á jökul meðan hinir æfðu fjallahjólreiðar. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson og...

Fjallahjólaferð í fjallamennskunáminu

Fjallahjólaferð í fjallamennskunáminu

Grunnnámskeið í fjallahjólreiðum var haldið dagana 2. - 5. október. Að þessu sinni var nemendahópnum skipt í tvennt, en helmingur hópsins fór á jökul meðan hinir æfðu fjallahjólreiðar. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Guðmundur Markússon, Sigfús Ragnar Sigfússon og...