Fjallaferð 2

by 24.Apr.2019Fréttir

Dagana 18. – 23. mars voru nemendur í námsskeiðinu Fjallaferð 2 en það er seinni hluti áfangans fjallaferðir, þar sem áhersla er lögð á vetrarferðir og fjallgöngur að vetri til. Námskeiðið var kennt út frá Höfn. Fyrsta daginn hittist hópurinn í skólastofu í FAS og nýtti fyrri part dagsins til að fara yfir ýmis atriði. Eftir hádegið hélt hópurinn svo upp í Bergárdal þar sem gengið var um á snjóþrúgum, farið var yfir hvernig gott er að ferðast í bröttum snjóbrekkum og ísaxarbremsa æfð.

Dagur tvö fór að mestu leyti í að undirbúa búnað og mat fyrir tveggja nátta ferð sem halda átti í seinna í vikunni. Þegar því var lokið fór hópurinn nokkurs konar klöngurferð í Grjótárgil á Mýrum.
Að morgni þriðja dags lagði hópurinn upp í þriggja daga ferð. Keyrt var frá Höfn upp að byrjun „gömlu leiðarinnar“ upp á Skálafellsjökul. Þaðan gekk hópurinn svo á snjóþrúgum og skiptist á að draga púlkur/sleða með búnaði og vistum. Nóttinni var svo eytt í tjaldi nokkra metra inn á jöklinum í um 550 metra hæð. Töluverður skafrenningur og rok var um nóttina og undir morgun fór frostið í um -9°C.

Á fjórða degi tók hópurinn niður tjöldin og hélt um 2 km spöl upp á jökulinn. Þar var hæðin orðin um 700 metrar og þar gróf hópurinn sér  nokkur snjóhús/skýli til að gista í. Undir kvöld þegar til stóð að fara að koma sér í svefnpokana í snjóhúsunum ákvað hópurinn að hætta við að gista þar sem spáð var aftaka veðri seinni part nætur. Hópurinn dreif sig því til baka og var kominn á Höfn um ellefu um kvöldið.

Fimmti og síðasti dagurinn fór því í að ganga frá búnaði í FAS og fara yfir lærdóm vikunnar.
Kennari Fjallaferðar 2 var Einar Rúnar Sigurðsson og tók hann flestar af meðfylgjandi myndum. Hægt er að skoða fleiri myndir á fésbókarsíðu fjallanámsins.

Aðrar fréttir

Teams og fjarkennsla fimmtudag og föstudag

Nú er vitað að það er komið upp annað smit í sveitarfélaginu okkar. Á meðan það er verið að skoða stöðuna hefur verið ákveðið í FAS að bjóða upp á fjarkennslu í flestum áföngum í dag, fimmtudag og á morgun föstudag. Í einhverjum tilvikum verður þó um staðkennslu að...

Grímunotkun í FAS

Grímunotkun í FAS

Nú hefur komið upp smit á Höfn og við ætlum að bregðast við því í FAS með því að nota grímur í skólanum. Nemendur og starfsfólk fær afhentar grímur þegar þau mæta í skólann á morgun og verða að bera þær á meðan verið er í skólanum. Þar sem mælt er með að einnota...

Spennandi námskeið í FAS

Spennandi námskeið í FAS

Nú eru að fara af stað spennandi námskeið í FAS. Þetta eru námskeið sem nemendur á lista- og menningarsviði þurfa að taka í sínu námi. Námskeiðin eru jafnframt opin almenningi og eru ýmist í FAS eða Vöruhúsinu. Fyrsta námskeiðið verður síðustu helgina í september og...