Klettaklifurparadís í fjallanámi FAS

by 02.Oct.2019Fréttir

Það má segja að nám í klettaklifri þetta haustið hafi tekist með eindæmum vel. Seinni námslota af tveimur fór fram 26. – 30. september. Blíðskapaveður einkenndi klettanámskeiðin þetta haustið. Kennt var í níu daga samtals í september og sól var alla daga nema einn. Það hlýtur að teljast lukka á miðju hausti. Hópurinn taldi fimm stráka: Eyþór, Andra, Birgi, Kára og Snorra auk þess sem fyrrum nemar Þorsteinn og Kristján kíktu á okkur til að klifra með hópnum og Lyn, kona Snorra slóst stundum með í för til að taka myndir.

Ég sem kennari verð að segja að það var heiður að fá að kenna hópnum sem var skemmtilegur og mikið fjör að vera með krökkunum þessa daga. Það er greinilegt að Höfn er að eignast flottan hóp af fjallamönnum sem geta gert ýmislegt með þekkingu sína. Á ekki nema níu dögum komu fram hugmyndir og metnaður hjá nemendum um að halda áfram að æfa sig á þessum góðu klifursvæðum í kring um Höfn og halda áfram að byggja upp góða aðstöðu því tengdri á Höfn.

Námskeiðið hið seinna hafði það að markmiði að kynna fyrir nemendum mismunandi klifursvæði í kring um Höfn. Við ferðuðumst um í bíl saman frá FAS hvern morgun og heimsóttum kletta í nágrenni Hafnar. Svæðin sem farið var á voru Vestrahorn, Hnappavellir og Geitafell við Hoffellsjökul. Hnappavellir er stærsta útbúna klettaklifursvæði landsins, Vestrahorn er þekkt fyrir há björg og stóra steina og á Geitafelli sáum við mikið af klettum sem við notuðum til æfinga en er ekki þekkt eða útbúið sem klifursvæði.

Að læra að klifra á klettaklifurnámskeiði er tvennt. Í senn er það íþrótt sem þú styrkist í og æfir en einnig vegna þess hvað klifur upp kletta er óöruggt í eðli sínu – þarf að læra mikið um notkun á búnaði sem notaður er til öryggis. Í dag er flest klettaklifur mjög örugg íþrótt. Markmiðið með námskeiðinu var að nemendur öðluðust þekkingu til að vera öruggir í sínu klifri og fengu að klifra helling til að æfa sig. Reynsla nemenda á klettaklifri áður en námskeiðið byrjaði var lítil en fór mjög vaxandi með námskeiðunum. Í enda september var ótrúlegt að sjá hversu færir og öruggir strákarnir voru orðnir í sínu klettaklifri og óska ég þeim til hamingju með það.

Það er ekki hægt annað en að nefna líka allar skemmtilegu stundirnar. Það var grillað í einu hádegi á Hnappavöllum, í Vestrahorni fengum við óvænta öldu yfir klifurdýnurnar okkar og í Geitafelli settu býflugur strik í reikninginn. Við sigum, klifruðum í línu í ofanvaði og prófuðum okkur áfram í leiðsluklifri. Umfram allt þá gekk mjög vel og við eyddum löngum en góðum dögum upp í klettum.

Takk fyrir!
Magnús Arturo Batista kennari

 

Aðrar fréttir

Mælingar á Heinabergsjökli

Mælingar á Heinabergsjökli

Allt frá árinu 1990 hafa nemendur í FAS farið í ferðir til að mæla jökla og skoða áhrif þeirra á landið. Ýmist hefur verið farið að Fláajökli eða Heinabergsjökli í jöklamælingar og eru þessar ferðir hluti af námi í tilteknum áföngum. Mælingar á Heinabergsjökli eru...

Selma Ýr á meðal tuttugu efstu í STAK 2020

Selma Ýr á meðal tuttugu efstu í STAK 2020

Íslenska stærðfræðafélagið hefur um langt skeið staðið fyrir stærðfræðikeppni á meðal framhaldsskólanema. Keppninni er skipt í tvö stig, annars vegar fyrir nýnema sem hófu nám í framhaldsskóla í haust og hins vegar fyrir þá sem eru komnir lengra í námi. Þegar Arndís...

Nýjasta samstarfsverkefnið í FAS

Nýjasta samstarfsverkefnið í FAS

Núna í haust byrjaði nýtt samstarfsverkefni í FAS undir merkjum Nordplus áætlunarinnar. Þetta verkefni er til þriggja ára og er á milli Brønnøysund videregående skole í Noregi, Vaala Upper Secondary School í Finnlandi og FAS. Skólarnir eiga það sameiginlegt að vera...