Í dag var komið að árlegri álftatalningaferð í Lónið en það er reynt að fara alltaf á svipuðum árstíma svo samanburður á milli ára verði sambærilegur. Auk nemenda frá FAS voru Björn Gísli frá Fuglaathugunarstöðinni og Kristín frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för.
Það er alltaf talið á þremur stöðum; við Hvalnes, á útsýnispalli og við afleggjarann að Svínhólum. Það var nokkuð af þunnu ísskæni á lóninu en stórar vakir inni á milli. Álftin er að mestu farfugl og þegar hún kemur til landsins safnast hún gjarnan á Lónsfjörð og önnur grunn sjávarlón á suðausturhorninu til að jafna sig eftir farflugið og fá sér að éta áður en hún heldur svo á varpstöðvarnar. Þegar allar álftir höfðu verið taldar í dag reyndust þær vera 1018 sem er nokkuð færra en á síðasta ári en þá var farið 21. mars og voru þá taldir 1713 fuglar.
Auk þess að telja álftir er gengið fram með ströndinni frá útsýnispalli í áttina að Vík. Á leiðinni er rusli safnað og eins skoðuð ummerki um dauða fugla. Mest bar á alls kyns plastrusli og mikið af því er greinilega að kvarnast niður úr stærri einingum. Þá mátti sjá hvernig jarðvegur hefur kýlst saman í ruðninga þegar ís sem var á lóninu hefur ýtt við jarðveginum.
Á leiðinni til baka var síðan komið við á urðunarstað sveitarfélagsins í Lóni sem er óðum að fyllast. Krakkarnir höfðu á orði að margt af því sem sást var rusl sem hefði verið hægt að endurnýta.
Þau orð eru góð ábending um að við getum og verðum að gera betur þegar kemur að rusli.